Færsluflokkur: Bloggar

Lausbeislaða þjóð

sem stundum hagar sér einkennilega. Helgi eftir helgi eru fréttir af veseni í miðborginni,svo og svo margir vistaðir í fangageymslum. Við glottum góðlátlega og hristum hausinn,það líða nokkrir dagar og svo hefst vitleysan öll á ný.

Í 20 ár hef ég haft milli lifibrauð af fólki sem er drukkið. Ég er í 2 vinnum og önnur snýr að því að senda þessu fólki leigubifreiðar en hin snýr að því að aka þeim sjálf sem leigubifreiðarstjóri í Reykjavík. Eitt það versta sem ég lendi í þegar ég er að aka eru ælur í bílinn, mér er ekki nokkur leið að þrífa þetta upp. Mér finnst þetta svo ógeðslegt. Miskunnarlaust ætlast fólk til þess að maður hreinsi þetta upp eftir það. Því finnst það vera inn í gjaldinu sem ekið er gegn. Mín eina leið er oftast sú að hringja í karlinn minn og fá hann til að hjálpa mér við að hreinsa þetta. Ég hef fengið nánast alla mögulega líkamsúrganga í bílinn minn. Fólk er ótrúlega ósiðað í leigubílum. Svo rífst fólk og skammast yfir því að ekki fáist leigubílar í miðborgina. Málið er að eftir ákveðinn tíma á nóttunni þá hættum við flest, þessi gömlu, að aka í miðborgina. Þá er líka kominn sá tími sem fólk er að fara í flug. Notalegur flugfarþegi slær við byttu úr bænum,anytime. Stundum mætti fólk minnast þess að við erum til að veita ákveðna þjónustu, við erum ekki til að skeyta skapi sínu á. Leigubílar eru ekki almenningsklósett, bíllinn þarf að fara aðra ferð og enginn vill fá leigubíl -illa lyktandi með fúlum bílstjóra vegna þess að síðasti farþegi lét eins og asni í bílnum.

Það tekur mig c.a. 3 mínútur að komast að því hvort farþeginn minn er utanbæjarmanneskja eða borgarbúi. Undantekningarlaust spjalla utanbæjarmenn og eru bara þrælskemmtilegir farþegar meðan borgarbúinn steinþegir og virkar fúll, hann er það kannski ekki, viðkomandi er kannski bara að hvíla sig enda býr hann í hröðu og þreytandi þjóðfélagi.

Oftast höfum við kvenbílstjórar haft betra næði í vinnunni en nú er annað uppi. Dómurinn í dag er annar dómurinn á stuttum tíma þar sem ráðist er að kvenleigubílstjóra. Dómurinn í dag. 

Fáir voru fegnari en ég þegar posarnir komu í bílana, fram að því hafði einungis verið tímaspursmál hvenær leigubílstjórar hefðu verið rændir. Við sluppum við það ef frá er talin árásin í vor. Við erum oft á tíðum varnarlaus, ein í bílunum. Suma farþega tekur maður ekki upp í, við erum fljót að þekkja vandæðafólk í sjón og vandræðahús. Stundum er það ekki nóg.

Síðan ég missti Himma þá hef ég ekki farið nema í aðra vinnuna, ég hef bara ekki orkað hina. Nú ætla ég að fara að breyta þessu og koma mér af stað í báðum vinnunum. Það verður átak en ég skal, ég skal.

Að lokum...komið fram við aðra eins og þið viljið láta koma fram við ykkur. Þetta gengur allt miklu betur svoleiðis.

Munið ljós fyrir Gillí.


Ég er eðal

en ég fattaði það ekki fyrr en í gær. Hjá mér eins og öllum öðrum eru mánaðamót og þá þarf að greiða reikninga heimilisins. Þeir eru náttlega ýmiskonar, húsnæðislán,bílalán og skatturinn. Hakaði bara í allt og borgaði á föstudaginn. Svo fór ég að hugsa málið, innanum þarna var einn sem kemur bara tvisvar á ári. Hann er búinn að vera þarna ja...15 ár eða eitthvað. Man nú ekki árið sem lífhræðslan greip mig en þetta er jú líftrygging. Ég er sko eðalkona, líftryggð. Miðað við fréttir undanfarið þá er ekki auðvelt mál að vera með slíka tryggingu. Ef þú færð krabba þá gengur það ekki, jafnvel þó það sé bara frumubreytingar sem næst að koma í veg fyrir. Ef þú ákveður að HÆTTA að drekka og ferð í meðferð, þá færðu ekki tryggingu. Ef þú hinsvegar heldur áfram að drekka og talar ekki um það við tryggingasölumanninn (já og nærð að komast ófullur og laus við mikinn tremma og skjálfta) þá tryggja þeir þig.

Ég ætla ekki að segja tryggingunum að ég sé með líkþorn á litlu tánni.

 


Gerðum gott

úr gærdeginum. Solla kom eftir að hafa farið upp í garð til litla bróður síns og mér datt í hug að fara með þeim út að borða. Þeim Jóni leist vel á það og við skelltum okkur á grillhúsið. Það er okkar staður, þangað förum við nokkuð oft.

Svo fórum við gamli bara að sofa snemma. Og ég vaknaði aftur um hálfþrjú, glaðvaknaði. Lá uppí rúmi og þá fór rafmagnið. Ég þorði ekki annað en að hnippa í Steinar enda er hann með cpap vél sem gengur fyrir rafmagni. Þar með vaknaði hann og við röltum hér um húsið í klukkutíma með kertaljós. Agalega rómó...okkur tókst loksins að fara að sofa aftur og enn rafmagnlaust. Ég rumskaði svo undir morgun, útvarpsklukkan blikkaði og kallinn kominn með vélina aftur á sig.

Ég sé fátt markvert í fréttum enda ekki alveg búin að rannsaka það nógu vel.

Við Björn erum enn að spá í þessa 460 ára kúskel, já þessa sem vísindamennirnir hentu vegna þess að þeir föttuðu ekki hversu gömul hún var. Hvernig líf er að vera kúskel í 460 ár ? Hafiði hugmynd ? Ekki við en Björn heldur að hún hafi beðið eftir að einhver bankaði ?

Munið eftir Gíslínu og öðrum ljósasíðum sem eru hér í hlekkjum.

Smáviðbót við færsluna, nenni ekki að skrifa nýja og bæta þessu við, en þetta fann ég á vísi.is. Það er um áfengisfrumvarpið.

Á móti:
Steingrímur J. Sigfússon, VG
Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Samfylkingu
Álfheiður Ingadóttir, VG
Siv Friðleifsdóttir, Framsóknarflokki
Magnús Stefánsson, Framsóknarflokki
Ellert B. Schram, Samfylkingu, með fyrirvara
Atli Gíslason, VG
Guðbjartur Hannesson, Samfylkingu
Karl V. Matthíasson, Samfylkingu
Jón Magnússon, Frjálslyndum, á móti í óbreyttri mynd
Árni Þór Sigurðsson, VG
Ögmundur Jónasson, VG
Bjarni Harðarson, Framsóknarflokki
Árni Johnsen, Sjálfstæðisflokki
Katrín Jakobsdóttir, VG
Jón Bjarnason, VG
Þuríður Bachman, VG
Katrín Júlíusdóttir, Samfylkingu

Fylgjandi:
Pétur Blöndal, Sjálfstæðisflokki
Ágúst Ólafur Ágústsson, Samfylkingu
Arnbjörg Sveinssdóttir, Sjálfstæðisflokki
Birkir Jón Jónsson, Framsóknarflokki
Bjarni Benediktsson, Sjálfstæðisflokki
Kristján Þór Júlíusson, Sjálfstæðisflokki
Birgir Ármansson, Sjálfstæðisflokki
Sigurður Kári Kristjánsson, Sjálfstæðisflokki

Neita að svara:
Kristján L. Möller, Samfylkingu
Kolbrún Halldórsdóttir, VG

Ef maður skoðar aldursamsetningu þá eru meðmæltir hinir yngri þingmenn, sem lífið hefur enn ekki barið til hlýðni. Þeir eru eru á móti eru aftur reyndir og þroskaðar sálir.

Mikið ferlega er samt erfitt þegar lífið lemur mann sífellt niður - lærdómurinn sem maður dregur af því er samt nokkuð magnaður. Ég er núna í lokaáfanga ,,að missa barn" . Guð má vita hvenær það nám klárast ....


Var að hugsa um að nenna ekki

að blogga...en ákvað að nenna því samt.

Á forsíðu er fjallað um þá staðreynd að það eru 6 mánuðir frá hvarfi Madeleine litlu. Mamma hennar heldur enn í vonina um að hitta hana aftur, eðlilega. Ég skil harm hennar betur nú en ég gerði, eins og ég skil betur ótta foreldra sem þjást með langveikum börnum sínum. Munurinn á mér og móður Maddie litlu er sá að mínu er lokið, ég VEIT hvar Hilmar er. Hún heldur enn í vonina um að finna barnið sitt. Hennar barn er líklega jafndáið og mitt barn, og þó. Kannski er telpan í höndum barnaníðinga eða seld í mansal. Þá er Hilmar minn vísast heppnari.

Undanfarið hafa sótt að mér pælingar um það hvar Hilmar sé. Liggur hann þarna upp í Gufunesi eða er til eitthvað æðra sem tekur við okkur að þessu lífi loknu ? Það getur náttlega enginn svarað þessu,þetta veit enginn með vissu.

Ég sakna hans hvern dag, stundum er sorgin kæfandi þung. Ég hugsa um allt sem hann missti af. Hann fékk ekki að verða fullorðinn (hann var svo mikið barn í hjarta sínu) hann fékk ekki að verða faðir. Hann missti af svo miklu. Himmi átti að koma upp nafni móður sinnar (sjálfhverf ?) Það gerist ekki. Hann hét Már að millinafni, það er vegna þess að pabbi var kallaður Hilmar Mýr til styttingar á Mýrkjartansson .Björn átti að koma upp nafni afa síns, Hafsteins Björnssonar. Hann ber svo líka nafn föður síns.Hjalti fékk bara að eiga nafn sitt mest aleinn. Hann heitir bara eftir Hjalta í sögunni um Önnu frá Stóru Borg og Hjalta litla í sögum Stefáns Jónssonar. Millinafnið hans er í höfuðið á ömmu hans, Þórdísi. Sólrún Björk heitir eftir föðursystur sinni sem dó ung, sú litla var með Downs og þá vísast hjartagalla og það sem stundum fylgir þeim litningagalla. Þá voru bara ekki eins mikil úrræði og nú eru til að laga þessa galla. Mig dreymdi hana þegar ég gekk með Sollu. Ég gat lýst barninu sem mig dreymdi fyrir Erlu,ömmu hennar Sollu og hún þekkti sína. Hjördís heitir eftir föðursystur minni, indælli konu. Hún lá mikið veik á sjúkrahúsi þegar ég gekk með Hjöddu síðustu vikurnar og ég hét því á hana að ef hún yrði komin heim þá myndi ég láta skíra eftir henni....annað skilyrði var að ég gengi með telpu. Millinafnið hennar er í höfuðið á föðurömmunni, henni Eddu frá Hafnarnesi.

Af öllum þessum sem þau heita eftir eru fáir á lífi. Pabbi er hér enn, tæplega áttræður. Pabbi strákanna er líka hérna enn. Aðrir eru farnir.

Bráðum koma jólin, ég er komin með smá jólafiðring en hann er blandaður miklum kvíða. Í fyrra var Himmi ekki hjá mér á jólum, ég ætlaði hins vegar að hafa hann hérna þetta árið ásamt Hjalta og Anítu. Ég vissi ekki fyrr en eftir síðustu jól að þau hírðust saman þrjú heima hjá Hjalta. Eitthvað borðuðu þau nú en ekki held ég að það hafi verið hefðbundinn jólamatur. Þetta kvelur mig nú. Þetta árið ætla ég að reyna að smala saman sem flestum af mínum, öllum sem ekki ætla að vera hjá öðrum foreldrum. Ég held að ég leggi á borð fyrir Hilmar líka. Æj það er sárt að hugsa um þetta....

Munið eftir Gillí okkar. Ég leit á kertasíðuna hennar áðan og það loga 230 falleg kerti. Hver og einn má vel kveikja á fleiri en einu, ekki veitir henni af öllu í þessum ójafna bardaga. Biðjum líka um að fjölskyldunni verði sendur styrkur. Sporin þeirra þekki ég orðið of vel.

Candlelight-497144


hmm margt að gerast

fólk rífst á annarri hvorri bloggsíðu um Bónus og Krónuna. Ég hallast að því að um rógburð sé að ræða. Afhverju segið þið, vegna þess að ég er ekki búin að skilja hvernig á að framkvæma glæpinn...þegar inn kemur einhver að taka könnun þá er of umfangsmikið verk og óframkvæmanlegt að breyta í snatri hillumerkingum. Verðkönnunarnáunginn sagði að þeir tækju hilluverðið. Málið er að afbrotið þarf að vera framkvæmanlegt.

Rjúpnaveiðitímabilið er hafið. Björgunarsveitir voru kallaðar út í gær. Einn skyttan skakklappaðist full á fjöll og stakkst á hausinn. Lá í roti en vegfarandi (staðkunnugur líklega) rak augun í spánnýja þúfu í landslaginu og hringdi í þartilgerð yfirvöld. Þúfan var reist við og skutlað til byggða. Af afla þúfunnar fór engum sögum. Ekki vildi ég vera heiðarleg,ófull skytta þar sem næsti er svona fullur, það er líkur á því að hann plaffaði bara á mann í misgripum Frown

Ég er aldrei með rjúpur á jólum, hef tvívegis smakkað rjúpur og fannst þær bara ekki góðar *hóst* vondar bara. Ekki þýðir að kenna matreiðslunni um það, seinna skiptið var þetta framborið á margra stjörnu veitingastað.

Ég er búin að vera umkringd dularfullum hljóðum í morgun...bank bank klonk klonk...frammi. Þorði fram eftir klukkutíma, eldhúsglugginn að skrölta. Áðan heyrði ég furðulega kveinstafi og tíst, hjartað fór aftur niður í brækur, nýkomið þaðan. Ég hreyfði mig ekki og eyrun sperrtust, ég var að hugsa um að hætta að anda en fannst eins og það kæmi niður á athyglinni ja amk bráðlega.....ég hlustaði og hlustaði....

fannða.....garnagaul í Lappa sem sefur hér.

Er maður að vera paranojaður hér í ellinni Blush

Ég leit við á kertasíðu Gillíar í gær áður en ég fór að sofa, ég fékk tár í augun. Það voru komin 100 kerti á síðuna hennar. Á bakvið hvert kerti er fyrirbæn, kannski ekki skrifleg en hún er þarna í hugum fólks og hjarta. Það er alveg magnað að fylgjast með þessu. Síðast þegar ég gáði þá voru þau komin yfir 150.

Linkur á kertasíðuna hennar er hérna til hægri.

Candlelight-497144

MSN er bilað, Björn skrapp út en ég fæ hann til að setja það upp aftur ef hann kemur áður en ég fer í vinnuna.


opinberun

ég er hrekkjalómur og er búin að ala upp nokkra aðra hrekkjalóma. Fjölskyldan mín hefur alltaf verið stríðin. Það er alveg sama hvert litið er í því. Mamma var alvörugefnari en átti alveg sín prik í þessu eins og öðru. Það er til heima hjá pabba heil myndasería af okkur mömmu að fíflast eitthvað, við vorum að klára filmuna í myndavélinni Errm 

Ég hef stundum nokkuð gaman af því að stríða mínu fólki, ég passa náttlega að fara ekki of langt með það. Björn er mikill skotspónn stundum, hann hefur gaman að því. Hann borgar líka móður sinni til baka óskipt ef því er að skipta. Það tekur enginn sig mjög alvarlega hérna.

Eftir að Himmi okkar fór, sem var ekki minnst stríðinn, þá höfum við verið nokkuð þyngri en venjulega. Hrekkataktarnir eru þó aðeins að skilja sér til baka. Við erum sem sagt að verða sjálfum okkur lík hérna. Það er samt grunnt á sársaukann og það lærum við bara á, dag í senn.

Ég hef oft haft gaman að húmor annarra bloggara og ekki minna af alvörugefni annarra bloggara. Ég fer ekki oft inn á síður (ofsa)trúarbloggara en hef þó lesið. Stundum hef ég velt fyrir mér hvað þeir myndu gera ef maður færi inn og setti ; skrattinn sjálfur! í athugasemdirnar þeirra. Er það stikkorðið svo þeir fljúgi af skaftinu ? Ég meina það....

Erill var með vesen í gær, ekki þar fyrir að það kæmi á óvart. Það var mikið að gera á kvöldvaktinni hjá mér í gær. Svo fannst gömul miltisbrandskusa í Garðabæ. Hún fer í Keflavík í urðun. Það mætti nú bjóða Erli með.

Ég er að hlussast inn í mikla vinnuhelgi en sem betur fer hundanna vegna verður Björn heima.

Munið eftir fyrirbænum og kertaljósum fyrir Gillí.

Candlelight-497144


Bænir

Candlelight-497144

Mínar og hugur eru hjá Gillí og hennar fólki. Kertasíðan hennar


Skýrslan um fangelsismál

ég er búin að lesa hana alla og vista afrit á tölvunni minni. Margt sem þar kemur fram er góðra gjalda vert, áherslan nokkur á málefni kvenfanga. Margrét Frímannsdóttir var formaður þessarar nefndar, hún hefur löngum sýnt það að hún er með hjartað á réttum stað. Hennar hef ég saknað úr stjórnmálum. En að skýrslunni, orð eru til alls fyrst. Nú er að sjá hvernig þessum málum vindur fram í framtíðinni. Nokkuð er fjallað um fyrirhugað fangelsi á Hólmsheiði sem mér hefur heyrst undanfarið að sé jafnvel að detta út, í staðinn á að byggja upp fyrir austan. Ok gott og vel. Það þarf að setja miklu meiri kraft í að endurhæfa fangana, það er hagur okkar allra að þeir komi betri til baka. Það eru ekki bara mæður þeirra sem græða á því, samfélagið allt. Þetta fólk er okkar fólk og við getum ekki snúið við því baki. Því miður hefur það oft verið þannig að nefndir eru skipaðar og skýrslum þeirra svo stungið undir stól og ekkert gert meira í málinu. Þessu mun ég fylgjast með þó að minn "fangi" sé látinn. Ég mun koma með minn "óskalista" í þessum málefnum fljótlega.

Að öðru...er einhver lesandi hér sem man eftir bröggunum í Reykjavík ? Á síðu systur minnar(www.siggahilmars.blog.is) er mynd af einum bragganna í Kamp Knox sem var á Kaplaskjólsvegi. Mamma bjó þar. Ég á bækur síðan hún var stelpa og þær eru merktar nafni hennar og heimilisfangi. Hún ólst upp í mikilli fátækt og basli og það hélt áfram fyrstu ár æfi minnar. Hún var samt ótrúlega mögnuð. Hún var þvílík húsmóðir að það sá aldrei blett eða hrukku á neinu. Samt hafði hún verulega fyrir þessu. Það var ekki eins og letiaulinn ég sem þarf bara að fara í herbergi inn af eldhúsinu til að þvo og nenni því stundum ekki fyrr en óhreinatauskarfan er full (toggintau sagði Himmi,enginn veit afhverju) . Í lok þessa mánaðar verða 5 ár síðan krabbinn tók hana mömmu. Greta móðursystir sagði við mig þegar mamma var skilin við, ég skal vera mamma þín. Greta lést í mars, líka úr krabba. Það var vont. Þær voru ótrúlega samrýndar systur. Ég reyndi að skýra samband þeirra þegar ég skrifaði minningargrein um mömmu. Mögnuð kona. Nú lifa bara 2 bræður eftir af börnum Gústu og Árna. Nokkuð af barnabörnum Gústu hafa líka fallið frá. Elsti bróðir mömmu hefur misst 3 börn. Gréta missti dóttur. Börn yngsta bróður mömmu vitum við ekkert um, hann var Breiðavíkurstrákur og er látinn fyrir nokkuð mörgum árum. Það er einungis eitt barna Gústu sem hefur verið farsælt í sínu einkalífi og ekki orðið fyrir stóráföllum. Við hin höfum alltaf horft til hans með nokkru stolti. Þó maður sé alinn upp við vondar aðstæður þá þurfa þær ekkert endilega að fylgja manni. Maður er sjálfur arkitekt að eigin lífi upp að vissu marki. Það er hellingur sem maður getur lagað og breytt.

Nú læt ég þessum fortíðarpælingum lokið, fæ mér kaffi og klúsa Björn. Hann er kominn í frí. Merkilegt annars hvað hann nennir að fá knús, hann verður tvítugur í mars !

Ég var að hugsa í gær. Ég hugsa oftast á miðvikudögum. Ég myndi ekki vilja breyta neinu. Krakkarnir mínir eru nákvæmlega eins og ég vil hafa þau. Það eina sem ég sé í mínu lífi þess virði að breyta því er þetta með Hilmar minn. Ég hefði viljað hafa hann áfram.

Þið krakkar, mamma elskar ykkur eins og þið eruð en það þýðir ekki að ykkur megi ekki farnast betur í lífinu ykkar. Þið eruð best.

Ljósasíðurnar eru í hlekkjum hérna til hægri.


Samskipti fólks

eru mér hugleikin þessa stundina. Hvað fólk leyfir sér að segja og gera gagnvart öðru fólki af litlu eða engu tilefni. Það eru ekki mörg ár síðan að ég varð vör við það að krakkar söfnuðu liði gegn "óvinum" sínum. Það setti að mér hroll þegar ég varð þess áskynja.

Það muna margir eftir árás nokkurra stúlkna á eina fyrir nokkrum árum. Sú árás skildi fórnarlambið eftir skaðað fyrir lífstíð. Það setti mikinn óhug að samfélaginu vegna þess að um stúlkur var að ræða. Algengari hegðun meðal stráka ? Ja maður spyr sig. Menn hafa vitanlega alltaf slegist. Það er nóg að lesa íslendingasögurnar til að sjá það, höggvandi menn í herðar niður. Það var þá. Í dag hefði maður haldið að mannskepnan hefði þróast eitthvað a.m.k. nóg til að beita vitrænum samræðum í stað ofbeldis. Það er samt ekki að sjá.

Fólk má ekki verða hið minnsta ósammála. Þá er tekið upp á ýmsum leiðum til að klekkja á hinum aðilanum. Hann er ofsóttur símleiðis og jafnvel hótað öllu illu. Stundum svo langt gengið að hóta því að drepa viðkomandi. Hvað er að fólki sem gerir svona ? Ég bara spyr ? Fólk sem leggst svona lágt er til hreinnar skammar, rökþrota bjálfar sem grípa til hótana í stað þess að leysa ágreininginn eins og siðaðar manneskjur. Ef ágreiningurinn verður ekki leystur með góðu þá er farsælla að láta hann þá eiga sig heldur en að fórna mannorðinu fyrir svona bjánalega hegðun.

Nei það var enginn að hóta mér ...það hefur verið gert í gegnum tíðina. Vegna afbrota sona minna og annars rugls sem viðgengst í þeim hópi sem þeir umgengust þá kom það fyrir að reynt var að hóta þeim í gegnum mig. Það bara virkar ekki á mig. Ég harðneita að afhenda einhverjum út í bæ völd yfir mínu lífi og minni líðan. Það bara gerist ekki.

Í flestum tilvikum er sá sem hótar mannleysa, þorir ekki að standa við stóru orðin...ekki þorðu þeir heldur að kynna sig né útskýra sín tengsl við synina. Það var bara röflað útí loftið og blaðran sprakk fljótt þegar þeim var bent á að framkvæma umsvifalaust sínar hótanir, annað væri marklaust bull. Ég sagði Himma aldrei frá þessu. Hann hefði tekið þetta afar nærri sér. Mamman hans var heilög í hans augum og ég vildi ekki að hann gerði einhverja vitleysu útaf mér. Ég er seig, ég bjarga mér alveg.

Nú þegar er ég búin að lifa allan andskotann af og ég bara held áfram að gera það. Núna væri mér þó nokkuð sama þó einhver gerði alvöru úr þessum gömlu hótunum...ég færi þá bara fyrr að hitta Himmann.

Endilega setjið ljós fyrir elsku Gillí, Þórdísi Tinnu,Þuríði Örnu og Himma minn.

Góða nótt


Bloggið

er sniðugur miðill. Fólk miðlar lífsreynslu sinni og skoðunum. Ég fer stundum í fleiri en en einn hring í skoðunum mínum....sbr negrastrákana.

Samhjálp ætlar að reyna að opna kaffistofuna 16 nóv, það eru fín not fyrir afmælisdaginn hans Himma míns.

En aftur að því sem ég var að spá í. Moska í Reykjavík....afhverju ekki ? Við erum með allskonar trúfélög sem hafa aðstöðu.

Það eina sem ég sé svona í fljótu bragði vont við þetta ef það á að fara að kalla til bæna snemma á morgnanna....KLOING EEEeeeeEEEEEeeee eða hvað það nú er sem þeir eru að segja og gera.

Að því leytinu vildi ég ekki hafa þá í nágrenninu....annars bara góð

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband