Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007
Jólakveðja frá Flensustöðum í Sjúkrasveit
13.12.2007 | 19:09
Jólahænsnakofi.
Jólalegur Bonzó
Við settum tunnuna inn í skúr í gær. Öskukallar komu hér í rjómalogni í morgun og hafa af hugvitssemi stolið öskutunnu einhvers nágrannans til að setja hérna. Nú eru þær tvær. Nema þetta hafi verið gjörningaveður og valdið tvöföldun hluta.........nei þá væru fjórir bensar úti, 2 suzuki jeppar og 2 toyotur.
Vantar einhvern sætan Suzuki Vitara ? Hann er smá bilaður en fæst á smá aura á móti.
GLEYMDI !
Ég á ringlaðan jólahund...
Brandari í boði hússins;
Kallinn minn er bara snillingur. Hann er búinn að þvo og þurrka þvott í gríð og erg í dag. Segist búa með aumingja. Áðan braut hann saman heilan þvottaskammt og dæsir svo upp úr eins manns hljóði ; Ég held að sonur þinn þarna inn í herbergi sé eineygður ! Ég leit upp og sá að hann hélt á 2 stökum sokkum. Þá meinti kallinn áreiðanlega einfættur....ég hló og hló....æj æj ó boj.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 08:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Æj
13.12.2007 | 16:43
Heyrði í svolítið niðurbrotnum Hjalla áðan. Hann skrapp út í morgun og þegar hann kom aftur þá fann hann kisu sína dána heima. Læknar halda að hún hafi fengið hæga heilablæðingu eftir að hún hljóp á einhvern hlut fyrir nokkuð löngu síðan. Kettlingar hlaupa oft ansi hratt. Mamma átti kött sem var lamaður öðru megin í andlitinu eftir að hafa hlaupið á eitthvað á svipuðum aldri.
Hérna er mynd af litlu kisu. Þau eru með 2 kisur og hin kisan er búin að hvæsa á þessa í nokkra daga. Lasna kisan var farin að vera bakvið skáp og úr almannafæri, greyið. Dýr finna á sér svona hluti. Mér er minnisstæður Kelinn í síðasta sinn sem Himmi kom hingað. Keli skammaðist svo í Himma að það endaði með að ég setti Kela í búrið. Hilmar varð hálfsmeykur við hann. Hvers vegna lét Keli svona ? Hvað sá Keli ?
Nú megið þið setja fallegar kveðjur til hans Hjalla míns í kommentin, hann er svo mikill dýravinur og nú á hann bágt og auðvitað Aníta líka.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 08:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
Jólin koma samt ?
13.12.2007 | 15:39
er þaggi annars þó að ekkert sé klárt ? Ég er ekki einusinni búin að senda jólakortin....hef venjulega átt lager af kortum frá fyrra ári en nú brá svo við að hér voru til 3 stykki. Það dugar nú ekki til neins...Ég sendi nú ekki neinn gríðarlegan fjölda en samt nokkur, amk fleiri en 3.
Ég er búin að leggja niður fyrir mér línurnar í hvað ég á að kaupa fyrir liðið. Ég get auðvitað ekki sagt það hérna en þið gormarnir mínir sem lesið, ef þið eruð að spá í eitthvað sérstakt þá bara sendiði mér email eða sms.....Ég ákvað að fresta því að kaupa ljós utan á húsið, ég fann þeim aurum annan farveg og betri. Ég á allt til alls og vantar bara ekki neitt nema það eitt sem enginn getur gefið mér.
Ég sagði við Steinar um daginn að ef við hefðum ekki verið orðin svona gömul þá hefði ég hrært í 1-2 gorma handa mér að leika mér að....en njah...fæ bara lánað hjá Sollu. Hohoho.....
Hér brakaði og brast í húsinu og okkur tókst ekki að sofna fyrr en um 2 leytið, þá var Steinar búinn að setja ruslatunnuna inn á sólpall. Rétt fyrir 4 biluðust hundarnir og við framúr aftur....þá var rokið komið þeim megin, tunnan barðist um og lokið horfið af henni. Tunnan endaði inn í bílskúr og lokið fannst út á götu. Nú má ekki koma veður þá dettur mér í hug Jenný innpökkuð í teppi með kertaljós um allt.
Ég las færslu ungu konunnar sem lenti í hremmingum á JFK flugvelli, þvílík meðferð -ég var alveg klumsa og vissi ekki hvað ég ætti að segja. Oft hefur mig langað að fara til BNA og skoða þessar stórborgir en ég verð að segja að áhuginn dvínaði nokkuð, ég mun allaveganna ekki fara mína fyrstu utanlandsferð þangað. Þá líst mér betur á kirkjugarðinn í Köln með systur minni. Hún vill sjá hvar Jón Sveinsson (Nonni) er grafinn. Ég fór í fyrsta sinn á þessu ári í leikhús með systur minni og það væri náttlega ágætt að fara í fyrsta sinn til útlanda með henni.
Svo las ég færslu í gær sem gladdi mig svo mikið að ég táraðist úr hlátri, fékk næstum hiksta af hlátri eins og viðfangsefnið í þeirri færslu. Það var auðvitað ein færslan hennar Jónu minnar um fallega drenginn hennar. Takk fyrir að gleðja mig elskulega Jóna mín, það er svo mikils virði.
Ein hérna lýsir skemmtilega áhrifum þeim sem ég hef á hana sem bloggvinur. Ég brosti að því. En svo þegar maður hugsar út í það þá gæti þetta verið rétt og átt við fleiri. Að minnsta kosti fæ ég sjaldan skammir hér í kommentunum né eitthvað yfirdrull ( sem Jenný kallar að skvetta úr hlandkoppum á manns eigin síðu) . Mér fannst gaman að þessu.
Ég er enn föst innandyra en líður skár. Þessi flensa hagaði sér afar undarlega. Vaknaði hress á þriðjudegi en 10 mínútum seinna var ég komin með mikinn hita og beinverki og skreið upp í rúm aftur....var þar allan daginn nema skreið fram að sjá fréttir....skreið svo inn aftur og hélt áfram að sofa. Ég er ekki í stuði til að taka sjénsinn á að slá niður og held mig inni. Koma jólin ekki bara samt ?
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 08:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Held að ég sé búin að læsa
12.12.2007 | 16:07
og þeir sem eru skráðir eiga að komast vandræðalaust inn. Annars er lykilorð sem ég mun eingöngu úthluta sjálf. Ef einhver spyr ykkur þá megið þið gefa upp emailið mitt ragghh@simnet.is
Flensudraslið er enn að kvelja mig..djös sem þetta er leiðinlegt. Eina góða er að við liggjum 2 hérna, það er svo leiðinlegt að hanga einn heima í flensunni. Hundar víkja ekki frá mér og reka í mig nefið af og til. Þeim líst ekki á mig, asnaleg lykt af mér og svona.
Skrifa meira seinna, orkan er sko engin hérna.
PS opnaði aftur, mér tókst ekki að opna aðgang allra sem hér áttu að fá að vera. Búin að senda póst á kerfisstjórana og bíð eftir svari frá þeim. Ég er ekki með emailið hjá ykkur öllum þannig að ég gat ekki látið vita...sorry....ef einhverjir ákveða að móðgast þá það.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 08:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (44)
Svo hundlasin
11.12.2007 | 18:08
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 08:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
Veðurskræfan bloggar
11.12.2007 | 00:43
með skjálfandi fingrum ...shit hvað ég er hrædd við svona veður. Við hlógum samt að mér aulanum alla leiðina heim áðan. Steinar keyrði eins og hann væri með fullan bíl af postulíni en hélt í hendina á mér heim. Ég talaði eins og maskína (geri það alltaf þegar ég er hrædd) og rótaði í töskunni minni og fann mér allt til að gera á heimleiðinni annað en að horfa út. Ætlaði ekki að þora út í bílinn í Skógarhlíðinni, var í pilsi vegna þess að ég fór í jarðarför áður en ég mætti í vinnuna. Við skemmtum okkur við að ímynda okkur hvernig ég léti ef við værum jeppafólk. Steinar stakk upp á svefntöflum fyrir jeppaferðir og ég sá fyrir mér vorkunnarsvipinn á ímynduðum ferðafélögum, að hann skuli nenna að hafa kellinguna með sér...dæs.
Ég reyndi ekki að opna hurðina á Bens hérna heima og lét kallinn teyma mig alveg inn í hús....djís...ógeðslegt veður ....
Fékk senda æðislega mynd af fallegum bræðrum áðan og ætla að sýna ykkur hana...ég fer svo að sofa og ætla að sofa í hramminum á kallinum mínum...
Litli mann heldur brúnaþungur en Vignir stórhrifinn af litla bróður, flottastir !!
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 08:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Þið eruð náttlega indæl -viðbót 2
8.12.2007 | 23:16
en ég ætlaðist nú ekki til að hérna birtist grátkór, ég er enn bara að spá í þetta...en var líka að spá í öðru.
Hérna er haugur af bloggvinum sem ég les stundum hjá, þeir kvitta aldrei hér og eru ekki í neinum samskiptum við frú Ragnheiði. Ég hef lengi haft hug á að fækka þeim til að ég nái að sinna betur þeim sem hérna vilja vera í samskiptum. Mitt keppikefli var ekki að safna bloggvinum....hér eru þeir allt of margir.
Þeir sem vilja vera hérna áfram listaðir sem bloggvinir verða að gera vart við sig í kommenti við þessa færslu. Öðrum mun ég eyða á næstu dögum. Endirinn verður líklegast að bloggið verður aðeins opið skráðum bloggvinum. Ég mun svo sjá til áfram eftir það.
Eftir því sem ég hugsa þetta betur þá verð ég vissari í minni sök um að loka bara fyrir síðuna þannig að einungis skráðir bloggvinir á nýtilteknum listum geti bloggað. Þið sem ekki eruð skráð á Moggablogg getið þess vegna stofnað síðu þannig að ég geti bætt ykkur við. Síðan má vera tóm en hún ætti að duga til að heimila þennan aðgang.
Ég kann bölvanlega við mig svona frammi fyrir alþjóð með oft persónulega hluti og vil heldur draga mig aðeins meira í hlé.
Fór í mis við kall minn í morgun, reyndi að hringja og hann á tali. Hringdi aftur og hann á tali. Hringdi oftar og hann enn á tali. Ætli þið séuð búin að fatta að honum finnst gaman að tala í símann ? Hann á einn vin sem hann talar rosalega mikið við, konan hans nennir aldrei að tala við hann í símann hohoho. Sé karlugluna úr Ártúnsbrekkunni. Hentist á eftir honum og uppað hlið hans og flautaði á hann og veifaði illilega símanum mínum. Hann segir með varahreyfingum að hann sé í símanum. Hvenær í ferlinu hefði ég ekki átt að fatta það !!! Ók við hlið hans nokkra stund og hvessi illilega á hann glyrnurnar. Hann varð svo héralegur á svipinn að ég sprakk úr hlátri og ákvað að tala bara við hann seinna....Ljóta súpan það að vera með bilaða konu í næsta bíl og eiga svo heima í sama húsi og vargurinn.
Hvað haldið þið að þyki sanngjarn tími að hafa uppi þessa bloggvinahvatningu ? Ég meina svo fólk segi ekki, ég vissi ekki um þetta ?
Sumum finnst áreiðanlega rosa flott að vera með svona marga bloggvini...ég vil hafa þetta öðruvísi, færri bloggvini og betri samskipti við þá. Þannig sýnist mér þetta kerfi virka best.
Ég fékk svo góða heimsókn áðan, bjartur og fallegur snáði, elsta ömmubarnið mitt-Vignir Blær- Hann mátti ekki vera að stoppa lengi, á leið austur með pabba og ömmu sinni. Hann lofaði ömmu að koma bráðum aftur og þá erum við að spá í að leika okkur í tölvunni hennar ömmu. Amma á Wiii leikjatölvu og spilar stundum í henni golf, Bjössi keypti um daginn annan leik í hana sem virðist passa fyrir yngra fólkið. Vignir er eldklár og lærir þetta vísast á undan ömmu sinni. Yndislegur snáði...náði mynd af honum með afa og hann var sko stærri en afinn !
Barnið treystir afanum, það sést á fótaburðinum. Þeir eru báðir með hálfundarlegan svip samt. Þið fáið betri mynd seinna.
Hérna kemur svo næstelsti ömmustrákur, Patrekur Máni
Prakkaralegur en það held ég að sé bara í ættinni ?
Hérna kemur svo Hilmar minnsti sponninn.....
Óttalegt krútt..nýbúinn að spræna út allan ömmusófann. Ömmu fannst það bara fínt, það væri þá ekki eftir en mamman ekki alveg ánægð með barnungann..Hilmar eldri sprændi nú í augað á sér þegar hann var svona lítill. Mamman gólaði ógurlega en pabbinn hinn rólegasti og taldi þetta meinlaust úr svona nýjum leiðslum. Það reyndist rétt vera, barni var ekki meint af.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 08:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (86)
Mætt á svæðið
8.12.2007 | 14:11
Hef haft það nokkuð gott bara, steinsofið hjá gamla mínum með spánnýjar gardínur í herberginu. Nei ekki nýjar gardínur, nýjan kappa. Fékk mér breiðan hvítan kappa með gylltri skreytingu og hengdi upp gardínur sem ég átti, myrkvunargardínur. Þetta er voða mikið selt á hótelin og svoleiðis. Maður dregur fyrir og voilla, nóttin er komin þó það sé hádegi á þriðjudegi í júlí. Var með rimlagardínu (fylgdi húsinu) og ég er ekkert hrifin af svoleiðis dótaríi, ef maður er með gluggann opinn þá skröltir þetta og berst um eins og fugl í búri. Nenni ekki svona hávaða þegar ég er að sofa, nóg að eina hund sem hrýtur.
Sæki mér kaffi.....bíðið aðeins.............
.
.
.
Kaffið komið.
Sko að mörgu leyti tel ég að síðan mín eigi sér ekki endilega langt líf fyrir höndum í viðbót. Smátt og smátt finnst mér hún snúast upp í andhverfu sína. Í upphafi var ég aðallega að fíflast eitthvað hér inni, var nafnlaus vegna þess að fæst sem ég skrifaði var til neins merkilegs. Aðallega fréttablogg og tengingar við svoleiðis.
Svo dó Himmi.
Heimurinn fór á hvolf.
Ég reyndi að bera fólkið mitt uppi og faldi mína líðan. Setti hana frekar hérna. Mamman á þessu heimili hefur alltaf verið svo sterk í augum krakkanna. Mamma mátti ekki bregðast. Mamma mátti ekki brotna. Þau vissu samt hvað mömmunni leið. Systurnar settu Bjössann sinn í að passa mömmuna, litla bróðurinn sem býr heima. Það gerði hann, knúsin sem komu frá þessum unga manni oftast upp úr þurru voru hlýjust og best.
Ein hér sagði í kommenti fyrir löngu að sorgin væri ekki val. Hinsvegar væri val hvernig maður tæki á henni. Þessi orð voru merkileg fannst mér. Þetta mátti ég semsagt gera, vera sterkust og taka þetta þannig. Ég þurfti ekki að æpa og hljóða á almannafæri. Ég var svolítið fegin.
Ég mun aldrei verða sátt við að missa Himma minn en hér er ég, ég er upprétt og mun verða það áfram.
Nú ætla ég að skreppa í að vinna svolítið. Kem í kvöld og tek til heima. Áskorunin virkaði ekki sjáið til. Steinar hjálpar mér samt örugglega við þetta, hann er vanur því blessaður.
God aften allesamen.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 08:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
geðvonska
7.12.2007 | 09:07
eða hvað maður á að kalla það eiginlega. Ég búin að vera hálflasin og svaf eins og klessa í gær eftir vinnu, yfir sjónvarpinu og í nótt, alveg sprungið á mér. Hefði svo getað sofið áfram í morgun en það var ekki í boði enda átti ég að leysa næturvaktina af.
Stundum koma rök rökþrota aðila manni í opna skjöldu. Hér er verið að safna undirskriftum í vinnunni, kaffibollinn nebblega svo rándýr.Hann kostar heilar 100 krónur úr sjálfsalanum hérna frammi. Algert rán segja þessir fimm sem hafa þegar skrifað sig á listann og hafa meistaralega reiknað út hvað menn borga á ári fyrir 7 bolla á dag.
Ég vildi endilega koma því á framfæri í gær að frammi væri kaffivél sem þyrfti ekki annað en að einhver nennti að setja í hana, menn gætu keypt kaffipakka. Ég fékk manndrápsaugnaráð og spurningin sem kom í kjölfarið beindist að því hvort Steinar stæði sig ekki í stykkinu á heimavelli ? Síðan í gær hef ég spáð í samhengið og mér tekst ekki að skilja hvernig holdris manns/eða ekki á Álftanesi kemur kaffiverði í Skógarhlíð við.....Ég er farin að hafa smááhyggjur af kaffiverði í Brasilíu..
Bílstjórinn sem varð fyrir árás í Hátúni er hraustur og hugaður maður, hann er ekki hérna hjá mér á þessari stöð . Persónulega hefði ég aldrei lagt í hann enda hefur hann viðurnefnið glímukappi meðal félaga sinna. Ég er fegin að meiðsli urðu ekki meiri en það endar með því að skermar verða settir í bílana til að verja leigubílstjóranna fyrir árásum.
Vonandi eigið þið góðan dag...
Þessi passar við færsluna hehe
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 08:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Hilmar litli,lasin og smá sorg
5.12.2007 | 23:29
Hilmar litli kom í fyrsta sinn heim til ömmu sinnar í dag. Það var yndislegt að fá að knúsa hann og hafa smábarnalyktina í nefinu. Hann gerði allar kúnstir sem litlir gormar eiga að gera í ömmufangi, bakaði í bleiuna, ropaði og gubbaði svolítið á ömmusín. Svo dæsti hann alsæll og steinsofnaði eftir öll afrekin sín. Lappi og Keli voru hafðir lokaðir inn í herbergi til að byrja með en svo kom Steinar með þá í taumi fram til að hafa stjórn á þeim. Lappi hafði lítill áhuga á barni en Keli var eiginlega meira hræddur við hann en hitt. Skoðaði hann voða varlega og með miklum spurnarsvip...
Hlustaði á kvöldfréttir og varð svolítið sorgmædd. Pólverjar virðast vera komnir í talsverð vandræði suður með sjó. Mér sveið að heyra um barnið sem hefur verið hér í 7 vetur í skóla og er nú útskúfað. Þetta er skelfilega sorglegt. Bendi að öðru leyti á fréttamiðla í sambandi við þetta mál.
Ég var á vakt í morgun og verð næsta morgun, ég er samt orðin svo drusluleg..ekkert smitandi þó. Oj það verður erfitt að vera á vaktinni á morgun....vonandi lagast ég í nótt..
Áskorun hefur enn engu skilað en það er ekki að marka. Sá eldri hefur sett upp jólaljós af miklum móð og í dag pöntuðum við z braut til að setja upp inni hjá okkur. Þar er rimlagardína og mér líkar ekki við hana þar. Vil hafa gluggann opinn og þá skröltir þessi um í glugganum ef einhver vindur er...ekki gott þar sem býr kona haldin svefntruflunum.
Man ekki meira að segja ykkur en ætla að skreyta þessa færslu með sæta Himma stóra og sæta Himma litla. Set kannski inn nýjar myndir á morgun af þeim nöfnunum.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 08:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)