Færsluflokkur: Bloggar

Rannsókn

á atferli viðskiptavina American Style. Ég sat í rúman hálftíma og virti fyrir mér mannlífið, það hafa örugglega verið rúm 80% viðskiptavinanna of þungir og þar á meðal ég sem beið eftir kvöldmatnum eins og ungi í hreiðri.

Næst ætla ég að sitja fyrir utan grænan kost.

Það skildi enginn pointið í færslunni á undan enda ekki nema von, ég er svo "djúp". Ég var bara að birta þetta vegna þess að enginn gerði það annar .....og ég tel að það hafi verið vegna þess að um konu var að ræða. Þið bara leiðréttið mig ef ég hef rangt fyrir mér...Wink

Ég hef verið í hrekkjalómaskapi í dag, það var gaman í vinnunni...ja svona að mestu leyti. Húsband einnar bloggvinkonu stóð tvisvar fyrir sjálfstæðum skemmtiatriðum og í annað sinn með aðstoð sinnar flottu frúar.

Nú er ég laus við afgreiðsluna fram að mánudegi en ég þarf að hitta Bonzó á morgun..við félagarnir ætlum að reyna að æfa okkur aðeins meira í vinnunni.

Það er hæpið að ég nenni að blogga meira í kvöld og vil minna á að líta við á síðunni hennar Gillíar og skrifa fallegar kveðjur til fjölskyldunnar hennar. Slóðin er www.gislina.blog.is og svo er hægt að kveikja ljós á kertasíðunni hennar líka og skrifa þar til þeirra. Þetta eru erfiðir dagar hjá þeim.


Mótvægisblogg


mbl.is Kona sýknuð af ákæru fyrir líkamsárás
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stundum er maður heillaður

af fólki. Manni finnst það höfða til sín, á margan hátt. Maður dáist að einhverju í fari þess, lífsgleðinni. Þetta fólk þarf maður ekki að hitta til að komast að mannkostum þess. Það er bara frábært fólk.

Það eru margir hérna á moggabloggi sem hafa þessi áhrif á mig. Fólk sem segir frá lífinu sínu í einlægni og kjarki þess sem veit betur.

Í dag tek ég ofan fyrir þessum vinum mínum hérna, góða og fallega fólkinu sem gerir líf okkar hinna bærilegra án þess að vita um það.

Ein þessara merkiskvenna lést í morgun, minning hennar verður ljós í lífi svo margra. Elsku Gillí er látin. Munið kertasíðuna hennar hér til hliðar, þar má setja inn samúðarkveðjur til fjölskyldunnar hennar sem á svo erfitt núna. Megi Guð vera með ykkur öllum.

 

Double lights

Að fljóta sofandi að feigðarósi

er það sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa um voðaverkið í Finnlandi í gær. Ungi maðurinn sem um ræðir hafði sett myndband á YouTube daginn áður þannig að lýðum mátti vera ljós fyrirætlun hans. En því miður sá enginn þetta fyrr en eftir að skelfingunni lauk.

Við hér búum hörmulega að þeim börnum og ungmennum sem tolla ekki í norminu. Greining tekur allt of langan tíma og úrræðin eru fá og stundum ekki mönnuð fagfólki. Hjalli minn var t.d. vistaður á meðferðarheimili sem ekki hafði á að skipa fagfólki, þar var um að ræða bónda. Það hafa allir gott af því að moka skít, það efast ég ekki um en meira hlýtur að þurfa að koma til. Öflugt meðferðarstarf með fagfólki hlýtur að vera það sem krakkana vantar. Svo má moka skítinn í hjáverkum. Þarna var þessu öfugt farið, störfin komu fyrst og meðferðin á eftir. Það mætti skoða árangur slíkra meðferðarheimila.

Það sem mér sveið oft sárast með uppeldið á mínum var hversu mikill tími fór í brauðstritið. Þeim hefði ekki veitt af betri leiðsögn í gegnum lífið í upphafi þess. En verandi eina fyrirvinnan þá varð að hugsa um mat í litla kroppa og föt utan á sömu kroppa. Ekki bruðlaði móðir með neitt, aldrei farið til útlanda og helst aldrei út fyrir hússins dyr. Mér fannst besti félagsskapurinn vera heima, hjá 4 kátum krökkum. Við ræddum það einmitt í gær við Björn, í öllu baslinu þá söknum við þess tíma að einhverju leyti. Það var samt gaman að vera til þrátt fyrir allt.

Mitt óska þjóðfélag myndi gera konum kleift að vera heima með börn sín, það myndi búa mörgum sinnum betur að börnum sem þurfa meiri stuðning. Óskaþjóðfélagið mitt myndi fara betur með þá sem minna mega sín, aldraða og öryrkja.

Auðvitað myndu einhverjar konur telja það skerðingu á sínu frelsi að eiga að vera heima með börnin, en við hvað eigum við að miða ? Er ekki kominn tími til að forgangsraða betur ?

Þið munið hvaða dagur er...fimmtudagur og þann dag hugsa ég Tounge


Borgarleikhúsið

í kvöld. Það var ferlega gaman að afmælissýningunni hans Ladda. Það er ekki hægt að fara út í að lýsa sýningunni enda eiga einhverjir eftir að fara á þessa sýningu. Hún er vel þess virði að sitja þarna eitt kvöld, virkilega skemmtileg.

Björn Gísli fór í fyrsta sinn í leikhús með mömmu sinni. Sumt á maður að prufa einn en sumt er í lagi að prufa með mömmu. Hann skemmti sér konunglega eins og Sigga og hennar strákar.

Ég held að ég hafi ekki ætlað að segja neitt meira í bili....

Munið ljósin fyrir hana Gillí og færsluna mína um fjölskyldu í vanda vegna alvarlegra veikinda...að vísu sá ég mér til mikillar gleði að kvenfélag Keflavíkur (formaðurinn Helga bloggvinkona mín) ætlar að láta til sín taka. Mikið gleður það mig.

Mikið vildi ég að mæður þyrftu ekki að baslast með veik börn, alvarlega veik börn...og það á að vera bannað að mömmur lifi börnin sín.

Klús eins og Himmi hefði sagt. Góða nótt.

Annars ætlar lítill ömmustrákur að koma til ömmu á morgun, það verður sko skemmtilegt að hitta Patrek Mána...elsku kallinn litli


Afrit af öðrum vef

Hjálparbeiðni

Vigdís Ellertsdóttir er einstæð móðir þriggja barna 9 , 11 og 13 ára.
Fjölskyldan býr í Njarðvík.

Fyrir nokkrum dögum greindist elsti drengurinn, Sigfinnur, með mjög slæmt
krabbamein í lifur og einnig fundust meinvörp í báðum lungum þannig að
ástandið er ekki gott.

Til að létta undir með Vigdísi og börnum hennar á þessum erfiðu tímum
hefur verið opnaður reikningur í Landsbankanum og leitum við til ykkar
sem sjáið ykkur fært að láta eitthvað af hendi rakna.

Munum bara að margt smátt gerir eitt STÓRT. Það er engin upphæð lítil.

Reikningur : 0142-05-072955 kkt: 140860-3289

Með kærri kveðju og fyriframm þökk.

VINKONUR.


hrmpf

ég held að ég hafi farið öfugum megin framúr í morgun. Að öllu jöfnu hefði það ekki gert til en nú er ég í vinnunni. Það er óheppilegt að vera krumpaður í vinnunni. Ég er bæði búin að virkja pókerfeis og Pollýönnu. Annað hvort hlýtur að fara að skila sér bráðum.

Allt undanfarið ár hefur verið álag í vinnunni, það er mikið að gera hér og oft alls ekki nógu margir til að vinna þau störf sem fyrir liggja. Þetta veldur aukaálagi og það safnast upp þreyta. Það er slæmt.

Eftir að Himminn minn fór þá er ég minni bógur, þolmörkin eru áberandi neðar. Kjarkurinn er minni og úthaldið nánast ekkert. Svo fer ég inn á síður þeirra kjarnakvenna sem kljást við veikindi og ég verð reið við sjálfa mig.

Kvöldið samt lofar góðu, við systur ákváðum fyrir löngu að okkur veitti ekki af smá gleði og pöntuðum miða á Ladda. Með okkur fara þessir 4  karlar sem eru heimilisfastir hjá okkur, synir hennar og Steinar og Björninn.

Mér gengur ekki vel að sofa og það er kannski skýringin á krumpunni þennan morguninn. Það er bara segin saga að um leið og ég sé koddann þá kemur Himmi upp í hugann og ég skottast með honum í huganum um allar jarðir. Það er svo margs að minnast. Hann var mikill gleðigjafi eins og þau öll krakkarnir. Þau eru miklir húmoristar og hafa gaman af lífinu. Nú er allt ónýtt.

Geðvonskutauti lokið í bili....


Stórmerkileg kona fallin frá

Þessi kona var ein þeirra sem ég dáðist reglulega að, hún sýndi að þar sem er vilji þar er vegur.

Fréttin er tekin af Vísi.

Vísir, 06. nóv. 2007 21:32

Andlát: Marta G. Guðmundsdóttir

mynd
Marta G. Guðmundsdóttir lést á krabbameinsdeild Landspítalans í gær.

Marta G. Guðmundsdóttir kennari og Grænlandsjökulsfari lést á krabbameinsdeild Landspítalans í gær, 37 ára að aldri.

Marta fæddist 29. apríl 1970 í Reykjavík. Hún var dóttir hjónanna Hallberu Ágústsdóttur húsmóður og Guðmundar Finnssonar pípulagningarmeistara í Grindavík. Marta lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautarskóla Suðurnesja og kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands. Hún starfaði sem grunnskólakennari bæði á Englandi og í Grindavík.

Marta var liðtæk íþróttakona, lék körfuknattleik með Grindavík og Keflavík, knattspyrnu með Grindavík og var í unglingalandsliðinu í körfuknattleik.
Marta vakti þjóðarathygli þegar hún í maí og júní sl. gekk á gönguskíðum þvert yfir Grænlandsjökul til að vekja athygli kvenna á mikilvægi þess að fara reglulega í brjóstaskoðun og til að afla fé til frekari rannsókna á brjóstakrabbameini.

Sjálf greindist Marta með brjóstakrabbamein í október 2005 og gekkst undir uppskurð ásamt lyfja- og geislameðferð í kjölfarið sem lauk í júní 2006. Meðan á meðferðinni stóð reyndi Marta að setja sér ýmis markmið til að ná fyrri heilsu að meðferð lokinni.

Marta einbeitti sér að því að hreyfa sig eins og þrek leyfði og einnig fannst henni mikilvægt að reyna að lifa sem eðlilegustu lífi þrátt fyrir veikindin og tók þátt í daglegu amstri eins og hún treysti sér til. Marta fór í nokkrar gönguskíðaferðir hér heima, m.a. á Sprengisandi, til að undirbúa sig fyrir Grænlandsferðina.

 

Marta sinnti starfi sínu áfram sem kennari þar til fyrir skömmu er hún greindist með illvíg meinvörp í höfði.

Marta lætur eftir sig eina stúlku, Andreu Björt Ólafsdóttur, sem fædd er 1995.


Fjölskyldu hennar sendi ég samúðarkveðjur


Hvenær verður komið nóg?

Bankar græða á tá og fingri en herða kverkatakið á almennum viðskiptavinum. Jú gott og vel, það er hægt að færa lánið milli eigna. Dæmið ss ekki alveg harðlæst en hvert stefnir þetta allt með hækkandi fasteignaverði og minni aðgangi að lánsfé ? Björn sagði mér í dag að flestir vinir hans byggju orðið heima, það kæmi til vegna þess að ungt fólk réði í dag ekki við íbúðakaup. Svo kom þessi frétt sem ég vitna í.

Nú er að sjá hvort hinir bankarnir koma með viðlíka reglur.

Ja svei...nóg borgum við samt í afleiddan kostnað af því að vera blankur...og þurfa lán.


mbl.is Breytt kjör við yfirtöku íbúðalána Kaupþings banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lét mig hafa það

og er sátt með sjálfa mig. Þegar ég var búin að skrifa pistilinn um vinnuna mína þá bara stökk ég af stað og fór að vinna. Ég vann ekki lengi en fór þó nokkrar ferðir. Ég mun ekki fjalla að ráði um vinnuna mína enda bundin þagnareiði í allar áttir. Það kom út bók um árið um leigubílasögur, ég fékk hana í jólagjöf og las hana. Ég var lengi óviss um að sú bók ætti rétt á sér vegna þess að við eigum ekki að segja frá því sem gerist í bílunum, bókin var hinsvegar almennt orðuð og ekki hægt að þekkja nokkurn mann af þeim sögum sem birtust. Við bílstjórarnir tölum hinsvegar nokkuð saman sérstaklega um fólk sem við lendum í vanda með, það er nokkurskonar áfallahjálp og líka viðvörun fyrir aðra bílstjóra svo þeir passi sig á viðkomandi farþegum eða ákveðnum húsum. Stundum (sérstaklega um helgar) hættum við að senda á ákveðin heimilisföng. Þá erum við kannski búnar að senda bíla þangað og það kemur aldrei neinn farþegi. Bílarnir í "plati" eins og það er kallað. Þá er kannski 12 manna partý og hringt til okkar og pantaðir 4 bílar, það er líka hringt á Hreyfil og pantaðir 4 bílar. Í þessu dæmi verða alltaf 4 bílar afgangs sem eyða tíma í að bíða fyrir utan hús þar sem enginn kemur og á meðan bíður annað fólk eftir því að fá bíla. Og við fáum skammir fyrir að vera lengi á leiðinni og bla bla bla.....

Munið ljósasíðurnar...

PS

Björn þurfti í banka í dag, hann spurði móður sína hvort hann ætti ekki bara að fara í þjónustufulltrúa ? Jú áreiðanlega sagði mamman. ,,Ég fer bara á þessa sem ég þekki !" dagði kokhraustur Björn. ,,tihíhíhí" heyrðist í móðurinni.,, Björn maður fer ekki Á konur bara sisvona" sagði móðir. ,, Ohh mamma, þú átt ekkert að hugsa svona!! Þessi brandari var að skjótast upp í hausinn á mér "

Björn fór inn í bankann, mamma beið úti...og glotti.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband