Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Í mínum huga

er sumrinu formlega lokið 1 september. Þetta er bara eitthvað sem ég hef bitið í mig, einhver skilgreining.

Helgin hefur liðið við að gera nánast ekki neitt. Steinar var sjálfur að aka um helgina þannig að ég sat bara eins og hljóðlát mús á daginn þegar hann svaf. Svo sat ég ein á kvöldin og horfði á sjónvarpið -hvuttarnir fóru inn að sofa eins og þeir eru vanir...ekkert að pæla í gömlu.

Í dag var þetta samt betra. Við skruppum í garðinn og tókum blómin hjá Himma, eitthvað af þeim hafði horfið -líklega fokið í rokinu um daginn. Svo bar Steinar á krossinn hans Himma fyrir veturinn, hann er orðinn ansi sprunginn.

Hann á nú bara að vera til vors. Þá ætla ég að reyna að vera búin að safna fyrir legsteini.

Þetta sumar hefur verið bjánalegt. Fyrst tók við biðin langa eftir ákveðnum degi og svo tók við léttirinn yfir að sá dagur væri liðinn. Þannig að ég hef nánast ekkert gert af neinu viti í sumar. Ooo hvað ég vona að næsta sumar verði betra...

Það er þó frekar hæpið, enn er Himmi það síðasta sem hvarflar um hugann áður en ég sofna og það fyrsta sem ég næ að festa hugsun á hvern morgun. Vesalings Himmi minn. Stundum er ég hrædd um að ég sé eigingjörn af því að vilja hafa hann lengur hér, kannski hefði lífið hans bara alltaf orðið erfitt og sárt. Hvað veit ég um það ? Ég veit hinsvegar að ég mun sakna hans alla mína daga....og varla sættast nokkurn tímann við að hann sé ekki lengur hér. Hlusta í tómið og heyri bjölluhláturinn hans, finn lyktina af honum og heyri í fjarska fótatakið en það fjarlægist bara.

Í óravíddum mannshugans er breidd hula, til að eigandi hugans fari ekki alveg yfirum. Sársaukinn er skammtaður og óminnið er blessun.

Í næstu viku tekur enn hið daglega líf við, með hversdagslegum vandamálum sem þarf að leysa. Veturinn verður vonandi skárri en þessi síðasti. Ég ætla að vonast til þess.


Umhugsunar virði

Hvað var það sem falið var beint við nef okkar hinna ?

Þetta myndband er vel þessi virði að skoða það og hugsa um það.


30 ágúst 2008

Ég þjáist að klumsu.

Ég er hinsvegar að horfa á bráðmerkilegan þátt (history channel) um Bermuda þríhyrninginn, þarna sem skip og flugvélar hverfa.

Borðaði einn eldri borgara áðan, eða sko ég hætti við eftir nokkra bita. Tókst að kaupa vondan kjúlla sem hefur ruglast í ríminu einhversstaðar á leiðinni í frystinn eftir að hausinn var fokinn af. Ég meina það, maður ruglast nú af minna tilefni en að vera skyndilega orðinn hauslaus.

Hann um það, flaug í tunnuna bara.

 


Hvert ætti maður að snúa sér

ef mann langar að læra að hreyfa sig rétt. Fær maður spólur einhversstaðar eða á maður bara að sprikla eitthvað á eigin spýtur ?

Einhverntímann vildi ég draga gamla minn með í ræktina en hann harðneitaði að fara. Hann hefur ástæðu fyrir því.

Málið er að okkur vantar meiri orku og hana fær maður með meiri hreyfingu. Bæði þurfum við að losna við fjandimörg aukakíló en þó hann sé hlutfallslega með fleiri þá eru mín meira truflandi....ég ber þau ekki nógu vel.

Bara hugs dagsins í boði SS

Allar góðar hugmyndir má setja í bréfalúgu bloggsins (athugasemdakerfið)


29 ágúst 2008

og dagurinn lítur ekki vel út, veðurfarslega séð.

Ég hef verið að spá í fréttabloggara, ekki í neikvæðum hugleiðingum heldur finnst mér oft gaman að sjá hvað fólk er að spá í við hinar ýmsu fréttir.

Ég er dæmigerð vog og er hreint ekkert fljót að mynda mér skoðanir á málum. Það er galli og þess vegna get ég ekki fréttabloggað W00t Ég yrði búin að skipta um skoðun fljótlega og fara svo í nokkra hringi með dæmið. Það gengru ekki, ég fengi viðurnefnið Ragnheiður skoðanaskiptir.

En ég er núna búin að vera að spá í hitt og þetta. Aðallega samsæriskenningar sem vaða uppi. Fólk sem sér allt það versta í fari annarra. Nú er til dæmis mikið talað um veiðiferð og hvort menni hafi endurgreitt eða bara greitt sjálfir fyrir ferðina. Guðlaugur Þór vill ekki opna heimilisbókhaldið fyrir Vísi. Eðlilega, segi ég. Annaðhvort velur maður að trúa manninum eða ekki, afar einfalt og fylgir nokkuð áreiðanlega flokkslínum bara. Og þó hann kæmi með kvittun þá yrðu áreiðanlega einhverjir til þess að halda því fram að "vinur" hans hafi útbúið þessa kvittun bara til að hafa til sýnis en engin raunveruleg peningafærsla hefði átt sér stað.

Þingmenn og ráðherrar í dag eru undir mun meira aðhaldi en áður fyrr. Áður fannst mér fólk bera miklu meiri virðingu fyrir ráðherrum. Mér finnst reyndar almennt virðingarleysi tröllríða samfélaginu. Fólk ber ekki virðingu fyrir lögum og reglum NEMA þær gildi þá um einhverja aðra en það sjálft. Nú er ég ekki að leggja til einhvern sleikjuskap gagnvart yfirvöldum en flestum væri hollt að íhuga aðeins orsök og afleiðingu og reyna að sjá stóru myndina.

og svo ég fari aðeins í hina áttina : Virðing þeim sem virðing ber. Virðing er áunnið fyrirbæri en kurteisi er hinsvegar alltaf sjálfsögð.

Það má koma skoðunum sínum á framfæri án þess að vera ruddi. Það má skrifa pistla án þess að nota efsta stig lýsingarorða og heilan skammt af upphrópunarmerkjum.

Sumir skrifa beitta pistla, jafnvel gegn eigin sannfæringu til að vekja á sér athygli. Við sem höfum verið hér lengur erum oftast fljót að sjá í gegnum slíka aðila. Þeir missa samræmið og samhengið og verða hjárænulegir í dagsbirtunni.

En nóg um þetta...

Farið varlega í vonda veðrinu

Guðjón Friðriksson skammar Matthías í MBL í dag. Guðjón hefur skrifað þær bestu bækur sem ég man eftir, um miðbæinn. Mig minnir að mamma hafi átt þessar bækur.

En nú held ég að húsið sé að fjúka, svo ég verði ekki eins og hljómsveitin á Titanic sem spilaði með skipið sökk , þá er mér hollast að rannsaka hér málið !


Í minningu mikils manns

Sálmur 712

Dag í senn, eitt andartak í einu,
eilíf náð þín, faðir, gefur mér.
Mun ég þurfa þá að kvíða neinu,
þegar Guð minn fyrir öllu sér?
Hann sem miðlar mér af gæsku sinni
minna daga skammt af sæld og þraut,
sér til þess, að færa leið ég finni
fyrir skrefið hvert á lífs míns braut.

Hann, sem er mér allar stundir nærri,
á við hverjum vanda svar og ráð,
máttur hans er allri hugsun hærri,
heilög elska, viska, föðurnáð.
Morgundagsins þörf ég þekki eigi,
það er nóg, að Drottinn segir mér:
Náðin mín skal nægja hverjum degi,
nú í dag ég styð og hjálpa þér.

Guð, ég fæ af fyrirheitum þínum
frið og styrk, sem ekkert buga má.
Auk mér trú og haltu huga mínum
helgum lífsins vegi þínum á,
svo að ég af hjartaþeli hreinu,
hvað sem mætir, geti átt með þér
daginn hvern, eitt andartak í einu,
uns til þín í ljóssins heim ég fer.

Sandell-Berg - Sigurbjörn Einarsson


landslið kemur heim

og þeir flugu yfir mig hérna heima...

ég náði myndum, stökk út í dyr¨dressed like shit¨

en það er ljóst að ég þarf að fá mér betri myndavél en ég á. Ég þarf vél sem ég get súmmað inná það sem mig langar að mynda....hnippi í kallinn fyrir afmælið mitt.

landslið kemur heim 001landslið kemur heim 002

Her fyrir ofan er Þristurinn og þyrlurnar                en hérna eru þyrlurnar að sleppa yfir þakskeggið

Það er kannski betra ef þið smellið á þær en annars sjáið þið þetta auðvitað í sjónvarpinu

En vegna þess að þeir eru svakalega almennilegir þá komu þeir aftur og ég stökk aftur út á sloppnum hans Steinars.

landslið kemur heim 006Hér er þotan fremst og þyrlurnar.

landslið kemur heim 007Hér kom svo sá gamli Páll siglandi í kjölfarið, hann fer eðlilega mun hægar blessaður. Mér finnst hann flottasta flugvélin


Að taka beygju í lífinu

það er hverjum manni hollt og nú ætla ég að taka skarpa beygju. Ég er þreytt á sjálfri mér og ætla að gera eitthvað til að mér líði betur í eigin skinni.

Ég er þreytt á endalausum vonbrigðum og sársauka en veit hvert ég get farið með þetta. Ég þarf að leggja frá mér byrðarnar.

Það tekur bara 1-2 tíma einu sinni í viku og jafnast ekki á við neitt.

Það þyrlast svo margt um í höfðinu. Ég þarf að koma því í skipulagða röð og koma sárunum til að gróa, sjálf ríf ég mig niður og það er ekki til bóta.

Minn stíll er ekki að gefast upp og það get ég auðvitað ekki gert núna.

Ég hef staðið í sömu sporum núna nokkuð lengi og vil fara að komast upp úr farinu. Það tekst en ég get það ekki ein. Það þurfti ég að viðurkenna fyrir mér og öðrum.

Nú ætla ég að halla mér og sjá hvort ég verði ekki bjartsýnni á morgun, mér leiðist að vera svona svartsýn og niðurdregin.

Til minnis : það er alltaf ljós við enda ganganna

 


Mér fannst áðan

að dagurinn í dag væri farinn í vaskinn en svo fór ég að spá í þetta aðeins. Það er bara síðasti klukkutíminn á undan síðasta hálftímanum sem hefur farið í vaskinn....ég þarf að æfa mig í að horfa á heildarmyndina.

Hér kom yndisleg bloggvinkona og nú erum við búnar að hittast tvisvar. Það þurfum við að gera oftar kellurnar. Hún færði mér ofsalega fallegt glerlistaverk sem er fyrir kerti í verðlaun fyrir að vera næst því að vera gestur nr 500.000 á hennar síðu.

Nú er ég að bíða eftir Öldu, hún ætlaði að kíkja aðeins í heimsókn til mín.

Fékk andstyggðarfréttir í dag en þær fóru inn á hina síðuna mína. Stundum verð ég alveg ráðalaus.

Farin áður en þetta verður leiðindaneikvæðnissvartagallsraus.


Hverja helgi er

miðborgin ógeðsleg. Það eru matarleifar, flöskur, dósir og rusl um allt. Stundum rekst maður á árrisula túrista sem standa í draslinu, upp í ökkla og eru að taka myndir af þessu. Síðustu bytturnar bíða þreytulegar eftir leigubílum og starfsmenn hreinsunarfyrirtækjanna eru að vinna eins hratt og hægt er svo hinn almenni þægi borgari sjái ekki ófögnuðinn.

Þá koma sér vel flösku og dósasafnararnir. Það er merkilegt hvað þeim tekst að tína upp, fémætt, úr vibbanum. Ég persónulega hef það fyrir reglu að leggja dósir sem þvælast fyrir mér á grasið við stæðið okkar, ég er alltaf hrædd um að dósasafnarar skeri sig þegar þeir eru að tína upp úr ruslinu, blindandi.

 

Ég kasta aldrei rusli á götuna, ekki einu sinni sígarettustubbum.

Þið sem ekki hafið séð miðborgina eins og hún er verst, skellið ykkur í bíltúr um 5-6 leytið einhvern sunnudagsmorgun.


mbl.is Uppgrip í dósasöfnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband