Að rugla saman hlutum.
12.1.2012 | 06:41
Umræðan um gölluðu brjóstapúðana tröllríður öllu núna. Ég hef verið að hugsa um þetta og mér finnst fólk rugla tvennu saman.
Mér finnst skilyrðislaust að það eigi að fjarlægja nú þegar gölluðu púðana úr konunum og setja nýja. Þær verða fyrir gallaðri læknisaðgerð og eiga ekki að vera útsettar fyrir krabbameini eða annarri óáran. Sé læknirinn ekki með tryggingu sem borgar fyrir þetta þá verður ríkið að koma að málum.
Fólk, að mínu mati, ruglar saman við þessa umræðu - umræðunni um hvort slíkir púðar eða yfirleitt fegrunaraðgerðir eigi rétt á sér. Það er hinsvegar allt annað mál.
°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°
Hitt sem ég hef verið að velta fyrir mér er þetta.
Nú hafa fallið nokkrir dómar vegna ummæla fólks á bloggi og í kommentakerfi DV. Ákveðnir aðilar hafa fengið bætur og lögmenn sína þóknun. Samt virðist fólk ekki læra - þá er ég að tala um kommentakerfið hjá DV. Þetta er eins og að horfa í opið holræsi, maður veit ekki hvort kemur stór eða lítill skítur næst. Mér finnst að DV eigi að hafa kerfið lokað.
°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°
Þjóðfélagið virðist vera gegnsýrt af reiði, hatri og illdeilum. Ég hefði aldrei trúað því sem fólk segir og gerir. Í staðinn fyrir að eiga sér einskis ills von er maður ósjálfrátt farinn að eiga sér alls ills von. Það er frekar sérstakt ástand og ég get ekki sagt að ég fagni því. Orð eru nefnilega eins og hnífar, það ganga á hol. Svo getur fólk heldur ekkert átt það víst að þeim sé fyrirgefið - fólk einfaldlega getur ekkert gert þá kröfu á aðra. Sumt verður manni bara of sárt til að fyrirgefa þó maður segi já og amen og að maður fyrirgefi viðkomandi. Sárið situr í sálinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Hvert örstutt spor er í áttina
26.12.2011 | 02:54
og markar leiðina okkar allra.
Jólin standa nú yfir en hámarkinu náðu þau auðvitað á aðfangadagskvöld. Við njótum velvildar fólks og fáum bæði kort og gjafir.
Ég hélt að ég ætlaði að sigla voða mannaleg í gegnum jólin að þessu sinni en svo kom viðtal við Margréti Frímannsdóttur um jólin á Litla Hrauni og það varð alveg nóg. Hjartað fylltist af sorg og augun af tárum.
Í miðri eldamennsku hætti gasið að virka og ég brosti með sjálfri mér. Ég á nefnilega aðstoðarmann sem bjargar mér við allskyns vanda,bjargaði mér frá því að henda 5000 kalli í Fk í haust og hefur oft hnippt í mig við akstur og annað. Hann hafði nefnilega hnippt í mig 3 þennan desember mánuð til að minna mig á gasið. En ég hafði ekki sinnt því. Um leið og gasið kláraðist endanlega þá kom Steinar inn, ég bað hann bara að sækja kútinn í húsbílinn. Hann þurfti að breyta smá tengingum og það tók tíma. Ég missti af klukknahringingunni í útvarpinu - var enn að bera fram matinn. Leiðinlegt að vera svona sein en iss, vorum bara við, gamla settið og pabbi með. Þetta hafðist allt fyrir rest.
Næst er ég að hugsa um að ansa ósýnilega aðstoðarmanninum.
Gleðileg jól.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hann ætlaði sér það ekki.
7.12.2011 | 14:16
Sumir kalla það sjálfselsku að taka líf sitt. Það finnst mér ekki vera rétt. Viðkomandi einstaklingur er svo illa haldinn andlega á þeirri stundu að hann sér í raun og veru enga aðra leið út - hefur heldur ekki snefil af rökhugsun akkúrat þá.
Hilmar minn ætlaði sér ekki að fyrirgera heilsu móður sinnar. Hann ætlaði ekki að brjóta hana svo andlega að hver dagur er áreynsla og barátta. Hann ætlaði sér ekki að meiða svo systkinin sín að þau verða aldrei söm. Ekkert af þessu ætlaði hann að gera.
Hann ætlaði hins vegar að hlífa okkur, við ákveðnum hlutum og mest fyrir honum sjálfum.
Hann áttaði sig ekki á því á þeirri stundu að við elskuðum hann ÞRÁTT fyrir þá hluti sem hann tók sér fyrir hendur þegar við vorum ekki viðstödd.
Á aðventu langar mann að eiga heila fjölskyldu. Það mun ég ekki eiga.
Þetta ætlaði Himmi minn sér ekki að gera.
Deilum www.sjalfsvig.is og njótum aðventunnar, þau sem það geta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Biðin langa
21.11.2011 | 12:03
Einhver hefur ýtt mér hér inn
og tekið slökkvarann.
Hér er umhorfs eins og á gömlum kamri
fjalirnar eru gisnar
Það næðir inn
en verst er birtan, villuljósið
Það lýgur mig fulla
telur mig færa um samfélag við aðra
en stígi ég skrefið í áttina
þá finn ég - kalda krumlu
hún læsist um hjartað, kremur, kremur
og ég veit
Ekkert verður aftur nothæft
Ég bíð bara áfram.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Hver er að þýða þessar fréttir ?
16.11.2011 | 00:39
Gúgglaði þann sem drap syni sína og hann skaut þá en í frétt moggans er talað um að hann hafi gefið þeim eitur.
"Aftakan í Ohio var sú fyrsta þar í sex mánuði. Reginald Brooks, 66 ára, var dæmdur til dauðarefsingar fyrir að hafa drepið þrjá unga syni sína árið 1982, er þeir voru í fastasvefni. Gaf hann þeim banvænt lyf. Brooks var 40. fanginn í Bandaríkjunum sem tekinn er af lífi "
Ok gott og vel. Hérna kemur tengill á frétt um málið frá Reuters
Hinsvegar er ég að öllu leyti á móti dauðarefsingum og auga fyrir auga aðferðinni. Hún skilar ekki neinum ávinningi til lengri tíma og mistök eru óbætanleg.
Tveir fangar teknir af lífi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Mikið er gott að vera ekki í framboði !
14.11.2011 | 00:32
eins og hann þarna bandaríkjamaður sem ætlaði að leggja niður 3 alríkisstofnanir þegar hann kæmist til valda og mundi bara tvær
ég ætlaði að tuða um tvennt en man bara annað
Í vikunni var jarðaður merkilegur maður, fyrrum seðlabankastjóri, vandaður maður. Eftir að ég sá fjallað um það annarsstaðar þá ákvað ég að lesa minningargreinarnar og þá sérstaklega eftir Davíð, Birgir Ísleif og Hannes Hólmstein.
Það fór hrollur um mig þegar ég sá að menn leyfðu sér að koma með stjórnmálakarp inn í minningarorðin sem þeir sendu inn. Davíð sleppti því. Birgir kom með svona skot en Hannes var alverstur. Rithöfundar ættu manna helst að vita að orð hafa áhrif og orð meiða.
Það er nú ferlegt ef það þarf að fara að setja lesara yfir minningargreinarnar svo þær séu ekki "misnotaðar" á þennan hátt.
Það er til staður og stund fyrir alla hluti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
sem betur fer
30.10.2011 | 13:10
þá er ekki ein ríkislína í kirkjunni og hún rúmar fleiri skoðanir.Greinin sem þau gagnrýna fór ekki vel í mig. Ég þekki til svona mála og veit vel hvernig minningarnar geymast djúpt innra með sál viðkomandi . Þessum prestum þakka ég fyrir og er ánægð með þeirra framlag í umræðuna - var farin að bíða aðeins eftir viðbrögðum....
Ég er meðlimur í þjóðkirkjunni og mun verða það áfram.
Gagnrýna grein sóknarprests | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Hugur minn leitar til ókunnrar fjölskyldu
5.10.2011 | 04:32
sem þarf að ganga sporin ægilegu í dag. Þau þurfa að jarða drenginn sinn, miklu miklu yngri en Himmi minn var, í dag.
Hversu mikil sorg ! Þessi spor eru svo hræðilega erfið og vond að fara, en maður hefur ekki val. Þetta gerist og þetta gerist hjá rúmum 30 fjölskyldum á hverju einasta ári.
Það er því miður staðreynd málsins. Sjaldan eru þetta þó börn eins og Dagbjartur litli sem er borinn til grafar í dag. Mikið óskaplega hefur hann verið fallegur drengur...það sé ég af myndinni af honum í morgunblaðinu.
Hjá þeim er hugur minn í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
sjáiði bara sæta minn
25.9.2011 | 07:04
Hérna er Himmi minn lítill, þetta er tekið 2 mars 1986 á skírnardaginn hans. Það er hræðilega sorglegt að horfa á þessa mynd og vita að þessi fallegi drengur er nú látinn.
Mikið vildi ég að þetta væri ekki þannig ..
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Áríðandi tilkynning
15.9.2011 | 14:28
Þetta er ótrúleg heilun og mikil hjálp og stuðningur fyrir aðstandendur að hitta aðra í sömu sporum. Þetta þekkir enginn nema hafa reynt það á eigin skinni.
Endilega komið í kvöld.
Það verða fleiri opin hús í vetur og fleira uppbyggilegt sem verður í gangi. Sjá (www.sorg.is )
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)