Færsluflokkur: Bloggar

Jahérna

Fyrst vil ég þakka kærlega og af heilum hug kveðjurnar og ljósin hans á kertasíðunni. Þið vitið líklegast ekki hversu innilega kertin ylja mér um bilaðar hjartarætur.

Birni er að batna. Hann er bara eins og fílamaður öðru megin en ekki báðu megin eins og hann var. Hann er líka á rótsterku pensillíni sem er kattahlandslykt af. Hann segir að bragðið sé eins. Það er svo mikill óþverri að hann fær brjóstsviða af því.

En annars sýnist mér kerfið vera að hrynja innanfrá. Guðni hættur og ég geri ráð fyrir að Framsóknarflokkurinn sé þar með ónýtur..vegna mergjaðra innanflokksdeilna. Það breytir engu fyrir mig, hef aldrei sett x við þann listabókstaf.

Hér kom skemmtilegur smástrákur í gær. Amma er með rauðar lugtir í stofuglugganum sem stundum eru hengdar út á greinar í garðinum, voða sætt. Hilmar Reynir sá þær og vildi hafa hönd á þeim.

Afi sagði : NEI

Hilmar stóð grafkyrr og horfði hissa á þennan leiðindaafa. Hann potaði varlega í aðra lugtina.

Afi sagði : NEI

það er smáskot þarna og inn í það bakkaði smástrákurinn. Gægðist öðruhvoru fram og horfði á afann. Afi horfði til baka. Smástrákurinn hugsaði sitt ráð. Svo fannst honum afi ekki horfa nógu nákvæmlega á sig og það heyrðist hrossahlátur í horninu. Svo gægðist hann fram og kíkti glottandi á afann.

Smá hrekkjalómur hehe. Það var ferlega gaman að fylgjast með þessu.

°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°

Einn vinnufélaginn var heppinn með farþega um helgina. Þeir óku sem leið lá heim til farþegans og voru komnir inn í húsagötuna. Skyndilega steinþagnar bílstjórinn og stígur um leið á bensíngjöfina. Bílinn æðir áfram en farþeginn er snöggur að hugsa. Hann rífur í handbremsuna, hringir í neyðarlínuna og nær bílstjóranum út úr bílnum. Lögreglan kom mjög fljótt. Okkar maður er á sjúkrahúsi og vonandi á batavegi.

Farþeginn maður á miðjum aldri, fumlaus og ákveðin viðbrögð hans urðu okkar manni til lífs. Hjartað stoppaði í bílstjóranum.

Hugsið ykkur aðra atburðarás...annan stað...bíllinn á mikilli ferð...öðruvísi farþegi.....

Réttur maður á réttum stað.

Frábært


Ó mæ

ég er svo mikill öfuguggi. Í dag er ég á skjön við flesta aðra á Íslandi. Ég er svo hjartanlega glöð og ánægð að það er leitun að öðru eins.

Jahérna...það ætti að tappa mér á flöskur og gefa öðrum. Verst að ég er svo lítil að það dygði ekki á mjög margar flöskur Errm

Annars hef ég ekkert að segja eins og er. Er nebblega upptekin við að láta ljúga að mér og það truflar mig ekki einu sinni !


Happy camper

Ég kom heim áðan, af kvöldvakt ....hvuttar voru farnir inn að sofa með "pabba". Ég stóðst ekki mátið að opna til að fá þau hugheilustu knús sem um getur.

Hann Keli minn verður alltaf svo hjartanlega glaður þegar ég kem heim. Hann endasendist horna á milli í húsinu, í taumlausri gleði. Klessir á allt sem fyrir verður og ber skottinu í restina.

Ég hef verið að taka hann í gegn með að flaðra og nú reynir þetta grey af öllum mætti að setjast bráðlega á rassinn, á tjúllaða rófu sem dinglast svo mikið til að lífsins ómögulegt er að sitja á henni.

Hann situr og ég beygi mig niður til hans, eldsnöggt sleikir hann mig í framan og æðir svo af stað í meiri víðavangsgleðihlaup.

Þið getið hæglega séð hann fyrir ykkur. Lokið augunum og hugsið um...........................Plútó !

Þeir eru ansi líkir.

(ég er annars enn að hlæja að Bjarna Harðar framsóknarmanni. Þessi Framsóknarflokkur þarf enga óvini, hann á þá sjálfur)


Er það satt sem þeir segja um landann?

Ég er ekki á leið á mótmælafund. Mín mótmæli munu fara fram í kjörklefanum þegar þar að kemur. Ég vil ekki taka ábyrgð á skuldum útrásargaukanna en ég hef ákveðið að reyna að taka ábyrgð á einhverjum minna verst settu bræðra. Þá sérstaklega með aðstoð til samtaka sem sjá um og hafa séð um okkar fólk í góðæri og hallæri

Það vantar fólk sem brosir, hughreystir og reynir að dempa æsinginn. Æsingurinn mun engu skila en rökfastar athugasemdir gætu mögulega gert það.

 

Aðalástæða þessa bloggs er sú að ég vil tilkynna að ég er orðin meira en leið á þessu. Ég nenni ekki að halda þessari síðu við og ég nenni heldur ekki að lesa skrilljón útgáfur af "sama" blogginu eins og verið hefur undanfarið. Það eru allir að blogga um það sama. Verði manni svo á að lesa álit einhverra spekinga um ástandið þá eru þau misvísandi eins og allt annað.

Ein setning sló mig þó í dag og auðvitað var það Heiða (www.skessa.blog.is) sem náði í gegnum skrápinn. Hún heldur því fram að bráðum verðum við með svöng börn. Það vona ég svo sannarlega ekki, það segi ég satt. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að alþjóðasamfélagið láti okkur -fórnarlömb græðginnar- svelta hér á skerinu. Andskotinn....

En ég ætla samt að halda mig við plan A. Ég ætla að reyna að vera þeim innan handar sem þess þurfa, milli þess sem ég bisast við mína eigin reikninga. Þeim er amk öllum lokið þennan mánuðinn.

Hafið það sem best ljósin mín.


meiri gleðifærsla- BURT MEÐ SPILLINGARLIÐIÐ !!

Ég gerðist almennileg mamma áðan og sótti Björn.

B: Mamma hvar geymirðu sígaretturnar þínar ?

M: í vasanum eins og alltaf

Björn leitaði í öllun vösum..........á sjálfum sér.

en annars er ég góð, mun betri en þegar ég skrifaði síðasta blogg.

Ég er á báðum áttum með al-anon systemið sem ég hef verið í...mér finnst þetta ekki aaaalveg vera að virka fyrir mig. Ég ætlaði að prufa að skipta um stað en þá er það hægara sagt en gert. Ég ætla allaveganna að hugsa þetta aðeins betur.

Hinsvegar er ég alls ekki á báðum áttum með kirkjuna mína og starfið þar. Þar finnst mér gott að vera.

Kannski meira seinna.....


Kannski kominn tími til

og þó, ég veit það ekki alveg....er kominn tími á færslu ?

Ég hef baslað við sorg og heilmikla reiði undanfarna daga. Ýmislegt hefur orðið til þess að rífa upp illa grónu sárin. Ég hef sem betur fer verið lánsöm og hef haft ágætt næði inn á milli til að reyna að greina ástandið og skoða málin.

Málin hans Patta míns eru vonandi komin í góðan farveg. Um það ætla ég þó ekki að fjalla nákvæmlega, það bæði hentar ekki og svo er það bara ekki mál sem neinn vill skella hér á opið alnetið.

Mér hefur sviðið mín frammistaða undanfarið. Það er ljóst að eitthvað hlýtur að vera að manni sem foreldri þegar árangurinn er ekki betri en þetta. 2/5 eiga yfir höfði sér eða hafa átt yfir höfði sér fangelsisvist ....þetta segir manni einfaldlega það að kennslan hefur brugðist, stórlega.

Þó að maður hafi kannski gert eins vel og maður hafði vit til þá er það ekki nokkur afsökun. Árangurinn sýnir verkin svo ekki verður um villst.

Ég nenni ekki að blogga um kreppu- það eru nógir til þess. Ég hef ákveðið að láta stormana lægja áður en ég æði af stað með sleggjudóma og upphrópanir. Það koma sífellt upp fleiri vinklar á málum og ég get ekkert spáð í þetta fyrr en ég er komin með öll spil á hendi eða amk í sjónmál.

Ég ætla heldur ekki að hætta að greiða lánin mín, við höfum bæði okkar starf og ráðum amk enn við að greiða það sem okkur ber.

Ég gerðist hinsvegar vinur færeyinga á facebook...þeir eru bara flottastir.

Ég tók voðalega nærri mér óvægna gagnrýni á presta um daginn, álpaðist inn á síðu vantrúar. Mikið hefur mitt uppeldi verið ófullkomið, sumt réðist maður ekki á með köpuryrðum var manni kennt í gamla daga. Eitt og eitt blogg hné í þessa átt líka og mér leiddist þetta frámunalega.

Ég veit svo sem ekki hvar ég væri ef ........nei hætt við þessa setningu.

Held að ég sé hætt


26 júlí 1915 + viðbót neðst

Hér kemur ein smá frétt síðan þá.

" Mannlaus bær eða þvi sem næst, var í Reykjavík í gær. Allir sem vetling gátu valdið þutu eitthvað út í buskann þegar um morguninn --og sáust ekki aftur fyrr en fyr en einhverntímann seint og síðarmeir í gærkveldi. Sumir komu als eigi aftur. Ætla þeir að njóta sveitarsælunnar þessa vikuna og hrista af sér höfuðstaðarrykið"

Þarna er um að ræða íslendinga í miðri heimsstyrjöld, þeir vita það ekki en á næstu grösum bíður Katla með gos og pestin mikla 1918.

Ég breytti ekki stafsetningunni, lét hana halda sér.

Sá auglýsingu í gær í svipuðu blaði og þar var auglýst eftir ; Húsvanri stúlku !

Kvenréttindakonur aldrei kallaðar annað en kvenvargar..og sérstök grein birtist um að nú hefðu þær loksins fengið hlutverk. Þær voru sendar á vígvellina með umbúðir og slíkt. Þeim var reyndar ekki fisjað saman, fréttir af þeim koma helst frá Englandi og þar víluðu þær ekki fyrir sér að berja á lögreglunni með stólfótum milli þess sem steinleið yfir þær í skrattans lífstykkjunum. Einhver hefði nú sagt eitthvað nútildags yfir aðförum kvenréttindakvennanna...

En mikið er gaman að lesa þetta..

Ég var akkurat búin að vista og leit í stjórnborðið mitt- þessi færsla blasti við mér og ég vil endilega linka á hana. Flest þekkjum við Tiger, af góðu einu enda er hann búinn til úr einskærum gæðum.

Hérna er hans jólahugsjón

Vonandi geta sem flestir tekið þátt í svona aðstoð fyrir jólin


Hér enn

og fátt í fréttum, hef þó fengið "leið" til að reyna að bjarga Patta. Það er allt í vinnslu og kemur í ljós síðar.

Fáir hafa agiterað meira fyrir því en ég að fólk eigi að taka afleiðingum gerða sinna. Vond hegðun hefur slæmar afleiðingar og nú kinkar Himmi kolli í himnaríki. Ég vil trúa að þar sé hann þó að opinber viðurkenning á trú sé ekki "inn" í þjóðfélagi áður markaðshyggju.

Ég fer vikulega og stundum oftar í kirkjuna...það gerir mér persónulega gott og þá er tilganginum náð. Annað þarf ég ekki...einn dag í einu trítla ég þennan undarlega æfiveg sem hófst á heljarþröm. Fædd svo smá að mér var ekki hugað líf. Mamma sagði að þeir hefðu komið með eitthvað sem líktist ruslafötu en enga vöggu, enda vandséð hvar hefði átt að troða henni - ég er fædd á kamrinum á Landspítalanum. Ekki byrjaði ég lífið glæsilega en ég er þó amk ákveðin í að drepast ekki á kamri, allir aðrir valkostir eru þó opnir .

Ég hef ekkert minnst á það en ég er enn í "viðgerðinni" og það tekur tíma. Ég vildi bara minnast á þetta svo það sæist að ég er eitthvað að gera fyrir mig sjálfa. Eitthvað sem ég tel að hjálpi mér að takast á við lífið, einn dag í einu og stundum klukkustund í senn þegar verst er.

Ég hef verið að lesa moggann síðan í fyrri heimsstyrjöld. Þá komst ekkert til landsins nema með skipum sem voru oft lengi á leiðinni. Enginn barlómur er þó uppi í Morgunblaðinu en talað var um í fréttum í kvöld að landsframleiðslan þá hefði dregist saman um tæp 18 prósent. Núna er spáin að landsframleiðslan dragist saman um 10 prósent. Fólk hitaði upp híbýli sín með kolum, kolaverð rauk upp í stríðinu. Við höfum hitaveitu beint inn í húsin okkar.

Mogginn núna 2008 er ein véfrétt frá upphafi til enda. Ég mæli hinsvegar með þeim "gamla". Hann er miklu meira upplífgandi.

Það á allur fjandinn eftir að fara á hausinn í vetur. Best væri að það gerðist bara sem fyrst svo það væri hægt að hefja uppbygginguna úr rústunum. Ég vona að vinnan mín verði trygg amk önnur hvor þeirra en ég veit að innan okkar raða verður eflaust erfitt sumsstaðar. Menn með myntkörfulán á bílunum og verulegur samdráttur í vinnunni.

Ég hef hinsvegar ákveðið að hafa ekki áhyggjur af þessu..en einu hef ég frestað að sinni. Í fyrra voru fyrstu jólin hér í þessu húsi og ég á ekki jólaseríu utan á kantinn. Ég ætlaði að kaupa mér svoleiðis fyrir þessi jól en ég hef ákveðið að fresta því. Ég á mörg önnur jólaljós og mig hlakkar til þegar ég get sett þau upp. Það er bara rétt rúmur mánuður í það

Sú var tíðin að ég hlakkaði alls ekki til jólanna. Jólin voru bara sár áminning um það hversu mikill skortur var á heimilinu og fátt hægt að gera til að gleðja sig við. Ég kveið jólunum af heilum hug. Svo rugluðum við Steinar saman reitum okkar, efnin afar lítil til að byrja með en með hugvitssemi bjuggum við til okkar jólaanda. Hann tók upp á að bjóða mér í bíltúra á kvöldin til að sýna mér hús sem komin voru í fallegan jólabúning. Það nægði. Enn í dag, öllum þessum árum seinna, hlakkar mig til jólabíltúranna með Steinari. Og það er eins þetta árið. Ég held að við höfum sleppt árinu í fyrra en það vil ég ekki gera nú.

Jæja úr þessu varð jólapistill í október.

Hjödda mín á afmæli á morgun, fyrir fram til hamingju sætasta skvísan á austurlandi. Mamma elskar þig til tunglsins og til baka.....nokkrum sinnum

Góða nótt

 

 

 


Hérna megin

ennþá en það er eiginlega bara tæknilega.

Búin að vera voða leið yfir þessu öllu saman og kvíðir mikið fyrir framhaldinu, ég held að ég sé lögst í smásjálfsvorkunn. Þar vil ég ekki vera. Er að finna mér leið upp úr því.

Það virðist vera sífellt að koma betur fram að fullt af fólki vissi hvað var í vændum en þagði. Steinþagði.

Ég vil losna við eftirtalda:

  1. ríkisstjórnina (en ekki fyrr en ró er komin á, nenni ekki meiri æsing í bili)
  2. seðlabankastjórn og bankaráð hans
  3. Alla í Fjármálaeftirlitinu
  4. Alla yfirstjórn allra bankanna og þar á meðal alla "nýju" bankastjóranna sem voru hvorteð er innanbúðar áður.

5.Alla þingmenn Framsóknar,Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar vegna aðildar.

6. Alla forsvarsmenn lífeyrissjóðanna fyrir fjárhættuspil (tillaga frá Hrönn)

Pirruð á ástandinu ? Nei afhverju heldurðu það?

  1. Þetta fer samt talsvert fyrir ofan garð og neðan, enda hef ég mun verri krísu um að hugsa.

Ja hérna

Tilfinningin um að maður tilheyri hóp, maður skipti einhverju máli er merkileg. Í þessu basli núna hef ég fengið góðar kveðjur inn á bloggið. Meira að segja þeir sem eru á þeirri skoðun að hengja eigi alla glæpamenn í hæsta tré hafa kurteislega þagað þó þá hafi vísast klæjað í puttana yfir að hella úr skálum visku sinnar yfir mig hér, að fólk eigi að taka afleiðingum gjörða sinna og þann pakka allan.

Ég vil nú ekki greina frá neinum smáatriðum, óvíst að málsaðilar vilji það. En bæði í gær og í dag hefur fólk boðist til að reyna að leggja mér lið.

Í tilviki dagsins þurfti Patti að hringja sjálfur í viðkomandi svo hægt væri að skoða málið og leita leiða til lausnar.

Mörgum vinum mínum finnst skelfileg tilhugsun að ég þurfi að horfa á eftir öðrum syni í afplánun. Trúið mér, það finnst mér svo sannarlega líka. Þeir sem vilja skoða bakgrunninn geta sett nafnið hans í leitarglugga á síðunni www.domstolar.is og séð fyrir hvað er verið að dæma.

Þessi færsla er eiginlega öll orðin eitthvað dularfull. En jæja..

Fór í kirkjuna og fór svo að sníkja kaffi og selskap hjá Jennýu, átti að skila kveðju til hennar frá Hrönn en mundi það auðvitað ekkert Blush ehemm...Jenný, Hrönn biður að heilsa.

Það snjóaði eins og það væri enginn morgundagur þegar ég var á leið heim en núna er ekkert að snjóa.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband