Bloggfærslur mánaðarins, október 2008
26 júlí 1915 + viðbót neðst
31.10.2008 | 15:15
Hér kemur ein smá frétt síðan þá.
" Mannlaus bær eða þvi sem næst, var í Reykjavík í gær. Allir sem vetling gátu valdið þutu eitthvað út í buskann þegar um morguninn --og sáust ekki aftur fyrr en fyr en einhverntímann seint og síðarmeir í gærkveldi. Sumir komu als eigi aftur. Ætla þeir að njóta sveitarsælunnar þessa vikuna og hrista af sér höfuðstaðarrykið"
Þarna er um að ræða íslendinga í miðri heimsstyrjöld, þeir vita það ekki en á næstu grösum bíður Katla með gos og pestin mikla 1918.
Ég breytti ekki stafsetningunni, lét hana halda sér.
Sá auglýsingu í gær í svipuðu blaði og þar var auglýst eftir ; Húsvanri stúlku !
Kvenréttindakonur aldrei kallaðar annað en kvenvargar..og sérstök grein birtist um að nú hefðu þær loksins fengið hlutverk. Þær voru sendar á vígvellina með umbúðir og slíkt. Þeim var reyndar ekki fisjað saman, fréttir af þeim koma helst frá Englandi og þar víluðu þær ekki fyrir sér að berja á lögreglunni með stólfótum milli þess sem steinleið yfir þær í skrattans lífstykkjunum. Einhver hefði nú sagt eitthvað nútildags yfir aðförum kvenréttindakvennanna...
En mikið er gaman að lesa þetta..
Ég var akkurat búin að vista og leit í stjórnborðið mitt- þessi færsla blasti við mér og ég vil endilega linka á hana. Flest þekkjum við Tiger, af góðu einu enda er hann búinn til úr einskærum gæðum.
Hérna er hans jólahugsjón
Vonandi geta sem flestir tekið þátt í svona aðstoð fyrir jólin
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 13:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Hér enn
29.10.2008 | 23:46
og fátt í fréttum, hef þó fengið "leið" til að reyna að bjarga Patta. Það er allt í vinnslu og kemur í ljós síðar.
Fáir hafa agiterað meira fyrir því en ég að fólk eigi að taka afleiðingum gerða sinna. Vond hegðun hefur slæmar afleiðingar og nú kinkar Himmi kolli í himnaríki. Ég vil trúa að þar sé hann þó að opinber viðurkenning á trú sé ekki "inn" í þjóðfélagi áður markaðshyggju.
Ég fer vikulega og stundum oftar í kirkjuna...það gerir mér persónulega gott og þá er tilganginum náð. Annað þarf ég ekki...einn dag í einu trítla ég þennan undarlega æfiveg sem hófst á heljarþröm. Fædd svo smá að mér var ekki hugað líf. Mamma sagði að þeir hefðu komið með eitthvað sem líktist ruslafötu en enga vöggu, enda vandséð hvar hefði átt að troða henni - ég er fædd á kamrinum á Landspítalanum. Ekki byrjaði ég lífið glæsilega en ég er þó amk ákveðin í að drepast ekki á kamri, allir aðrir valkostir eru þó opnir .
Ég hef ekkert minnst á það en ég er enn í "viðgerðinni" og það tekur tíma. Ég vildi bara minnast á þetta svo það sæist að ég er eitthvað að gera fyrir mig sjálfa. Eitthvað sem ég tel að hjálpi mér að takast á við lífið, einn dag í einu og stundum klukkustund í senn þegar verst er.
Ég hef verið að lesa moggann síðan í fyrri heimsstyrjöld. Þá komst ekkert til landsins nema með skipum sem voru oft lengi á leiðinni. Enginn barlómur er þó uppi í Morgunblaðinu en talað var um í fréttum í kvöld að landsframleiðslan þá hefði dregist saman um tæp 18 prósent. Núna er spáin að landsframleiðslan dragist saman um 10 prósent. Fólk hitaði upp híbýli sín með kolum, kolaverð rauk upp í stríðinu. Við höfum hitaveitu beint inn í húsin okkar.
Mogginn núna 2008 er ein véfrétt frá upphafi til enda. Ég mæli hinsvegar með þeim "gamla". Hann er miklu meira upplífgandi.
Það á allur fjandinn eftir að fara á hausinn í vetur. Best væri að það gerðist bara sem fyrst svo það væri hægt að hefja uppbygginguna úr rústunum. Ég vona að vinnan mín verði trygg amk önnur hvor þeirra en ég veit að innan okkar raða verður eflaust erfitt sumsstaðar. Menn með myntkörfulán á bílunum og verulegur samdráttur í vinnunni.
Ég hef hinsvegar ákveðið að hafa ekki áhyggjur af þessu..en einu hef ég frestað að sinni. Í fyrra voru fyrstu jólin hér í þessu húsi og ég á ekki jólaseríu utan á kantinn. Ég ætlaði að kaupa mér svoleiðis fyrir þessi jól en ég hef ákveðið að fresta því. Ég á mörg önnur jólaljós og mig hlakkar til þegar ég get sett þau upp. Það er bara rétt rúmur mánuður í það
Sú var tíðin að ég hlakkaði alls ekki til jólanna. Jólin voru bara sár áminning um það hversu mikill skortur var á heimilinu og fátt hægt að gera til að gleðja sig við. Ég kveið jólunum af heilum hug. Svo rugluðum við Steinar saman reitum okkar, efnin afar lítil til að byrja með en með hugvitssemi bjuggum við til okkar jólaanda. Hann tók upp á að bjóða mér í bíltúra á kvöldin til að sýna mér hús sem komin voru í fallegan jólabúning. Það nægði. Enn í dag, öllum þessum árum seinna, hlakkar mig til jólabíltúranna með Steinari. Og það er eins þetta árið. Ég held að við höfum sleppt árinu í fyrra en það vil ég ekki gera nú.
Jæja úr þessu varð jólapistill í október.
Hjödda mín á afmæli á morgun, fyrir fram til hamingju sætasta skvísan á austurlandi. Mamma elskar þig til tunglsins og til baka.....nokkrum sinnum
Góða nótt
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
Hérna megin
28.10.2008 | 13:44
ennþá en það er eiginlega bara tæknilega.
Búin að vera voða leið yfir þessu öllu saman og kvíðir mikið fyrir framhaldinu, ég held að ég sé lögst í smásjálfsvorkunn. Þar vil ég ekki vera. Er að finna mér leið upp úr því.
Það virðist vera sífellt að koma betur fram að fullt af fólki vissi hvað var í vændum en þagði. Steinþagði.
Ég vil losna við eftirtalda:
- ríkisstjórnina (en ekki fyrr en ró er komin á, nenni ekki meiri æsing í bili)
- seðlabankastjórn og bankaráð hans
- Alla í Fjármálaeftirlitinu
- Alla yfirstjórn allra bankanna og þar á meðal alla "nýju" bankastjóranna sem voru hvorteð er innanbúðar áður.
5.Alla þingmenn Framsóknar,Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar vegna aðildar.
6. Alla forsvarsmenn lífeyrissjóðanna fyrir fjárhættuspil (tillaga frá Hrönn)
Pirruð á ástandinu ? Nei afhverju heldurðu það?
- Þetta fer samt talsvert fyrir ofan garð og neðan, enda hef ég mun verri krísu um að hugsa.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
Ja hérna
23.10.2008 | 15:29
Tilfinningin um að maður tilheyri hóp, maður skipti einhverju máli er merkileg. Í þessu basli núna hef ég fengið góðar kveðjur inn á bloggið. Meira að segja þeir sem eru á þeirri skoðun að hengja eigi alla glæpamenn í hæsta tré hafa kurteislega þagað þó þá hafi vísast klæjað í puttana yfir að hella úr skálum visku sinnar yfir mig hér, að fólk eigi að taka afleiðingum gjörða sinna og þann pakka allan.
Ég vil nú ekki greina frá neinum smáatriðum, óvíst að málsaðilar vilji það. En bæði í gær og í dag hefur fólk boðist til að reyna að leggja mér lið.
Í tilviki dagsins þurfti Patti að hringja sjálfur í viðkomandi svo hægt væri að skoða málið og leita leiða til lausnar.
Mörgum vinum mínum finnst skelfileg tilhugsun að ég þurfi að horfa á eftir öðrum syni í afplánun. Trúið mér, það finnst mér svo sannarlega líka. Þeir sem vilja skoða bakgrunninn geta sett nafnið hans í leitarglugga á síðunni www.domstolar.is og séð fyrir hvað er verið að dæma.
Þessi færsla er eiginlega öll orðin eitthvað dularfull. En jæja..
Fór í kirkjuna og fór svo að sníkja kaffi og selskap hjá Jennýu, átti að skila kveðju til hennar frá Hrönn en mundi það auðvitað ekkert ehemm...Jenný, Hrönn biður að heilsa.
Það snjóaði eins og það væri enginn morgundagur þegar ég var á leið heim en núna er ekkert að snjóa.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 13:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
Fokin út í kant
23.10.2008 | 10:57
en er lögð af stað upp á veginn aftur..fór á fund í gærkvöldi og hresstist heilmikið við það. Sofnaði bara sæl og glöð og vaknaði hress í morgun.
Mér er samt fullljóst að ég er bara enn á vegöxlinni og þarf voða lítið til að fjúka útaf þessum mjóa vegi aftur.
Ég verð samt að reyna að hanga á hjörunum vegna hinna sem eru og tilheyra fjölskyldunni. Það er í raun ekki valkostur að leggjast í eymd og volæði og skríða bara upp í rúm og sofa til dómsdags. En mikið ofsalega er það freistandi.
Vetraráætlunin fór úr skorðum um daginn. Ég skrópaði tvisvar á fundunum. Reif mig upp í gær og mætti. Ég skrópaði líka síðast á kyrrðarstundinni sem ég sæki á fimmtudögum en ég ætla að fara núna.
Kærar þakkir þið
fyrir frábær innlegg, uppörfun og stuðning. Ég er oftar en ekki alveg hissa á hversu mikinn skilning ég fæ. Fangar eru nú kannski ekki það sem maður talar um opinberlega, eðlilega ekki. Fangar eru fólk sem brýtur af sér. Fangar eru af sumum taldir mistök foreldra sinna. Mistök eða ekki. Geri maður mistök þá reynir maður að bæta fyrir og laga og gera þau ekki aftur. Það er ekki til neins að skammast sin fyrir þau eða reyna að fela þau. Komi maður hreint fram þá hlýtur allt að verða betra.
Það er samt ekkert alltaf auðvelt að standa hér, fella grímuna og skrifa um það sem særir mest, kvelur mest.
Mér tekst ekki enn að lesa upphafsfærslurnar eftir að Himmi dó. Þær eru þarna í sérbloggi hér til hliðar við þessa síðu. Ég færði þær á sínum tíma til að týna þeim ekki í þessum ótrúlega orðaflaumi sem hér veltur yfir allt..
En núna ætla ég að fara að gera eitthvað...gera mig klára í að hitta kirkjufólkið mitt...reyni kannski að kíkja á og trufla einn ofurbloggara í leiðinni
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 13:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Smellt á nýjar slóðir
22.10.2008 | 17:37
sem ég hef ekki lesið áður.
Jenný vísar í sínu bloggi til Jónasar. (www.jonas.is) ég fór í rannsóknarleiðangur og las, bara smávegis, fann tengil hjá honum á hans góðu konu (www.kristin.is) og þar las ég miklu meira. Hún skrifar fínan texta og svo skrifar hún um hesta.
Skapið er enn úfið.
Hér kom bestastibestivinur hans Bjössa óvænt, við vissum ekki betur en hann væri bara í Kína. Það var gaman að sjá hversu glaður Bjössi var með að hafa endurheimt vin sinn. Ég bakaði ofan í þá skonsur í dag.
Samt var mamman með gallbragð í munni af pirring við fangelsiskerfið. Fékk að vísu góð ráð send í emaili og þakka kærlega fyrir það. Samt hafa augun fyllst af skelfingartárum öðru hvoru í dag.
Að setja hana mömmu sína í svona klemmu...hrmfp........
Ekkert virðist muna um þó að strákur hafi lagt allt svona á hilluna í hálft annað ár. Inn skal ormurinn og ekkert mehe með það.
Fjárkúgun segir Steingrímur J. Ja ég skal ekki segja, mannorð okkar á alþjóðavettvangi er orðið nógu slappt svo við förum nú ekki að stinga af með innistæður almennings í öðrum löndum. Ég er hrædd um að við verðum að taka á okkur þessa IceSave og aðra slíka innlánsreikinga. Ég sé ekki að greidd verði lán -millibankalán- en annars veit enginn neitt nema að við erum stórskuldug þjóð vegna brölts 28 karla og 2 kvenna.
ÍNN spilar viðtalið við JÁJ nánast stöðugt.
Ég er gengin í flokk. Í fyrsta sinn á æfinni
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 13:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Skapið ekki upp á sitt besta
22.10.2008 | 11:34
og ástæðan er einfaldlega að mér finnst mínir menn rangindum beittir. Mér finnst óeðlilegt að ofbeldismenn fá "afslátt" af sínum dómum en smábófar og umferðarsektarar fá sko að sitja inni full time.
Mínir strákar eiga engar frænkur á háum stöðum, þeir eiga bara mömmu sem öll þessi vitleysa bitnar á. Hjalti minn sagði í gær þegar við vorum að tala um þetta ; verst er að særa fólkið sitt svona ! Hann veit sem er að þetta er mér afar þungbært. Eðlilega. Síðasti fangi sem ég átti kom í líkpoka úr afplánun.
Það var reynsla sem ég mun alltaf búa að í hjartanu - Himmi minn, þessi glaði og góði strákur.
Nú þarf ég að upplifa margt af þessu aftur og í dag er ég sár. Mér finnst ég hafa dregið stutta endann.
Ég hvatti að vísu Hjalta til að biðja um að fresta upphafi afplánunar. Hún er amk núna skráð 21 desember. Ég fresta jólunum ef ég þarf að vera bæði Himma og Hjalta laus um jólin.
Mér finnst ég uppfull af sjálfvorkunn og tómri vitleysu. Mér finnst nánast eins og lífið sé að skopast að mér. Ég sé bara svo ómerkileg persóna að mér sé ætlað allt illt. Í hina röndina er ég reið og pirruð út í þetta kerfi. Endalaus afsláttur fyrir ofbeldismenn en svo fá mínir óþægðarormar engan afslátt af neinu.
Hvorugur þeirra hefur nokkurntímann meitt nokkurn mann. Sært svolítið hana mömmu sína en mamma fyrirgefur það um leið og næsta knús mætir í húsið. Auðvelt að bjarga því við.
Andskotinn eigi þetta.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 13:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
bréfið komið
21.10.2008 | 19:23
dagarnir eru 190
upphafið er 21 desember eða um það bil
staðurinn er í afagötu.
ég er í kasti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
Kreppugrautur
20.10.2008 | 19:39
og almennur pirringur.
Mér finnst ég ekkert sjá í íslenskum fréttamiðlum nema ha og humm. Það þarf að skoða erlenda fréttamiðla til að vita eitthvað, svo er maður passlega búinn að lesa það og þá birtist Geir og dregur allt til baka sem misskilning eða óskhyggju eða hvað hann nú segir í það og það skiptið.
Ég er orðin verulega efins um synjun forseta á fjölmiðlalögunum, kannski hefði verið betra að setja takmörk á eignarhald fjölmiðla ? Hvað á maður að halda, það er allt á haus ..
Svo eru það sérréttirnir, viðtöl við hina og þessa sem eiga að peppa upp þessa þjóð. Faðmlög í moggabloggi, já svo ég taki það fram þá lokaði ég á faðmlög innan kerfis hjá mér. Faðmlög fást hinsvegar í real life eftir því sem ég hitti ykkur. Sum ykkar hafa þegar fengið alvöru knús og mörg ykkar eigið slíkt orðið inni.
Ég spurði Steinar, af gefnu tilefni , um daginn hvort hann hefði verið knúslaus meðan útrásin gekk yfir. Hann horfði ringlaður á mig enda rámar hann ekki í neina útrás konunnar nema öðruhvoru út á þvottasnúrur. Hann hefur líka fylgst með sinni konu (kallar mig hamstur) greiða niður skuldir og hagræða af mætti í heimilisbókhaldinu með alveg ágætum árangri. Hvað gerist nú ? Fer allt mitt streð við það í vaskinn vegna rugls hjá öðrum ? Næ ég ekki að greiða niður húsið mitt vegna óráðsíu annarra ? Ég sé fyrir mér að lánin mín eigi eftir að hækka svo mikið að ég ráði ekki við að borga áfallnar afborganir hvað þá að greiða ögn meira inn á höfuðstól lánanna.
Mig langar til að krakkarnir okkar Steinars erfi eitthvað annað en bilaða skuldasúpu.
Sjái ég hinsvegar fram á að allt ætlar til helv..þrátt fyrir mína viðleitni -nú þá mega þeir bara hirða húsið...ég tek það hvort eð er ekki með mér yfir hinumegin.
Ég er samt að lagast með skelfinguna og stressið yfir þessu öllu.
Þetta fer eins og fara vill, ég lifi það af engu að síður.
Ég er vön því
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Í dag fór ég
20.10.2008 | 16:26
í jarðarför mæts manns, mikils vinar og félaga.
Við þessi óvæntu tímamót þá hvarflar hugurinn óneitanlega sterkt til hans Einars vinar míns. Hann tók pláss í tilverunni, hann var svo mikill gleðigjafi og prakkari. Engum sem töluðu við hann duldist einlæg ást hans á konu sinni og börnum.
Hann var óttalegur brallari, það var ekki hægt að vita hvað honum datt næst í hug. Hrekkjalómataktarnir hans björguðu nú geðheilsunni í mér eitt kvöldið.
Þeir sátu saman tveir inn í bílstjórasal, ég heyri mikil gól. Ég komst ekki alveg strax að athuga málið en leit svo fram. Þá voru þessir tveir búnir að brölta alveg upp í stóla, með lappirnar og allt.
,,Passaðu þig, það er rotta hérna inni!" segir Einar
Mér datt ekki í hug að trúa honum, glotti góðlátlega að þessum vini mínum og fór aftur inn á skiptiborðið.
Það leið smástund....
Þá sé ég rottuskömmina á planinu fyrir framan.
Ég hentist á fætur, hljóp inn og góla á Einar ; varstu ekki að skrökva að mér þarna ?
Henn leit skellihlæjandi á mig og sagði ; ,, neeei, afhverju heldurðu að við séum með lappirnar upp í stól ?"
Ég sat alla næturvaktina og fylgdist með ferðum rottunnar, þegar vaktinni var að ljúka þá sá ég hvað kvikindið skaust undir hús nærri og ég fór þangað og lét vita. Þau höfðu samband við meindýraeyði og dagar rottunnar voru taldir.
Ég var fegin að það var Einar sem sagði mér frá henni meðan kvikindið var enn inni í húsinu. Ég hefði bilast af hræðslu ef ég hefði í eitt augnablik tekið hann trúanlegan.
Einar varð ekki gamall, hann varð 57 ára í mars sl. Í dag í kirkjunni sárnaði mér mikið það óréttlæti að Maja hans, krakkarnir hans og barnabörnin fá ekki að njóta hans lengur. Hann var eðal, engum líkur.
Þakkir fyrir allt og allt elsku karlinn minn, þér gleymi ég aldrei.
Strætókórinn söng við útförina. Þeir enduðu á að syngja miskunnarbæn (held að ég fari rétt með nafnið) Það gerðu þeir með miklum sóma og það er hreint ekki fyrir alla að gera það svo vel sé.
Fantagóður kór
Í kirkjunni voru margir strætóbílstjórar en við vorum ekki nema 4 frá leigubílaárum hans Einars. Það fannst mér synd.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 13:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)