Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

saumsprettur

eru umhugsunarefni dagsins með smá kettlingsívafi

Saumavélin mín er að hrekkja mig, ég nota hana til að sauma upp í lopapeysur áður en ég klippi þær sundur og eins og lög gera ráð fyrir verður saumurinn að vera góður og halda. Eitthvað hefur vélin verið að taka smá feilspor og fór í yfirhalningu. Vélin er álíka gömul og ég...mamma heitin átti hana. Hún er í stórum skáp sem var voða mikil mubla á þeim tíma og þótti svakalega flott. Skápurinn er ágætur, hann er aðeins farinn að verða snjáður enda notaði mamma vélina mikið. Mamma dó 2002 og vélin kom til mín á þessu ári, hafði lítið sem ekkert verið notuð...

Steinar kom heim áðan með saumsprettu. Hann fór í aðrar buxur og svo með vélina í viðgerð. Hann var í sparibuxunum. ,,ha" sagði ég,, afhverju ertu í sparibuxunum ?" Ég er ekkert í því að skipta mér af því í hverju hann er hehe...

Minn kall varð vandræðalegur í framan og sagði ; ég á engar aðrar...!

Þá mundi ég það, ég er búin að vera að reyna að reka hann á 2 fyrir 1 í fatabúðum síðan í fyrra. Hann hefur greinilega ekki nennt. Finnst ykkur að ég eigi að fara með honum ?

Nei, hann hlýtur að fara þegar það fer að trekkja vel í kringum "vininn"...fyrr virðist hann ekki fatta að hann er orðinn fatalaus...þessi elska.

Mér er að batna en það gerist hægt. Þetta átti ekki skylt við svínaflensu og ég á hana þá eftir. Nema þetta hafi verið svínó light ?

°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°kettlingasaga°°°°°°°°°°°°°°°°

Hann komst í gær upp á vegg milli húsanna og þóttist flottastur. Í dag fór hann upp, beit í laufblað á trénu, bisaðist með það niður og inn í eldhús. Ég er sko flottasti kettlingurinn skín úr hróðugu smáandlitinu. Hann lærir nýtt orðið daglega og hann er að stóreflast í að vilja fá kjass og knús, sækir orðið í að vera hjá manni og malar þá fyrir allan peninginn.

Hann er frábær, hann Tumi minn


Nýtt skref tekið

eftir þennan langa tíma sem liðinn er þá ákvað ég að koma fötum Hilmars í notkun með einni og aðeins einni undantekningu. Peysan sem fannst í bílnum hans Himma fór í skápinn hans. Hún var með Himmalyktinni- svona smurolíu eitthvað....þeir sem þekktu Himma vita sko hvað ég á við.

Sporin eru kannski ekki stór sem tekin eru og ekki er beinlínis hratt farið heldur. En farið samt...

Ég svaf framyfir klukkan eitt í dag. Dormaði síðast með ofsalega góðan kettling sem malaði mikið. Hann er ótrúlega yndislegt dýr ...ég er heppin að eiga hann.

Honum þóttist hann flottastur í dag þegar hann náði að komast upp á girðinguna milli húsanna...sá þóttist stór.

Svo lenti hann í svaka klandri í dag. Hilmar Reynir sætasti kom og tosaði í skottið hans...Tumi hvæsti og hvæsti en klóraði ekki. Ég tók kettling og setti hann í búrinu upp á borð og lokaði. Svo opnaði ég fyrir kettling þegar gestir voru farnir - hann var alsæll þá.

..............farin að batna, prjóna eða fá mér kaffi.


Búið að breyta á Mogganum

enda var það viðbúið með nýjum herrum. Núna blasa ekki bloggin við fréttirnar lengur við og það er breyting til batnaðar. Oft voru fyrirsagnirnar með þvílíkum endemum . Svo kom nýr Sunnudagsmoggi inn um lúguna í morgun- flottur bara !

Ég er enn ekki orðin hraust- þessi flensa er þrautseig. Ég er samt ekki alveg fárveik en vel lasin og drusluleg.

ég þarf að grafa upp frumvarpið sem Þór Saari var að drulla yfir í vikulokunum áðan. Hann hélt því fram að ætlun ráðherra hefði verið að lauma inn afskriftum kúlulána. Samkvæmt fréttum þá var kippt út á síðustu stundu einhverju skattadótaríi, þannig að afskriftirnar yrðu skattfrjálsar. Þetta ákvæði skaust inn í efnahags og skattanefnd og við sjáum hverning það kemur út. Mér finnst hinsvegar einsýnt að þegar um afskriftir lána er að ræða þá verða auðvitað afskrifuð lán í leiðinni sem okkur finnst ekki sanngjarnt að verði afskrifuð. Við hefðum kannski átt að skoða betur um hvað við vorum að biðja í sambandi við afskriftirnar ?  Ég minni á orð Geirs Haarde ; hvað á að gera við þá sem skulda ekkert í sínum eignum ? Ég bendi á að slíkir eru fáir.

Það er verið að skuldhreinsa fyrirtæki, síðast sá ég frétt um World Class. Staðan er einfaldlega orðin sú að ætli maður að sniðganga fyrirtæki sem hefur verið skuldhreinsað þá verður maður að verða sér úti um smábústofn, eina belju, nokkrar hænur og nokkrar rollur. Breyta fína garðpallinum í sláturhús á haustin og svona.

Lífið er ekki sanngjarnt og verður það aldrei. Við ráðum hinsvegar hvernig við tökum á málunum.

 

 


Sit og horfi á þingumræðu *viðbót neðst

og er illt í hausnum, eitthvað flensukríli hefur viljað sitja hjá mér síðan um helgina. Þetta er svona tilraunaútgáfa, ekki mjög slæm en þreytandi. Sérstaklega er birtufælnin þreytandi og af þeim sökum verður þetta blogg líklega ekki langt.

Ólína Þorvarðardóttir ,áður bloggvinur minn en nú flóttamaður á eyjunni eða einhversstaðar, var að enda við að hundskamma framsóknarformanninn...og það var löngu tímabært. En hinsvegar á fólk auðvitað að tala almennilega á þinginu. Þingforsetar virðast hafa fengið kvörtun í morgun um að frammíköll trufluðu þá sem heima sitja og eru að horfa, það er alveg satt. Annað truflar okkur líka, þegar þingmenn snúa sér til hliðar þannig að hljóðneminn er kominn til hliðar við þá. Þá heyrist ekki heldur almennilega.

Hver hringdi og kvartaði ?

Va sa sú ?

Hérna er linkur á þennan dóm gegn þessum manni sem misnotaði smábarnið dóttur sína. Við erum aftarlega á merinni hvað varðar mansal, það kom fram í fréttum áðan.


Síðasta jákvæða færslan ?

eða hvað ? ég er skíthrædd við þetta Icesave og þori varla að reyna að setja mig inn í um hvað það snýst en veit að vilji ég vera í samfélaginu, virkur aðili, þá verð ég að skilja það eða reyna amk.

Hausinn í sandinn er ekki að virka ......ekki núna.

Dagurinn í dag er búinn að vera frábær. Birna kom með sinn mann og við pældum í peysum. Við Keli löbbuðum langan hring. Siggi kom og bara allt svo gaman og gott...

Bara snilldardagur...

Á morgun kemur mánudagur, upphaf viku og hvað það ber í skauti sér veit ég ekki. Vona það besta


Ætlum við þá að hætta að fara með börn til læknis ?

Nú skilur líklega ekki nokkur maður hvað ég á við en ég skal skýra það út. Umræðan er enn hávær um Gunnar Björnsson Selfossprest og ég hef víða séð fólk hvetja til þess að fólk segi sig úr þjóðkirkjunni. Afhverju fólk ætti að gera það, ég bara get ekki skilið það. Það er fullt af ferlega góðu fólki innan þjóðkirkjunnar, það ber bara miklu meira á hinum. Ef allt gott fólk ætlar að yfirgefa þjóðkirkjuna hvað þá ?Hvað ætlar fólk þá að gera þegar kemur að skírn -giftingu eða útför ?

Eindreginn stuðningur kom fram við Gunnar er fyrirsögn fréttar. Auðvitað, Gunnar boðar til fundarins og þarna mæta þeir sem styðja prestinn og í raun margir sem ekki styðja hann en eru að verja þann útgangspunkt að maðurinn er sýknaður fyrir dómstólum- og vilja þá ekki sjá áherslu okkar hinna að þrátt fyrir sýknuna þá særði hann þessar stúlkur, særði blygðunarkennd þeirra og fór yfir þau mörk sem við kærum okkur um að prestar fari yfir.

En að dæma þjóðkirkjuna í heild, það finnst mér slæmt

Nú er fréttin sem vitnað er í um dóm yfir barnalækni- ef við notum sömu aðferðina þá ætti fólk að hvetja aðra til að fara ekki til barnalækna með börn sín.

Ég er hinsvegar enn að reyna að ná í nöfn allra tíu prestanna sem skrifa biskupi til stuðnings Gunnari Björnssyni, er komin með Þórir Stephenssen, Auði Eir, Vigfús Þór í grafarvogi og Valgeir Ástráðsson....

Hverjir eru hinir ?

Svo á ég afmæli í dag....víj.......


mbl.is Barnalæknir dæmdur fyrir kynferðisbrot gagnvart börnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meðan saltkjötið sýður

skoða ég blogg, moggabloggið. Ég kann ekki við mig að lesa á eyjunni- pressan þó aðeins skárri. Mér finnst hausborðinn þar flottur.

Ég var að koma af síðunni hennar Ásthildar Cesil og var nýkomin af fréttasíðu DV og sá þetta þar . Er verið að selja algeran óþverra núna ?

Mikið vildi ég óska að yfirvöld sýndu þessari stúlku þá virðingu að skoða nánar mál hennar eins og móðir hennar fer fram á. Ekki afskrifa vegna þess að hún var fíkill.

Ef þú lest þetta, mamma, þá færi ég þér innilegar samúðarkveðjur

Ekki gera eins og meinafræðingurinn sem krufði hann Himma minn. Andlitið á honum passaði ekki eðlilega saman í kistulagningunni. Það fór alveg rosalega í okkur Hjalta. Kannski var Himmi ekki þess virði í þeim augum, komandi frá Litla Hrauni ?

Talandi um Litla Hraun, ég horfði á viðtal við Margréti Frímannsdóttur. Mikið ofsalega er ég ánægð með að hafa hana þar sem hún er.

Farin að skræla rófur og reyna að fyrirgefa allt á langri leið- verst virðist ég eiga með að fyrirgefa mér, mömmunni sem féll á prófinu !


Umhugsun

Þegar maður er staddur í einhverjum aðstæðum þá gerir maður ráð fyrir að hlutirnir gangi svona eða hinsegin fyrir sig. Maður hefur eitthvað plan, einhvern grun um framhaldið.

Þegar ég missti Himma þá stappaði Birna Dís í mig stálinu og lofaði mér að þetta myndi lagast . Já já skrifaði ég henni til baka en trúði henni alls ekki- ég get viðurkennt það núna.

Núna eru liðin rúm 2 ár síðan Hilmar Már Gíslason var borinn til grafar.

Ég hef lesið pistlana hennar Ásthildar og ég sé núna hvað Birna átti við. Ég er komin óravegu frá þessum hræðilega vondu sporum sem ég var í ....alveg óralangt.

Margt verður aldrei eins.

Fólk má ekki skilja þetta sem svo að ég hafi gleymt Himma, alls ekki. Hann er með mér hvert sem ég fer, ég ímynda mér hann á öxlinni..hann er í hjartanu mínu. Ég mun elska hann alla æfi. Ég mun sakna hans alla æfi.

En mér er samt að batna, hægt og hægt, feta ég mig fram í ljósið. Ég sé gleðina og ég vil vera með í henni.

Góða nótt...

á morgun ætla ég að vakna glöð


Bókmenntastórvirki eða ömurlegar aðstæður ?

Don Kíkóti þykir afar merkilegur og margþýddur á allskonar tungumál. Hann hefur aldrei höfðað til mín enda fer öll hans orka í að berjast vonlausri baráttu við vindmyllur. Don Kíkóti er náttlega óður, hann sér ofsjónir- hann er manískur og bara einfaldlega brjálaður. Hann hefur með sér þjón ..hlutverk þjónsins skil ég samt ágætlega og mun koma að því síðar. Í dag sé ég að Ásthildur Cesil prýðir forsíðuna á DV- ég hvet ykkur til að lesa á síðunni hennar, lesa um þann aðbúnað sem snýr að fíklum og fjölskyldum þeirra.

Þar er barist við vindmyllur. Ég tel að óþol mitt á Don Kíkóta sé runnið af því að alla mína æfi hef ég barist við einhverjar vindmyllur.

Alversta baráttan hefur verið fyrir fíklana, afbrotastrákinn og óþægðarangann...hver þeirra á hvaða titil vita þeir sjálfir.

Þá var ég í hlutverki þjóns hins óða..

Svo vogar maður sér að verða þreyttur á baráttunni, lokar á vesenið og reynir að hvíla sig. Svo fer allt í vitleysu og maður situr uppi með samviskubit um að hafa ekki gert nóg - þegar í raun ekkert var hægt að gera og enginn vildi hjálpa manni.

Eina sem maður fékk voru einhver hornaugu, dómharka einhvers fólks úti í bæ sem ekki hafði heldur manndóm til að reyna að koma til hjálpar.

Hélt fólk að við vildum hafa ástandið svona ?


Vaknaði með Himma í morgun

sem er frekar spes..hann er búinn að vera rúm 2 ár í gröfinni sinni. Ekki er hann eins og Jesú sem tolldi ekki í gröfinni..Himmi minn er kyrr þar.

Ég vaknaði með hann í huganum..fór fram og setti útvarpið á og þar var verið að spila lagið "hans" Leiðin okkar allra með Hjálmum.

Þetta hefur ekki gerst lengi.

Mér dettur í hug að aðstæður Cesil minnar valdi þessu. Hún er enn í alverstu sporunum og trúir áreiðanlega ekki frekar en ég gerði að þetta mun verða bærilegra en það tekur tíma.

Í dag fer Tumi aftur í sprautu. Hann og Rómeó sofa saman í sófanum, það er í fyrsta sinn. Það er hvasst hérna og dýrin eru þreytt, einhver lumbra í þeim og vilja sofa hringuð saman með breitt ofan á sig.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband