Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Á morgun rennur hann upp

dagurinn sem hefur valdið vanlíðan lengi. Sumarið er ekki lengur minn tími. Sumarið er hjá mér tími söknuðar og sorgar. Það lagast kannski einhverntímann, ég skal ekki segja. Ég reyni að hafa sem minnstar væntingar, það er of sárt þegar væntingar manns rætast ekki.

Fyrir tæpum tveimur árum rann upp minn versti dagur, dagur sem engin móðir afber en lifir þó af. Dæmin sanna það. Það breytir engu þó að viðkomandi móðir hafi í raun aldrei valdið fyllilega verkefninu, höggið var gríðarþungt og sárt.

Í dag er ég komin óravegu frá þessum alverstu dögum.

Samt er ég ekki eins og áður. Gleðin er seinni á vettvang.

Í morgun stóð ég lengi við Himmaskáp, ég tala stundum við hann. Strákangann minn sem ekki réði við sínar aðstæður.

Ég býst við að hverfa af þessum bloggvettvangi fljótlega. Ég á aðra síðu sem ég mun þá nota komi andinn yfir mig skyndilega.

Kæru vinir, með ykkar aðstoð hef ég komist í gegnum mína myrkustu daga.  Þegar allt var bikað og hvergi týra þá kom agnarsmár geisli einhvers bloggvins og lýsti mér næsta skrefið.

Fyrir það verð ég ævinlega þakklát.

Hér til hliðar eru linkar á bæði minningarsíðu um hann Himma minn og svo á kertasíðuna hans sem góðir vinir hafa endalaust hjálpað við að halda gangandi, ekki hefur móðirin verið svo dugleg við það !

 


......uhh.....(mér dettur engin fyrirsögn í hug )

en ætlaði að vera löngu búin að segja ykkur skemmtisögu af Kela kalda og Rómeó músaveiðara. Ég heppin að hann er ekki hausaveiðari.

En ..það hefur ekki rignt mikið í sumar en aðeins um helgina og í liðinni viku. Köttur vill fara út að pissa og gerir það þó það rigni á hann. Svo þarf hann að skoða músaslóðir, undir pallinum og við þetta verður kisi blautur ef það er rigning.

Kisi minn hefur það fyrir sið að kalla mikið þegar hann kemur inn og er ekki sáttur fyrr en honum er svarað. Þá breytist hljóðið í kelið mjá og "gúrrrrr" (Kattaeigendur þekkja þetta hljóð) og hann hlykkjast hér um gólfið. Hann stangar Kelann í bringuna og strýkur sér svo eftir honum öllum, segir aftur Gúrrrrrr og stangar Kela og sömu leið til baka. Þetta gerir hann bara þegar hann er blautur.

Kattarprakkarinn notar hundkjánann einfaldlega sem handklæði.

Þegar hann er þurr þá reka þeir bara trýnin saman.


Fyrir allan peninginn í heiminum

fengirðu mig samt ekki til að gerast þingmann á Íslandi, ég er til í að skoða önnur lönd en Ísland. Ég hef hugsað mér nánast til óbóta um þetta Icesave og er loksins komin að niðurstöðu.

Við erum að tala um banka í einkaeign sem nýtir sér greinilega einhverjar glufur í reglugerðum evrópu. ( Pétur Blöndal er með betri skilgreiningu á þessu en ég og hann er áreiðanlega í símaskránni) Til hvers var bankinn seldur  ef ríkið bar eftir sem áður ábyrgð á honum ?

núnú áfram með þetta. Seðlabankinn vill meina að við ráðum við baggann. Hverjar eru hans forsendur ..jú, áætlun um verðmæti eigna fallins banka, ég endurtek áætlun. Við höfum séð núna undanfarið þá þróun að eignir sem einhver eru virði eru seldar á spottprís en mest af áætluðum eignum er líklega verðlaust. Hlutabréf í fyrirtækjum sem eru eða við það að falla.

Mér finnst þetta hreint ekki traustur grunnur.

Við erum bara í svo ferlega vondum málum.

Ég segi nei við Icesave. Við erum betur sett án klafans. Geri Bretar og Hollendingar athugasemd þá mega þeir hirða útrásaraulana sem komu okkur í þetta vesen. Hirða þá og reyna að finna peningana sem þeir struku með


Að festast ekki í sporunum

það krefst þess að ég sé að hugsa um það alltaf öðru hvoru (afsakið að ég er ekki að skrifa um Icesave og Borgarahreyfinguna og það allt )

Ég kannast við sorg annarra. Ég hef séð þegar fólk festist í sorginni, ég skil það alveg. Mín leið hefur verið mörkuð þessu hænuskrefum og stundum nokkur afturábak.

Ég reyni að komast hjá því að særa nokkurn en það hefur ekki tekist alveg fullkomlega. Mér finnst að fólk eigi rétt á að hafa allt aðra skoðun og lífsýn en ég. Í mínu lífi hef ég vanist því að þegar beðist er afsökunar á broti að þá taki viðkomandi það til greina. Í bloggi hér meðan allt var lokað vorum við að ræða meðal annars fyrirgefninguna. Það komu ýmsir vinklar á það. Nú er ég einmitt að reyna það á eigin skinni hvernig það virkar að biðjast afsökunar og því er ekki tekið. Ég er ss enn í sápumeðferðinni (þegar ég var krakki þá var oft talað um að troða sápu í túlann ef maður var mjög dónalegur í orðum)

Þetta hef ég verið að spá í í morgun en svo laust niður í hugann....bíddu, bíddu...þér kemur þessi manneskja ekki við ? Afhverju ertu að spá í þetta ?

Það er þó alveg satt. Væri þetta einhver sem skipti mig máli þá væri ég farin á staðinn og búin að gera gott úr öllu.

Hitt er alveg skýrt, ég braut af mér þarna og amk í eitt annað skipti hér á moggabloggi sem ég veit um.

Maður á ekki að blogga reiður, það er ljóst.

Ég er hinsvegar skárri í dag en í gær. Samt er vondi dagurinn nær nú. Mér finnst þetta samt vera auðveldara en í fyrra. Hver dagur er þó skref í átt að sólinni. Ég þokast út úr skugganum. Við fórum og borðuðum saman í tilefni afmælis hans pabba, fjölskyldan mín er frábærasta lið í heimi.

Þegar krakkarnir voru litlir þá gat ég varla beðið eftir að þau yrðu stór og flyttu að heiman, núna gæfi ég mikið til þess að geta smalað þeim undir vængina aftur og haft þau í skjóli.

Já meira var það ekki núna ..


Facebook

Við höfum séð það hér á Moggabloggi að bloggurum er hent út en oftast fá þeir nú tíma til að taka saman síðuna sína.

Ég er reyndar á því að það eigi ekki að henda fólki út og sakna að lesa síður og skoða myndir hjá bloggurum sem ekki eru hér lengur.

En hvernig er með facebook ? Mega þeir bara henda fólki út skýringalaust og án nokkurs fyrirvara ? Fólk fær ekki einusinni tækifæri til að afrita síðuna eða neitt.

Vitið þið hvernig þetta virkar ?

Eins og sést í kommenti við næstu færslu þá var vinkonu minni skutlað út af facebook. Hún fær engar skýringar en allt í einu finnst síðan hennar ekki.

Hjálpið okkur að skilja þetta


Kvöldsaga

þar sem við hjónakorn þurftum nauðsynlega að bregða okkur af bæ til böðunar áðan þá kom ýmislegt upp í hugann þegar við ókum áleiðis heim að því loknu.

Við vorum að spá í geimfarann hjá NASA sem þvældist um í geimnum í sömu brókinni í heilan mánuð. Konan kom þessu ekki heim og saman enda ómöguleg komist hún ekki í hreinar brækur tvisvar á dag. Kallinn er alveg rólegur með eina á dag..gott og vel.

Hahaha hló Steinar, hann sagði hinum ekkert frá þessu fyrr en þeir voru lentir

Mér finnst það nú ekki skrýtið , sagði ég og það örlaði á hneykslun í rómnum, hann hefur búist við að þeir myndu skutla honum umsvifalaust út ! Maður er sko í alvarlegu klandri þegar maður er aleinn í himingeimnum í skítugum nærbuxum.

Afhverju ætli hann hafi gert þetta spurði ég Steinar.

Þetta er einhver rannsókn sagði hann spekingslega.

Já og hvað ? var þá annar kall á jörðinni jafnlengi svo það væri hægt að rannsaka mun á bremsuförum í heilan mánuð? spurði ég í framan eins og Ari í Aravísum

Nei það hefur áreiðanlega ekki verið svoleiðis rannsókn sagði Steinar þolinmæðin uppmáluð

Hvernig þá ? spurði "Ari"

löng þögn í bílnum, þögnin hélt áfram....

Dettur þér eitthvað í hug annað spurði ég

..nei , eiginlega ekki sagði Steinar.

Hvað dettur ykkur í hug ?


Mótmælaaðgerðir

í hagkaup Garðabæ.

Við vorum að leita að heppilegu grænmeti í súpuna og þar á með gulrófur (ekki til) . Fann passlegar gulrætur í súpu, skoðaði upprunaland og skilaði þeim með þeim orðum að Hollendingar gætu étið sínar gulrætur sjálfir !

Tók íslenskar.

Vá hvað maður er að meika mikið steitment í búðinni!!!!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband