Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008
Lítil afmæliskveðja
27.3.2008 | 22:31
og lítil afmælisstelpa. Litla skottið hennar Steinunnar er orðin 3ja ára. Afinn og amman á Álftanesinu eru að lenda í versta vanda. Gamla settið er farið að gleyma afmælisdögum. Það gerði ég aldrei áður fyrr.
Ég nappaði mynd af vefnum af henni Emblu Nótt sem er 3ja ára í dag.
Innilega hamingjuóskir elsku Embla.
--------------------------------------------------------------------------------
Ég fór og labbaði, og hausverkurinn lagaðist við það. Ég vissi það alveg, það var bara letin sem talaði áðan. Letin á bara ekkert að fá að ráða.
Góða nótt, aftur
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 11:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Illt í toppstykkinu
27.3.2008 | 21:18
og er eiginlega að hugsa um að svindla á labbitúrnum, ég hef greinilega hugsað of mikið undanfarna daga og fengið harðsperrur í heilann.
Ástand mála á spítalanum breytist lítið.
Hallgerður bloggar í dag, flotta færslu. (www.austangola.blog.is) Í kjölfarið á lestrinum fór ég að hugsa um tímann eftir að Himmi minn dó. Fólk kom hingað, það hringdi og sendi sms og samúðarkort. Hlýhugur fólks gladdi og stappaði í okkur stálinu. Samstaða og sameining fjölskyldnanna hans Hilmars hjálpaði líka gríðarlega. Það féll hvergi blettur á samskiptin og fyrir það verð ég þakklát alla æfina, að okkur skildi takast að standa saman gegnum þessa mestu raun sem við höfum lent í.
Fólk talaði við mig, ég heyrði ekki. Ég man hinsvegar eftir faðmlögum og fólkinu sem kom bara til að halda í hendurnar mínar, þegjandi. Það studdi í þögninni og samhyggðin streymdi frá þeim, þessum elsku vinum og fjölskyldumeðlimum.
Það er í raun ekkert hægt að segja í svona aðstæðum, engin orð hjálpa. Í erfiðleikum er samt betra að hafa einhvern sem getur séð um erfið mál. Systir mín fékk til dæmis það hörmulega hlutverk að tilkynna andlát systursonar síns, okkar fólki. Ég réði bara við krakkana mína og Guð hvað það var erfitt að segja þeim þetta....ég gat ekkert gert nema sagt það..það var ekkert hægt að láta það hljóma betur eða minnka stinginn í orðunum. Ég reyndi að vera til staðar fyrir þau, reyndi að hugga, herða upp hugann og styrkja þau.
Að standa upp í þeim sporum að þurfa að bera börnum sínum slíkar fréttir að eitt þeirra sé ekki lengur hjá okkur er ómannlega erfitt. Ég vona af hjarta að slíkt þurfi ég aldrei að gera aftur.
Það þyrfti að vera svona OFF takki á heilanum á manni, ég fæ í alvöru hausverk af því að hugsa svona mikið.
Ég ætla að skemmta mér vel um helgina. Ég ætla að gera nokkuð sem ég hef aldrei gert áður. Ég ætla að fá lánað barnabarn yfir helgina til að leika mér með það. Hilmar Reynir ætlar að vera hjá ömmu sinni um helgina meðan mamma hans og pabbi ætla að vinna. Ömmu hlakkar mikið til að fá að passa litla snúðinn sinn. Amma þarf að rifja upp gömul handbrögð hehe.
Jæja...nóg í bili. Rölt niður minningastíg og smáframtíðarfærsla. Það er ágætt í bland.
En í bili er ég að æfa mig í að passa, fröken Líf er hérna og nagar bein af ástríðu upp í sófa.
Góða nótt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Notalegt labb
26.3.2008 | 23:03
og ég breytti aðeins um lúkk, nú fór trefillinn minn góði í talíbanatísku og það rétt sást í augun. Það var nokkuð kalt en ekki eins bítandi og í gær. Mættum hestamanni með tvo til reiðar og Keli ákvað að skjálfa af hræðslu, ég get svarið að hann tuldraði við sjálfan sig ; asnalegir hundar þetta og furðuleg lykt af þeim !
Lappi kippti sér ekkert upp við þá en ég hélt honum uppteknum á meðan svo hann færi ekki að klappa fyrir þeim. Ég er alltaf hálfhrædd um að klappið í honum fæli hestana.
Við fórum stærri hringinn og öfugan. Það var aðallega forvitni í mér. Það er nefnilega að birtast hús hér í götunni og miðað við það sem ég sá áðan þá verður það fljótt að birtast, einingahús.
Einhver ók hér í götunni minni eins og kappakstursökuþór. Ég held að ég hafi aldrei heyrt bíl aka svona hratt hérna áður. Þessi hefur líklega verið að skutla einhverjum heim og fattar ekki að hann er að þvælast í pollrólegri götu þar sem við heyrum starrana reka við. Við erum sko ekki neitt við Miklubrautina hérna.
Nú er ég að spá í að fara að steinsofa í hausinn á mér og reyna að biðja um batafréttir af vini mínum á morgun.
Jenný láttu Einar bjalla ef þið heyrið eitthvað á undan mér, ég verð í vinnunni...já eða hringdu bara sjálf, alltaf gaman að heyra í þér
Góða nótt elskurnar
ps..frú M, ég vil ekki fá lánuð aukakíló- er að reyna að reka mín að heiman. Þau eru búin að vera hér nógu lengi skammirnar og borga ekki einu sinni húsaleigu þessir asnar !!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
Ég þarf ekki
26.3.2008 | 19:41
að vita hvað Þórhallur í Kastljósi er með í laun
að finna aukakílóið sem ég virðist hafa týnt
að brosa hvern dag
að gráta hvern dag
að vita allt um alla
að vera dómhörð
að gefast upp
en það sem ég þarf að gera er að vera ég sjálf, í vöku og svefni, hugsun og doða. Nú þarf ég að leggja af stað með kall og hvutt..útum hvipp og hvapp (þarf að spyrja Bratt hvar það er annars)
Engar fréttir, kannski eru það góðar fréttir -kannski ekki. Það er vont að bíða en ekkert hægt að gera við því samt.
-------------------------------------------------------------
Ég vil koma þessu útigangsfólki í húsaskjól, sama hvort þau eru í ónýtum kofum eða gámum. Svo þarf að bregðast við þessu húsaveseni í miðborginni, að menn geti látið hús drabbast niður og fylla þau af ------nú vantar mig orð sem ég get sæst á að nota-----------til að fella verðgildi þeirra og nágrannahúsanna.
Farin að labba..sé ykkur seinna.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 11:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Staðið í sömu sporum
26.3.2008 | 12:44
Þegar maður bíður eftir fréttum þá stöðvast maður í sporunum. Ég sit og hugsa til vinar míns sem er mikið veikur á sjúkrahúsi. Mér finnst ég vera lömuð og hreyfingarlaus hið innra.
Hugur minn leitar líka sterkt til Fjólu og Mumma og þeirra fjölskyldna. Sporin þeirra þekki ég og ég veit hversu hræðilega erfið þau eru.
Ég er alveg andlaus ...labba í dag og sé til hvort hugsunin skýrist eitthvað við það.
Kærleiksknús á línuna. Ég ætla að lesa hjá ykkur öllum í dag en lofa engum kommentum..
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 11:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
þrammað
25.3.2008 | 20:28
í rokinu.
Það var nú allt í lagi aðra leiðina en versnaði heldur í því þegar við snerum við. Þá var hávaðarok á móti og ég -auminginn- átti fullt í fangi með að næla mér í nóg súrefni til að komast heim. Steinar minn blaðraði eins og gamall teketill alla leiðina heim og ég gat engu svarað nema einstaka andköfum.
Ég hafði grun um þennan nístingskulda og batt trefil á eyrun. Það olli hláturskasti hjá húsbóndanum í forstofunni. Ég leit út eins og biluð rússnesk Babúska..þið vitið þessar sem eru með aðra minni innan í sér koll af kolli.
Horfði á Jónu súperbloggara í Kastljósi, hún er flott hún Jóna...
Held áfram að ná andanum...leiter.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 11:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
Leifavakt
25.3.2008 | 08:19
Ég var að spökulera...Ætli maður verði að setja vakt um leifarnar á sér þegar maður uppafhrekkur svo maður lendi ekki á forsíðu blaðanna, fyrst sem krassandi spennusaga en síðar sem lummulegur afgangur af húsbúnaði "smekkfólks" í sveitinni. Það er kannski nóg að láta tattovera á hvert bein ; Þetta er ég ! Ragnheiður !! til að maður fái frið ? Talandi um leifar, mér hefur alltaf fundist nafn á sjoppu í Breiðholti fráhrindandi. Hún heitir Leifasjoppa. Eigandinn er kallaður Leifi en ef maður veit það ekki þá er voðinn vís.
Það á að rífa þessa skrattans kofa á Hverfisgötu. Útigangsmanni var gert þar rúmrusk í nótt þegar slökkviliðið fann hann óvart steinsofandi í brennandi húsi. Kallgreyið, loksins orðið hlýtt í húsinu og þá er maður rifinn framúr ! Fyrir þá sem ekki vita þá er gistiskýlið löngu sprungið og þessir sem enginn vill vita af sofa í ónýtum húsum, bátum og bílum. Iss okkur er alveg sama í hlýju húsunum okkar með fínu sængurverin. Þeir sofa á pappadrasli og breiða yfir sig dagblöð með fréttum markaðarins síðan í gær.
Sjálfskaparvíti ? Kannski en það er okkar sem samfélags að rétta hjálparhönd.
Var með flotta stráka í mat í gær. Það eru fáir með betri nærveru en þeir tveir félagarnir ofan úr Mosó.
Stórafmælisveisla Bjarnarins er í fullum undirbúningi, sá fær á baukinn núna fyrst það fékkst samþykki til að halda upp á daginn.
Það eru ekki bara góðir hlutir sem gerast í kringum mig. Dauðsfall ungs drengs hafði mikil áhrif á mig í gær og í vinnunni í morgun frétti ég af alvarlegum veikindum vinar míns. Hugur minn er því ekki alveg í fókus þessa daga.
Færslurnar bera þessu kannski vitni en to hell with it.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 11:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
Í dag grét ég
24.3.2008 | 17:55
lítinn yndislegan snáða sem ég hef aldrei hitt. Frá því að hann fæddist hefur hann barist við ofurefli mikilla veikinda með svo mikilli hörku að í huga mér kom ekkert annað í hug en sigur.
Ljúfi drengur móður sinnar og stolt föður síns. Hjartans ljúfi Huginn Heiðar.
Það er svo sárt til þess að hugsa að hann fékk ekki lengri tíma hérna en hann hefur markað spor í hjörtu svo margra. Ég mun aldrei gleyma honum.
Blessuð sé minning þín elskulegi Huginn Heiðar.
Slóðin á síður foreldranna hans eru hérna. Fjóla og Mummi
Hugur minn er hjá ykkur. Innilegar samúðarkveðjur.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 11:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Það er óreiða í heilanum á mér
24.3.2008 | 16:57
Fyrirsögninni stal ég auðvitað frá Jennýu en hjá henni var óreiðan á gólfinu. Það er alltaf óreiða á gólfinu hjá mér, hundahár og svoleiðis.
Ég er í miklum helgidagagír enda búin að vera að hlusta á þennan frábæra disk sem sætasti nágranninn skottaðist yfir með í gær. Diskurinn er hrein snilld. Margir afar góðir sálmar og mínir uppáhalds þar á meðal, en ég man hinsvegar aldrei hvað þeir heita. Viðbrögðin eru að það sperrast á mér eyrun þegar þeir byrja.
Annars er ég hálf flækt. Mér finnst svo erfitt að vera svona máttvana og vanmáttug. Alltaf þegar eitthvað hefur verið að kvelja krakkana mína þá hef ég allaveganna getað reynt að laga það. Nú get ég ekkert lagað, Himmi okkar er okkur endanlega horfinn og kemur aldrei til baka. Hans verustaður er nú í hjartanu okkar en öllum langar svo að hitta hann, knúsa hann og fá að eiga hann áfram. Ekkert af þessu er hægt, aldrei.
Stundum finnst mér ég vera að brotna undan álaginu. Ég veit ekkert hvernig ég á að halda áfram. Þá nota ég einn dag í einu og reyni að hugsa bara um líðandi stund og reyni að ýta Himma mínum úr huganum eða hugsa bara um hann glaðan og kátan. Ég setti inn 2 myndir sem elskuleg vinkona hans sendi mér í vetur. Þær eru ofsalega dökkar enda teknar á síma en brosið hans sést. Þær eru í albúmi sem heitir "nýlegar Himmamyndir"
Nú þarf ég að fara fram og gerast vélstjóri. Kokkurinn skilur ekki bakaraofninn eða öfugt.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 11:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
þramm
24.3.2008 | 15:39
úti áðan skilaði sér í frosnum eyrum og köldum kinnum, bæði efri og neðri kinnum. Vona bara að ég hafi sloppið við hálsbólgu í efri og neðri hálsi. Það kemur í ljós. Hitaði mér te þegar ég kom heim og er að hlýna aftur og eyrun að límast á.
Ekki er eftirtekt frúarinnar góð þessa dagana, ég hef misst af gesti sem fletti hér í sjöhundruðþúsundastasinn.....en það gerir þá bara ekkert til. Það eina sem þessi teljari gerir er að gera mig spéhrædda hvort eð er.
Annars er ég merkilega góð. Hálf dösuð eftir þessa vinnutörn núna um páskana en það lagast fljótlega og enn fyrr ef ég er dugleg að hreyfa mig aðeins.
En ég hef nákvæmlega ekkert að segja eins og er og er hér með farin að gera eitthvað annað....
slepp við að elda kvöldmatinn. Karl minn ætlar að spreyta sig í kvöld
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 11:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)