Færsluflokkur: Bækur

Til fundar við skáldið

er viðfangsefni undanfarinna kvölda. Sakir slæmra draumfara og annars óviðkomandi vesens þá hef ég staldrað við í húsi skáldsins á Gljúfrasteini. Skáldið hefur lengi verið einn af mínum eftirlætisskáldum og ekki minnkaði dálætið nú við að fá að sjá hann sjálfan spjalla við forleggjara sinn til margra ára Ólaf Ragnarsson. Ég segi sjá, vegna þess að bækur gerast fyrir augum mér, ljóslifandi stökkva persónur fram og ég sé þær. Hér á heimilinu eru til flestar þær bækur sem Halldór skrifaði. Sumar hef ég oft lesið en blaðað í öðrum...og geymt mér þær til seinni tíma. Uppáhaldið mitt er og hefur ætíð verið Íslandsklukkan.

Við lestur þessarar bókar nú vakti ekki minni aðdáun hjá mér húsfrúin á Gljúfrasteini. Hún hefur oftast staðið í skugga hins merkilega manns Halldórs en nú sé ég að þar var hún af fúsum vilja. Hún gerði það sem gera þurfti og sá um okkar þjóðskáld þannig að virðing er mikil að. Hvílík kona ! Hvílík hjón !

Það má taka hverja þá bók sem hann skrifaði og lesa oft á ári. Upplifunin verður alltaf ný og framandi. Á hverri blaðsíðu stekkur fram fullsköpuð saga þjóðar í þroska.

Þetta er fyrsta færslan sem ég hef skrifað í þennan færsluflokk um bækur. Bækur eru salt lífsins, án bóka væri tilveran aum.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband