Í nótt sem leið
18.9.2016 | 17:05
var einhver fjölskylda vakin upp við þær hörmungar að hafa misst fjölskyldumeðlim í bílslysi. Önnur fjölskylda, erlend, stendur í sömu sporum eftir annað bílslys hér á landi.
Það verður aldrei neitt eins - ekki neitt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Leitar á hugann
17.9.2016 | 14:11
Það er auðvitað margt sem leitar á hugann og stundum þarf ekki mikið til að ýta við manni. Um daginn birti kunningjakona mín mynd af syni sínum litlum, sá sonur er líka látinn eins og sonur minn. Þá rifjaðist upp fyrir mér þegar ég hef verið að skoða myndirnar af Himma litlum, ég hef horft hissa og ögn ráðþrota á þær. Mér hefur stundum verið óskiljanlegt að hann sé ekki lengur lífs. Ég horfi á lítið barn sem á að hafa framtíðina fyrir sér. Það var eins gott að ég vissi ekki þá að lífið hans næði ekki 22 árum og yrði svona erfitt á margan hátt, samt svo gefandi fyrir okkur hin og skemmtilegt oft að umgangast hann. Hann var mjög skemmtilegur og orðheppinn oft.
Ég hef horft á jafnaaldra hans eignast börn, gifta sig og halda áfram þessa hefðbundnu leið í lífinu. Stundum er það erfitt - þetta eru lífsviðburðir sem hann mun ekki taka þátt í, hann tekur ekki þátt í neinu framar.
Hugsunin um hann lifir með mér alla tíð. Þannig finnst mér hann vera með mér alla daga.
Umræðan um sjálfsvíg hefur tekið við sér og nú eru ýmsar leiðir í boði til stuðnings eftirlifendum. Hugarafl og Pieta Ísland eru þar fremst í flokki. Ennfremur hafa verið í Breiðholtskirkju ágætir stuðningsfundir og líka í Fella og Hólakirkju. Enn finnst mér þó vanta áfallahjálp fyrir aðstandendur. Þetta er gríðarlegt áfall fyrir fjölskyldurnar og vinina. Það þekkja bara þeir sem upplifa.
Rómeó kisustrákur var felldur í vor sem leið. Hans er saknað. Hann var orðinn mjög gigtveikur og örugglega eitthvað meira að. Hann var farinn að pissa undir þegar hann svaf og leið bara orðið verulega illa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Burtséð frá öllu
6.9.2015 | 13:24
og öllum mögulegum afsökunum fyrir ástandinu þá er það fyrst og fremst mitt að laga. Ég var svo heppin að komast strax eða ég kalla það - að á Reykjalundi. Er innrituð þar á lungnadeildina og vissi svosem ekki vitund hvað ég var að fara út í. En eins og þeir vita sem þekkja þá er ég allt of þung. Ég má í raun missa 40 kíló án þess að teljast samt vera grönn beinlínis. Ég nenni svosem ekki að væla yfir þessu. Mikið af þessu (ekki allt) hefur læðst á mig eftir að Himmi minn dó. Það var ekki nokkuð leið fyrir mig að sjá sjálfa mig í nokkru ljósi. Ég bara fór í vinnuna og heim - ég gat ekkert meira. Andlega hliðin alveg í molum og allt í tómri þvælu innra með mér. Borðaði ekki neitt nema þá kvöldmat og allskonar snarl á kvöldin. Brennslan nánast dó en hún verður mæld á þriðjudaginn næsta. Það verður spennandi að sjá. Núna er ég í neysluhæfingu sem aðallega snýr að því að MUNA að borða. Það á ekki að vera mikið og minna eftir því sem líður á daginn :) Og sem allra minnst eftir kvöldmat sem á að vera snemma :)
Ég var að hugsa með að skella þessu svona fram, frammi fyrir alþjóð þá kannski veiti það mér aðhald og hver veit. Kannski er einhver þarna úti sem vill fylgjast með og nýtur góðs af. Nú meina ég ekki að ég kunni eitthvað fyrir mér - kann sko enn ekkert en ég set mig þá vonandi ekki á háan hest hahaha.
Og nú á morgun hefst vika 2 :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þetta lá í loftinu
15.7.2015 | 18:54
en það sem ég er mest hugsi yfir eru viðbrögð fjármálaráðherra.
Þessi hér hann virðist hreinlega vera í hálfgerðri krossferð gegn hjúkrunarfræðingum.
Er þetta þvermóðska ?
![]() |
Hjúkrunarfræðingar felldu samninginn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Aðeins að opnast
12.7.2015 | 12:04
umræðan um sjálfsvíg á Íslandi. Leikmenn Magna á Grenivík skörtuðu gulum treyjum og eru með í að vekja athygli á þessum hræðilega veruleika sem sjálfsvíg eru. Það eru sjaldan færri en 30 á hverju ári sem látast með þessum hætti.
Ég horfði líka á ágætt viðtal við ungan Akureyring í gær - hann er stjórnarmaður í samtökum þar nyrðra sem ég man því miður ekki í bili hvað heita. Hann lýsti sinni vegferð í gegnum ýmsar geðraskanir og erfiðleika.
Við eigum öll að geta lifað þokkalegu lífi - sum okkar þurfa bara einhver hjálpartæki sér til aðstoðar. Það er allt í lagi. Það má.
Við myndum aldrei hrinda hreyfihömluðum einstaklingi úr hjólastólnum og krefjast þess að hann gengi með okkur og hætti þessari vitleysu. Við getum heldur ekki sagt við fólk að hrista af sér andlegu veikindin. Það þarf að stórefla samtalsmeðferðir fyrir fólk sem líður illa. Þær hafa sýnt sig að virka vel.
Ég er raunsæ. Ég geri mér grein fyrir að við getum aldrei komið alveg í veg fyrir sjálfsvíg en hver EINN sem bjargast er dýrmætur - óendanlega dýrmætur fjölskyldunni sinni og sínu nærumhverfi.
Reynum að láta gott af okkur leiða. Þekkir þú einhvern sem þarfnast faðmlags ?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Brakaði í heilanum
13.6.2015 | 10:37
þegar ég reyndi að muna lykilorðið hérna inn á en það tókst. Ég sit hér heima í sólinni - reyndar ekki úti í sólinni. Það má víst ekki lengur eftir að krabbi vildi búa í húðinni á mér. Ég þarf að verða mér úti um sólhatt á höfuðið :) Verst að hárið er svo óstýrilátt að það hefur aldrei verið sérlega auðvelt að vera með slíkt höfuðfat :)
Hér er allt í þokkalegum skorðum. Ég fann út seinnipart vetrar að betra er fyrir mig að hafa hluti eftir klukku heldur en öðrum mælieiningum. Rútína er algerlega lykilorðið en þá virka ég bara alveg þokkalega :) Allt byggir þetta nú á því að reyna að vera sæmileg og ekki sér til skammar meira en þolanlegt er fyrir alla aðila.
Ég fór um daginn og sótti um vegabréf. Það hef ég aldrei gert áður haha....ég veit ekki hvað ungi maðurinn í afgreiðslunni hélt þegar bóndi minn lagði líka um sína alfyrstu umsókn. Við erum spes.
Við förum í næsta mánuði - eða allavega ég. Það er nú ekki vitað með bóndann. Kannski hentar ekki fyrirtækinu að hann fari akkurat þá. Þá förum við bara aftur - í haust :)
Þetta verður svona fjölskylduferð. Förum nokkuð mörg saman.
Ég hef unnið markvisst í sorgarhóp í vetur og finnst það gera mér gott. Það er ómetanlegt að hitta fólk sem skilur mann án orða. Faðmlag frá þeim er svo mikill styrkur og eitthvað svo hreint og ómengað og ekta. Það er ekkert sérlega gott að lýsa þessu.
Fólk í fjölskyldunni plumar sig verulega misjafnlega. Sumir taka kolrangar ákvarðanir á meðan aðrir standa sig svo vel að eftirtekt vekur. Ég reyni bara að leyfa fólki að eiga lífið í friði fyrir nefinu á mér en ég frétti samt ýmislegt sem er ekkert spennandi að vita af fólki í. Það verður hinsvegar að reka sig á sjálft og vilja leita leiða til betra og öruggara lífs. Ég get ekki lifað lífinu fyrir aðra.
Á þessu ári verða 3 ár síðan ég skipti um vinnustað. Það reyndist mikið framfaraskref og mér sjálfri til heilla. Mér líður miklu betur á nýja staðnum og lungnaveikin helst miklu frekar í jafnvægi Sakna nú samt stundum kallanna þarna á gamla staðnum en það verður að hafa það.
Á þessu ári verða líka 8 ár síðan Himmi minn dó og á þessu ári hefði hann orðið þrítugur. Jafnaldrar hans eru farnir að eignast börn, skapa sér framtíð og eiga mörg fallegt líf. Hann á ekkert - nema pláss í hjarta móður sinnar sem ævinlega verður helgað bara honum þar til ég sameinast honum á ný. Í Gufunesgarði eða á nýjum tilverustað.
Best að fara að hnusa af góða veðrinu :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
hmm
16.7.2014 | 16:29
![]() |
Endurbætur á Arnarhvoli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dvalið í skuggasundum
28.2.2014 | 19:00
er val hvers og eins. Oft má ég beita mig hörðu að vera ekki þar, en stundum velur fólk að vera þar.
Það móðgast við mann og vill bara vera móðgað þó að í raun sé ekkert beint til að vera móðgað yfir. Það heldur að maður hafi sagt eitthvað eða gert eitthvað en vill svo alls ekki tala við mann um málið til að koma hlutunum á hreint.
Það er spes.
Og hvað gerir maður ? Ekkert, það er ekkert hægt að gera þegar fólk vill ekki hafa neitt með mann að gera. Stundum bitnar það svo á algerum sakleysingjum sem ekkert hafa til saka unnið og hvergi nærri komið.
En mikið væri gott að fólk hefði rænu á að troða sökinni þangað sem hún á heima en ekki bara á næsta mann orðalaust.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
vegurinn heim
1.11.2013 | 09:00
hefur ekki verið sá skemmtilegasti undanfarið. Hann var lokaður alveg einn dagspart en við ræflarnir komumst til Hafnarfjarðar og þaðan til Reykjavíkur.
Hér standa yfir framkvæmdir og mótmæli. Kofinn og vinnusvæðið hjá IAV hangir utan í blindhæðinni við Garðaholt. Frekar vondur staður og ég veit ekki alveg hvað réði þeirri staðsetningu.
Það er eins gott að aka varlega um vinnusvæðið, það er annars hætta á að maður aki yfir IAV kall, mótmælanda eða álf í búferlaflutningum.
Það er ekki nokkur leið að sleppa með hreinan bílinn heiman og heim.
Þetta er bara svona.
Ég lenti á kjaftatörn við gamlan mann í gær. Á gangstéttabrún við Hverfisgötu. Hann horfði alveg með áhyggjusvip ofan í gríðarstóra holu.
Þetta verður allt fínt þegar þetta verður búið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Alþjóðlegur dagur sjálfsvígsforvarna
10.9.2013 | 10:40
Hann er í dag.
Ég hafði ekki hugmynd um að slíkur dagur væri til þar til sonur minn fyrirfór sér fyrir 6 árum. Ég vissi nánast ekkert um sjálfsvíg, hafði ekki leitt hugann að því.
Ég vissi ekki að ég sem foreldri stæði brotin eftir - löskuð fyrir lífstíð.
Allskonar erfiðar tilfinningar hafa gert vart við sig. Hjálparleysið og sorgin, óskin um að hafa getað hjálpað áður en svo afdrifarík ákvörðun var tekin. Óskin um að hafa verið treyst nóg til að segja manni hvað væri að gerast og hvað væri að. Óskin um að hafa staðið sig betur svo barnið hefði orðið sterkari einstaklingur og fundið aðra leið í sínum vandræðum. Sársaukafull sjálfsskoðun sem stendur enn yfir, yfirtekur lífið að nokkru leyti og veldur svo sárri kviku innra með mér. Stundum þarf ég að anda mig í gegnum andlega sársaukann, þvílíkar kvalir.
Áður undirliggjandi andlegar flækjur hafa magnast upp. Félagsfælnin er alveg laus úr sínum böndum og valsar um frjáls. Mér finnst hæfnin til mannlegra samskipta hafa tapast mikið. Enda hvernig mætti annað svo sem vera ? Mér tekst að rífa sjálfa mig niður daglega, ég skal alltaf finna eitthvað bilað og brogað við mig og þá oftast sem persónu.
Í kvöld verður samvera í Dómkirkjunni - klukkan átta. Þar minnunst við þeirra sem tekið hafa líf sitt.
Góðar stundir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)