Dagurinn í dag hefur aðra merkingu
16.11.2012 | 19:05
en hjá ykkur flestum. Hjá ykkur er dagur íslenskrar tungu en hjá mér er afmælisdagurinn hans Himma míns. Í dag hefði hann orðið 27 ára - í dag hefði ég átt að vera að sjóða makkarónugraut og baka pönnsur ofan í son minn. Í staðinn sit ég hér, í náttfötunum, ein og geri ekki neitt.
Um daginn hugsaði ég mér að líta á tímann frá andláti hans sem uppvöxt ósýnilegrar æfi. Æfi einhver sem ekki er til og verður aldrei til. Núna er ósýnilegi aðilinn kominn á sitt síðasta ár í leikskóla. Það er merkilegt að "sjá" en hver verður að finna sína aðferð við að "telja".
Ég mun auðvitað aldrei hætta að sakna hans en ég er ekki mikið í að velta mér mikið uppúr neinu. Hann er farinn, hann kemur ekki aftur og þar er punkturinn yfir. Ég veit líka meira en ég hef sett inn hér og þá vitneskju geymi ég með sjálfri mér.
Sumir dagar eru þó hreinlega verri en aðrir, afmælis og dánardagurinn koma þar sterkastir inn. Fyrsta afmælið hans eftir andlátið þá var ég alveg að tapa mér og gat ekki einu sinni sofið. Það endaði á svefntöflum frá lækninum en það hef ég sem betur fer ekki þurft aftur.
Það er ekki hægt að upplifa þetta. Það er ekki hægt.
Ég hef samt kynnst nokkru alveg merkilegu í gegnum þennan missi. Ég hef kynnst öðrum foreldrum sem hafa misst sín börn. Á milli okkar er tær silfurþráður, hann er þráður skilnings og samhugs. Þetta skilur enginn nema reyna það og þess óska ég engum.
Knús á línuna .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mikið um að hugsa
28.9.2012 | 15:22
Það stefnir í spennandi vetur, fyrir þá sem hafa gaman af stjórnmálum. Jóhanna ætlar að hætta, það finnst mér rétt hjá henni.
Ýmsir aðrir þingmenn hafa sagst ætla að hætta en af þeim mun ég helst sjá eftir dugnaðarforkinum henni Siv. Ég hlustaði á þingforseta lesa upp framlögð mál um daginn og Siv var flutningsmaður flestra þeirra. Ótrúlega vinnusöm kona og stóð sig frábærlega í erfiðum persónulegum aðstæðum fyrir nokkru. Ég hef samt aldrei kosið hennar flokk en ég má alveg vera ánægð með hana samt. Hún hefur unnið fyrir alla, ekki bara framsóknarmenn.
Talandi um framsókn, formannsflækingurinn á nú eftir að valda flokknum tjóni að mínu mati. Höskuldur getur ekki verið slík ógn við Sigmund að hann þurfi að fara gegn honum með þessum hætti.
Ég horfi aldrei á Silfrið en sá í auglýsingu um daginn að Sighvatur sneiddi að Vigdísi Hauksdóttur með að hann vildi þingmann sem væru kurteisir og kynnu íslensku. Beittur karlinn.
Vigdís er karakter. Það verður gaman að sjá hvernig raðast á bekkina að loknum kosningum. Mér sýnist hilla undir stórsigur sjálfstæðismanna. Sé ekki alveg framsóknarfylgið en samfylking og vinstri græn tapa örugglega fylgi.
Nú er best að ég fari að pússa kristalskúluna mína :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Að fimm árum liðnum
19.8.2012 | 09:49
er staðan svona.
Þessi dagur er óhugnanlega erfiður, samt var kvíðinn fyrir honum minni en áður. Samt er hann litaður af trega, sorg og söknuði. Mig einhvernveginn langar ekki að hafa þennan dag með í dagatalinu en þá er eins víst að afmælisbörn dagsins yrðu fúl.
Dagurinn sem hann lést, það var líka sunnudagur. Það var óskaplega fallegur og bjartur dagur sem breyttist svo alveg í svartnætti.
Ég svaf ekki vel í nótt, það hefur eitthvað að gera með meiðsli sem ég varð fyrir í júlí og lagast svona seint. Það má ekki klína öllu á sorgina ...samt er hún sek um svo ótalmargt annað sem truflar heilsuna.
En núna hef ég þó lagt af stað í vegferð til betri heilsu, semsagt það sem ég get gert til að laga hana. Vonandi gengur það vel.
Í dag munum við hittast, fjölskyldan, og fá okkur kaffi saman. Það er okkar leið til að eiga við þennan dag. Við höfum hittst öll árin utan eitt en það fannst okkur verra. Samt eru þessar samkomur ekki sorgarsamkomur, við komum saman og gleðjumst yfir að hafa átt Himma og hlægjum saman að uppátækjum hans sem voru ótal mörg enda hugmyndaflugið í lagi alla hans tíð.
Kertasíðan hans Himma okkar. Okkur þykir alltaf vænt um að fá ljós þar inn.
(http://www.gratefulness.org/candles/candles.cfm?l=eng&gi=Himmi)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Yfirdús ?
21.7.2012 | 14:24
Overdose :)
Eða eitthvað svoleiðis ..loksins loksins er ég orðin sæmilega hamingjusöm. Það var samt árans verra að að viðurkenna það. Það er áreiðanlega bannað að vera hamingjusamur eftir að maður hefur misst barnið sitt.
Gleði mín eru krakkarnir sem ég á lifandi. Þau eru svooo frábær og eru að gera góða hluti. Sólin mín útskrifaðist í vor - svo dugleg. Þau eru bara æði.
Við höfum ekki haft tækifæri til að fara neitt í sumar...ég er að farast úr ferðafiðringi. Steinar er að ferðast og er þar með ekki með hann haha..
Mér bauð við málflutningi manna í kringum kosningarnar. Ég held að mesta böl frambjóðenda sé stuðningsmannaskríllinn. Ég er náttúrlega á FB eins og allir hinir í heiminum og þar faldi ég fólk unnvörpum í fréttaveitunni. Ég tek svo nærri mér svona umtal, ég virðist bara ekki ná að gera mér skráp fyrir þessu. Sama var hérna, ég bara gat ekki lesið blogg á Moggabloggi. Þvílíkur vibbi.
En núna er þessu lokið. Búið að velja sigurvegarann.
Næstu kosningar koma svo..og þá gerist ég aftur strútur og fæ sand í augun :)
Hef lagað hér stillingarnar og nú er auðvelt að skrifa athugasemdir :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Í staðinn fyrir
23.6.2012 | 21:08
að pirra mig á orðum stuðningsmanna hinna ýmsu forsetaefna þá hef ég ákveðið að brosa með öllu andlitinu.
Ég skrapp aðeins suður með sjó í dag og sá gríðarlegan mannfjölda í sæta bæjarfélaginu Garði. Ég brosi alltaf að bæjarhátíðarslagorðinu þeirra, ferskir vindar í Garði. Þar er oftast rok eða allavega hraðferð á logninu. En þetta er klárlega krúttlegasti bærinn :)
Ég hef það bara nokkuð gott og reyni að ýta öllum erfiðleikum og basli til hliðar.
Knús á línuna - meira seinna :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
lífslærdómur
9.6.2012 | 18:32
Svo lengi lærir sem lifir stendur einhversstaðar.
Það er líka nokkuð ljóst að daginn sem við fæðumst þá byrjum við að telja niður dagana til loka lífsins á jörðinni.
Hingað til hafa skrokkskjóðurnar mínar aðallega verið til þess að pirra mig. Nú er aðeins annað uppi á teningunum. Nú þarf ég að læra að fara betur með mig og læra að nú get ég ekki nema suma hluti. Þetta hefur reynst mér afar erfitt og ég er enn ekki komin á þann stað að sætta mig við orðinn hlut.
Oft hef ég séð fólk, þá oftar aðeins í eldri kantinum, tala um heilsuna og hún er óbætanleg og svona. Ég hef lesið þetta og eiginlega ekki spáð meira í það.
Sumar ákvarðanir sem ég hef tekið fyrir löngu hafa orðið þess valdandi að líklega verður stórafmælið mitt á þessu ári -síðasta stórafmælið. Þó ætla ég ekkert að velta mér uppúr því, handan sólarlagsins bíður hann Himmi minn eftir mér. Það getur bara verið gleðiefni :)
Svo getur kannski verið að eitthvað snjallt komi fram á sjónarsviðið sem býður upp á lækningu við þessum lungnakvilla, hver veit ?
Í dag og í gær hef ég hugleitt hvort ég yrði betur stödd í hreinna lofti. Ég er nánast eins og svifryksmælir - finn um leið ef hlutirnir verða eitthvað gruggugir úti og þá verð ég lasin - en ekki tekur maður húsið sitt bara og fer ?
Hænunum mínum fækkaði um eina um daginn.
Það var samt ekki þessi á myndinni :)
Farin að hugsa um að gera eitthvað :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mannlegt eðli
30.5.2012 | 05:48
er og verður samt við sig. Fólk sem lærir einhverntímann að stjórna öðrum með fýlu og skapsveiflum virðist seint læra að láta af þeim sið. Miklu betri og hreinskiptari samskipti eru að segja fólki einfaldlega hvað er að og reyna að leysa málið. Svo eru þverhausar eins og ég - ég neita að láta stjórna mér svona. Fólk gerir það bara upp við sig sjálft hvort það vill hanga í fýlunni. Verði því þá bara að því.
Það er auðvitað ástæða fyrir þessu rausi í mér en ég fer nú ekkert nánar í saumana á því. Þetta hefur alla tíð verið þekkt í móðurættinni - hryllileg þvermóðska, dramatík og fórnarlambsstælar.
Ég er ekkert fórnarlamb. Ég geri eins vel og ég get við þær aðstæður sem uppi eru. Dugi það hinsvegar ekki þá reyndi ég þó og ég sný mér að næsta verkefni.
Sumir fá endalausa ánægju út úr því að níða aðra niður og reyna að brjóta þá á bak aftur. Það er miklu skemmtilegra að hrósa og lyfta umræðunni á hærra plan.
Enn og aftur sannast hið fornkveðna, lengi má manninn reyna.
Maður velur sér vini en ekki fjölskyldumeðlimi. Suma þeirra væri betra að vera geta strokað út eða teiknað þá aftur inn í annarra manna líf. Kannski að þeir virki þar ?
Ég er auðvitað á facebook eins og allir aðrir. Nú í aðdraganda forsetakosninga þá fel ég sífellt fleiri í fréttaveitunni haha...ég verð laglega þolinmóð þegar kemur að næstu alþingiskosningum haha...ekki þar fyrir, búin að gera upp hug minn á báðum vígstöðvum :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hugleiðing
4.5.2012 | 04:42
Í næturhúmi sit ég hér og renni yfir bloggvinina mína og sé að það hafa orðið sorgaratburðir í lífi og tilveru eins þeirra. Kona hefur látist, kona sem barist hefur miklu lengur en stætt var við erfiða fíkn - baráttu sem svo margir há en enginn vill í raun sjá.
Góðborgarar jesúsa sig, stjórnvöld sjá ekkert. Öðru hvoru kemur fram einhver sem virðist vilja vel og tekur að sér forystu í þessum málum. Fólk hefst handa uppnumið af eldmóði en gengur sífellt á veggi. Það hefur enginn áhuga á að hjálpa til.
Fíklarnir og drykkjusjúklingarnir eru manneskjur eins og við hin, þau hafa ekki stjórn á sínum aðstæðum nema með aðstoð. Sum þeirra ná að krafla sig aftur upp á bakkann, önnur ekki. Þau enda í kirkjugörðum landsins, fyrir aldur fram.
Við sem höfum staðið í þessum sporum vitum að á meðan það er líf þá er von.
Þess vegna er höggið svo þungt - vonin deyr með miklum hvelli.
Krakkar verða foreldralausir, foreldrar missa börnin sín - ef um aðra orsök væri að ræða þá væru hugsanlega lausnir og leiðir til að hjálpa, þa fíklunum til að byrja með. Fjölskyldunum þá seinna - þegar andlát hefur borið að.
Æ við erum lítil þjóð og við ættum að láta af því að kalla hvert annað fífl í kommentakerfi DV. Stöndum heldur saman, það er betra þegar róið er í eina átt heldur en í allar áttir í einu.
ÉG er þreytt og þetta skilst kannski ekki.
(Opið fyrir komment en þau eru ritskoðuð)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Kostir og ókostir
14.4.2012 | 13:48
Nú um stundir fara fram framboð í embætti. Í þeim slag nýtur netið mikilla vinsælda, eðlilega. Einfalt og þægilegt :) En það eru svo ansi margir sem ekki kunna sér hóf, kunna ekki samskipti við aðra og átta sig ekki á að maður segir ekki/skrifar ekki hvað sem er um annað fólk. Til að eiga vitrænar umræður þá er best að finna sér þroskað og skynsamt fólk til að ræða við. Nú eða bara sleppa þessu alveg :) það er hinsvegar erfitt..nema bara henda tölvunni og vera svo eins heimóttarlegur og hægt er, vitandi ekkert um neitt.
Svo er hitt. Manni hættir til að skoða lífið í gegnum gleraugu manns eigins lífsreynslu. Sum spor svíða endalaust og virðast ekki geta læknast. Við erum misjöfn að því leyti að sum okkar voru særð snemma og báru þessi snemma merki, aðrir voru lánsamir og særðust seinna. Sumir hafa bara alveg sloppið og ganga ósærðir og hnarrreistir um í lífinu okkar allra. Ég geng meira með veggjum og vil skoða og sjá -þreifa á umhverfinu áður en ég læt til mín taka, afskaplega varkár og fer ekki mikið ótroðnar slóðir. Svona líf finnst öðrum leiðinlegt og vilja helst fara ótroðnu slóðirnar sem ég fer ekki mikið út á.
Það er svo frekar sárt þegar fólk hreytir svo í mann einhverju þegar maður til dæmis vill deila sárri reynslu. Ég hef lent í því að ég hef fengið hreyting að ,,hætta nú bara að tala um þetta,, þegar ég var að reyna að deila erfiðri reynslu fyrir mörgum mörgum árum. Það sveið undan því þá og gerir enn. Skilningsleysi viðkomandi algert. Maður lítur öðruvísi á fólk eftir svona reynslu. Það er óhjákvæmilegt.
Sama má segja um komment fólks á netinu. Þau sýna manni oft berlega innri mann þess sem þau skrifar. Oft væri betra að sjá þann mann ekki.
Ég reyni oftast að passa mig á þegar ég les vef DV að skrolla ekki niður svo ég sjái ekki neinar athugasemdir.
Fólk spyr mig, hvernig hefurðu það ? ég svara í næstum öllum tilvikum að ég hafi það ágætt. Það er þó oftast fjarri lagi en ég nenni bara oft ekki að deila minni líðan með öðrum. Það eru svo fáir sem hægt er að treysta almennilega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
ég á einn þarna
2.4.2012 | 15:57
síðan 2007 og bloggaði hér um þá reynslu. Það blogg er hér til hliðar og heitir bók Hilmars.
Þrátt fyrir að hægt sé að gleðjast yfir að ekki sé talin vera fjölgun þá er bak við hvern og einn -heil stórfjölskylda sem kvelst af sorg. Þetta er svo hörmulegur dauðdagi, hann skilur eftir sig svo mörg erfið mál, spurningar og sár sem festist á sálinni.
Ég fékk alla tíð góð viðbrögð við blogginu mínu hér, svo góð að mér var oft heilmikið hjálpræði í athugasemdum bloggvinanna minna. Ég sá þá oft í huganum sem her, heilan her og hver og einn hélt á ljósi til að lýsa mér áfram þennan þrönga veg.
Ein viðbrögð vöktu þó undrun, þegar maður -háttsettur í grunnskóla - hreytti í mig einhverju þegar ég kvartaði yfir myndbandi sem mbl birti. Myndbandi sem tekið var af því atviki sem til þess varð að Himmi var staddur þarna fyrir austan. Ég reyndi að hrista þetta af mér en greinilega hefur það ekki tekist fyrst það kemur upp í hugann nú.
Himmi minn er í huganum hvern dag. Ég mun alltaf sakna hans. Hann var ótrúlegur strákur og mikill gleðigjafi, hann var lika uppspretta sorgar. Það munum við ræða saman þegar við hittumst í eilífðarlandinu góða. Þá fær ég Himmaknús.
(það er ekki lokað fyrir athugasemdir en þær birtast ekki fyrr en eftir að ég hef samþykkt þær.)
Sjálfsvígum hefur ekki fjölgað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)