Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2012

Það er erfitt

að sjá Hrafnkel í viðtali í DV í dag, ég skil kvöl hans og sársauka og deili því með honum að óska engum þessa - að horfa á eftir kistu barnsins síns ofan í gröfina.

Þetta þurfa þó allt of margir foreldrar að upplifa árlega og standa bugaðir eftir. Fólki hættir allt of mikið til að kjamsa á mistökum og því sem "hefði átt" að vera gert, það væri nær að breiða hlýjan stuðningsfaðm til þessara brotnu foreldra.

Það er ekki spurning að eftir sjálfsvíg barnins manns þá rífur maður sjálfan sig niður, af alefli. Fer yfir öll atvik og tætir í sig og særir....en þá einmitt verður engu breytt og ekkert lagað.

Margt það sem ég veit í dag hefði ég viljað vita þegar ég var að þykjast vera uppalandi - það er merkilegt að ég þurfti námskeið til að eiga hund en ekki börn. Mér hefði sko ekki veitt af því. Það segi ég satt.

Samúðarkveðjur til aðstandenda Sveins Inga Hrafnkelssonar.


Dagurinn í dag hefur aðra merkingu

en hjá ykkur flestum. Hjá ykkur er dagur íslenskrar tungu en hjá mér er afmælisdagurinn hans Himma míns. Í dag hefði hann orðið 27 ára - í dag hefði ég átt að vera að sjóða makkarónugraut og baka pönnsur ofan í son minn. Í staðinn sit ég hér, í náttfötunum, ein og geri ekki neitt.

Um daginn hugsaði ég mér að líta á tímann frá andláti hans sem uppvöxt ósýnilegrar æfi. Æfi einhver sem ekki er til og verður aldrei til. Núna er ósýnilegi aðilinn kominn á sitt síðasta ár í leikskóla. Það er merkilegt að "sjá" en hver verður að finna sína aðferð við að "telja".

Ég mun auðvitað aldrei hætta að sakna hans en ég er ekki mikið í að velta mér mikið uppúr neinu. Hann er farinn, hann kemur ekki aftur og þar er punkturinn yfir. Ég veit líka meira en ég hef sett inn hér og þá vitneskju geymi ég með sjálfri mér.

Sumir dagar eru þó hreinlega verri en aðrir, afmælis og dánardagurinn koma þar sterkastir inn. Fyrsta afmælið hans eftir andlátið þá var ég alveg að tapa mér og gat ekki einu sinni sofið. Það endaði á svefntöflum frá lækninum en það hef ég sem betur fer ekki þurft aftur.

Það er ekki hægt að upplifa þetta. Það er ekki hægt.

Ég hef samt kynnst nokkru alveg merkilegu í gegnum þennan missi. Ég hef kynnst öðrum foreldrum sem hafa misst sín börn. Á milli okkar er tær silfurþráður, hann er þráður skilnings og samhugs. Þetta skilur enginn nema reyna það og þess óska ég engum.

Knús á línuna .


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband