Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

vinnutörnin búin þessa vikuna

og ég kemst í tvo daga í hina vinnuna...

Dagarnir eru bara erfiðir, Alda mín í huganum hverja stund. Það er svo erfitt að eiga að kveðja hana, ég hef engan haft meira samband við í gegnum tíðina en hana - hún hefur alltaf verið þarna innan seilingar.

Ég talaði við Lalla í kvöld og það er svo gott að tala við Lalla, þar er svo mikill Öldubragur á því. Hann skilur hvert orð sem ég segi og ég skil hann til baka.

Á föstudag leggjum við land undir fót og erum búin að ráða hús og hunda-kattapassara á meðan. Við förum austur og fylgjum Öldu síðasta spölinn hennar.

Bílstjórinn sem flutti lik hennar austur viknaði á leiðinni. Lalli fylgdi á sínum bíl. En svo komu bílar að austan til að fylgja Öldu heim í hinsta sinn og úr varð þessi fallega fimmtán bíla líkfylgd. Bílstjórinn táraðist og sagðist ekki fyrr hafa fengið slíkar viðtökur þegar hann hefði flutt lík heim.

Ó hvað mig kvíður fyrir föstudeginum


Mamman tuðar í barninu

og aldrei læri ég að stundum er bara best að segja ekki neitt...

Í gær kom Bear með föt til að setja í vél

Hann hringdi til að fá leiðbeiningar á þvottavélina

Mamman leiðbeindi.

Mamman kom heim og þá var þvottur í vél og enginn Björn, vélin löngu búin

Mamman svaf og þurfti að nota vél um morguninn (kelmundur gubbaði í bólið sitt )

Þvottur Bear´s fór í þurrkarann, mamman pirruð...

Hringdi í Bear og sagði að þetta "virkaði ekki"

Menn sem kæmu að þvo ættu að þvo, setja í þurrkarann og bíða eftir þessu öllu saman.

Nú væri mamman sko búin að setja í þurrkarann !

Björn þagði svolitla stund og spurði svo : Hvað virkaði ekki ? með háðstón í röddinni.

°°°°°°°°°°°°°°

mamman lét plata sig, björninn kom þvottinum á kelluna og allir bara hamingjusamir, er það ekki bara ?


Manni leggst eitthvað til

en maður verður oft bara að sjá það.

Um daginn var ég ekki stór upp á mig andlega, óttalega kjarklaus og þreytt.

Minn maður bauð í bíltúr.

Það eru oft yndislegar stundir, talað um allt og ekkert, höldumst í hendur.....

Nema hann segir ; sko sérðu lóurnar ?!

Ég sé engar lóur og varð eiginlega smá spæld, hugurinn þreyttur og þolið í skuld.

Minnstu munaði að hann sneri við svo ég sæi þessar árans lóur.

En hann gerði það ekki

ég var spæld í þessar lögbundnu fimm mínútur

í dag fórum við aftur í bílinn, að sækja minn bíl og þá sá ég lóurnar, ekki þessar tvær sem hann sá um daginn heldur heilu breiðurnar af lóum hér á Bessastaðatúninu.

Jeyj...þá er vorið komið

°°°°°°°°°°°°°°°°°°°

Rómeó fjöldamorðingi er móðgaður. Hann er kominn með bláa glimmeról með bjöllu. Honum finnst hann hálf ræsknislegur með þetta og stórhneykslaður á hávaðanum sem kemur þegar hann hreyfir sig.

Rómeó er æði, ég er svo ánægð með að hafa fengið þennan kisa.


Alveg andlaus

en það lagast víst.

Kærar þakkir fyrir yndislegar kveðjur hér við næstu færslu.

Ég kem aftur þegar andleysið minnkar.

Kær kveðja

Ragga


Fyrir nokkrum dögum

átti maður afmæli, hann varð fertugur. Hans minnisstæðasta gjöf var hugrekki og kjarkur eiginkonu hans, sem dauðveik reyndi sitt ítrasta til að gleðja hann þennan dag. Þetta var síðastliðinn skírdag.

Snemma að morgni föstudagsins langa fór hann með hana inn á sjúkrahúsið, þá gat hún ekki meira. Baráttan við krabbameinið hafði staðið síðan í maí á síðasta ári. En frá upphafi var við mikið ofurefli að etja. Í hennar huga var þó ekki til nokkur uppgjöf nú frekar en fyrr á hennar æfi.

Hún kannaðist aldrei við að geta ekki eitthvað.

Fólkið hennar kom í bæinn á laugardaginn, óku frá Höfn og frá Grenivík. Ég er ekki viss um að hún hafi orðið vör við þau með meðvitund en við sögðum henni að þau væru komin. Ég var á morgunvöktum þessa helgi í vinnunni.

Í gær fór ég heim áður en ég fór til hennar. Fólkið hennar birtist allt hér stuttu seinna, ég gaf þeim að borða og svo fórum við niður á spítala.

Breytingin til hins verra mjög afgerandi.

Við skiptumst á að vera hjá henni, ég náði að standa ein hjá henni nokkurn tíma og ég notaði hann til að rifja upp eitthvað sem við bara tvær vissum...svo láku tárin, á sængina hennar og fölu hendurnar.

Smátt og smátt fækkaði fólki. Þær á spítalanum gátu ekki alveg sagt til um hversu langan tíma þetta tæki. Um miðnætti vorum við Steinar og Bjössi ein eftir, auðvitað fyrir utan Lalla. Lalli orðinn svo þreyttur.

Við ákváðum að skreppa aðeins heim og sjá hvort Lalla tækist að sofa aðeins, við komum aftur eftir 2-3 tíma sögðum við. Bjössi beið aðeins hjá Öldu meðan Lalli skrapp aðeins....örstutt..innan við hálftíma.

Svo labbaði Björn heim.

Þá var klukkan um eitt....

Heima bylti ég mér...en hrökk upp rétt fyrir 3.

Var að hugsa um að ýta við Steinari til að keyra mig niðureftir..en þá hringdi Lalli.

Rétt fyrir 3 vöktu hjúkrunarkonurnar hann.

Alda var að fara

Hálfu öðru ári eftir að hún fylgdi Himma sínum til grafar þá deyr hún sjálf, 34 ára gömul..

Kærar þakkir þið- fyrir fyrirbænir og aðrar góðar hugsanir til hennar og hennar fjölskyldu.

Guð geymi hana Öldu mína


Kertasíðan hans Himma

er hér í tenglum.

Í dag hefur ákveðin breyting orðið.


Skrapp í messu

og er hreinlega endurnærð.....

meira síðar

Ég hef ekki farið í nokkurn tíma í kvöldmessu en ákvað að fara núna. Steinar kom með, þessi þolinmæðiskall minn, hann fer með í messur og allt mögulegt og er ánægður með það, ekkert verið að pína hann.

 Við höfum hlegið saman að þessum draumi í morgun, ég hrökk upp með hræðilegum andfælum. Mér fannst Steinar hafa farið frá mér, ég var svo leiðinleg. Ég gat alveg skilið að ég hafi verið leiðinleg, mér finnst ég hafa verið það undanfarið...vegna ýmiss álags sem ég hef verið að bjástra með. En mikið var ég fegin þegar ég sá hann þarna steinsofandi og langsætastan við hliðina á mér...fjúkk...

 


gleymdi mér

ég má ekki loka hérna, var ég ekki búin að lofa ættingjum, vinum og kunningjum Himma að allir mættu taka myndir af honum hér ?

Þetta er heldur eiginlega ekki mitt blogg, þetta er meira hans blogg...eða já, þið skiljið sum og önnur ekki.

Ég ætlaði bara að skrifa meðan það væri vit í því, vitið er farið.

Að leiðarlokum fáið þið knús á alla heilu línuna, ég lofa ekki að ég sé hætt, ég lofa ekki að ég komi ekki aftur...en þið sem saknið Himmans okkar...hér er hliðarblogg sem heitir bók Hilmars - þar eru færslurnar síðan hann dó og eitthvað fram eftir árinu 2008..ég á eftir að sortera betur og sjá hvort eitthvað meira héðan eigi að fara þar yfir eða bara í glatkistuna.

Ég vil sérstaklega óska þeim alls hins besta sem hér hafa lesið, þeim bloggvinum sem eru hér ekki lengur óska ég alls hins besta (vissuð þið að hér voru rúmlega 300 bloggvinir þegar mest var ?)

Helgu Valdimarsdóttur bið ég sérstaklega afsökunar á að hafa afritað færslu hennar inn á facebook án hennar leyfis. Það var ekki flott hjá mér.

Fyrir nokkru stofnaði ég aðra síðu sem átti að vera meira svona fyrir mig persónulega, en ekki fyrir konuna sem var mammahansHimma... Verið velkomin að kíkja á hana...slóðin þangað er www.gledibankinn.blog.is

Aðrir sem eru móðgaðir við mig ..ég veit ekki hvað skal gera við þá...nú er ég eins og Geir..get svosem beðist afsökunar en það kemur ekki frá hjartanu enda veit ég ekki hvað ég ætti að hafa gert þeim svosem....

Farin á spítalann.


Bloggfærsla gærdagsins

frá Valda, bróður strákanna minna.

Hvernig verður andlitið á strump ( smurf ) á litinn ef maður kyrkir  hann?

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband