Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008
Jöfnunarfærsla
12.3.2008 | 19:04
Ég ætla að reyna að dreifa um jákvæðum kommentum, það er svo erfitt þegar einhver verður særður hér á blogginu.
Við keyptum furminator í dag og kembdum aðeins Lappanum, það kom haugur af honum og í ljós kom blettur sem lítur út fyrir að vera exem. Steinar heldur að þetta sé út af því að hann liggur svo mikið á sömu hliðinni. Ég held að þetta sé bara einhverkonar exem. Læt skoða þetta ef hann verður eitthvað ómögulegur í þessu. Honum finnst ekki gaman að láta kemba sig. Það kom berlega í ljós þegar Steinar kembdi Kela, Lappi flúði eins og fætur toguðu og sat á milli fóta á mér og lét fara lítið fyrir sér.
Hafið þið horft á Rachel Ray á skjá einum ? Kjafta-matar-tísku eitthvað þáttur ....Það lá við að ég snappaði á meinlausa kallinn minn áðan. Hann stillti á þennan kjaftaþátt, steinsofnaði svo með fjarstýringuna í lúkunum. Ég gafst upp eftir 10 mínútur og hvæsti (kurteislega) á hann og rak hann til að skipta um rás en svo mætti hann sofna aftur í stólnum. Það lá við að hann fældist en hann setti strax á aðra rás.
Ég er í fríi í dag en vaknaði klukkan 8. Hef verið vakandi síðan og farið í búðir og ýmislegt annað sem maður gerir þegar maður á frí. Ég held að labbið með hundana sé að hressa mig svona við og lífga upp á mig.
"aðeins á eftir að hnýta nokkra lausa enda" sagði Jón H B áðan í fréttum stöðvar 2. Fréttin snerist um það að ríkissaksóknari sendi til lögreglunnar aftur málið með að maðurinn sem skaut annan mann á Sæbraut gat keypt byssu án þess að hafa skotvopnaleyfi. Þessi orð Jóns vöktu hroll hjá mér, hann er að tala um manneskjur...og það er ekki sama hvernig slíkt er orðað. Æj ég er kannski óþarflega viðkvæm.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 10:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
12 mars 2008
12.3.2008 | 12:19
Steinar er heima og er að sofna, best að drífa hann út í búð. Hann kann ekki að slaka á heima og verður bara sybbinn.
Hér hefur verið smá hundainnanríkisdeila undanfarna daga. Málið er að þeir eiga tvær mottur eða druslur til að liggja á, æða til dæmis alltaf þangað þegar þeir fá bein að naga. Keli hefur bækistöð í tölvuherberginu en Lappi hérna við garðhurðina. Lappi nær stundum í dót inni og kemur með fram, þá kemur Keli æðandi og reynir að taka það af honum. Það tekst oftast fyrir rest og þá æðir Keli með dótið inn í herbergið aftur. Þegar Keli var hvolpur og búinn að dreifa dótinu um allt þá tókst okkur að kenna honum að taka til eftir sig. Það er það sem hann er að gera í dag. Dótið á að vera í herberginu og ekkert með það meira. Lappi er stundum leiður á þessu, greyið.
Leit við á www.vedur.is áðan og það stendur yfir skjálftahrina, þeir eru samt litlir eða um 2 á richter en ótrúlega margir.
Svo er að sjá hvert þetta leiðir en það er óneitanlega flott að geta séð þetta svona nánast í beinni á netinu.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 10:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Magnað fólk-magnaður þáttur
11.3.2008 | 22:34
Var að horfa á Kompás þáttinn. Foreldrar litla fallega Kristins Veigars stóðu sig eins og þær sönnu hetjur sem þau eru. Ég las minningargreinarnar um þennan svipfallega dreng og táraðist ofan í blaðið. Það var eins og verið væri að lýsa Himma smágutta, uppátækjasamur duglegur og skemmtilegur snáði. Ég er auðvitað sérlega viðkvæm fyrir foreldrum sem missa börnin sín, það er hvellaumur blettur.
Mín hjartans ósk er sú að einhverjar upplýsingar berist sem duga munu til að upplýsa málið.
Annars bendi ég á blogg systur minnar en það er um allt annað málefni. www.siggahilmars.blog.is
Góða nótt
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 10:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Jöfnunarfærsla
11.3.2008 | 20:06
Kompás í kvöld í opinni dagskrá.
Það er búið að loka Skólavörðustíg að hluta. Ég veit ekki hvort það er samhengi í því en það er nýbúið að skipta um batterí í gangráðnum hans pabba. Ef þið sjáið fjallmyndarlegan eldri mann á Skólavörðustígnum þá vinsamlega víkið úr vegi. Honum svipar líklega nokkuð til Duracell kanínunnar.
Annars góð
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 10:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Datt í hug ljótt orð
11.3.2008 | 08:23
Þegar ég las Moggann í morgun og fréttina um þessa fimm "sóma"karla sem nauðguðu stúlku um helgina. Oft þegar rætt er um nauðganir fer fólk að tauta yfir klæðaburði konunnar, aðstæðum og einhverju öðru eins til að varpa hluta sakarinnar af karlinum. Það sýður alveg á mér þegar fólk gerir þetta.
Sannleikurinn felst í orðinu, nauðgun. Þá er viðkomandi neyddur til einhvers.
En með þessa fimm stórkappa þarna, þá eru þeir ansi lítilsigldir. Talið er að þeir hafi byrlað stúlkunni ólyfjan. Þá hefur hún líklega verið rænulítil á meðan verknaðinum stóð og nákvæmlega hvar eru flottheitin við slíkt kynlíf ? Þessir kálfar hefðu rétt eins getað stokkið aftan á hvern annan. Í gamla daga las ég bækur og þar var minnst á náriðla. Þessir eru svoleiðis.
Nauðgun er mikið áfall fyrir konur og getur setið í sálinni alla æfina. Er virkilega einhver ávinningur af því að fara þannig með aðra manneskju ?
Ekki þýðir að bera á borð fyrir mig afsakanir eins og að viðkomandi hafi gert þetta í ölæði.Slíkar afsakanir eru einskis virði og fyrirsláttur einn.
Foj hvað mér býður við svona körlum !!
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 10:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Undarlegir einstæðingar
10.3.2008 | 22:10
voru oft sýnilegir á götum borgarinnar í gamla daga og urðu jafnvel skáldum yrkisefni. Nú erum við íslendingar tæknivædd þjóð og einstæðingarnir okkar eru komnir inn í hús, með tölvu og blogga eins og vindurinn.
Maður sér þá nokkra hérna á bloggsíðum. Stundum bitrir einstaklingar sem hafa ekkert í lífinu nema bloggið sitt. Engan félagsskap lifandi fólks, jafnvel ekki fjölskylduna heldur, allir búnir að gefast upp. Vinnan farin, heilsan farin og biturðin ein eftir.
Þetta er sorglegt aflestrar.
Oft er talað um "nafnlausu" bloggarana sem versta. Við yfirlestur á bloggum þetta tæpa ár sem ég hef verið hér þá er ég ekki viss um að þeir séu verstir. Hér sér maður menn ráðast gegn nafngreindu fólki, fyrirtækjum og stofnunum og það virðist vera allt í lagi.
Þegar dómurinn féll um daginn þá vonaði ég að þessum skítköstum myndi létta, en mér varð ekki að ósk minni, því miður.
Þetta er ekki siðaðra manna háttur. Það er ljóst.
Við Kelmundur erum komin með spánnýjan hurðarhún.
Góða nótt og gangið hægt um bloggdyrnar, það vill oft vera þannig að þeir sem kasta skít verða skítugastir sjálfir.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 10:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
fari það í hurðarlaust
10.3.2008 | 20:13
Við erum farin að hengja Kela innan á hurðina þegar hann fer út að pissa, hann er settur í færilykkju og svo er bara tosað í hann til að ná hans hátign inn. Ekkert girðingarhopp og vesen. Keli flýtti sér mikið í morgun, svo mikið að hann hafði hurðarhúninn með sér út. Hurðarhúnninn var gamall plasthurðahúnn, svalahúnn. Það kom hvellur þegar hann brotnaði. Keli sneri við og kom og skoðaði verknaðinn. ,, Ha pabbi, hvað er þetta ? sagði hann og þefaði af húninum.
Steinar var hinsvegar nokkuð undarlegur á svipinn.
Hann fór og keypti annan hún, úr járni.
Nú má Keli flýta sér að vild.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 10:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Lok framhaldssögunnar um tauið
10.3.2008 | 14:04
Annars fékk ég örugglega mínus hjá honum í gær, hann var að væflast í eldhúsinu með kærustunni og ég tók út úr þurrkaranum rúmfötin hans. Afhenti honum, ósamanbrotið í bala og sagði Vesgú. Mér fannst alveg við hæfi að pilturinn sýndi stúlkunni hvers megnugur hann væri í heimilisfræðadeildinni svo hún sæi hverslags kostagripur hann er. Augnaráðið sem ég fékk frá ástkærum syni var ekki smart og hann reyndi að laumast balalaus inn í herbergi. Vökult auga móður kom í veg fyrir það og inn fór balinn. Hann kom grunsamlega hratt til baka þannig að nú eru annaðhvort rúmfötin í kuðli ofan í skúffu eða hann hefur snúið dæminu á haus og athugað hennar húsmóðurhæfileika með skyndiprófi. Þetta verður rannsakað þegar ég kem heim aftur....
Hann hringdi og þetta er ástandið og þetta grunti mig hehehe
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 10:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Sjónvarps-og blaðablogg
10.3.2008 | 08:32
Í morgun las ég lesendabréf í Mogganum, frásögn konu sem hafði orðið fyrir því að brotist var inn í íbúðarhús hennar. Hún veltir upp ýmsum áhugaverðum punktum í bréfi sínu. Í götunni fannst meðal annars kort þar sem öll hús þar sem eru hundar til heimilis eru merkt með X. Hún telur að um vel skipulagt athæfi hafi verið að ræða. Ég hvet ykkur til að lesa bréfið hennnar, ég veit ekki hvort ég má pikka það hérna inn bara si svona.
Í gærkvöldi horfði ég á myndina Omagh. Það var fjallað um síðasta sprengutilræði "hins sanna IRA" og baráttu aðstandenda fórnarlambanna við að fá menn ákærða og sakfellda fyrir þennan glæp. Myndin er vel gerð og lýsir þessu öllu saman eins vel og hægt er við þessar aðstæður. Vegna einhvers þá beindi lögreglan fólki að sprengjunni en ekki frá henni eftir að IRA sendi tilkynningu inn á sjónvarpsstöð um að sprenging væri yfirvofandi. Ég hafði séð þessa mynd áður reyndar en nú hafði hún miklu meiri áhrif á mig eins og sést á því að ég er enn að hugsa um hana. Ég skil líka betur nú kvöl og sársauka foreldra sem missa barnið sitt og sá sem er hafður í brennidepli í myndinni missir einmitt son sinn þarna. Steinar horfði á þetta með mér en annars er hann lítið fyrir sannsögulegar myndir, hrifnastur af Rambó og einhverju svoleiðis sem ég neita alfarið að horfa á, get ekki eytt tíma mínum í slíkt ónýti.
Bjössi kom með hugmynd um daginn þegar ég var að taka saman enn eitt púslið. Mamma! taktu myndir af þessu, þú getur skellt því inn á síðuna þína. Þá sveið honum tilgangsleysið að púsla saman og rífa í sundur. Ef hann bara vissi að flest húsverk eru einmitt þannig, sífelld endurtekning. Annars fékk ég örugglega mínus hjá honum í gær, hann var að væflast í eldhúsinu með kærustunni og ég tók út úr þurrkaranum rúmfötin hans. Afhenti honum, ósamanbrotið í bala og sagði Vesgú. Mér fannst alveg við hæfi að pilturinn sýndi stúlkunni hvers megnugur hann væri í heimilisfræðadeildinni svo hún sæi hverslags kostagripur hann er. Augnaráðið sem ég fékk frá ástkærum syni var ekki smart og hann reyndi að laumast balalaus inn í herbergi. Vökult auga móður kom í veg fyrir það og inn fór balinn. Hann kom grunsamlega hratt til baka þannig að nú eru annaðhvort rúmfötin í kuðli ofan í skúffu eða hann hefur snúið dæminu á haus og athugað hennar húsmóðurhæfileika með skyndiprófi. Þetta verður rannsakað þegar ég kem heim aftur....
Annars er ég góð, merkilega góð.
Huld, hér er alltaf hægt að renna við og sjá hund sem klappar...og fá sér kaffi og sjávarloft í nefið
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 10:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Kafloðin gatan
9.3.2008 | 16:42
Við trítluðum af stað með þá svörtu bræður áðan, Lappa og Kela. Við sáum hest á leiðinni og Lappi ákvað að klappa fyrir honum, hestinum fannst það ekki fyndið. Svo hittum við nágrannana. Þau eru nýbúin að kaupa sérstaka kembigræju á sinn hund og prufuðu á okkar. Það var ekki af sökum að spyrja. Gatan varð loðin þegar Lappi var kembdur. Hann er í tvöföldum feld og aldrei kalt á meðan Keli knúsibolla vill láta breiða ofan á sig og er oft áberandi kalt. Þannig að þegar við komum heim þá komum við með mun minni Lappa . Stefnan er að kaupa svona græju .
Næsta mál er að njóta sunnudagsins....semsagt letilíf og notalegheit hér á bæ.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 10:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)