Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

veit ekki hvað snýr upp né niður

Kreppan er allsráðandi í öllum fréttatímum. Þessir eru meintir sakamenn eða voru það hinir ? Skýrslur og aðvaranir gefnar út og enginn mátti vera að því að lesa þær þannig að það endaði allt undir stól og ekki einu sinni vitað hvaða stól.

Ég hef bara ekki verið nærri í lagi undanfarið, ég á til að vera ansi meðvirk og verð oft ferlega aum fyrir hönd annarra ...jafnvel fólks sem ég þekki ekki haus né sporð á ...

Það er kostur og galli. Kostur vegna þess að á meðan ég get fundið til með öðrum þá er ég ekki frosin. Galli þegar mér líður hundilla og er vanmáttug gegn erfiðleikum sem ekki er hægt að leysa.

What to do, what to do ?

Þetta er erfitt ástand. Ég hef barist við að halda lífinu í lífsgleðinni, það hefur verið erfitt. Feldurinn á Kela hefur tekið við mörgum leyndarmálum, tárum og sorg síðan ég missti hann Himma. Rosalega hefði hann verið góður hjá mér í kreppunni, með prakkarabrosið sitt og gleðina sína alla.

Nú er ég farin að reyna að lesa fréttirnar með fjarlægð. Reyni að hella mér ekki ofan í sorg þeirra sem eiga erfitt um þessar mundir, fólk sem hefur tapað stórum fjárhæðum vegna kreppunnar.

Eins gott og það er að konur fái að spreyta sig sem bankastjórar þá hefði þurft að koma inn með konur sem ekki er hægt að klína óorðinu á.

En meðan það er ekki skýrt hvern á að skamma og ásaka fyrir þetta klúður allt saman þá er maður hálf bit ...ég vil að fram fari rannsókn á þessum málum okkur, útrásinnu, hruninu,samskiptum við bretana,undanskoti peninga og bara öllum vinklum á þessu. Fyrr verður ekki friður og fyrr verður ekki hægt að koma á trausti milli aðila og það þarf að vera.

Aðeins í léttari dúr...

ég fékk bréf frá bankanum mínum í dag og ætlaði bara ekki að þora að opna það...velti því lengi fyrir mér með skjálfandi höndum og hugsaði ; Hvað nú? Hvur skrattinn er þetta ?

Loksins þorði ég að gá í það....iss...nýtt debetkort var í umslaginu !

Talandi um traust


Vil endilega benda á

Þennan frábæra pistil

ja...

Við fórum í kvöld í messu og sungum með lögreglukórnum í Laugarneskirkju. Það var indælt.

Á leiðinni þangað hlustuðum við á útvarp, einhverskonar óskalagaþátt fyrir eldri borgara. Hann er ágætur.

Hjón sem eiga gullbrúðkaup fengu kveðju af því tilefni. Ég sprakk hinsvegar úr hlátri þegar þulur orðaði það svo : að þau væru ekki af baki dottin Errm

Þú og þinn hugsunarháttur, flissaði Steinar þegar ég útskýrði hláturskastið.


Dagur hinna hálfgerðu hörmunga

Byrjaði daginn á því að reyna að fá mér glóðarauga og eins og mér einni er lagið þá var það með þeim hætti að ekki nokkur maður hefði lagt trúnað á það og eins víst að Steinar hefði fengið hornaugu.

Here goes.

Sat á kamri..Errm (ég er alveg efins um hvort ég á að skrifa þetta) og það vantaði sárlega þar til gerð eyðublöð. Þau voru staðsett uppi á skáp fyrir ofan klóið. Sko svona pakking ...ég tók í óðagotinu Errm(þetta hljómar eins og heimilisfang Heiðu) ekki eftir að pakkingin var opið. Nú nú rúlluskammirnar flugu frelsinu fegnar ofan af skápnum, ég alveg gapandi og opinmynnt varaði mig hreint ekki á þessari óvæntu árás. Og ein lenti í auganu á mér....greit. Augað var haft lokað vegna viðgerðar fram eftir degi en svo var það opnað varlega for bisness.

Lappi er asnaskund...ég rakaði af honum flækjurnar í gær og hann er gráflekkóttur á rassinum, hálfsköllóttur. Hann varð verulega fúll yfir þessu í gær og neitaði með öllu að sitja á þessum asnarassi. Hann þrammaði hér um allt gólf fram eftir öllu kvöldi, ég var farin að spá í að gera úr honum lúffur ...en þá mundi ég það, feldurinn hans er götóttur. Ekki nenni ég að vera í götóttum lúffum þó það sé kreppa.

Ég á annars ágætar lúffur, áratugagamlar, sem mamma gaf mér. Þær eru gerðar úr kindahræi. Voðalega smart...orðnar hálftuskulegar en það er þá bara í stíl við gömluna.

Mér tókst að koma Birni verulega á óvart áðan. Hann ætlaði að finna sér hrein föt en fann ekki neitt. Þá lá leið hans í þvottahúsið og þar fann hann fötin sín. Í hrúgu. Óhrein. Hann kom inn í stofu -sárhneykslaður á þjónustu móðurinnar, og var bent á að hann gæti bara þvegið af sér sjálfur. Hann horfði á mig .....sársvekktur....svo kviknaði ljós í heilanum, hann gerði tilraun til að handleggsbrjóta sig á horninu. Svo tuðaði hann eitthvað um að hann myndi áreiðanlega gera buxurnar sínar bleikar og yrði að ganga um í þeim um bæinn.

Ég skal segja þér hvað má fara og hvað ekki sagði ég hughreystandi. Taktu gallabuxurnar þínar frá og settu rest í vélina á 40°. Hann hvarf fyrir hornið, kom eftir 25 sekúndur og var búinn að þessu. Ógeðslega flókið!

Kallar....

Nú er ég að horfa á sæta "götustrákinn" reyna að koma orði að hjá Agli Helgasyni. Hann rær lífróður til að bjarga sínum fyrirtækjum. Mér finnst nú að hann eigi bara að láta allt húrra í Bretlandi, ég er alveg svakalega móðguð út í Bretana....hryðjuverkalög hvað ?

Við Steinar enn og aftur sammála, okkur fannst strákur koma vel frá þessu viðtali

Dagurinn í dag á að verða ágætur, skreppum í afmæli á eftir...sæta afastelpan hún Emilía varð 6 ára sl miðvikudag. Svo er planið að skreppa í messu í kvöld. Ekki veitir manni af að reyna að hafa eitthvað fast í hendi á þessum tímum.

Mér finnst eiginlega eins og skelfingarsvipurinn sem kom á mig við bankahrunið sé orðinn fastur á mér. Ég persónulega stend í svipuðum sporum og ég gerði. Ég held vinnunni amk ennþá. En fólkið sem missir aleiguna, missir vinnuna og missir líf sitt vegna örvæntingar einnar. Það slær mig ofsalega illa þegar fólk tekur líf sitt, það er von. Það hittir svo sáran blett í hjarta mínu.

Megi Guð vera með öllum þeim sem eiga erfitt um þessar mundir

Knúsum hvert annað, verum vinir og hjálpumst að


Skroppið til dýralæknisins

í dag. Strákarnir mínir fara árlega til dýró til að fá ormalyf og þær sprautur sem hvuttar þurfa að fá.

Við Steinar glottum við tönn þegar við ókum innkeyrsluna að húsi dýró. Á kantinum þrammaði brúnaþungur krummi, á svipinn eins og dýró hefði skellt hitamæli undir stélið.

Þegar við komum inn þá voru fáir en stuttu seinna birtist háklassadama, ljóshærð með slaufur í feldinum sínum. Svaka skutla. Mínir menn góndu uppnumdir á hana en henni leist nú ekki vel á þetta stóru svörtu hlunka og gerði hvellar athugasemdir við þá. Lappi tók það nú ekkert inn á sig en Keli gerði sig eins lítinn og hann gat og skalf á stóru beinunum sínum. Eigandi skvísunnar glotti.

Þarna var líka fallegur kisi í fangi eigandans. Ég þakkaði fyrir að mínir fá ekki flog við að sjá kisur. Þeir litu á manninn með kisuna en héldu svo áfram að spá í skvísuna fallegu.

Kelmundur fór fyrst upp á borðið, það var kíkt upp í hann og í augun og eyrun. Allt í lagi með það allt. Kúlan á fætinum skoðuð og úrskurður kom, varta ! Hún taldi engin tormerki á að taka þetta af honum ef hann þyrfti einhverntímann í aðgerð út af einhverju en það væri þó aðallega fegrunaraðgerð enda gerði þetta honum ekkert til. Þá kom að því versta í heimi ( að áliti Kela) honum er sama um kreppu og álag, en hann er brjálæðislega hræddur við að láta klippa á sér klærnar. Þær voru orðnar ansi langar. Það er annaðhvort að klippa þær eða lakka þær sagði dýró.

Steinar hélt Kela sem skældi af hræðslu og með eins sannfærandi hætti og hægt var. Hann varð tárvotur niður allar kinnar, grey kallinn. Núna heyrist varla í honum hér á parketinu en sá var feginn þegar klærnar voru búnar og hann mátti fara á gólfið aftur. Lappi gelti á gólfinu stórhneykslaður á meðferðinni á Kela bróður sínum. Lappi á Kela og það má ekki meiða Kela !!

Næst var það Lappi. Hann er enn of þungur en hann hefur amk ekki bætt neitt meira við sig. Dýró mælti með að raka hann niður, hann er með svo leiðinlegan feld. Fer í það bráðlega. Hann var í ágætu lagi en þó, hann er kominn með gigt greyið og er farinn að stirðna í fótum sérstaklega er annar afturfóturinn verri en hinar þrjár lappirnar.

Við ræddum það á heimleiðinni að Lappi fær að vera til meðan hann er ekki kvalinn. Um leið og hann fer að eiga bágt þá viljum við frekar láta svæfa hann, hann er svo mikill vinur okkar að við getum ekki látið hann þjást.

Þeir voru afskaplega fegnir að komast heim aftur og steinsofa núna á gólfinu.

Það er hætta á að þeir verði veikir af lifrarveikisprautunni en það stendur bara í sólarhring og kemur þá strax sagði dýró.

 

 

 


jæja...

image

Það eru allskyns útgáfur af þessu í viðbót


Í kreppu er gott að hafa plan

við systur erum komnar með svoleiðis.

Ef allt fer til andskotans (meira en orðið er) þá ætlum við að flytja á vestfirði. Finna jörð þar sem enginn býr (er örugglega nóg af) og stunda sjálfsþurftarbúskap. Við ætlum að hringja í Gutta í Hænuvík ef við lendum í klandri, til dæmis ef rollurnar verða óvænt grænar eða eitthvað svoleiðis gerist.

Það er líklega best fyrir okkur að rækta upp rollustofn sem rúllar af fjalli á haustin í neytendapakkningum, ekki getum við staðið í því að stúta kvikindunum.

Ég er búin að velja mér belju, sá einu sinni svoleiðis með fjórum spenum. Í einum var rjómi, öðrum mjólk, í þeim þriðja undanrenna og svo var áreiðanlega jógurt í þeim síðasta.

Við ætlum að plægja akur og rækta Cheerios þar.  Við ætlum líka að setja niður bensíntré og tappa að því vikulega.

Helling eigum við eftir að skipuleggja og munum við þiggja öll góð ráð hérna á síðunni minni.

Kveðja

Systur í bullandi útrás


Jæja

með góðri aðstoð frá kerfisbloggurum hér þá hef ég fengið leiðbeiningar hvernig ég átti að loka fyrir þessi innankerfisskilaboð. Ég er búin að smella á nokkra bloggvini til baka en þið smellið bara á mig ef ég er lengi.

Ég er ekkert skárri en aðrir í þjóðfélaginu, utan við mig þessa dagana.

Nú er ég hinsvegar bjargföst á þeirri skoðun að við eigum að sparka í norðurendann á Bretum...oj oj oj.

Geirharði heillaði mig heldur ekki í fréttum stöðvar 2 þegar hann hvíslaði að ráðuneytisstjóranum einhver komment um Helga Seljan (eitthvað um að Helgi væri bæði fífl og dóni)

Hey ég veit. Við förum bara í fegurðarsamkeppni við Breta. Ekki getum við farið í stríð, við hérna vopnlausu illarnir sem eigum ekkert voðalegra en skærin í eldhúsinu


Læknamistök ?

Kona spyr sig
mbl.is Samtal við Árna réð úrslitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarlegir dagar

Anna sendu mér email.

Ég var að vinna í dag og mér finnst þjóðfélagið halda svolítið niðri í sér andanum. Hugur minn leitar til þeirra sem eiga erfitt og munu eiga erfitt við þessar erfiðu aðstæður.

Við sátum niðri í bæ áðan, gamla settið, og veltum þessu fyrir okkur. Við vorum á kafi í heimspekilegum vangaveltum þegar við hlið okkar lagði jeppi. Í honum var ungur maður og síminn hans hringdi um leið og hann stöðvaði bílinn. Hann opnaði hurðina og við heyrðum hann segja : ég er að leggja á planinu og er að koma. Svo skálmaði hann af stað með svarta skjalamöppu og áleiðis að banka þar í grennd. Spor hans voru óneitanlega þung og nokkuð táknræn, þau þyngdust eftir því sem nær húsinu dró.

Fólk æpir og heimtar hausa á fati ( ekki sviðahausa þó það væri við hæfi á haustslátrun) Ég skil ekki svoleiðis hugsunarhátt. Ég er viss um að menn gerðu sitt besta á hverjum tíma. Starfslokasamningarnir voru hins vegar ógeðslegir en af síðustu tíðindum má gera sér í hugarlund að allar slíkar stórfjárhæðir séu að mestu tapaðar í þessu ofviðri. Ég sárfinn til með þeim mönnum sem staðið hafa vaktirnar löngu undanfarið.

Ég vil ekki hlakka yfir óförum annarra. Það er ekki fyrir mig.

Einhver gæti samt túlkað það sem hér kemur næst sem "hlakk"

í fréttum dagsins mátti sjá Pétur Blöndal stika gráfölan inn í bankann sinn að aðgæta með sitt hlutafé, aðspurður sagðist hann ekki eiga neitt á bankareikningum. Oft hefur manni fundist hann skorta skilning á aðstæðum fólks sem lendir í hremmingum fjárhagslega. Fólk hefur óskað honum alls ills í örvæntingarfullri tilraun við að kenna manninum lexíu. Kannski fékk hann sína áraun núna, hver veit ?

Ég er hinsvegar aðeins að klúðra málum hvað varðar mig persónulega en þá er bara að hysja upp um sig og halda áfram þramminu í átt að ljósinu eina. Það er líklega eina vegaljósið sem ekki bregst.

Knús á línuna


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband