Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Skroppið til dýralæknisins

í dag. Strákarnir mínir fara árlega til dýró til að fá ormalyf og þær sprautur sem hvuttar þurfa að fá.

Við Steinar glottum við tönn þegar við ókum innkeyrsluna að húsi dýró. Á kantinum þrammaði brúnaþungur krummi, á svipinn eins og dýró hefði skellt hitamæli undir stélið.

Þegar við komum inn þá voru fáir en stuttu seinna birtist háklassadama, ljóshærð með slaufur í feldinum sínum. Svaka skutla. Mínir menn góndu uppnumdir á hana en henni leist nú ekki vel á þetta stóru svörtu hlunka og gerði hvellar athugasemdir við þá. Lappi tók það nú ekkert inn á sig en Keli gerði sig eins lítinn og hann gat og skalf á stóru beinunum sínum. Eigandi skvísunnar glotti.

Þarna var líka fallegur kisi í fangi eigandans. Ég þakkaði fyrir að mínir fá ekki flog við að sjá kisur. Þeir litu á manninn með kisuna en héldu svo áfram að spá í skvísuna fallegu.

Kelmundur fór fyrst upp á borðið, það var kíkt upp í hann og í augun og eyrun. Allt í lagi með það allt. Kúlan á fætinum skoðuð og úrskurður kom, varta ! Hún taldi engin tormerki á að taka þetta af honum ef hann þyrfti einhverntímann í aðgerð út af einhverju en það væri þó aðallega fegrunaraðgerð enda gerði þetta honum ekkert til. Þá kom að því versta í heimi ( að áliti Kela) honum er sama um kreppu og álag, en hann er brjálæðislega hræddur við að láta klippa á sér klærnar. Þær voru orðnar ansi langar. Það er annaðhvort að klippa þær eða lakka þær sagði dýró.

Steinar hélt Kela sem skældi af hræðslu og með eins sannfærandi hætti og hægt var. Hann varð tárvotur niður allar kinnar, grey kallinn. Núna heyrist varla í honum hér á parketinu en sá var feginn þegar klærnar voru búnar og hann mátti fara á gólfið aftur. Lappi gelti á gólfinu stórhneykslaður á meðferðinni á Kela bróður sínum. Lappi á Kela og það má ekki meiða Kela !!

Næst var það Lappi. Hann er enn of þungur en hann hefur amk ekki bætt neitt meira við sig. Dýró mælti með að raka hann niður, hann er með svo leiðinlegan feld. Fer í það bráðlega. Hann var í ágætu lagi en þó, hann er kominn með gigt greyið og er farinn að stirðna í fótum sérstaklega er annar afturfóturinn verri en hinar þrjár lappirnar.

Við ræddum það á heimleiðinni að Lappi fær að vera til meðan hann er ekki kvalinn. Um leið og hann fer að eiga bágt þá viljum við frekar láta svæfa hann, hann er svo mikill vinur okkar að við getum ekki látið hann þjást.

Þeir voru afskaplega fegnir að komast heim aftur og steinsofa núna á gólfinu.

Það er hætta á að þeir verði veikir af lifrarveikisprautunni en það stendur bara í sólarhring og kemur þá strax sagði dýró.

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband