Bloggfærslur mánaðarins, september 2013

Alþjóðlegur dagur sjálfsvígsforvarna

Hann er í dag.

Ég hafði ekki hugmynd um að slíkur dagur væri til þar til sonur minn fyrirfór sér fyrir 6 árum. Ég vissi nánast ekkert um sjálfsvíg, hafði ekki leitt hugann að því.

Ég vissi ekki að ég sem foreldri stæði brotin eftir - löskuð fyrir lífstíð.

Allskonar erfiðar tilfinningar hafa gert vart við sig. Hjálparleysið og sorgin, óskin um að hafa getað hjálpað áður en svo afdrifarík ákvörðun var tekin. Óskin um að hafa verið treyst nóg til að segja manni hvað væri að gerast og hvað væri að. Óskin um að hafa staðið sig betur svo barnið hefði orðið sterkari einstaklingur og fundið aðra leið í sínum vandræðum. Sársaukafull sjálfsskoðun sem stendur enn yfir, yfirtekur lífið að nokkru leyti og veldur svo sárri kviku innra með mér. Stundum þarf ég að anda mig í gegnum andlega sársaukann, þvílíkar kvalir.

 

Áður undirliggjandi andlegar flækjur hafa magnast upp. Félagsfælnin er alveg laus úr sínum böndum og valsar um frjáls. Mér finnst hæfnin til mannlegra samskipta hafa tapast mikið. Enda hvernig mætti annað svo sem vera ? Mér tekst að rífa sjálfa mig niður daglega, ég skal alltaf finna eitthvað bilað og brogað við mig og þá oftast sem persónu.

 

Í kvöld verður samvera í Dómkirkjunni - klukkan átta. Þar minnunst við þeirra sem tekið hafa líf sitt.

 

Góðar stundir. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband