Lært að aka bifreið
29.1.2008 | 17:11
Það er verkefni hins unga manns þessa dagana. Hann hringdi í ökukennarann sinn sem allshugar feginn tók við týndum sauði og saman óku þeir glaðir út í byl áðan. Hvurslags ! sagði Björn, það er alltaf vitlaust veður þegar ég ætla að læra á bíl !! Já sagði móðirin og bætti við,, þú átt eftir að standa alveg á gati í sumar, kannt ekkert að keyra í auðu Skringilegt augnaráð barst yfir borðið.
Stundum held ég að hann haldi að foreldrið ætti að vera á stofnun fyrir þessa gerð rugludalla. En það góða er að það getur enginn strítt honum, það er búið að stríða honum í tæp 20 ár og hann glottir að öllu sem sagt er við hann. Hilmar gat nú sæmilega enst við að stríða liðinu sínu þannig að hér eru allir með þolmörk í lagi.
Annars hefur móðirin átt við öndunarerfiðleika að stríða undanfarna daga og vikur. Gjörsamlega að kafna úr forvitni. Ákveðin merki þess að hinn ungi maður væri komin með augastað á stúlku litu dagsins ljós um daginn. Minn maður dressaði sig upp og þríelfdist í baðferðum, rakstri og öðru pjatti ....Þegar mamman var alveg orðin blá þá meðgekk hann. Svo komumst við sameiginlega að því að þó að mamman sé forvitin þá sló stóra systir henni margfalt við í gær.
Björn beitir heimsfrægu umburðarlyndi á sínar kellingar og gefur upplýsingar í teskeiðarskömmtum. Það vill til að hann veit að kellingunum hans gengur gott eitt til með forvitninni og eru bara að passa sinn strák sem er uppáhalds bangsinn. En nú hefði hann náttlega þurft að heita Adam...bömmer.
Ef ekkert heyrist í mér næstu daga þá hefur Björn hent mér út fyrir uppljóstranir.....það vill til að hænsnakofinn er upphitaður en þar er ekkert netsamband.
Ég er enn ekki búin að horfa á spaugstofuna ...
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 09:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Til fundar við skáldið
29.1.2008 | 00:02
er viðfangsefni undanfarinna kvölda. Sakir slæmra draumfara og annars óviðkomandi vesens þá hef ég staldrað við í húsi skáldsins á Gljúfrasteini. Skáldið hefur lengi verið einn af mínum eftirlætisskáldum og ekki minnkaði dálætið nú við að fá að sjá hann sjálfan spjalla við forleggjara sinn til margra ára Ólaf Ragnarsson. Ég segi sjá, vegna þess að bækur gerast fyrir augum mér, ljóslifandi stökkva persónur fram og ég sé þær. Hér á heimilinu eru til flestar þær bækur sem Halldór skrifaði. Sumar hef ég oft lesið en blaðað í öðrum...og geymt mér þær til seinni tíma. Uppáhaldið mitt er og hefur ætíð verið Íslandsklukkan.
Við lestur þessarar bókar nú vakti ekki minni aðdáun hjá mér húsfrúin á Gljúfrasteini. Hún hefur oftast staðið í skugga hins merkilega manns Halldórs en nú sé ég að þar var hún af fúsum vilja. Hún gerði það sem gera þurfti og sá um okkar þjóðskáld þannig að virðing er mikil að. Hvílík kona ! Hvílík hjón !
Það má taka hverja þá bók sem hann skrifaði og lesa oft á ári. Upplifunin verður alltaf ný og framandi. Á hverri blaðsíðu stekkur fram fullsköpuð saga þjóðar í þroska.
Þetta er fyrsta færslan sem ég hef skrifað í þennan færsluflokk um bækur. Bækur eru salt lífsins, án bóka væri tilveran aum.
Bækur | Breytt 21.9.2009 kl. 09:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Ungur maður
27.1.2008 | 17:45
fékk nafnið sitt í dag. Amma skrönglaðist suður með í sjó í agnarsmáa kirkju
- í vitlausu veðri að sjá drenginn sinn vatni ausinn.
Hann heitir Hilmar Reynir og er Jónsson.
Amma gleymdi myndavélinni enda amma ekki alveg hress í dag.
Bætti við mynd af kirkjunni sem Hilmar Reynir var skírður í . Svo er að gera grein fyrir nöfnunum hans, Hilmars nafnið þekkið þið. Hann tekur nafnið eftir Hilmari Má sem fæddur var 22 árum og 11 dögum betur á sjúkrahúsinu í Keflavík. Reynisnafnið hefur hann eftir föðurafa sínum.
Athöfnin var ósköp stresslaus, ágætur prestur þarna á ferðinni sem ekki var of stífur. Ég hugsaði um Guð á meðan athöfn stóð og komst að því að ég er hundósátt við hann ennþá. Þegar presturinn var að tala um skírnarsáttmálann þá talaði hann um að þar með yrði Guð alltaf með Hilmari litla. Hilmar minn hlýtur að hafa umgengis sama sáttmála og hvar var þá Guð í sumar ? Hann var allaveganna ekki með mínum strák í klefanum á Litla Hrauni.
Ég er enn að reyna að skilja breytt líf og aðra heimsmynd frá mínum bæjardyrum, mér er að skiljast að breytingin er varanleg. Það hefur verið dregin hula fyrir augun, ég sé ekki alltaf leiðina sem ég á að fara héðan. Það veit ég samt að kemur með tímanum. Ég er bara ekki nægilega þolinmóð til að geta verið sátt að bíða eftir logninu.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 09:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (45)
Vöknuð
27.1.2008 | 10:34
og er að hlusta á Jennýu mína. Það er sunnudagur og ég sit með tárin í augunum.
Jenný og Valdís eru að spila lög inn á milli og þær komu með lagið hans Einars Vilbergs ; I love you for a reason. Ekki veit ég hversu oft ég hlustaði á þetta lag eftir að ég missti Himma minn, þetta lag hitti heim í taugarnar á mér.
Einar Vilberg, takk fyrir þetta lag.
Í dag er slæmt veður en samt ekki þannig að ekki sé hægt að fara út, sem betur fer. Ég á eftir að skreppa af bæ í dag. Það er eins gott að verði ekki verra veður en þetta, ég er svo veðurhrædd.
Ég get ekki spáð í Spaugstofuna, sá ekki þáttinn.
En þessi færsla átti bara að vera til heiðurs Einari Vilberg. Ég er lánsöm kona og get svikalaust talið hann vin minn.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 09:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Morgunblaðið í dag
26.1.2008 | 13:18
sjá baksíðu og miðopnu.
Þar er verið að fjalla um meðferðarheimili sem ætluð eru ungu fólki sem kljást við eiturlyfjavanda. Lengi hefur fagfólk talið að slík heimili séu það rétta fyrir slíka einstaklinga, það taldi ég líka þar til ég prufaði það á einum minna krakka. Minn varð fyrir einelti í skóla og fann leið útúr því að hann hélt. Hann varð hroðalegur töffari og kaldur kall. Fór að nota allskonar efni og sá ekki með nokkru móti villu síns vegar. Marglokaður inni á neyðarvistun Stuðla. Mamman þrammaði í þar til gerð yfirvöld og vildi fá aðstoð með sinn orm. Það tók tíma en eftir c.a. 2 ár þá var hann settur á svona meðferðarheimili, huggulegt sveitaheimili með starfsfólki og auðvitað fullt af öðrum krökkum í sömu stöðu. Þarna var hann ákveðinn tíma en svo var honum skilað til móður sinnar...í svo sem ágætis formi.
Smátt og smátt kom hann með upplýsingar um veruna þar. Fyrst tók ég afar takmarkað mark á honum. Nokkrir vinir sem hann hafði eignast þarna kíktu til okkar. Þeir voru með svipaðar yfirlýsingar um veruna þarna.
Smátt og smátt rann upp fyrir mér ljós. Hann hafði verið í geymslu, án allrar fagþjónustu sem maður myndi ætla að þyrfti að vera á slíkum stað. Hann hafði eiginlega bara verið fjósamaður í sveit í 18 mánuði. Sumt sem krakkarnir sögðu var eitthvað sem ekki á að eiga sér stað, hvorki þarna né í mannlegu samfélagi yfirleitt.
Ég hugsaði málið nokkuð lengi en ákvað svo að skrifa til barnaverndarstofu og gera grein fyrir því sem krakkarnir sögðu. Málið var rannsakað og svo auðvitað fellt niður, en ekki hvað. Bréfið sem kom frá þessu meðferðarheimili verður mér alltaf minnisstætt. Ég fékk ákúrur frá þessu heimili fyrir að hafa vogað mér að gera athugasemdir og þau sem höfðu verið svo góð við son minn. Til að það misskiljist ekki þá voru alvarlegustu ásakanir krakkanna ekki varðandi brot gegn þeim sjálfum, heldur nokkuð sem þau urðu vitni að.
Allan tímann sem hann var þarna þá var ekkert gert fyrir okkur hin í fjölskyldunni, við vorum skilin eftir jafnbrotin og við höfðum verið.
Núna er verið að hugsa um að breyta þessu, setja upp öðruvísi kerfi og vinna með unglinginn og fólkið hans sem heild.
Í þessari umfjöllun er rætt við unga afbrotamenn og þeir vilja heldur vera í fangelsi en á þessum meðferðarheimilum sem boðið er upp á.
Við foreldrar fíkla og fanga erum ekki þrýstihópur. Það er búið að vega að okkur á þann sárasta hátt sem til er. Börnin okkar eru í voða og við erum brotnar sálir.
Það þarf líka að vera með mismunandi úrræði fyrir mismunandi krakka. Himmi var settur í rannsóknarvistun á Stuðlum þegar hann var 15 ár. Hann var innan um krakka sem höfðu verið í harðri neyslu. Hann hafði ekki verið í neyslu fram að þeim tíma. Hvað ætli hann hafi lært þarna innan um hina ? Neyslan var samt aldrei hans akkilesarhæll, hann átti við annarskonar vanda að stríða.
Breiðavík samtímans er kannski nær okkur en við höldum en nú er málið, ætlum við að bíða í 15-20 ár eftir að birtist hópur illa farinna manneskja eða ætlum við að hafa vit á að skoða þessi mál og hafa þau í reglulegri endurskoðun ?
Okkar er valið.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 09:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
Gullfiskur í kúlu
24.1.2008 | 19:46
Það er eiginlega bara ég.
Undanfarið hef ég velt ýmsu fyrir mér og þar á meðal þessari síðu hérna. Hérna hrúgast inn skrilljón gestir dag hvern og líðanin er stundum eins og ég sé gullfiskur í kúlu og í Kringlunni.
Mér leiðist þetta oft.
Svo er hitt, ég tel mig vera búna að koma því frá mér sem til stóð. Ég er búin að kynna ykkur hann Himma minn og ég sé alveg að þið ykkar sem kvittið hér og hafið skoðun eruð búin að sjá strákangann minn eins og hann var. Sonur móður sinnar og föður, stjúpsonur hennar Heiðar og Steinars, hjartkær bróðir svo margra systkina.
Hafið ævarandi þökk fyrir það. Það er kominn tími á hvíld
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 09:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
Ekki oft
24.1.2008 | 12:34
sem ég blogga um fréttir en ég er að horfa á beina útsendingu frá þessum fundi og ég er svo sátt við þessa mótmælendur. Það er ekki oft sem fólk lætur í sér heyra. Ég hefði mætt væri ég borgarbúi. Þetta er til hreinnar skammar.
Nýr borgarstjóri virðist eiga ansi erfitt við þessar aðstæður enda ekki nema von. Það skal vera ferlegt að gerð séu slík hróp að manni við þessar aðstæður. Hann er bara leiksoppur. Strengjabrúða.
Dagur stóð sig vel í að tala við fjöldann, greinilega og skýrt bað hann um fundarfrið til að pólitíkin lokaðist ekki inni í lokuðu herbergi.
Nú held ég áfram að horfa á fundinn
Jæja ég hef verið að skoða gestina á pöllunum betur og mér sýnast þetta vera stúdentarnir okkar. Þeirra framganga er vaskleg eins og oft áður í gegnum tíðina. Þeirra er óneitanlega framtíðin. Hvenær hafa fundir verið truflaðir með þessum hætti ?
Í dag er merkisdagur, hundrað ár síðan konur voru fyrst kjörnar í borgarstjórn.
Fólk talar um að þetta sé lýðræðislega réttur gjörningur í ráðhúsinu ss. skiptin. Er ekki lýðræðislegur réttur að mótmæla ?
Skrílslæti ? Njah ég held ekki. Við þessi gömlu tuðum á bloggsíðum og sum okkar í blöðunum....en að gera eitthvað ? Nei við erum löngu orðin að of miklum aumingjum til að gera neitt sjálf nema í hvarfi.
Ég hef lengi verið sjálfstæðiskona (já nú er það komið úr pokanum) Sem betur fer hef ég rétt til að skipta um skoðun.
Ég vonaði í lengstu lög að einhver sjálfstæðismaðurinn hefði dug í sér til að snúa baki við þessu rugli í kosningunum en sú von brást.
Bingi reyndi að stela senunni með að hætta en það hefur alveg fallið í skuggann....
Dæs....erfiður dagur þetta, allt of margt að gerast.
![]() |
Hávær mótmæli í Ráðhúsinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 09:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Andlegur skyldleiki
24.1.2008 | 11:12
er nokkuð magnaður. Þegar maður heldur að maður sé einstakur en allt í einu rekst maður á aðra manneskju sem maður skilur alveg, hvert orð og hverja hugsun.
Eftir að Himmi dó þá hef ég kynnst mörgu nýju fólki. Fólk hefur verið gott við mig hérna, nánast undantekningalaust. Sumir hafa gert betur en að peppa mig upp hérna, fólk hefur komið til mín. Það hafa verið yndislegar heimsóknir. Það var verið skrifuð mörg innlegg til mín þegar dagarnir hafa verið daprir, þau hafa hjálpað ótrúlega.
Ég hef lesið þau öll en stundum undrast innlegg einnar bloggvinkonu minnar, hún hittir alltaf akkurat á verkinn sem ég hef verið að kljást við. Hún kemur líka alltaf með lausnina sem hentar mér, hittir semsagt alltaf í mark og ég næ í örvæntingunni og sorginni að skilja betur.
Þetta er hún Anna.
Anna er vinkona mín og það finnst mér vera heiður.
Í dag skrifar Anna merkilega færslu á síðuna sína og loksins núna skil ég afhverju hún skilur mig.
Anna mín, í dag ertu formlega ráðin sem lærimeistari minn. Saman göngum við þennan veg.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 09:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Umræðan er um tölvupóst
23.1.2008 | 22:58
ég bendi á færslu Guðrúnar B bloggvinkonu minnar.
Hérna er ég með emailið mitt uppi við og stundum fæ ég send svona email.
Oftast eyði ég þeim en stundum sendi ég þau áfram og biðst hér með afsökunar á því og lofa að steinhætta því.
En málið er að það er fátt leiðinlegra en svona tölvupóstraðskeyti, þessi þar sem maður á að detta niður dauður eftir korter ef maður áframsendir ekki á 17 saklausa vini sína. Svo er dótið skreytt með fallegum kisum eða svöngum smábörnum. Svo situr maður í taugaveiklun í umrætt kortér og fær næstum slag af hræðslu og endar fyrir bragðið á geðdeild, taugabilaður !
Ég segi nei takk...ekki svona skeyti til mín.
Góða nótt
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 09:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
23 janúar 2008
23.1.2008 | 22:36
Og ég er að horfa á Kastljósið, umfjöllun um gosið í Eyjum. Í huganum bærast ýmsar tilfinningar, ég man þessa atburði vel. Ég missti nú sjaldnast af stórfréttum, hún mamma heitin sá til þess. Ef eitthvað stórbrotið var í blöðunum þá kom hún þjótandi inn til mín með blaðið til að sýna mér. Ég á áreiðanlega met í að vakna með andfælum
Ég man að ég fann óskaplega til með flóttafólki úr eyjum. Nú þegar ég horfi á þetta þá dáist ég að æðruleysi vestmanneyinganna. Fólk bara pakkaði saman og fór um borð í skip, engin læti eða neitt. Afar margt varð til þess að ekki varð stórfellt manntjón, röð heppilegra tilvika. Veður var skaplegt, sprungan sneri frá byggð og allur flotinn var inni.
Enn í dag eru vestmanneyingar alvöru fólk, það þóttist ég sjá á því að grunnskólabörnin syngja drykkuvísur í skólanum .
Ég man ekki til þess að neinn hafi birst í skólanum hjá mér, ég er þó ekki alveg viss. En mikið hefur verið nöturlegt að snúa heim, allt svart af gjalli og allar aðstæður hinar erfiðustu. Vestmanneyingar stóðust prófið og eru hugaðir og heilir einstaklingar.
Þessi færsla er til heiður þeim sem í þessum eyjum búa.
Jahá...bæjarstjórinn í eyjum heldur enginn sé til sem ekki hefur komið til eyja, hvar ætti ég að fela mig ?
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 09:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)