Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Hundablogg

Keli minn er kúnstug rófa. Fólk sem ekki þekkir hann gæti haldið að hann sé bæði grimmur og leiðinlegur. Þannig er hann þó alls ekki en hann er óttaleg skræfa og verður skíthræddur þegar einhver bankar.

Hann er líka, ásamt Lappa, hundleiðinlegur þegar einhver gengur nærri garðinum þeirra. Það vil ég nú reyndar rekja til þess að þeir voru hrekktir þegar þeir voru enn hvolpar í garði sem við bjuggum við þá.

En hann er hinn mesti ljúflingur þessi hundhlunkur...áttar sig oftast ekki á því að hann er 35 kíló og vill láta sitja með sig eins og hann sé smá kjölturakki.

Nýjasta æðið hjá honum er Eva, kærastan hans Bjössa. Hann horfir á hana, alveg heillaður. Reynir að bora sér á milli þeirra í sófanum og Bjössi má hafa sig allan við til að hafa við þessari öflugu samkeppni. Þegar Keli er búinn að troða sér alveg upp að Evu þá gýtur hann augunum á Bjössa og svei mér ef kvikindið er ekki með sigri hrósandi glott á hundsvörum.

Eva umber þennan æsta aðdáanda með mikilli prýði enda hver stenst brún biðjandi hundsaugu ?


Æj úpps

Þar lágu færeyingar í því !

Þeir (Guð blessi þá) ákváðu að lána okkur bjánunum aur

Alveg er ég viss um að þeir eru farnir að sjá eftir því og eflaust farnir að íhuga að gera þetta aldrei meir.

Fyrst kom Steingrímur Joð og hélt yfir þeim þakkarfyrirlestur á færeysku.

Svo kom Hvergerðingur með heilan flugfarm af jólarósum (heitir plantan það ekki annars ?)

Síðasta sem kom upp á hjá færeyingum er þetta.........

Geir Ólafs syngur jólalag, á færeysku.

Dettur ykkur fleira í hug til að terrorisera frændur okkar með í viðbót ?

 

PS vinsamlega takið til athugunar að þessi færsla er skrifuð í gamansömum tón.

( Mér finnst G.Ó. syngja margt vel )


Horft í austur

og ég horfi í sólina, hún glitrar á hvítan snjóinn. Þetta nær þó ekki neinni almennilegri athygli, enda er ég að hugsa um mynd sem ég var að horfa á í gær. Mynd um mansal.

Fátækur filippískur bóndi selur unga dóttur sína, síðasta minning telpunnar að heiman eru sorgmædd augu móður hennar sem er þó algerlega ráðalaus að koma henni til bjargar.

Ung einstæð móðir, í Prag, kynnist algerum draumaprinsi, hann býður henni út í sveit, að heimili sínu. Þar bíða hennar kaupmenn og hún er tekin til fanga.

Ung og falleg rússnesk unglingsstúlka kemur í prufumyndatöku fyrir módelskrifstofu. Hún reynir að fá fararleyfi föður síns en það vill hann ekki heyra á minnst. Þau búa bara tvö ein saman, feðginin. Hún lætur sér ekki segjast og fer með modelskrifstofunni til bandaríkjanna...og er komin í barnaklámhring við komuna þangað.

Stúlkubarn er hrifsað af götu (man ekki landið, held að það hafi verið Ekvador) og seld í barnaklámhring. Þar gerðu ræningjarnir þó mistök því telpan er bandarísk og mikið vesen að koma henni óséðri milli landa.

Þarna er farið yfir þessa forsögu.

Það sem sló mig illa var þetta. Leiðirnar sem þeir nota til að halda stúlkunum í skefjum. Þeim er hótað að gengið verði að fjölskyldum þeirra ef þær reyna að leita sér hjálpar. Þeir hafa kynnt sér fjölskyldur viðkomandi stúlkna og hafa í hótunum.

Þessi mynd er líklega í 2 hlutum og ég þarf að reyna að sjá seinni partinn.

Svona myndir horfi ég á. Myndir sem vekja mig til umhugsunar.

 

 


í desember 2008

Og nú á að hækka verulega álögur á allt bifreiðatengt, bifreiðar þið vitið, þetta dót sem fólk er þegar í vandræðum með að borga af og reka.

Alkarnir og nikótín fíklarnir fá líka sinn skerf til hækkunar. Hætta að reykja segir einhver en það er nú ekki gott að ætla að fjármagna það heldur. Aðstoðarlyf fyrir fólk sem vill hætta er líka alveg fokdýrt.

Verslanabannlistinn (sem þið eigið að hjálpa mér við að gera )

Hann er enn fátæklegur en svona

Bónus

Next

Noa Noa

 


Afrek dagsins

Í morgun þegar við Steinar skriðum á fætur þá stóð stóra tertuboxið mitt á hvolfi á eldhúsborðinu, skreytt með stórum miða sem á stóð M Ú S .

Boxið er hálfgegnsætt og ég skyggndist inn í það, jú það leyndi sér ekki. Þarna var sætur músarangi innilokaður.

Ég fór og vakti Björn til að fá að vita hvernig hann náði henni. Þá hafði hann verið á klóinu um 4 í nótt. Sá eitthvað skjótast og steinhætti við að spræna. Hann skutlaði handklæði yfir hana og þrælaði henni svo ofan í kökuboxið.

Við röltum áðan með boxið út að sjóvarnargarði, mýsla var nú ekki alveg á því að yfirgefa boxið...í þessum kulda.

Hún skeiðaði í áttina til mín og tók svo stóran hring og kúrði sig niður í holu eða smálaut. Keli ætlaði alveg að tapa sér og hræddi mýsluna af stað aftur. Þá sáum við undir iljarnar á henni inn í sjóvarnagarðinn.

Það þurfti Björn til að yfirbuga brandaramúsina sem hér hefur búið í mánuð.


Mér hefur liðið

eins og jójói undanfarið...þó tók steininn úr í gærkvöldi. Ég sat í vinnunni, alein, og allt í einu fylltist ég að gleði...svona búbblu tilfinning alveg. Það var asnalegt.

Ég ákvað að annaðhvort væri ég að fá slag eða einhver væri að fikta í hjartastöðinni minni.

Svo er ég hundfúl inn á milli...

Hvar leggur maður inn pöntun um að hafa geðbrigðin minni og jafnari ?

Anyone?

 

 


Það sem hann vildi ekki segja

og bar við bankaleynd.

Var það virkilega að FBI eða sambærileg stofnun varð vör við mikið fjárstreymi frá Íslandi sem setti af stað viðvörunarbjöllur sem venjulega tengjast við eiturlyfjahringi eða hryðjuverkastarfsemi.

Þeir létu vini sína breta vita.

er þetta enn ein samsæriskenningin eða getur þetta staðist ?

Kveðja

Álftanesbófinn Bandit

 


Hvurslags !?

Hvað er eiginlega málið með þetta?

Ég var einmitt að tala um við Steinar í gær að mig vantaði almennilegan humar til jólanna Errm


Hver á hvað?

Sko við sem viljum taka þátt í þöglum mótmælum, t.d. með því að versla ekki við "útrásarvíkingagengið" þurfum einfaldlega að fá að vita hver á hvaða fyrirtæki. Ég var að velta þessu fyrir mér um daginn þegar BT músin breyttist á nokkrum dögum í Hagamús. Er þetta það sem koma skal ? Einhver strandar í rekstrinum og þá kemur einhver annar Palli nýríki og reddar þessu ? (bið fyrirfram alla heiðarlega Palla afsökunar)

Hvað er málið með Noa Noa og Next ? Sömu hjónin komin með þann rekstur aftur ?

Mér finnst vera b***** skítalykt af þessu orðið öllu saman.

Ég versla í lágvöruverðsverslunum en hver á þær ? Auðvitað veit ég hver á Bónus en hver á þá Krónuna ? Hagkaupsveldið ? Konan hans ?

Hvernig væri að skutla þessu öllu upp á borðið og hafa sér dálk í mogganum og fréttablaðinu sem uppfærist eftir breytingu á eignarhaldi. Þá getur maður kannski stýrt sínum viðskiptum aðeins eftir því og verslað við venjulega heiðarlega kaupmenn. Vesturbæingar eru ekki í vanda staddir, þeir hafa bæði Kjötborg og Melabúðina.  Fjarðarkaup er hérna næst mér og það er verslun sem er alveg prýðileg.

Verð ég virkilega að hætta að versla í ódýrustu búðunum?

Ég get bara ekki lengur varið það fyrir sjálfri mér að ausa peningum í þessa aðila....þið sem sáuð atriðið með Jóni Ásgeiri í spaugstofunni...það setti punktinn yfir I-ið.

Þið sem sífellt skammist yfir rolugangi okkar hinna sem ekki höfum mætt í mótmælin, hjálpið okkur frekar að finna leiðir til að mótmæla á annan hátt. Ég hef ekki nokkurn kjark í að ráðast inn í þing, seðlabanka né ráðherrabústað. Ég er ekki þessi mannfjöldamanneskja heldur....fæ andarteppu í stórum verslunum vegna fólksfjölda og því fegnust að sleppa þaðan út.

En ég held að þessir jólar finni mest fyrir í veskinu en til þess að það virki þá þurfa nokkuð margir að sniðganga þá, ég er bara ein kelling með lítið heimili ......


Í óstuði með ?

Varla Guði, það á að vera í stuði með Guði...er þaggi annars ?

Ég eiginlega veit ekki afhverju þetta óstuð er viðvarandi núna.

Það getur verið ýmislegt.....

Fréttin af drengnum sem ekki fékk lifsnauðsynlega hjálp og fyrirfór sér fór afar illa í mig, bæði vegna þessa hörmungarástands á heilbrigðiskerfinu og svo lést hann á afmælisdegi hans Himma míns sáluga.

Ég leit óvenju grannt á greiðsluseðil láns um daginn og verðbæturnar höfðu hækkað um 250 þúsund...ég er ekki sérlega klár í reikningi en ég reiknaði þó út að á 4 mánuðum við óbreytt ástand mun þetta lán hækka um milljón.....

ég taldi mig ekki fara offari þegar við keyptum húsið...við áttum slatta í því, ekki nærri veðsett upp í rjáfur. Nú sleppur kannski blámænirinn - ennþá.

Sko þetta gengur auðvitað ekki upp og það þarf að gera einhvern andskotann með viti til að heimilin fari ekki í stórum stíl á hausinn....hrmpf...

ég ætla að halda áfram að borga á meðan ég get það, hér er yndislegt að vera og ég á frábæra nágranna.

Ég er tiltölulega hagsýn húsmóðir og hef lifað efnahagskreppu áður, hún var reyndar afar staðbundin og bara heima hjá mér. En kommon, ég lifði hana af. Ég komst meira að segja að því, mér til furðu, að krakkarnir eiga góðar minningar frá þessum tíma örbirgðar þegar mér fannst ég vonlausasta foreldri heimsins að eiga ekki fyrir almennilegum mat. Besta sem þau fengu var rétturinn ; Mamma bullar í eldhúsinu. Þá sullaði ég saman mat úr því sem til var.

Þau voru ekki matvönd en það eruð þið líklega búin að fatta núna hehehe.

Ég er enn ekki komin í gír til að henda eggjum í þingið eða gera almennan uppsteit á almannafæri. Í brjósti mér bærist veik von um að ástandið lagist....ég er óhóflega bjartsýn og jákvæð og fram til 6 október 2008 taldist það vera kostur. Núna er ég ekki svo viss.

Ég gæti þurft í aðgerð, láta skera þennan andlega síamstvíbura úr mér...þessa Pollýönnu.

Nú nú ýmislegt annað kvaldi hugann en frá því er ekki tímabært að skýra .

Mér finnst ég vera andleg eyðimörk


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband