Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Að koma fram undir öðru en bara eigin nafni og aulabrandari í boði hússins

Hefur verið mér hugleikið í kvöld. Ég tala til dæmis ekki mikið um vinnustaðinn minn hérna, undantekning er næsta færsla á undan. Það kemur hreinlega ekki málinu við hvar ég vinn eða við hvað. Ég er einfaldlega Ragnheiður. Ef ég væri hér með vinnustaðinn minn hér auglýstan eða í hausmynd þá yrði ég talsvert meira að gæta orða minna eða leggja aðeins aðrar áherslur á málin.

En í kvöld hef ég lesið (reyndar ekki bara í kvöld, önnur kvöld líka) allskonar blogg, frá fólki sem er merkt hinu og þessu. Í fyrsta sinn skil ég annað sem hafði valdið heilabrotum hér áður hjá mér -afhverju fólk hefur verið rekið úr vinnu fyrir að blogga. Mér finnst það heldur dramatískar aðgerðir en málið er einfaldlega að það er alls ekki öllum gefið að geta bloggað, helmerktir einhverju í bak og fyrir, þannig að ekki hljótist beinn skaði af fyrir viðkomandi fyrirtæki eða samtök.

Umvöndun lokið. Sneiðin passar hinsvegar bara í sum kok.

----------------------------------------------------------

Steinar er að skoða húsbíla á netinu.

Allt í einu spyr hann ; hvernig er klósett með rafmagnsdælu ?

Frúin svarar umhugsunarlaust ; það skítur lummunum lengst út í móa !?

Þá væri víst best að fara í ferðalag með hjálm á hausnum ef slíkur útbúnaður væri í hverjum húsbíl !


Leiðinleg færsla/ekki lesa

9 maí 2008 keypti ég dísilolíu á leigubílinn minn. Lítrinn kostaði 167.90. Tankurinn hjá mér tekur 70 lítra. Fullur tankur á þessu verði kostaði 11.753

Í dag keypti ég olíu. Lítrinn í dag kostaði 175.20. Tankurinn í dag kostar mig 12.264 krónur.

Á meðan er sama gjald í bílnum hjá mér, ekkert hækkað.

Þann 7 janúar sl kostaði hver lítri 136.40. Þá kostaði tankurinn 9.548

Á meðan er gjaldið í bílnum hjá mér eins. Hver er að taka á sig þessa hækkun ? Ég sjálf og enginn annar.

Þetta fer að verða dýrasta tómstundagaman í sögunni !


Fyrir nóttina bendi ég á

Nokkur bænaefni.

Sigrún

Elva Björg

Ragnar Emil

Kári

Vala

Svo eru kertasíðurnar - þær eru í fullu gildi.

Góða nótt


Vestfirska orkan sett í farveg

og annaðhvort er ég léleg húsmóðir eða hundarassarnir kalkaðir. Þeir horfa á mig með stórum spurnaraugum þar sem ég skríð kringum klóið og þríf. Klóið var ekki verst, verstur var ofninn sem er við HLIÐINA Á !! Andskotans uppátæki að setja ofn við hliðina á klóinu !! Stelpur, ég ætla ekki að lýsa lyktinni sem gaus upp þegar heita sápuvatnið baðaði þennan ofn en herrarnir á heimilinu (fyrir utan þessa tvo kölkuðu,ferfættu) eiga eftir að fá manndrápsaugnaráð næst þegar ég sé þá.

Hér kom stórglæsilegur ungur maður rétt áðan, að sækja vagn sem kom með okkur suður. Hann hefur vísast sofið í honum sjálfur í den og nú ætlar hann að setja hann Jóa litla sinn í vagninn. Frænka fékk engar skammir fyrir að stela mynd af snáðanum...Þetta er myndarsnáði hjá Árna Grétari, svo er að sjá hvort hann fær þessi fallegu augu hans pabba síns, hann Jói litli.

Litla skvís sem vildi endilega koma núna en ekki eftir 6 vikur þegar settur dagur væri kominn, braggast vel og er dugleg. Hún er kjarnorkukona og fær nafn merkilegrar konu, hennar ömmu sinnar sem var alveg mögnuð. Minningarorð um Kristínu Ólafsdóttur eru hérna.

stína frænka

Hún var svo falleg og mikill heimsborgari, samt einn mesti vestfirðingur sem ég veit um. Stundum þegar ég loka augunum þá finnst mér ég heyra bjarta hláturinn hennar, blikið í augunum og fallega hrokkna hárið.

Ég hef saknað hennar mikið síðan ég frétti af barnabörnunum hennar, litlu ljósunum eftir svo langan og erfiðan tíma í sorg.

Sé það hægt þá fylgist hún með þeim og Jói hennar líka.

Ég ætlaði að sýna ykkur hann Jóa líka en það er engin mynd af honum í minningargreinasafni mbl. Greinarnar einar standa eftir en engin mynd. Það er slæmt.

Ég ætla að reyna að halda áfram að hreinsa húsið mitt og hugsa fallega til fólksins míns, fyrir vestan og hérna sunnan megin. Jákvæð orka, það er málið.

 

 


Ég held að ég hafi gert skammir

Mér sýnist að ég hafi farið alla leið heim með vestfirsku vegina ! Annars er ég ágæt, eina sem truflar mig er að ég hefði alveg verið til í að hendast beint vestur aftur. Sjúga í mig orkuna sem er fyrir vestan og hvíla mig, þvælast fyrir í sauðburði og áreita ættingjana langt fram á sumar hehehe.

Hérna koma myndir af skammarstrikinu.

100_1291

100_1290

Annars er Steinar svo búinn að mæla fyrir rúðunum í gluggana og hann er greinilega að búa sig í að fara að gera við hérna heima. Næsta mál er að færa hitaveitugrindina út í skúr en líklega þarf eitthvað að laga til í skúrnum áður. Kannski er Orkuveitan með einhvern pípulagningameistara sem þeir geta bent á. Það er frekar óheppilegt að vera lengi með vatnslaust hús ef enginn finnst til að tengja saman aftur.

Í dag á Gísli afmæli, hægt að skella afmæliskveðjum inn hjá konunni hans www.snar.blog.is

Svo ætla ég að koma með þetta myndband sem mér fannst ekki vilja virka um daginn...sem á að spila fyrir mig þegar ég er komin í kassann.

 


Myndafærsla

Las hjá Sigrúnu bloggvinkonu og komst að því að mínir hamingjudagar eru sko miklu fleiri en óhamingjudagarnir, ég er sátt við það en hér koma myndir

100_1289

100_1288

100_1287

Gamli höfðinginn orðinn afar skítugur. Þessi bifreið er ekin rétt tæplega 440.000 kílómetra og er í ágætu standi. Það var farið að leka úr dekki í Borgarnesi -Steinar setti kvoðu í en það var steinflatt þegar hann kom út áðan og ætlaði að ná sér í eitthvað í gogginn. Þá var ekki um annað að gera en að skipta um dekk. Það sést grilla í Himmabílinn þarna til hliðar sem hefur staðið á sprungnu nokkuð lengi. Það gleymist alltaf að gera við það dekk enda er sá bíll víst ekki að fara neitt. Ekki á númerum einu sinni.

100_1275

Þessi sætasta rófa...

100_1276

Afi með mig sjálfan, langsætastan.

Svo fann ég á síðunni hans Árna Grétars mynd af snáðanum hans, honum Jóa litla. Skömmin hún frænka stal auðvitað myndinni umsvifalaust og hér kemur hún

joi hans árna grétars

Verst er að amma hans fékk ekki að upplifa að vera amma hans, elskuleg Stína frænka mín lést svo langt fyrir aldur fram. Þetta hlutverk hefði hún elskað og rækt með stakri prýði eins og allt annað sem hún tók sér fyrir hendur.

 


Ég er komin

heim eftir frábæra helgi. Við lögðum af stað vestur klukkan 21.30 á föstudagskvöldið, með bílinn á vetrardekkjunum að kröfu kvenpersónunnar sem sat í farþegasætinu. Húsbóndanum fannst það óþarfi en sá hversu stíft frúin sótti það og ákvað að gegna bara. Við útbjuggum bílinn þannig að hægt væri að sofa í honum, settum í hann dýnur og sængur. Förinni var heitið vestur í sveitina "mína", í Hænuvík við Patreksfjörð. Þar stóð til að ferma yngri heimasætuna á bænum. Okkar fólk er að mestu leyti þarna fyrir vestan og það var aldrei spurning um að drífa sig vestur.

Í dölunum var slydda og slabb á veginum. Við skröngluðumst áfram vestur og eftirtektarvert er að hvergi er búið að opna nein vertshús á vesturleiðinni. Við vorum í samfloti með trukk, vorum farin að uppnefna hann og kalla hann vin okkar. Spáðum í hans aðbúnað og svoleiðis á leiðinni. Hann sendi okkur framúr sér á Holtavörðuheiðinni Bröttubrekku en við sáum alltaf grilla í hann hinumegin í öllum fjörðum eftir það.  Fínn ferðafélagi alveg.

Steinar var ákveðinn í að keyra vestur að Klettshálsi og það passaði, þar fyrir neðan var útskot og þar lögðum við gamla bílnum og skriðum aftur í að sofa. Það var hlýtt að sofa þarna nema hvað nefið á mér varð kalt öðruhvoru, ég var eiginlega alveg búin að hanna húfu á nefið þegar við vöknuðum klukkan 9. Þá þurfti auðvitað að skreppa út í móa og eitthvað svoleiðis. Steinar fór á undan mér út og ég reif upp afturhurðina. (gamli er eins og sendibíll) og stakkst niður einhvern bakka og nærri út í læk. Þá hafði Steinar bakkað, í myrkrinu, að einhverjum kanti og ég tók ekkert eftir því þegar ég stökk niður.

Okkur bráðvantaði kaffi þegar við vöknuðum en það þýddi ekki að spá í það. Siggi Atli segir að það sé hægt að kaupa kaffivél sem gengur fyrir bílarafmagni í Ellingsen, það verður sko athugað hehe. Kvöldið áður höfðum við séð ljós á Klettshálsinum og hugsuðum bæði það sama. Þessi ljós hreyfast ekki, þessir eru stopp þarna uppi ?

Þegar við komum í fyrstu beygjuna á hálsinum þá var ruðningstæki þar, að keðja að framan. Við ókum framhjá honum og aðeins lengra upp. Þá sáum við "vin okkar" aftastan í 3 trukka röð en fyrir ofan þá var einn trukkur og 2 smábílar. Við bökkuðum í útskot á veginum og biðum í klukkutíma meðan vegurinn var hreinsaður.

Við skriðum svo framhjá trukkunum þegar þeir stoppuðu til að taka keðjurnar af. Enn fannst hvergi kaffisala og við héldum áfram á Patreksfjörð. Kíktum á hurðina á Brjánslæk til að sjá hvort Baldur passaði við ferð okkar til baka en gátum ekki séð það. Á Patró fékkst loks þetta langþráða kaffi. Við vorum að fara þaðan út aftur þegar trukkurinn, vinur okkar, birtist...sá var feginn að vera kominn heim. Það lá við að við klöppuðum fyrir honum.

Þá lá næst leiðin í sveitina. Kíktum við á "flugvellinum", en þar hefur frænka mín (kona frænda míns en ég kalla þetta allt frænkur og frændur fyrir því) verið með greiðasölu á sumrin. Þar var enginn en þar skiptum við yfir í sparifötin. Við fórum svo inn á Sellátranes til að komast á kló og svona fyrir messuna sem átti að vera klukkan 14 í Sauðlauksdalskirkju. Ég var nokkuð spennt að sjá kirkjuna að innan en auðvitað enn spenntari að sjá ættingjana mína alla þarna. Sigga systir var komin að kirkjunni þegar við komum, þau fóru úr bænum um klukkan 7. Þarna urðu fagnaðarfundir....oh það er svo gaman að hitta fólkið okkar fyrir vestan.

Við fengum blað í hendur og sálmabók. Haukur frændi minn hélt á sálmabókinni enda ég gleraugnalaus og bókin mun læsilegri í smáfjarlægð. Sumt var feitletrað og þá átti liðið að rísa úr sætum, ég vissi ekki hversu fegin maður varð að fá að standa upp. Bekkirnir í kirkjunni eru svo hörmulega vond sæti..jesús minn. En öll lifðum við bekkina af og fermingarbarnið var stórglæsilegt, báðar Hænuvíkurstúlkurnar í upphlut og Guðný, sú eldri tók virkan þátt í messunni. Bjarnveig Ásta var eina fermingarbarnið.

Við fórum svo út á Sellátranes og réttum úr okkur eftir kirkjubekkina. Það er sko ekki hægt að sofna í þessari kirkju. Bekkirnir koma alveg í veg fyrir slíkt. Mjóir trébekkir með einni fjöl í bakið sem sett er svo framarlega að maður situr alveg fattur. Rassar á kirkjugestum hafa verið nettari í gamla daga.

Okkur var boðið hús til láns og við ákváðum að þiggja það. Gistum í sumarhúsi Guðna og Ingu á Nesi. Næsta dag sátum við í Nesi með Svenna og Steinu og skemmtum okkur vel, borið í okkur veislumatur og bara ótrúlega notalegt ...Ég vildi svo endilega líta við í Hænuvík og kveðja þau þar, fékk að kíkja í fjárhúsin og klóra aðeins rollum undir hökunni. Það er fallegt féð í Hænuvík. Systur sýndu okkur kanínur, hænur og ref sem reyndar fékk nærri hjartastopp af hræðslu, óvanur gestum blessaður.

Versta við að fara vestur er að mig langar alls ekki heim þegar ég er búin að vera þar. Ég hefði alveg getað verið kyrr í Hænuvík og verið með í sauðburði og haft það æðislegt á meðan. Ég er allaveganna ákveðin í að fara vestur aftur í sumar og vera lengur. Ég endurnærðist öll og mér fannst ég skilja byrðina eftir fyrir sunnan.

Heim er ég komin, andlega endurnærð.

Missti af þessum mæðradegi enda sjálfsagt ekki mikið í símasambandi á leiðinni og enn er ekki komið símasamband á vestfirði, meðan svo er þá er ekki von með Himnaríki.

Takk fyrir frábæra þátttöku í spurningunni í síðustu færslu. Það komu mörg svör en flest eru þannig að fólk telur sig hafa verið einhversstaðar áður en það fæddist.

Mín skoðun er sú (amk eins og sakir standa) að ég tel mig einfaldlega ekki hafa verið til og þegar ég dey þá tel ég sama upp á teningum, ég verð einfaldlega ekki til lengur en munurinn er sá að þá mun ég lifa áfram í hjörtum fólksins míns meðan þau sem mig þekktu mig lifa enn.

Viðbót við þessa löngu færslu ;

Í byrjun mai fæddist drengur í fjölskyldunni, Árni Grétar frændi minn á þennan snáða. Rétt fyrir hvítasunnuhelgi eignaðist Óli bróðir hans stúlkubarn, sem að vísu kom 6 vikum of fljótt en var þó rúmar 8 merkur og 48 cm löng. Í fermingarveislunni hitti ég svo Jóhönnu frænku mína og Ásgeir hennar mann. Hún var með skráðan dag 18 maí en í gærmorgun ákvað snáðinni að koma í heiminn og gerði það á Ísafirði. Það er ekki hægt að fæða á Patró, ljósan sinnir bara mæðraeftirliti en ekki fæðingum. Undarlegt....undarlegt.

En þessi yngsti frændi af þremur krílum sem komu nánast í sömu vikunni öll er á vefsíðu sjúkrahúss Ísafjarðar og þar náði ég í mynd af honum.

Jóhönnu og Ásgeirssonur

Mesti myndarpiltur þarna á ferðinni.

 

 


Spurning fyrir helgina, endilega sem flestir að koma með álit

Spurningin er ; hvar vorum við áður en við fæddumst ?

Ég skýri spurninguna síðar þegar ég er búin að lesa svör ykkar.

Þetta lag er sett til heiðurs elsku Ásdísinni minni, hún birti í morgun íslenska textann við þetta. Ég fór og skoðaði úrvalið á youtube og leist best á þessa herramenn enda mikill aðdáandi þeirra.

Svo fann ég þetta, þið munið, lagið sem á að syngja yfir mér þegar ég verð komin í hvíta kassann.


Jæja

Mæðradagurinn er á sunnudaginn og klessist ofan í hvítasunnudag. 1 mai og uppstigningardagur runnu líka saman í einn. Það er næstum verið að svíkja mann um auka hátíðardag !

Mæðradagur minnir mig á Himma.

riiinng rinnnggg!

Mamma : halló?

Himmi: til hamingju með daginn

Mamma : Ha? ég á ekkert afmæli núna ?

Himmi: Mamma! Það er mæðradagurinn !!

Svo fylgdi þessi óborganlegi,letilegi hlátur.

Mamma: Ó...eheh takk Himmi minn.

Þennan mæðradag hringir ekki Himmi, það er bannað að hringja úr "hinumegin". Það skiptir ekki máli. Ég verð eitthvað takmarkað í símasambandi þann daginn.

-----------------------------------------------------

Var að lesa á www.visir.is og rakst á þetta.

"Ræninginn, sem ógnaði starfsfólki bankans með hnívi, komst undan með 250 þúsund krónur í reiðufé"

--------------------------------------------------

Svo las ég einhverja fj. umfjöllun um best/verst klæddu konur landsins...svona ala american style umfjöllun. Mér fannst þessi umfjöllun ráðast verulega að Ragnhildi Steinunni Kastljóskonu. Mér finnst einmitt hún svo flott og skemmtileg. Ég krumpaði saman blaðið og fannst þeir sem skrifuðu eða gáfu álit ómerkilegir með það sama. Sko maður getur haft álit og sagt það kurteislega, það er engin þ-rf á dónaskap/ruddaskap.

Oft finnst mér einhver undirtónn öfundar á bak við slíka umfjöllun.

Hætt að nöldra yfir þessu enda bara í íþróttabuxum á leið í vinnuna....spariföt í gær og á morgun en annars er ég bara í drasli sem má fara fjandans til ef eitthvað kemur upp á. Ég hef alveg reynt að vera í betri fötum við að vinna en þá lendir maður í einhverju sem spælir lúkkið þann daginn.

--------------------------------------------------

Þetta er áreiðanlega mjög óviðeigandi færsla að mati Ólafs F. En ég slepp, hann les ekki bloggið mitt. Borgin er búin að greiða tæpar 600 millur fyrir brunarústirnar í miðborginni. Borgin ætlar bara að borga JFM rúmar 10 millur fyrir árið sem miðborgar** eitthvað** Laugavegshúsin kostuðu líka slatta af millum. Hvaðan kemur allur þessi peningur ?

Getur verið að þetta sé sami peningurinn og er ekki fáanlegur fyrir velferðarsvið borgarinnar ? Miðað við hrakspár Seðlabankans þá er eins gott fyrir þessa borg að vera viðbúin því að geta hýst sína borgara þegar fólk verður búið að missa ofan af sér.

_________________________________

Stjórnmálamenn verða móðgaðir við fréttastofur sem reyna að reka óuppfyllt kosningaloforð upp í nefið á þeim. Fréttastofur eru sakaðar um að reka stjórnmálaflokk og sakaðar um einelti af foringja Haarde. Það má til sanns vegar færa. Það hefði mátt koma með fleiri óuppfyllt loforð, frá fleiri flokkum. Kannski lofuðu hinir engu svona ákveðið og utanríkisráðherrann fyrir síðustu kosningar ? Ég er týpískur íslenskur kjósandi og ég man það bara auðvitað ekki.

Það gerir ekki til...ég mun ekki kjósa sjallana, ekki samfó, ekki framsókn,tæplega FF og hvað er þá eftir ? Shit..ég á svo eftir að verða í klandri....

Farin. Bless.


Snilldartónleikar í kvöld

í Salnum í Kópavogi. Útskriftartónleikar vinar míns, Þorvaldar Þorvaldssonar. Hann brá sér í ýmissa kvikinda líki og söng á rússnesku, ítölsku, þýsku og ítölsku..hvert öðru flottara og betra. Boðið var upp á léttar veitingar að lokum og svo lögðum við af stað heim. Ákváðum að fá okkur ís í sjoppu á leiðinni heim, oft keypt ís þar og hann verið góður. Þessi var ekki góður, stoppuðum við næsta sjáanlega rusladall og fleygðum honum.

Nú er framundan helgi helguð stórfjölskyldunni sem er að vísu orðin ansi fámenn en það er sama. Þetta er fólkið okkar og þau eru hvert öðru frábærara.

Sjáum til með blogg næstu dagana.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband