Geri ekki annað en að monta mig

af ættingjunum, ég rakst á þetta á netvafri áðan. Þessi heiðursmaður er móðurbróðir minn, sannkallaður jaxl sá gamli.

Mannlíf | 22. janúar 2009 | 10:13:15

Hvunndagshetja með stórt hjarta



Víkurfréttir hafa valið Sigurð Wíum Árnason í Reykjanesbæ Suðurnesjamann ársins 2008.

Sigurður er fulltrúi þess fólks sem finnur hjá sér þörf til að láta gott af sér leiða í samfélaginu. Einmitt núna, í brunarústum græðgisvæðingarinnar, þarf samfélagið hvað mest á einstaklingum eins og Sigurði að halda, fólki sem vill gera samfélagið betra og upphefja ný gildi og nýjan hugsunarhátt þar sem samkennd og náungakærleikur fær meira vægi.
Síðustu tvö árin hefur Sigurður gefið Heilbrigðisstofnun Suðurnesja tæki og búnað að andvirði tæpum 6 milljónum króna. Samt telst Siggi Wíum ekki til auðmanna sem vaða í peningum. Hann er bara ósköp venjulegur verkamaður út í bæ sem vildi láta gott af sér leiða og sýna þakklæti sitt fyrir þá umönnun sem bæði sonur hans og eiginkona fengu á stofnuninni en þau létust bæði úr krabbameini.
Siggi þekkir því vel missinn og sorgina.



Að ná sér eftir lærbrot

Við hittum Sigga Wíum á heimili hans í Baldursgarðinum, haltraði um húsið en hann lærbrotnaði í haust. Segist óðum vera að ná sér og bíði eftir því að komast aftur út að labba, sem hann gerði mikið af áður en hann varð fyrir þessu óhappi. Því fór það svo að Siggi þurfti sjálfur á umönnun að halda á HSS.
„Mér fannst það eiginlega dálítið fyndið að ég þurfti að skrönglast um á hækjunum að því að göngugrindurnar voru báðar í notkun,“ segir Siggi og skellir upp úr en á meðal þess búnaðar sem hann færði HSS voru einmitt göngugrindurnar.


Fyrirmyndarfólk á HSS

Í lok október 2007 færði Siggi Heilbrigðisstofnun Suðurnesja tvær súrefnissíur og fullkomna sjúkralyftu að gjöf. Verðmæti þessara gjafa var tæpar 1,6 milljónir króna en þetta gaf  Siggi í minningu sonar síns, Sveins. Hann hefði orðið þrítugur þennan dag en hann lést eftir baráttu við krabbamein og naut lengi góðrar umönnunar á HSS.
Fyrr á árinu hafði Siggi einnig fært sjúkrahúsinu tvær súrefnisissíur að gjöf til minningar um Svein og Bertu Sveinsóttur, eiginkonu sína, sem einnig lést af völdum krabbameins. Hún naut umönnunar á HSS í veikindum sínum og segir Siggi gjafirnar vera í hvorutveggja í senn til minningar um þau og í þakklætisskyni fyrir þá umönnun sem þau hafi notið hjá frábæru starfsfólki sjúkrahússins. „Það er ekki hægt annað en að gefa þessu fólki toppeinkunn. Þetta er alveg fyrirmyndarfólk þarna á HSS,“ segir Siggi.




VFmynd/HBB - Siggi við hluta þess tækjabúnaðar sem hann hefur fært HSS.

Á efstu myndinni afhendir Páll Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta, Sigurði viðurkenninguna Suðurnesjamaður árins 2008.
---

Meira en framlag ríkissjóðs

Auk þess búnaðar sem að ofan er talinn hefur Siggi fært sjúkrahúsinu fimm fullkomin sjúkrarúm með öllum búnaði, flutningshjálpartæki, sprautupumpu til lyfjagjafar, tvo hjólastóla með sessum og fótahvílum, tvær göngugrindur og blóðþrýstingsmæli með eyrnamitamæli. Samtals nemur verðmæti gjafanna hátt í 6 milljónir króna sem er þrefalt hærra en það framlag sem ríkissjóður ætlaði stofnuninni til tækjakaupa.


Alltaf unnið við fiskinn

Sigurður er fæddur 1935 í Reykjavík en flutti suður til Keflavíkur 1971. Hann hefur alla starfsæfina unnið við sjávarútveg, bæði til sjós og lands. Starfaði meðal annars við fiskvinnslu í Brynjólfi hf í 17 ár. „Ég hef alla tíð verið við fiskinn, sem er nú undirstöðu-atvinnugrein þjóðarinnar. Það var nú um tíma þannig að sjávarútvegsþátturinn Auðlindin var tekin af dagskrá af því að það þurfti að tala svo mikið um útrás, banka og verðbréf. Nú er Auðlindin komin aftur á dagskrá og allir hættir að tala um útrás og verðbréf,“ segir Siggi og hristir hausinn yfir því hvernig fyrir þjóðinni er komið.
„Fyrst var fólki lofað níutíu prósent húsnæðislánum en þá komu bankarnir og vildu lána hundrað prósent. Hér áður fyrr upp til sveita voru stórbændur með vinnumenn, sem sumir voru kauplausir en höfðu fæði, húsnæði og klæði og áttu því allt sitt undir bóndanum. Sumir gátu gátu jafnvel eignast kindur og orðið bændur. Hinir voru bara þrælar. Að sama skapi má segja að hér sé orðin til stétt bankaþræla, En þrælunum hjá stórbændunum leið miklu betur en bankaþrælunum í dag því þeir höfðu öryggi,“ segir Siggi.


Okkur er ætlað hlutverk í lífinu

Fyrir ári síðan varð Siggi fyrir því óhappi að lærbrotna, eins og áður segir,  og á dögunum voru fjarlægðar skrúfur sem settar voru í hann. Það fór því svo að hann þurfti að dvelja á HSS í þrjár vikur vegna þessa og að sjálfsögðu fékk þessai rausnarlegi velunnarri sjúkrahússins höfðinglegar móttökur. Engu að síður „strauk hann heim“ áður en að útskrift kom, eins og hann orðar það sjálfur.
„Ágætur kunningi minn var lagður þarna inn en hann var að fara úr krabbameini. Það var bara verið að bíða eftir að þessu lyki. Það fékk svo á mig að ég treysti mér ekki til að vera lengur og fór heim. Það er erfitt að horfa upp á fólk fara svona,“ segir Siggi, sem þekkir vel sorgina eftir að hafa bæði misst son sinn og eiginkonu af völdum krabbameins. Sveinn sonur hann lést fyrir rúmum tveimur árum en Berta lést árið 1983.
„Ég er alveg klár á því að okkur er ætlað hlutverk í lífinu. En við verðum að vinna úr því sjálf. Þegar maður missir eitthvað þýðir ekkert að festast í þeirri hugsun að maður megi ekki missa og verði að hafa lengur. Maður sér hvað er að ske og þá er bara að byggja sig upp. Ef maður ætlar að leggjast inn í rúm og breiða upp fyrir haus geturðu alveg eins látið leggja þig inn á geðveikrahæli. Maður verður að vinna úr þessu sjálfur og sætta sig við hlutina eins og þeir eru. Það var auðvitað sárast að sjá hvað þetta tók langan tíma en á meðan hefur maður tíma til að hugsa málið meira en við skyndilegt fráfall. Ég held að þau niðri á sjúkrahúsi hafi verið svoltíð gáttuð á því að ég skyldi standa uppréttur eftir að ég missti hann Svenna,“ segir Siggi.



VFmynd/elg - Sigurður Wíum Árnason. Hvunndagshetja með stórt hjarta.

---

Tvær þjóðir í einu landi

Siggi hneykslast á því að í raun búi tvær þjóðir í þessu landi. Annars vegar alþýðan og svo hinir sem telja sig skör ofar eða „vitleysingarnir við Austurvöll,“ eins og Siggi orðar það. „Þegar lítið barn veikist og þarf að fara í aðgerð til Svíðþjóðar þá þarf að hefja söfnun og nurla saman fyrir kostnaðinum. Þegar ráðherra veikist og þarf á slíkri læknishjálp að halda eru peningar ekki vandamálið. Hvaða réttlæti er í því,“ spyr Siggi.
Um þessar mundir er verið að skera niður í heilbrigðisþjónustunni og talað hefur verið um einkavæðingu. Meðal annars hefur slíkt komið til tals með skurðstofurnar í Keflavík. Siggi segir að vissulega orki það tvímælis að félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar tækjavæði sjúkrahúsið með gjafafé en síðan ætli hið opinbera að leigja það til einkareksturs. Hann segir einkavæðinguna ekki til þess fallna að auka gæði þjónustunnar. Enda sé það markmið einkaðilans að hafa peninga út úr rekstrinum.
„Ég heyrði pistil í útvarpinu um daginn frá fréttaritara í Noregi. Þar var sagt frá manni sem fór á spítala, ekki mikið veikur. Eftir nokkra daga var hann orðinn fárveikur vegna sóðaskapar á spítalnum. Meðal annars var verið að endurnýta einnota sprautunálar vegna sparnaðar.“

Þessir helvítis peningar

Peningarnir sem notaður voru til tækjakaupanna handa HSS eru þannig til komnir að Siggi seldi verðbréf sem Sveinn hafði átt fyrir andlátið. „Ég losaði mig við bréfin strax og lagði peningana inn á bók. Enda hef ég alltaf verið á móti þessum verðbréfum. Í síðasta skipti sem Svenni stóð upp frá tölvunni, sagði hann: „Þessir helvítis peningar.“ - Þetta eru þeir peningar. En peningar geta verið bæði til góðs og ills“.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Stolt af frænda :)

Hjördís Edda (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 00:40

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Skemmtileg frásögn af frænda þínum, þarna er greinilega höfðingi á ferð. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 23.1.2009 kl. 01:10

3 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Fallegur maður, falleg frásögn.

Jenný Anna Baldursdóttir, 23.1.2009 kl. 01:42

4 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Þetta er öðlingsdrengur.

Hrönn Sigurðardóttir, 23.1.2009 kl. 07:42

5 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Gaman að lesa þetta. Mikill fyrirmyndarmaður. Svona kallar eru ljós í myrkrinu.

Svavar Alfreð Jónsson, 23.1.2009 kl. 08:57

6 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Já gaman að lesa og frændi þinn einstakur öðlingur.

Ía Jóhannsdóttir, 23.1.2009 kl. 10:17

7 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Þessi maður er yndislegur.

Kristín Katla Árnadóttir, 23.1.2009 kl. 10:34

8 identicon

Þú mátt sko alveg vera stolt af þessum frænda þínum, Ragga mín. Hann er mikill öðlingur.

Kær kveðja

Ásdís Emilía Björgvinsdóttir (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 11:35

9 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Yndislegur og þroskaður.    Ef allir væru eins og hann, værum við Íslendingar í mjög góðum málum.

Anna Einarsdóttir, 23.1.2009 kl. 17:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband