Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Mynd Gísla Sigurgeirssonar

í gær, gamalt er gott, var frábær.

Takk fyrir að láta mig brosa og tárast í sömu andránni.

Þið sem misstuð af, reynið að sjá hana.

Takk fyrir mig

Hér er umfjöllun um þáttinn


Æfintýri á gönguför

Ég hef aldrei séð eldgos öðruvísi en í sjónvarpinu og mig langaði nú að bæta úr því. Steinar var að vinna um helgina en í gærkvöldi ákváðum við að skella okkur austur í myrkrinu og sjá eldgos. Hann aldrei séð svoleiðis heldur.... hér kemur þá ferðasagan.

Það var nokkuð hvasst í innkeyrslunni þegar ég rogaðist út með stóra trefilinn, prjónana og eitthvað smádótarí (nammi) he hemm...

Við tókum olíu á gráa Bensann og ókum af stað austur. Við litlu kaffistofuna sýndi mælirinn mínus 8. Mjóróma rödd í farþegasætinu sagði ásakandi ; Sko! ég sagði þér það áðan, þetta VAR snjókorn!! Þrautþjálfaður bílstjórinn sagði ekki neitt. Treflahrúgan jafnaði sig tiltölulega fljótt (gleymdi þessu) Við ákváðum að fara þrengsli, farþeginn hafði heyrt að þar einhversstaðar í brekku sæist glitta í eldgosið. Í Þrengslunum hringdi "eldfjallasérfræðingur" heimilisins og gaf bifreiðastjóra góð ráð um hvar hann sæi gos án þess að draga treflahrúguna langar leiðir.

Birtan úti var flott, fullt tungl ...

Við tókum svo aðeins lykkju á leið okkar, ég hef svo voðalega lítið gaman að því að sjá Litla Hraun. Mér er hlíft við því af bifreiðastjóranum mínum.

Í Hveragerði var 6 stiga frost. Hrollur bara

Við mættum allskonar sér útbúnum jeppum, stórum rútum og allskonar farartækjum sem ferðaþjónustan íslenska á. Það söng í malbikinu þegar stóru stóru dekkin keyrðu eftir því.

Ég horfði á hús eitt á Selfossi og hugsaði hjartanlega fallega til íbúans þar en mundi svo að ég ætti að þekkja einhvern sem bjó í þessu húsi áður...þarf að spyrja hana um fyrri eiganda.

Þegar hér er komið sögu hafði farþeginn staðið sig ótrúlega vel. Ræfillinn er nefnilega til vandræða bílhræddur og á til að hrökkva við af ótrúlegustu atburðum. Stundum dáist ég að umburðarlyndi bílstjórans ! Að hann skilji mann ekki eftir...

Rétt austan við Selfoss þá mættum við langri bílalest..hún er rétt farin hjá þá hringir síminn hans Steinars. Greinilega einhver rútukall þar á ferð sem hann þekkir og þeir spjalla eitthvað saman. Steinar fær ráð um hvar hann kemst að þessu og svona. En svo segir hann ; nei ég er bara að fara með G Ö M L U !!! HNUSS....!

Innst í Fljótshlíð er vegurinn bara búinn, við tekur rykugur malarvegur. Ekki alveg það heppilegasta fyrir astmakellinguna en ....þá vorum við búin að sjá bjarmann frá gosinu á góðan tíma. Við ökum þarna áfram, ekki farið sérlega hratt yfir enda við á drossíu en ekki jeppa.

Við förum í taugarnar á  ökumanni Opel Zafira og hann spýtist fram úr og við sárfundum til með bílnum hans. Stuttu seinna komum við að vaði, þar aka jepparnir varlega yfir en þetta virðist ekki vera svo djúpt. "vinur" okkar á Opelnum lætur sig vaða yfir og þegar við sjáum að hann kemst þá læðust við yfir á bens. Það gekk glimrandi. Við ökum þarna inn að gosstöðvum á grófum og andstyggilegum slóða. Bensinn Grámann í Garðshorni alveg hissa á þessum ósköpum og hristi bara stjörnuna. Eftir nokkra stund - ekki langa vegalengd samt- þá sjáum við skilti þar sem allur akstur er bannaður, þar fyrir innan eru fleiri vöð og lækir og nú ákváðum við að hlífa Grámanni. Steinar bakkar þarna upp í hlíðina og við tökum upp sitthvorn kíkirinn...

Það er algerlega frábært að sjá eldgos !! Við sátum þarna lengi alveg dolfallin og horfðum á. Eina truflunin var þegar jepparnir fóru framhjá okkur. Þeim fannst greinilega ekki beinlínis varið í að sjá Bens leigubíl -fólksbíl- þarna lengst inn á eyrunum.

Ferðasöguna hripaði ég niður í stikkorðum á leiðinni.

Síðasta orðið sem ég skrifa í hana er : MAGNAÐ!

 


Mikið bras

sem endar þá kannski með þrasi. Þannig er að við keyptum sturtuklefa í ágúst s.l. -fordýran fjanda en alveg dásamlega sturtu. Ekki hefur þó græjan gengið alveg áfallalaust svosem en ekkert stórbilað hefur svosem gerst.

Listinn yfir bilanir er þessi :

Niðurfallsrennsli ekki sérlega gott, skilst að það sé vegna þess að barkinn undir er ss gormabarki. Þetta hefur ekki gert mikið til, maður bara fylgist með og Steinar hefur látið renna af krafti í gegnum rörið til að hreinsa.

Handsturtuhausinn bilaði og við keyptum nýjan. Það kostaði bara 3-4 þúsund samt

Tvisvar núna hefur snúningstakkinn verið stirður en hann hefur þó gefið sig en þetta eru vísbendingar um bilun.

En í dag tók nú steininn úr. Steinar vann í nótt og svaf í dag. Enginn gekk um heima -baðherbergið lokað og svona. Steinar skrapp svo á klóið og kom fram ...við verðum að fara í sturtu í ræktinni. Ha segi ég. Við förum nebblega alltaf heim í sturtu. Þá var sprunga í hliðinni á klefanum og nokkur brot hrunin inn í botninn.

Búðin sem seldi okkur þetta átti ekki til nýja hlið. Vísuðu bara vandræðaleg á eigandann sem kemur ekki til landssins fyrr en eftir páska. Þeim datt ekki í hug að taka hlið úr óseldum klefa né vísa okkur á einhvern sem gæti sérskorið þetta herta gler sem þarf í þetta.

Við ætlum að reyna að redda þessu til bráðabirgða en það er ekki auðvelt heldur. Þetta er vel kíttaður rammi og glerbrotin eru hreinlega föst í þessu !! Þetta er algjört klúður.

Píparinn minn varaði okkur við þessum klefum en því miður ekki fyrr en við höfðum þegar keypt hann. Næst spyr ég hann áður ..


með arnarsjón á fortíðina

en ekki nærri eins glögg á framtíðina.

Mun þó þrauka hana eins og aðrir.

Væri ég yngri þá færi ég úr landi.

En nú þarf ég að muna að fyrirgefning er val - ég þarf að muna að fyrirgefa mér. Enginn breytir sinni fortíð, ekki ég og ekki neinn.

Agú, ég er krútt !


hætt að nenna

að horfa á þingið og það allt en það eru engar nýjar fréttir.

En nýju fréttirnar eru að hér er komin kisa til prufu. Solla mín bjargaði litlum kisustrák úr sýningarkassa í dýrabúð. Hún kom með hann til mín og sýndi mér hann. Lítill vesældarlegan gráan kettling, grindhoraðan og nánast hreyfingarlausan, aldrei séð svona druslulegan kettling. Hún fór svo með hann heim til sín og hefur haft hann í svona 6 vikur. Þá tók við að venja saman Hilmar Reyni og litla kisann, Rebba. Það gekk ekki sérlega vel. Hilmar er nýlega greindur á einhverfurófi og gengur ekki sérlega vel að skilja orsök og afleiðingu plús það að hann er bara tveggja ára. Rebbi hefur verið teygður og togaður, þrælað í klóið og bara lent í allskonar hremmingum. Hilmar allur útklóraður enda kisi átt verulega undir högg að sækja í þessu sambandi. Það endaði með að Solla gafst upp og kisi er fluttur hingað. Rómeó og Tumi eru hreint ekki hamingjusamir með þessa viðbót og Tumi gaular á hann. Rómi hvæsir og slær þann litla í hausinn, bara svipað og hann gerði við TumaTígur þegar hann kom. Nú er bara að sjá hvernig fer.

 

 


(svína) flensa og önnur óáran

Hefur legið hér við undanfarið, ekki þó orginal swine flu - við gamla settið stormuðum í bólusetningu fyrir nokkuð löngu síðan.

Ég hef verið raddlaus og leiðinleg, móð og vitlaus í heila viku núna- hef þó verið að drusla mér í ræktina og verið alltaf skárri á eftir. Næ að opna betur fyrir öndunarveginn í allri svitalyktinni og táfýlunni hahahaha..

Ég var að lesa stóran miða á vegg hjá lyfjaverslun nú eftir áramótin og þar sá ég ekki betur en að astmalyfið mitt væri dottið af undanþágulistanum og þá kostar það hálfa lifur og annað nýrað. Í miðri kreppu hefur maður ekki efni á slíkum "lúxus" og ég kaupi þetta þá bara ekki. Ég er svo heppin að astminn kemur bara þegar ég fæ kvef og síðan ég hætti að reykja þá þarf ég að fá svæsið kvef til að koma þessu af stað.

Mín von er þó sú að þetta fari aðeins að lagast.

Ég komst líka að því í þessari viku að ég er ekki snjöll. Ég pantaði mér 2 flíkur að utan. Jú jú þær pössuðu alveg og svona, sniðið á annarri hentar mér ekki en við sjáum til hvað ég nýti þetta í. Vörunar greiddi ég við pöntun en þurfti svo að borga nærri 7000 kall í toll. Þetta borgar sig varla held ég .

Mér gengur svo misjafnlega að þola sjálfa mig. Ég festi mig við einhverja hugsun og kryf hana til mergjar og reyni að skilja löngu orðna hluti eins og til dæmis að ég gat ekki hugsað mér að heimsækja hann Himma minn í fangelsi. Krakkarnir systkini hans fóru en ekki mamma þverhaus, hún sat heima og vorkenndi sjálfri sér að eiga son í fangelsi. Fordómarnir alveg að kæfa kellinguna. Fyrsta skiptið fór hann á Kvíabryggu, þar er svo gott fólk að ég hafði engar áhyggjur af gaurnum þar. Næst fór hann á Hraunið, mikið óskaplega hefur hann verið skelkaður þegar hann kom þar inn og nákvæmlega enginn stuðningur af henni mömmu hans  sem sat heima og spilaði sig eitthvað númer. Hann fór aftur á Hraunið í langan tíma....var alveg að verða búinn en nei, þá kom annar dómur og tíminn lengdist. Það var þó í eina skiptið sem ég var að spá í að heimsækja hann. Vorkenndi litla krimmanum mínum - vissi að hann væri svekktur. 18 ágúst 2007 gekk mér ekkert að sofa, Himmi sótti að mér og ég var að hugsa um að best væri að hringja í hann næsta dag og sjá hvernig hann hefði það.

Í hádeginu næsta dag kom fangelsispresturinn....

Suma daga þoli ég ekki sjálfa mig


Ragnheiður laumubloggari hér

Komið þið sæl

Þættinum hefur ekki borist bréf en þáttastjórnandi varð alveg hissa fyrr í dag. Svo mjög að hissið var eiginlega enn.

Þó það hafi líklega farið fram hjá flestum þá stormaði hópur bloggara á dyr þegar maður að nafni Davíð Oddsson var ráðinn sem ritstjóri hins eðla morgunblaðs. Sumir stormuðu á eyju, aðrir pressuðust og einn er til sölu (með DV). Hér héngum vér spaðirnir og laufin á meðan, illa haldin af aðskilnaðarkvíða.

Það sem vér blöktum í sakleysi okkar var að oss ráðist. Vér höfum verið tekin úr sambandi oss að óvörum.

Morgunblaðið hefur tekið MóBló´s tengilinn af forsíðunni. AF æpi ég.

Alveg er ég viss um að þetta er Davíð að kenna....hnuss...!

Iss, hvað sagði ég ykkur og þið trúðuð mér ekki. Ég sagði að moggablogg yrði lagt niður :)

Þetta var svona ÆTOLDJÚSÓ blogg


Óleyst ráðgáta

er hvers vegna fólk fremur sjálfsvíg. Ég er að horfa á frábærlega vel gerða mynd á Rúv, frásögn konu sem reynir að skilja hvers vegna bóndi hennar fellur fyrir eigin hendi.

Afar margt sem hún segir skil ég.

Samuel, ég sakna þín ekki segir hún. Þú hefur aldrei verið nær mér. Og ég sat og hugsaði. Himmi lifir í hjartanu á mér og er mér nærri hverja stund. Ég þarf aldrei lengur að óttast um hann, hann er alla tíð á vísum stað. Ég þarf ekki að blygðast mín fyrir gerðir hans, þær eru engar lengur.

Ég hef reynt að festast ekki í sorginni, ég tel mig hafa leyfi til að gleðjast. Ég á fjögur önnur börn, gleðigjafa. Ég á gott líf. Ég á heilmikla hamingju og ég má gleðjast. Það er engin ástæða fyrir mig að flytja í táradalinn þó ég hafi haft þar viðdvöl um hríð.

Mér ber að vera almennileg og láta gott af mér leiða. Það tekst þó misvel.

Mér ber ekki að ganga um með höfuðið undir væng og líta aldrei glaðan dag meir. Ég get ekki orðið föst í þjáningunni.

Þessi mynd er á frönsku- mikið er franska fallegt mál.

Nú akkurat lauk myndinni. Þá er best að éta skjaldkirtilspillurnar og gigtarpillurnar og reyna að fara að sofa.

Nýjasti bloggvinur minn hér er þessi ; www.keh.blog.is en þarna er Stjáni bróðir minn.


Yngsti bloggvinur minn er í Ísland í dag

akkurat núna á eftir. Hvet ykkur til að horfa á það, fjallað er um aðbúnað barns. Það kemur okkur öllum við. Hún heitir Fanney Edda Frímannsdóttir .

Ég gerði tilraun til að lesa dóminn yfir litháunum fimm. Ég varð frá að hverfa, ég er aumingi...Hvernig er eiginlega hægt að fara með fólk ?

Þið verðið að afsaka bloggletina. Hef enga afsökun samt. Bara nenni ekki. Og varla núna.

Nenni heldur ekki að horfa á þingið né hlusta á þingmenn að neinu leyti. Alveg komin með klígju fyrir þessu öllu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband