19 ágúst 2007

var versti dagurinn í lífi okkar fjölskyldunnar.

Við fengum prest í heimsókn með þær fréttir að elsti sonur minn hefði fallið fyrir eigin hendi austur á Litla Hrauni. Áfallið var gríðarlegt og við vorum svo hissa. Hilmar Már hafði ekki þjáðst af þunglyndi, þvert á móti kátur strákur og mikill prakkarasnúður. Manna fyrstur með brandarana, hjartahlýr og góður náungi. Hans líf var þó þyrnum stráð en út í það fer ég ekki hér. Bendi "áhugasömum" á Bók Hilmars sem er hér blogg til hliðar við þessa aðalsíðu.

Hvernig við komumst í gegnum þessa daga skil ég stundum ekki en einn þáttur í því að við stöndum öll hér í dag og erum í þolanlegu lagi, er meðal annars sú staðreynd að við fjölskyldurnar bárum gæfu til að standa saman í erfiðleikunum sem við okkur blöstu. Faðir og stjúpfaðir, móðir og stjúpmóðir, systkini allskonar tengd saman og öll stóðum við saman sem einn maður.

Á morgun gerum við þetta líka. Við hittumst og stöndum saman.

Það er eina leiðin.

Hilmar Már er horfinn okkur og dagurinn verður erfiður. Í kvöld hafa augun sífellt fyllst af tárum og ég finn að það er ekkert andlegt þrek til staðar eins og sakir standa. Ég veit líka að það mun lagast aftur og það tekur sífellt styttri tíma við hverja niðursveiflu. Sem betur fer.

Það var alveg svakalega undarlegt að horfa á þjóðfélagið virka áfram þegar heimurinn minn hafði hrunið, hvað var eiginlega að fólki ? Ég bara skildi það ekki. Fólk labbaði bara um í Ármúlanum eins og ekkert væri að ! Vá hvað það var skrýtið.

Ég veit að ég hef komist langar leiðir frá þessu erfiðustu dögum. Ég reyndi fyrir nokkru að lesa gamla bloggið sem ég skrifaði þegar Himmi dó. Ég gat það ekki. Ég verð að bíða aðeins lengur.

Ég hef heldur ekki kíkt á ljósasíðuna hans heldur. Held að það sé ekkert ljós á henni en það gerir ekkert til. Ljósið mitt, hann Himmi minn, er á besta stað. Ég sé hann alltaf og ljósið hans.

Hjartans þakkir til ykkar sem alltaf hafið stutt okkur Himmafólkið í gegnum alla sorgina og erfiðleikana. Án ykkar hefði byrðin orðið enn þyngri. Það er ég viss um.

Guð geymi alla


tie a yellow ribbon....

hljómaði í sjónvarpinu í gær og hugurinn reikaði til baka. Til þess tíma sem ég og fleiri biðum eftir okkar manni úr afplánun. Í huganum hnýtti ég alla þá gulu borða sem til eru í heiminum en vissi að það gerði ekkert gagn nú.

Hann gengur á gulum borðum í himnaríki blessaður kallinn minn.

Ég er enn að vinna. ,, þú ert dugleg segir Steinar.

Mig langaði að deila þessu með ykkur.

Samúðarkveðjur sendi ég vestur, til Ásthildar Cesil og hennar fólks.


Ekki bara erlendir fangar

Það er og hefur verið þekkt í fangelsunum að "harðari" fangar níðast á þeim veigaminni og nær áreitið út fyrir fangelsisveggina þannig að skelfingu þeirra sem níðst er á lýkur ekki við lok afplánunar.

Það er ekki rétt að stilla þessu svona upp að þetta séu erlendir fangar ..

Það þarf að breyta lögum eða gera eitthvað (ég er að vísu hrædd um að einhver alþjóðalög gildi) þannig að ferlið að senda erlenda fanga heim sé styttra. Þeir vilja ekki fara enda fangelsin hér miklu betri en í heimalandi þeirra.

Svo eru endurkomubönnin, enn einn brandarinn. Þeir virðast labba hér inn þrátt fyrir endurkomubann. Hvernig er til dæmis með gaurinn sem var aðili í líkfundarmálinu ? labbaði hann ekki inn í landið þrisvar ?

En ekki setja þetta svona upp á meðan í fangelsunum eru íslenskir menn sem níðast á öðrum íslenskum föngum, það hefur kostað líf !!


mbl.is Meiri harka í fangelsunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

dagarnir þyngjast óneitanlega aðeins

enda ekki nema von. Dánardagur hans færist óðfluga nær og ég reyni að horfa hvergi á mánuðinn sem nú er upprunninn. Samt hefur sumarið verið gott, ég hef þó virkað þetta sumarið en ekki hin áður. Þau sumur sat ég í hreinni angist yfir hvaða dagur kæmi bráðum.

Við höfum verið í því að undirbúa fyrir veturinn. Verið að lækka greiðslubyrðina og svoleiðis ef ske kynni að þessi vetur yrði verri en sá fyrri. Það þarf þó ekkert að vera...það er í raun ekkert sem bendir beinlínis til þess.

Mér gengur alltaf betur og betur að sneiða hjá hrunfréttum og bloggum. Held að nú passi að rífa sig upp og reyna að staulast fram í ljósið. Sífellt svartagallsraus kemur engum vel..ja og þó, hrunbloggarar hafa það kannski bara sultufínt ?

Um daginn bilaði uppþvottavélin- við settum hana út í skúr meðan málið var hugsað. Héldum að það væri farinn heilinn og þá hefði hún verið ónýt. Hey nei fartölvan bilaði fyrst- hún er enn í viðgerð. Á eftir uppþvottavélinni bilaði þurrkarinn, hann fór í viðgerð á AEG verkstæðinu í Lágmúla, tók 2 daga og lítið að borga. Þá ákvað ég að láta kíkja á uppþvottavélina og strákarnir rúlluðu með hana í EGILL hér í Garðabæ og það tók líka 2 daga og frekar lítill reikningur. Flott þjónusta. Svo bilaði líka græni Benz og strax á eftir grái Bens og hann er enn á verkstæði skömmin á honum. Skrýtið þegar allt bilar í einu !?

Ég ætla ekkert að lofa neinum bloggum í lange baner, ég er mikið að vinna og hef takmarkaðan tíma og enga tölvu í vinnunni.

Ef einhver rekst hér inn sem hefur vit á smá tölvum sem henta í bíla þá væri ágætt að vita hvað er best í svoleiðis tækjum. Þá gæti ég vafrað á netinu meðan ég bíð í stæðunum :)


"þessi færsla hefur aldrei verið vistuð"

enda ekki nema von, ég hef enn ekki skrifað hana múhahaha....(aulabrandari en hann var ókeypis, þið heppin !)

ég hef verið ágæt undanfarið, mun betri en á sama tíma í fyrra. Öðruhvoru skammast ég mín fyrir það en það er áreiðanlega ekki rétt. Ég hef engum gleymt og sorgin er hér enn en hún hopar meir og meir, út í horn. Ég skottast um glöð í sinni og þess fullviss að ég hitti hann þegar minn tími er kominn. Fólki finnst þetta líklega ótrúlegt. En lífið heldur óneitanlega áfram og þannig er það bara. Tilfinningarnar eru samt skammt undir yfirborðinu, það þarf ekki mikið til að minna mann á. Ég á enn til að sitja starandi á einhvern mann, sem líkist Himma, í ofvæni. Auðvitað veit ég vel að Himmi minn er dáinn en blekkingin er ljúfsár í þessi augnablik.

Ég hef mikið unnið undanfarið og það verður framhald á því. Steinar vinnur líka, ekki minna og við erum aðeins að sjá laun erfiðisins. Við erum að ná tökum að skammar skuldahalanum. Við erum ekki með gengislán en okkar lán hafa hækkað líka, sem betur fer ekki eins mikið og hin.

Hér bættust við 4 ný dýr um daginn, við fengum hænur í kofann sem er hér á lóðinni. Girtum vandlega í kringum þær svo Rebbi, Tumi og Rómeó veiddu þær ekki. Refur litli er mikil veiðikló, hann hefur komið inn með fugla og mýs, kanínu og stelk. Hálfstálpaður hænuungi yrði ekki vandamálið fyrir hann. Mér finnst hænurnar skemmtilegar :)

 

Ég ætlaði bara að láta ykkur vita af mér.


það hangir saman

andleg og líkamleg líðan. Nú er ég ekki upp á alla fiskana og þá er það segin saga. Leiði og sorg læðast að. Við fórum upp í garð áðan enda er afmælisdagurinn hennar mömmu í dag. Við fórum með blóm á leiðið hennar og ég keypti einn prakkaralegan engil og setti hjá Himma. Ég ætlaði svo að kíkja á vinnuna á eftir en ég fann að orkan lak úr mér, nánast áþreifanlega á leiðinni niður Ártúnsbrekkuna.

og ég hef eytt þessum degi í kúluspil á feisbúkk...

er að hugsa um Himmann minn, lífið hans stutta og hversu erfitt það er að bera þessa sorg áfram út lífið.

Ég gekk svolítinn hring í garðinum og leit við hjá ýmsum gengum vinum og vinnufélögum. Þegar ég kom heim þá áttaði ég mig á að mér hafði yfirsést herfilega. Haukurinn varð eftir...ég gleymdi að rölta til hans. Það er til skammar.

 


Þvergirðingsháttur

og líklega alveg skortur á mannkærleika.

Ég segi það enn og aftur, ég er lánsöm með nágranna.

Þessir leiðsögu og hjálparhundar eiga algerlega að vera óháðir hundalöggjöf - þetta er sérþjálfað vinnudýr.

Þessir nágrannar yrðu menn að meiri ef þau létu undan.

Annars hélt ég að byggi bara gott fólk á Skaganum, þekki ekkert annað....


mbl.is Vilja ekki leiðsöguhund í blokkinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta kemur ekki á óvart

Ástand manns eftir svona stór áföll er undarlegt. Það er eins og maður sé dofinn, í draumkenndu og ruglingslegu ástandi.

Þið sem ekki þekkið getið valið hér hitt bloggið mitt til að sjá þetta betur. Þar fer ég alveg yfir (minnir mig) hvernig mér gekk að fóta mig eftir andlát sonar míns 2007. Það verða 3 ár í ágúst.

Ég held að þetta sé einhverskonar öryggiskerfi sem tekur yfir, svo maður brjálist ekki. Svo síast veruleikinn inn, smátt og smátt. Maður tekur þetta áfall í skrefum og um að gera að taka sér þann tíma sem maður þarf.

Marga marga morgna varð ég að rífa mig framúr, ég vildi ekki lifa og vildi ekki koma til lífsins.

Nú lifi ég.

Hann lifir líka, í hjarta og hug okkar sem elskuðum hann.


mbl.is Hudson glímdi við þunglyndi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

uppgjörið mikla

milli bankanna nýju og gömlu var þannig að þeir fengu lánin yfir á 20 - 30 % verðmæti. Afskrifaður stór hluti til að mæta mögulegum afskriftum. Okkur almenningi er sagt að peningar vaxi ekki á trjám né hrynji af himnum ofan. Afhverju nutum við þá ekki þessara afskrifta ?

Ég hef verið þeirrar skoðunar frá hruninu að öll lán hefðu átt að fara með bönkunum. Við áttum að byrja á núlli og taka sameiginlega þær skuldir sem þjóðarbúið hefði orðið að greiða. Einföld lausn en þægileg.

Við erum enn að klifra upp úr holunni...hún var djúp !


mbl.is Ábyrgðin hjá gömlu bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fljót að setja (og blogg um skoðanir prestanna)

þennan vef í uppáhalds. Það verður merkilegt að fylgjast með uppbyggingunni á Þorvaldseyri. Ég hef fulla trú á bændum þar. Það er líka gaman að lesa sögu jarðarinnar á vefnum þeirra. Svo má skilja eftir kveðju til þeirra í gestabókinni og skoða og kaupa margar myndir.

Íslendinga vantaði fólk til að líta upp til - fólkið á Þorvaldseyri eru frábærir einstaklingar í það.

Við skulum öll hjálpast að við að líta upp úr erfiðleikum okkar, já og þetta segi ég þrátt fyrir að hafa ekki náð að borga það sem mér bar sl mánuð. Það leysist eða það leysist ekki. Það kemur í ljós.

Ég veit hins vegar að bölmóður lagar ekkert - ég hef persónulega staðið í verstu sporunum. Mér tókst að lifa það af -einhvernveginn. Þetta er minna mál. En um leið og mesta sortanum létti þá fór það að ganga betur.

Ég á svo margt að þakka fyrir og geri þakkir þegar ég fer til messu. Komist ég ekki þá reyni ég að hlusta á sunnudögum og mér er alveg sama hvaða prestur prédikar. En hvernig fer nú ? Nú virðast prestar ætla að skipast í tvo hópa, þeir sem munu gefa saman pör af sama kyni og þeir sem ætla ekki að gera það. Það vill til að mínir uppáhaldsprestar , Bjarni og Jóna Hrönn , eru af tegund þeirra umburðarlyndu. Það hugnast mér vel.

Njótið kvöldsins - það geri ég.


mbl.is Þorvaldseyri á vefinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband