Færsluflokkur: Bloggar

Minni á

Vigdís Ellertsdóttir er einstæð móðir þriggja barna 9 , 11 og 13 ára.
Fjölskyldan býr í Njarðvík.

Fyrir nokkrum dögum greindist elsti drengurinn, Sigfinnur, með mjög slæmt
krabbamein í lifur og einnig fundust meinvörp í báðum lungum þannig að
ástandið er ekki gott.

Til að létta undir með Vigdísi og börnum hennar á þessum erfiðu tímum
hefur verið opnaður reikningur í Landsbankanum og leitum við til ykkar
sem sjáið ykkur fært að láta eitthvað af hendi rakna.

Munum bara að margt smátt gerir eitt STÓRT. Það er engin upphæð lítil.

Reikningur : 0142-05-072955 kkt: 140860-3289

Með kærri kveðju og fyriframm þökk.

VINKONUR.

Dettur í hug einn gamall vinnufélagi

sem var ótrúlega fanatískur. Menn sem stóðu í gættinni að reykja máttu eiga von á því að fá drag í afturendann þannig að þeir hentust lengst út á plan ef hann greip þá.

Meðan enn mátti reykja inni þá hurfu öskubakkarnir sífellt, þessi lá undir grun. Menn töldu að bílskúrinn hjá honum væri fullur af öskubökkum.

Hvað á að gera ? Ríkið selur draslið og bannar það í leiðinni.....


mbl.is Sleginn í rot fyrir að reykja í dyragætt á krá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umburðarlyndi

er í miklu uppáhaldi hjá mér. Fólk sem sér út fyrir sitt eigið sjálf og óttast ekki að umgangast það sem er því ókunnugt.

Ég les oft spjallið á Barnalandi. Undanfarið hef ég séð meira fjallað um eineltismál þar, börn verða fyrir einelti í skólum. Það minnir mig á vesalings Hjalla minn í gamla daga....það sem farið var illa með hann...úff.

Oft eru krakkar lögð í einelti af litlu sem engu tilefni  en stundum sér maður fordæmingu foreldranna ? skína í gegn. Fólk má alveg vara sig á að vera með yfirlýsingar í návist barna...ss um holdafar, gleraugu, fatnað, húsnæði,atvinnu foreldra og svo framvegis.  Börn grípa á lofti það sem sagt er og það getur þróast út í einelti gegn öðrum, fordæmingu. Barnið skilur kannski ekki sjálft hvað er að hjá viðkomandi. Heyrir bara að mamman eða pabbinn tala um viðkomandi fjölskyldu með niðrandi tón. Við eigum ekki að sitja á dómstólum og dæma aðra. Börnum okkar farnast öllum mikið betur ef þeim er kennd manngæska og umburðarlyndi, hjálpsemi og góðvild. Hitt er svo efni í annan pistil að við eigum að huga að okkar minnstu bræðrum og tilkynna slæma meðferð á börnum til þar til gerðra yfirvalda. Við eigum hinsvegar ekki að smjatta á slíkum atburðum í saumaklúbbum.

Mér er alltaf minnisstæð ein vinkona mín, dugleg hannyrðakona. Hún var í saumaklúbb sem var afar vel mætt í, það vantaði aldrei nokkra konu. Einn daginn komst ein konan ekki með nokkru móti. Vinkona mín mætti. Kvöldið fór í að baktala þessa sem ekki kom. Vinkona mín hætti í þessum saumaklúbb, henni ofbauð, og hún saumaði bara ein heima hjá sjálfri sér þaðan í frá.

Orð geta sært herfilega og illt umtal er ekki fallegt.

Í þessum hremmingum öllum þá hef ég sloppið við slíkt hvað varðar Himma...ég hef þó heyrt utan að mér nokkurn kjaftagang en ekkert annað en "eðlilegt" getur talist. Ég hef líka sloppið að mestu við leiðindi hérna, utan þennan eina aðila sem ég lokaði á. Ég reyndar veit hver sá aðili er, eða hvernig sá aðili tengist Hilmari og ég skil biturðina sem hvílir þar á. Að sumu leyti byggðist það á misskilningi en að sumu leyti á broti Hilmars. Hilmar getur engu breytt í dag og ég, mamma hans, ekki heldur. Ég reyni að halda áfram veginn og verð að gera það héðan í frá án hans. Það er vond tilhugsun. Vond framtíð án hans.

Bráðum kemur litla barnabarnið, það er áætlað í kringum 15 nóvember. Ég er farin að standa mig að því að horfa á símann minn, vakna á nóttunni og kíki eftir smsi frá Jóni tengdasyni...Mig hlakkar til.

Loksins er fasteignasalan að hypja sig til að fara að klára sölurnar á íbúðunum sem við seldum í vor ! Það var sko löngu kominn tími til. Þetta átti að klárast í júlí. Mitt dagatal segir nóvember. Við klárum amk aðra söluna á morgun. Íbúðina á Hringbraut. Þar var Hilmar skráður með lögheimili, það stóð á kistunni hans. Hann bjó samt aldrei þar blessaður. Sú íbúð var í útleigu og svo seld. Enginn úr fjölskyldunni búið þar í 2 1/2 ár. Þá lokast bók, mamma og pabbi bjuggu þarna uppi og Sigga systir í kjallaranum sem við keyptum svo og seldum í vor.

Okkar lögfræðingur er að vinna í hinni sölunni. Fasteignasalinn gat ómögulega komið út úr sér hvað við þyrftum að skila af pappírum. Það stendur bílskúr á lóðinni sem er í eigu annars. Þar vantaði eignaskiptasamning. Á því strandar það mál en er í vinnslu. Við áttuðum okkur ekkert á því enda var slíkur samningur ekki með í dæminu þegar við keyptum húsið. Við fundum til þá pappíra og fórum yfir allt og enginn svoleiðis samningur til síðan bara um heimsstyrjöldina síðustu. Ég verð fegin þegar við verðum endanlega laus við allt fasteignasöludæmi, við erum ánægð hérna og ætlum að vera hér.

Nú er ég búin að skrifa allt of mikið Errm


Merkilegum áfanga náð

heimsóknir komnar yfir 500.000. Það var Þórunn sem náði að smellast hérna inn nr 500.000.

Um daginn þegar var verið að fjalla um nýju biblíuna þá var lesin upp texti úr henni. Textinn fjallaði um það hverra væri Guðsríki. Þarna hafði orðalagi verið breytt ögn. En þegar þulið var upp hvað maður mátti ekki hafa gert þá runnu sjáanlega 2 grímur á mig og Björn. Miðað við upplesturinn þá var bara enginn eftir sem mátti erfa Guðsríki. Maður mátti ekki hafa stolið neinu né sagt eitthvað, ekki horft á þetta né hlustað á hitt. ,,Hana nú" segi ég við Björn.,, Þar hentu þeir út Himma" ,,Himma!! þeir hentu út allri fjölskyldunni og öllum sem ég þekki !!" sagði Björn stórhneykslaður.

Þannig fór nú það og nú þorum við Björn ekki að lesa Biblíuna af ótta við að fá það staðfest að okkur verði grýtt út í ystu myrkur þegar þar að kemur.

Nú bíð ég spennt eftir bloggi úr Grindavík til að sjá hvernig þau skemmtu sér á Ladda. (www.snar.blog.is)

Stundum finnst manni nóg komið. Við erum 3 sem vinnum á afgreiðslunni, allar búnar að vera lengi. Ég missti Himma í ágúst en ein sem vinnur með mér missti manninn sinn í október. Hverjar ætli líkurnar séu á 2 slíkum stóráföllum í svona litlum hópi. Það vinna líka 3 kallar þarna í afgreiðslunni. Þetta er ss 6 manna vinnustaður.

 


Mikið búin að hugsa um trúmál í dag

eftir að ég leit við á síðunni hennar Heiðu bloggvinkonu minnar.

Hún er þar að fjalla um bænagönguna sem farin var á laugardaginn. Mér fannst bænagönguhugmyndin þrælgóð þar til umræðan kom upp um að henni væri (amk af einum forsvarsmanni) beint gegn samkynhneigðum. Ég hef kannski voðalega vitlausan skilning á Guði en minn Guð sortérar ekki fólk. Hann tekur ekki einn hóp framyfir annan. Það eru nokkrir trúarbloggarar hérna á Moggablogginu. Sumir þeirra eru miklir bókstafstrúarmenn og ég get ekki lesið síðurnar þeirra, ég verð sorgmædd. Samkvæmt skilningi ofsatrúarmanna þá lenda þeir sem fyrirfara sér beint til Helvítis. Það er hugsun sem mér hugnast ekki, ég vil hugsa mér Himma minn í ljósinu. Að ráðast að fólki með orðum eða gerðum vegna þess að viðkomandi er ekki eins og maður sjálfur er alveg fjarri mér. Mér finnst kynhneigð fólks vera þeirra mál og bara ekkert koma neinum hlutum við. Það erum við sjálf sem sköpum sérstöðu þeirra með að útiloka sjálfsögð mannréttindi. Það finnst mér glatað. Ég átti samt ekki sérlega gott með að horfa á auglýsinguna um gönguna, þeir þurftu endilega að birta snöru ! Það hefði frekar mátt birta mynd af kistu.

Nú er ég búin að rausa um allt mögulegt í kvöld, það mætti halda að ég væri geðvond en það er alls ekki málið.

Er maður plebbi ef manni finnst gaman að horfa á Alþingi ? Ég geri það oft, mér finnst ég þurfa að gera það til að fylgjast með hvað er verið að fjalla um þar.

Nú ætla ég að bjóða góða nótt aftur og haska mér í bælið svo ég rjúki ekki upp með blogg óforvandis.

Munið að fylgjast með hver verður nr 500.000.

PS. Ég náði merkilegum áfanga áðan yfir Eddunni, náði að lesa hjá öllum bloggvinunum. Það hefur ekki gerst í ár og dag Whistling


Hjónasvipur

mér varð litið í húsbóndastólinn áðan, eftir Edduna. Hárið á honum stóð í allar áttir, honum hundleiddist Eddan eins og mér. Við erum eins, við erum plebbar, hugmyndalaus rykfallin gamalmenni. Okkur leiðist líka nýaldartónlist eins og Sigurrós, LayLow og Barði í BangGang. Okkur tekst ekki að elta uppi skoðanir annarra á þessum nýmóðins fínheitum. Okkur leiðist líka Egill Helgason, okkur er ekki viðbjargandi. Eitt eigum við þó og það tekur enginn af okkur - við kunnum vel við hvort annað.

Ég þarf að finna símanúmer hjá heilbrigðiseftirlitinu. Björn fór í baneitruðum sokkum í vinnuna. Ég neita að kannast við hann ja fyrr en hann er kominn í hreina sokka. Hann og Hilmar voru stundum gangandi eiturefnahasard, ég skil ekki þetta táfýlusystem.

Ég horfi stundum í kringum mig í umferðinni...sjaldan en kemur fyrir. Ég sé marga fyrirtækisbíla og stundum er ástand þeirra svo hörmulegt að ég myndi hugsa mig um áður en ég beindi viðskiptum mínum til þeirra fyrirtækja. Verst fannst mér um árið þegar ég sá bíl frá hreingerningafyrirtæki , svo drullugan að það sá hvergi í réttan lit. Þetta var að sumri til og búið að vera þurrt svo dögum skipti. Enn skartaði bíldruslan tjörudrullu vetrarins. Sko ef maður er með svakalega skítugan bíl þá er hættan sú að maður nuddist utan í hann og skíti sjálfan sig út.

Svo eru það konurnar sem aka um á kolskítugum rándýrum bílum, það er alltaf sorgarsjón. Menn kaupa þvílíkt flottar kerrur fyrir konurnar svo allt sé í stíl og svo er ekkert hirt um draslið ! Sá eina í miðborginni þegar pallbílaæðið reið yfir, hún var nánast á vörubíl og konuræfillinn var að reyna að leggja ferlíkinu. Það gekk auðvitað ekki upp enda miðborgarstæðin ekki gerð fyrir neitt annað en smábíla. Síðast sá ég til ferða hennar inn alla Sæbraut, líklega á heimleið.

Nóg rausað í bili...en bara í lokin. Góða nótt.


Ég er plebbi

ég horfi ekki á Silfur Egils. Nú var hann að vinna sjónvarpsmaður ársins á Eddunni og ég held að hann hafi næstum farið að grenja.

Smáblogg

bara til að tala um Eril..eða öllu heldur ánægju mína með þá farþega sem nýttu sér Bonzó minn um helgina. Ég ók sjálf í gærdag og þurfti ekki að  þrífa bílinn áður en akstur hófst. Í morgun þegar ég mætti til starfa þá þurfti ég að þvo bifreið að utan, skiljanlega. Við óðum upp í þvottahús og bifreið var gerð fín að utan. Svo færði ég mig að ryksugunni og ætlaði að ryksuga téðan Benz. Það var bara hvorki korn né arða innan í bifreiðinni. Sama hvar ég gáði. Svona á að ganga um leigubíla.

Hrós dagsins fá farþegar bifreiðarinnar minnar.

Skrifa kannski annan pistil á eftir.

Já ef einhver hefur yfirleitt tekið eftir því þá er ég búin að breyta aðeins stillingum, núna birtast ekki færslurnar mínar á aðalsíðu né í listum. Hingað koma ss bara þeir sem voru með slóðina eða eru bloggvinir.

Hinsvegar eru heimsóknir að nálgast 500.000 og þar af Jenný mín 250.000 hehe....djók..... Miðað við heimsóknartölur undanfarið þá kemur heimsókn nr 500.000 líklega síðdegis á morgun. Þið fylgist með en engin verðlaun eru í boði að þessu sinni.


Sá frétt um daginn sem gladdi mig

meira en ég get í orðum lýst. Margrét Frímannsdóttir er komin til starfa við Litla Hraun. Ég hef lengi haft mikla trú á henni og veit að hún mun innleyða góða hluti þar, til hagsbóta við þessa menn sem þjóðfélagið hefur sett til hliðar og tekur svo helst ekki á móti aftur þegar þeir koma til baka.

Ég mun enn fresta umfjöllun um málefni fanganna fyrir austan en bráðum kemur Kompás þáttur um þessi mál. Hvenær hann verður sýndur veit ég ekki alveg...það verður áreiðanlega auglýst þegar þar að kemur. Ég veit þó það að drengurinn minn hefði þurft á meiru að halda en hann fékk og þar á ég við sálfræðiþjónustu. Hilmar var ekki þunglyndur, alveg öfugt í rauninni. Hann var manna kátastur alla sína æfi. Aðrar orsakir lágu þarna að baki og mamma skilur, mamma hefur skilið það betur og betur eftir því sem púslin raðast þéttar saman. Elsku kallinn minn....

Samt er ég búin að komast að því að maður lifir slíkan missi af...einkennilegur fjandi samt að komast að því. Ástæða þess að ég hef ekki treyst mér til að aka er sú að í minni vinnu þá bíðum við í ákveðnum stæðum um alla borg eftir því að einhver hringi úr viðkomandi hverfi og vilji fá bíl. Oft er biðin löng og það var það sem ég hræddist. Hvað myndi ég hugsa á meðan, hvernig yrði ég stemmd þegar sendingin kæmi ? Ég þorði ekki að láta reyna að þetta fyrr en núna í þessari viku, ég er orðin nokkuð sjálfri mér lík og nokkuð stöðug. Ég veit samt ekki alveg hvað gerist ef ég lendi í einhverjum leiðindum, ég vona bara að það komi ekki til þess.

Hjalli minn er hálfsambandslaus þessa dagana og mamman verður óróleg...mamma iðar í skinninu og verður taugabiluð. Heyrði í honum í dag og hann er ágætur kappinn...bara sefur og sefur og bíður þess að vera kallaður inn eða hann fái einhver svör úr fangelsismálastofnun með samfélagsþjónustu. Ég skrökvaði að þeim óvart um daginn, ég sagðist alltaf ná í hann. Það var reyndar rétt á þeim tíma. Síðan hefur hann dalað mikið í símsvörun. Ég held að hann sé að vera búinn að fá sig fullsaddan af því að vera ekki að vinna. Hann sekkur inn í sjálfan sig og verður eiginlega þunglyndur af þessu öllu saman...svo renna dagarnir saman í allsherjar vosbúð og rolugang. Hjallinn minn, sæti og góði sem getur svo miklu betur.

Hann er svona gæðablóð eins og Himmi var. Mér er minnisstætt á leikskólanum í gamla daga. Þar var með þeim fjölfatlaður drengur og eitthvert barnið fór að gera grín að honum, vísast í óvitaskap. Hjalti varð svo sárreiður fyrir hönd þessa fatlaða vinar síns að mér ætlaði aldrei að takast að hugga hann. Hann var kominn með svo þungan ekka og þetta ásótti hann í marga daga á eftir. Þessi drengur var svo með Hjalla í skóla í nokkur ár og þeim var vel til vina.

Það tókst vel að fá þá til að finna til samkenndar með öðrum, kannski brýndi ég ekki nóg fyrir þeim að verja sig. Það vefst fyrir mér í dag...eins og allt annað. Það er margt sem ég myndi gera öðruvísi í dag...hellingur. Ég get ekki breytt fortíðinni og nú verð ég að læra að fyrirgefa sjálfri mér. Mér hefur tekist að fyrirgefa öllum úr fortíðinni og nú er komið að mér, ég verð að hætta að dæma sjálfa mig alltaf harðast og neita að fyrirgefa mér og umbera sjálfa mig. Við sjálfa mig losna ég ekki, það er ljóst.

Góða nótt.

Ljósasíðurnar eru í gildi.

 


hm

hef ekkert að segja...

er að horfa á laugardagslögin, það er jafnleiðinlegt og áður.

Sumir versluðu af sér hausinn í nýrri dótabúð í G-bæ í dag. Ég var bara að þvælast í umferðinni og í leikfangaæðishnútum föst...ekki gaman.

Pistill búinn.....


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband