Færsluflokkur: Bloggar

Blöðin lesin með hryllingi þennan morguninn

Fólk kastaði gangstéttarhellum að lögreglunni. Ég var hinsvegar ekki á staðnum og vísa ykkur áfram á www.skessa.blog.is . Hún var þarna og veit hvað var í gangi. Hún hefur staðið friðsama mótmælavakt og það er henni að þakka ásamt fleirum friðsömum mótmælendum að breytingar virðast vera í farvatninu, sem betur fer.

Dagurinn hér byrjaði hinsvegar á morði. Við myrtum ekki lögreglumann né mótmælanda. Músarræfillinn var kominn á límborðann og henni var fyrirkomið snyrtilega, en ekki með neinu nema óbragði í munni. Við erum ekki morðóð hér. Líkinu var skutlað í tunnuna og ruslakallar komu stundvíslega hálftíma síðar og fjarlægðu glæpinn.

 


Tímaspursmál

hvenær stjórnin springur, Samfylkingin á enga möguleika í stöðunni aðra en að slíta þessu eða sogast niður í ræsið með sjálfstæðisflokknum.

Ég hef horft á 2 viðtöl við geir í dag (litli stafurinn er til heiðurs Hrönn) og hann tuðar sífellt það sama, orðinn örþreyttur á sál og líkama, það sést alveg. Þessu fólki sæmir ekki að sitja lengur.

Rómeó virðist sáttur við okkur hérna. Hann lá lengi hjá mér í dag og þvoði sér í krók og kring. Steinsofnaði svo hjá mér..í rauðbröndóttri hrúgu. Hann fylgist með hundunum -rólegur- og er steinhissa á Lappa þegar Lappi er að þramma á húsgögnin. Keli situr og horfir á hann, passar sig á að fara ekki ofan í hann en hefur áhuga á að fylgjast með.

Ég held að þeir þrír eigi alveg eftir að samlagast ágætlega. Rómeó þrammaði á sófabrúninni í dag og skoðaði hundaskott sem á vegi hans urðu, skotteigendurnir ákváðu að láta það bara yfir sig ganga og skoðunin tók fljótt af.

Þetta verður fínt held ég.

Það munaði minnstu að þeir færu að leika í dag á ganginum.

Af Steinars bíl eru endalausar slæmar fréttir, það er allt ónýtt í drifinu á bílskömminni. Hann hefur verið að nota minn bíl og á meðan prjóna ég ljósgráa peysu.

Málið er hinsvegar það að við þolum ekki svona aukaútgjöld, vinnan hefur minnkað og Steinar er bara í einni vinni miðað við tvær áður.

Lánin á húsinu hækka eitthvað hvern mánuð....

ég er ekki að skrifa um þetta til að fá neina vorkunn, heldur til að segja frá aðstæðum millistéttarfjölskyldu á Ónýta-Íslandi. Við vorum ekki með 90% lán. Við vorum langt undir því.

Fari þetta í rassgat !

Bjössi og Eva skruppu út að borða í kvöld. Þau eru búin að vera saman í ár.

Til hamingju með það krakkar.


Örfærsla

hér bættist við fjölskyldumeðlimur í kvöld, við ættleiddum kött. Hann er oriental blendingur og er orðinn 3ja ára, hann er vanur hundum en leist nú ekki meira en svo á bræðurna hérna. Hann er sestur upp í glugga og snýr upp á sig. Hann er samt ekki með neinn æsing og ég sé alveg fram á að þetta lagist.

Meira síðar

Rómeó 003

Rómeó 004


Pollýanna sett í vinnu

Í gærkvöldi var ég ein heima, ein með hvuttum og mögulega mýslu þó að ég sæi hana hvergi í gær. Ég fann mér ekkert að horfa á og fékk eitthvað ofnæmisvesen í augun þannig að ég sá ekkert og varð að setja á mig kaldan bakstur. Þar með datt uppfyrir allur prjónaskapur og sjónvarpið mitt eina haldreipi. Ég fletti fram og til baka á flestum rásum og fann ekkert til að horfa á þannig að ég endaði á undankeppni Eurovision, nær dauða en lífi af einskærum leiðindum. Gott og vel, ég kíkti á það framundan bakstrinum og fannst lögin alveg skelfing...horfði líka síðast og hefði viljað öll fjögur lögin þar inn í staðinn fyrir þessa hörmung líka.

Mér tókst að skríða í bælið á skikkanlegum tíma og steinsvaf alla nóttina.

Í morgunbirtunni leit þetta betur út og ég fór í vinnuna. Eftir smáumhugsun varð ég rosalega glöð yfir leiðindum mínum kvöldið áður. Það er þvílíkur munur að geta þó amk leiðst. Ég hef setið, stjörf með tóm augu yfir sjónvarpinu, lömuð innra með mér af sorg, ekkert komist að nema Himmi minn, ég hef ekki skynjað neitt í kringum mig og hef bara einfaldlega ekki verið með í neinu. Í þau skipti sem bráð hefur af mér þá hef ég skrifað það sem ég sá í þokunni hingað inn...

Þannig að ég þakka fyrir að hafa getað leiðst.

Ég heyrði í bloggvinkonu í dag, það er snilld að geta tengt rödd við bloggarann. Ekki það að við höfum spjallað neitt lengi saman, þá hefði hún orðið of sein í vinnuna og allt farið í kerfi..

Haukur frændi þvoði fyrir mig 2 Benza í dag og það er þvílíkur munur ...ég hef bara sjaldan séð Steinar eins glaðan og í dag þegar ég renndi heim í hlað á hreinum Benz. Hann var nokkuð viss um að hafa sent mig á kolskítugum bíl í vinnuna í morgun. Hann gekk framhjá forstofunni og leit til hliðar, stoppaði og velti þessu fyrir sér, fór svo alveg fram í forstofuna og skyggndist út um gluggann. Þá kom þetta geislandi bros. Það hvarf ekki einu sinni þegar ég sagði honum að hann þyrfti að gauka smá aurum að frænda fyrir þetta.

 


Alveg hress

og í fínu skapi, fékk líka frábærlega skemmtilegan gest áðan og komst að því að sameiginlegi heilinn virkar líka feis tú feis. Hehe.

Er mikið að vinna þessa dagana...

Nýjasta slúðrið er að nýi landsbankinn hrynji á mánudaginn.

Ég er hinsvegar ekki spámannlega vaxin og veit ekkert um það hvort þetta er satt en miðað við ástand mála þá treysti ég engu og engum.

Þið fyrirgefið kommentaleysið og bloggleysið hérna megin


Veiðiskapur

og hann gengur alls ekki eins og til er ætlast. Á límborðann hefur fest sig fluga og hundur en alls engin mús.

Þetta er hið undarlegasta mál og þó ekki, mýs eru klárar.

Ég ætlaði að blogga einhvern helling núna en ég hef bara steingleymt erindinu hingað....

Er að horfa á borgarafundinn og ég hef staðið mig að því undanfarið að sakna látins þingmanns, Vilmundar Gylfasonar, hann var magnaður stjórnmálamaður.

Þessi fundur er ágætur, ég náði ekki alveg nógu vel að heyra í Sigurbjörgu.

Ég var annars á vinnufundi í kvöld og niðurstaða atkvæðagreiðslu var ekki sú sem ég óskaði mér en svona virkar víst lýðræðið. Það var semsagt samþykkt að hækka taxtann um þá hækkun sem orðið hefur á vísitölunni. Sú hækkun dugar þó hvergi nærri til að vega upp í allan kostnað sem hefur margfaldast...í bili er öll þjónusta stöðvanna dýr og varahlutaverð er í hæstu hæðum. Hundrað prósent hækkun á t.d. bremsuklossum og það þarf nokkuð oft að skipta um slíkt í leigubílum. Við tókum semsagt annan okkar bíl af verkstæði í dag og það kostaði langleiðina í fímmtíu þúsund krónur. Við erum í sömu stöðu og flestir aðrir íslendingar, berjumst í bökkum við að ná reikningunum og náðum þeim nokkurn veginn þennan mánuð. Þá verðum við að sjá hvernig fer þann næsta mánuð og svona er þetta víða. Fólk reynir að lifa frá mánuði til mánaðar.

Líka við

Líka þið.

Ég vil fara að sjá lausnir á þessum vanda, ég vil sjá breytingar. Ég hef ekki heilsu í þessa þrautagöngu..Ég vil fá að hafa vinnu, leiðir til að standa við mitt...ég vil ekki að skuldirnar mínar umbreytist í óviðráðanlega ófreskju. Ég skal standa við mitt en þá heimta ég að hinn aðilinn að skuldum mínum standi líka við sitt. Ég hef þegar ákveðið að héðan í frá þá mun ég ekki líta niður á nokkurn þann mann sem missir sitt á uppboði, héðan í frá mun ég líta á fólk í þeirri stöðu sem stríðshetjur, þær töpuðu að vísu stríðinu en börðust þó.

ég vil að eitthvað sé gert fyrir fólkið í landinu áður en nákvæmlega allir fara á hausinn og þá meina ég allir.


Dagsbirtan (bæti bara aðeins við þessa)

og allt er betra í dagsbirtunni.

Vaknaði alveg skárri og ekki skemmdi að ég fékk fínar fréttir á sömu mínútunni.

Þetta hressti mig alveg við

Þessu vildi ég koma á framfæri svo þessi myrkurfærsla sé ekki það sem við blasir á síðunni minni í dag.

Reyni að krota inn meira seinna í dag

lopavestin 030Hérna er fín mynd af Hunda-Lappa sem sér ekki neitt og gerir ekki neitt annað en að klessa á allt.

Ég er búin að setja inn myndir af lopavestum sem ég er að prjóna núna, þau eru í lopapeysualbúminu og svo setti ég myndir af verknaðinum að þvo peysurnar. Það er nefnilega engin smáræðis drulla í lopanum þegar maður er að prjóna úr honum!

Kíkið á þetta...

Knús í daginn ykkar


Pirraðist áðan

Var á leið í heimsókn á spítalann og stöð 2 var á meðan ég fann til það sem ég þurfti að hafa með. Kemur þá ekki aftur svona útrásarvíkingalifandiminningargrein !!

Hvað er málið með þetta ?

Heilaþvottur ?

Ó úpps við settum allt á hvolf en sjáiði bara hvað við erum góðir strákar og eigum ossalega góða vini og ættingja....

Nú fer ég og hendi mér í vegg ala Jenný


Kompás í kvöld

Seinni hlutinn fjallaði um verkefni kvenna í Suður- Afríku.

Heillandi konur á ferð.

Hérna kemur linkur á starf þeirra, markmið og aðstæður þeirra sem þær eru að hjálpa.

Ég sagði við Steinar : Svona konur breyta heiminum

 


misskilningur

Stundum skil ég ekki manninn minn, mér finnst það kostur. Það er þá a.m.k. eitthvað eftir sem kemur á óvart eftir öll þessi ár.

Nýlegt dæmi kemur hér.

S: Ég keyrði yfir mótmælandann í dag

R: KEYRÐIRÐU YFIR MÓTMÆLANDA !!!!

(sá auðvitað fyrir mér blóðuga stöppu af mótmælanda,palestínuklút og skilti)

S: (alveg hissa) já þarna yfir mótmælandann ...hann þarna **** *******

R: Meinarðu að þú hafir keyrt mótmælandann ? Afhverju sagðirðu yfir ?

S: Sko, er hann ekki yfir þessu, sko aðalmótmælandinn ?

R: Jú kannski (guðslifandi fegin að þurfa ekki að skýra á blogginu tengsl mín við blóðugu hrúguna sem þvældist fyrir hugskotssjónum stuttu áður.)

Hann keyrði semsagt yfir-mótmælandann


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband