Ekki besti árstíminn fyrir þá sem hafa misst

enda var nánast hvert sæti skipað í Grafarvogskirkju sl fimmtudag, á aðventusamveru syrgjenda. Óskaplega notaleg dagskrá, en svo hræðilega erfitt enda finnur maður svo sárt til þess að það vantar í fjölskylduna á þessum tíma.

Svo höfum við verið með í hóp sem hafa misst í sjálfsvígum, það hefur verið tætingur að rifja upp erfiða daga og mikla sorg. Mín trú er samt sú að tætlurnar geti þá kannski gróið réttar saman.

Við erum með frábæru fólki þarna, alveg stórbrotnu !

Ég er búin að setja upp aðventuljósin mín, það eru rauðar stjörnur á böndum, eins og gardína, sjö arma stjakar, jólastjarna í eldhúsgluggann og hreindýrið í stofugluggann. Hreinninn er nýlegur. Ég kaupi yfirleitt eitthvað nýtt fyrir hver jól. En ekki núna, hafði ekki áhugann þessi jólin. Við ætlum að kúvenda mataræðinu þessi jólin, pabbi verður hér og hann þolir ekki reykt og saltað kjöt. Það eru reyndar fleiri sem ekki eiga að borða þannig :)

Þegar sonurinn kemur (býst við honum í janúar) þá ætla ég að slá upp jólaveislu í janúar fyrir hann og kærustuna hans. Ohhh að gera manni þetta, að hirða hann á aðventunni svo við missum af samverunni um jólin !!!

Svo til að eyða alveg jólastuðinu þá tók gigtarlæknirinn upp á að skipta um lyf hjá mér, ég er á einhverju dularfullu núna til tilraunar. Svo er að sjá hvernig það virkar en það tekur amk 14 daga að koma fullri virkni af stað.


Umferðarsektir með eða á móti ?

Í dag voru Frostrósatónleikar í Laugardalshöll. Nokkru eftir að þeir hófust þá birtust mótorhjólalögreglur og hófu að sekta þá sem höfðu lagt á grasinu og á stéttunum.

Ég sá að grasflatirnar höfðu sumsstaðar skemmst enda er svo blautt.

Um daginn bárust fréttir að þeir hefðu sektað nærri Fjölskylduhjálpinni meðan fólk beið í þessari löngu röð.

Hvað finnst fólki um þessar aðfarir ?


Forgangsröðun ?

hefur átt hug minn allan í dag ásamt sorg og miklum kvíða.

Í morgun gengu tveir lögreglumenn inn á vinnustað. Þeir hittu þar að máli ungan mann, 23 ára,  og tilkynntu honum að þeir væru komnir til að færa hann í fangelsi.

Hann starði á þá.

Jú, þú hefur ekki greitt sektir að upphæð....... og nú er komið að vararefsingu.

Hann taldi sig hafa samið við innheimtuaðilann þarna á Blönduósi en eitthvað hafði það klikkað.

Hann fékk frest til klukkan 14 enda ætlaði vinnuveitandi að reyna að útvega peningana til að halda sínum starfsmanni.

Það tókst ekki.

Nú situr ungur maður í fangelsi.

Ef hann er versti glæponinn þá er Ísland í fínum málum.


það skín í gegn

gamla hollusta blaðsins í þessari grein.

Ég hef rennt lauslega yfir aðgerðapakkann og finnst margt sæmilegt sem borið er fram. Svo er að sjá hvernig það virkar. Við hér höfum náð að greiða okkar lán en alltaf þurft að safna skuldahala seinnipart vetrar og höfum náð því niður svo um sumarið. Það er akkurat að byrja svona halasöfnun núna og þetta er svo ferlegt að eiga við.

Að öðru

Hér fór ein kisan undir bíl og sorgin var mikil. Við vorum þó svo lánsöm að viðkomandi sem varð fyrir þessu lét okkur vita af kisa. Við erum nánast aldrei símasambandslaus en við fórum í brúðkaup 20 nóvember. Ég skildi símann eftir heima. Við komum heim stuttu fyrir miðnætti, ég sá missed call og athugaði númerið á www.ja.is en ekkert kom fram þar. Þá fór ég bara að halla mér. Næsta dag fórum við á hundasýningu, ég hafði alveg gleymt þessari hringingu. Þegar við erum að verða komin heim aftur þá hringir nágranninn með þessar hörmungarfréttir og við förum til hennar. Kisi var í kassa fyrir utan hjá henni, orðinn stirðnaður og frosinn grey Refurinn minn. Fyrst ætluðum við að grafa hann heima en náðum ekki að taka nógu djúpa gröf. Steinar hringdi í dýralækninn okkar og hún sagði okkur að koma með hann á umsömdum tíma og þannig endaði æfin hans Rebba míns. Það er ekki svo langt síðan Lappi var felldur og ég ætlaði alltaf að setja svona minningarskilti hér úti við. Svo langaði mig að setja postulínsmyndir af Lappa og Rebba við skiltin. Fór og pantaði skiltin og athugaði svo hvað svona myndir kostuðu, þá kosta þær nærri 20. þúsund fyrir hvort dýr. Nú þarf ég að safna bara :)

hænur og refur októberlok 2010 001

Hér er mynd af fallega og góða Rebbanum mínum, tekin bara nokkrum dögum áður en hann dó. Þessa mynd ætlaði ég að nota enda er hægt að fjarlægja af henni kallinn í drullugallanum -auðveldlega :)

En nú á ég nýja kisu. Málið er að hér í gegnum hef ég eignast góða vini og ein þeirra er Anna. Hún á svona kisu sem margfaldast og fleiri kisur með þeirri - ég var svo heppin að þar var til lítill kettlingur sem vantaði að komast á framtíðarheimili. Hann á ætt að rekja í loðna ketti og þar með kemur kannski svipað skapferli og Refur hafði, þessi blíði kisi. Nú nú, Anna mín bara rennir til mín með Dodda og hér er hann. Hann hefur hjálpað mikið í gegnum sorgina að missa Refinn, hann er voðalega góður kisi. TumiTígur er góður við hann, leikur við hann og þvær honum. Rómeó talar ekki við svona smákrakka frekar en hann er vanur haha nýbúinn að sættast við Refinn þegar hann dó.

Hér er Doddi

Doddi litli og Keli 005

Lagstur hjá Kela sem tekur öllum vel :)

heimsókn í kirkjugarðinn 30 11 2010 004

Svo finna kettlingar sér alltaf spes staði til að sofa á. Hér valdi hann tuskuhilluna mína blessaður.

Vonandi fer fólk ekki af hjörunum við þessa færslu, hún varð óvart meira um kisurnar mínar en aðgerðir ríkisstjórnarinnar :)


mbl.is Miklar umbúðir - rýrt innihald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

hænur

Sterileseruð borg, ó borg mín borg.

Það er einmitt gaman að fjölbreyttni í umhverfinu sínu.

Hér heima eru vorin dásamleg, allir fuglarnir sem koma.

Ég er með hænur, var líka með hana en við förguðum honum. Ég reyni að leitast við að ekki sé ónæði af hænunum mínum eins og lykt. Ég set kattasand í gólfið. Ég er líka með spæni á gólfinu.

Þarna er ein kona sem kvartar. Það er víst nóg.

 


mbl.is Fær ekki að halda hænur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

með hjarta úr steini og flensu

er hægt að vera dramatískari á mánudegi ?

Helgin ætlaði að vera svooooo góð. Við fórum í brúðkaup á laugardeginum og komum heim seint, eins og vera ber af svoleiðis tilefnum.

Á sunnudeginum vantaði kisustrákinn hann Rebba...Steinar tók rölt og fann hann ekki. Keli og Rómeó fóru með honum. Við skruppum á hundasýningu og þegar ég var að verða komin heim þá hringdi síminn minn. Nágrannakona mín lét mig vita að hún hefði keyrt á Rebbann deginum áður og væri með hann heima í kassa. Dýralæknirinn minn tók svo við greyinu, við náðum ekki að taka nógu djúpa gröf hér heima í garði.

Nú hef ég skannað allt sem mér kemur í hug og er að leita að kisustrák með loðna forfeður sem er tilbúinn að koma og eiga heima hjá mér og strákunum okkar.


Nægur tími til að hugsa þessa dagana

enda er ég heima.

Ég hef verið að hugsa um geðheilbrigðisþjónustuna undanfarið. Ég á kæra vinkonu sem gekk endalaust á veggi með sinn aðstandenda. Ég hef svo heyrt í mun fleirum sem það gera.

Fólki í alvarlegum geðvanda hefur verið sagt að það sé enginn tími fyrr en eftir 2-3 vikur. Fólk hefur staðið sturlun næst fyrir utan geðdeild LSP.

Stundum hef ég hugsað að ég ætti að láta skutla mér þarna niðureftir, þegar angistin hefur ætlað mig lifandi að drepa en nei...þá man ég hvernig kerfið virkar og hvernig ég virka. Ég er ekki sleip við svona lækna heldur. Og ég hef þraukað angistarkastið hér heima.

Um daginn var samanburður milli sjálfsvíga og bílslysa. Ef það létust svona margir í bílslysum á ári þá yrði gert eitthvað róttækt.

Nú skulum við aðeins hugsa. Setjum hjartasjúklinga í stað geðsjúkra. Myndum við segja við aðila í hjartakasti að koma eftir 2-3 vikur  ? nei hann myndi líklega deyja á meðan !

En áttið ykkur á því, margir þessara geðsjúku gera einmitt það. Þeir deyja á meðan.

Svo er verið að hiksta á að aðstoða þá sem er geðtruflaðir vegna neyslu fíkniefna. Það er svo líka eins og að neita hjartasjúklingi sem er of feitur vegna vitlauss mataræðis um hjálp.

Það þýðir ekkert að segja K R E P P A við mig. Þetta var ekki skömminni skárra í góðærinu. Og núna væri enn meiri þörf fyrir að hafa geðbatteríið í lagi. Það eiga margir við kvíða að etja núna vegna áhyggna af fjármálum og framtíð.

 


16 nóvember 1985

fæddist hann Himmi minn. Það er samt rúm þrjú ár síðan hann lést. Enn er ég að brasa við afleiðingar þessa sviplega og óvænta andláts. Ég reyni að taka ábyrgð á mér og koma mér í þá hjálp sem býðst. Steinar minn hefur verið betri en enginn og hann hefur látið sig hafa það að styðja við sína hvert fótmál og hvert skref.

Nú ætla ég að rannsaka hvort ljósasíðan hans virkar enn og setja ljós fyrir hann í tilefni þess að í dag eru 25 ár síðan hann fæddist.


Horfið endilega á myndskeiðið

það er alveg ótrúlega magnað að sjá hvernig þetta gerist.

Hann er seigur sá sem myndaði þetta, flott staðsettur og fínar myndir :)


mbl.is Krapaflóð í Eystri-Rangá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

sporin ægilegu

og þegar ég stóð í þeim þá bara kom mér ekki í hug hversu margir hafa þurft og munu þurfa að stana í sömu sporum.

Halldór setur þetta upp þannig að fólk nær að skilja umfangið en tala yfir sjálfsvíg er líklega hærri en fram kemur í opinberum tölum.

Í kvöld verður fræðslufundur í Háteigskirkju, safnaðarheimilinu, klukkan 20.30. Af fenginni reynslu veit ég að það er gott að hittast.

Komum saman í kvöld. Berum byrðina saman.


mbl.is Sjálfsvíg eru samfélagsmein sem nauðsyn er að ræða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband