Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Þetta styð ég

Það er ekki nóg að setja þau á meðferðarheimili og svo hvisss.....út á götuna bara eða heim til fjölskyldunnar sem er kannski enn brotin eftir reynsluna.

Mummi er klár.


mbl.is Götusmiðjan vill samstarf við sveitarfélögin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kelmundur og tilvistarkreppan

og fyrirspurn.

Keli er í tómu tjóni. Libba bjálfast með hundadótið um allt hús og hann þorir ekki að taka af henni. Hann fann leið áðan, renndi sér eldsnöggt undir borð, hrifsaði dótið og setti það inn í herbergi. Hann er tiltektartjúllaður..hundkjáninn.

Svo var ég að spökulera, kann einhver hérna á facebook ?


Held ekkert um það lengur

ég ER komin með flensu, iðnaðarmenn í hausnum og aðallega vinstra eyranu og undarleg líðan að öðru leyti. Það verður bara að hafa sinn gang.

En ég ætlaði bara að segja ykkur að ég er loks búin að klára að setja inn nýja myndaalbúmið, það heitir útför Hilmars.

Kveðja til ykkar


Það er brilliant veður

og ég sit inni að vinna. Einhver verður auðvitað að gera það. Við erum með "barnabarn" í helgargistingu, tíkina hans Sigga hana Líf. Fórum í gærkvöldi og löbbuðum með stóðið og ég held að við höfum náð okkur í milljón þakklætisstig hjá tíkinni. Keli horfði að vísu undrandi á hana næstum allan labbitúrinn, hann labbar hnarreistur og montinn, upp með hausinn en hún labbar með nefið í jörðinni. Honum fannst þetta undarlegt háttalag.

Nú erum við búin að labba samviskusamlega með hvutta hvern dag síðan á sunnudag. En nú eru aðeins blikur á lofti. Ég held að ég sé að fá flensu !

Njótið dagsins elskurnar, það ætla ég að gera þrátt fyrir allt


Eitthvað tæknivesen var að hrella mig

í gær og mér tókst ekki að setja inn nema að ég held eina mynd. Ég fór eftir leiðbeiningunum á myndasíðunni og bjó til zip skrá en það dugði samt ekki. Ég var nú heldur kannski ekki alveg róleg, það fer fátt verr í mig en svona nethegðun.Enn verra auðvitað að hún beinist gegn systur minni sem er manna meinlausust enda eins og vinkona mín, Marta segir hér í kommentum þá er ekki hægt að sjá að lesið hafi verið rétt út úr hennar færslu þarna.

Og þá er best að ég geri grein fyrir mínum hugsunum með þennan dóm.

Auðvitað á kennarinn að fá fébætur fyrir sinn skaða, það er óumdeilanlegt í mínum huga. En það sem ég ekki skil er þessi málshöfðun á foreldrana fyrir hönd barnsins. Við sem höfum átt börn í skóla vitum að við getum takmarkað stýrt hegðun þeirra þar innandyra og við sjálf víðsfjarri. Í minni vinnu er það þannig að ég er tryggð fyrir skakkaföllum sem ég mögulega verð fyrir hérna.

Allar þroskaraskanir eru erfiðar viðureignar, þeir sem ekki þekkja til ákveða oft með sjálfum sér að um skort á uppeldi sé að ræða. Maður heldur náttlega allskonar vitleysu meðan maður hefur ekki lent í aðstæðunum. Asperger eins og margt annað er misjafnlega mikið frá því að vera væg röskun í það að vera verulega hamlandi fyrir einstaklinginn.

Við virðumst gefa fyllibyttum miðbæjarins nokkurn afslátt á því að berja hverja aðra eins og harðfisk vegna þess að viðkomandi eru með skerta dómgreind vegna drykkju. Svo missir barn stjórn á sér og það er dæmt í þungar fébætur. Sambærilegt ? Nei kannski ekki en svona ber þetta fyrir sjónir. Það má nauðga konu einn sér eða saman í hóp fyrir smáaura en þá má hvorki kalla Jón Ólafs né Ómar ljótt, þá fyrst verður maður blankur.

Samræmi ? Nei það sé ég ekki.

Jón Steinar sagði reyndar eitt af viti um daginn og það er eina leiðin, hann vildi að dómstólarnir fengu sér talsmann til að skýra undarlega dóma. Það yrði nálægt því sniðugt en ekki sæi ég nokkurn mann endast í því embætti.

Mér til undrunar komst ég að því að ég á fjóra bloggvini sameiginlega með þessum heiðursmönnum sem ég var að tala um í síðustu færslu. Þá varð ég hissa.

Ég fór að hlæja að sjálfri mér í gær, langaði svo að sjá Taggart og fór að ergja mig á hversu seint hann er sýndur. Hugsaði svo málið ögn og komst að því að ég hefði líklega líka pirrað mig yfir hversu snemma hann er þegar krakkarnir voru minni.

Heiður ; mundu að bera mömmu þinni kveðjuna mína, hún er óumdeilanlega ein þeirra sem mér hlýnar um hjartarætur að hugsa um. Hún er yndisleg kona.

 


Sagan sem virðist endalaus

Undarleg er mannanna hugsun og viðbrögð öll. Að mér læðist grunur um að nú hafi eitthvað annað verið notað sem fallbyssufóður en vant er.

Sjá hérna

Hversu lengi á það að ganga að fólk sæti slíkum árásum ? Mér er skapi næst að fara yfir listann minn,sjá hvort nokkur bloggvinur er sameiginlegur. Ég get ekki verið þekkt fyrir slíkan félagsskap.

Annars ætla ég að búa til nýtt albúm fyrir þá fjölskyldumeðlimi sem eru ekki hér nærri ...það eru myndir úr útförinni hans Himma.


Jahérna

Ég náði mér í nýja bloggvinkonu um daginn, ungu móður hans Kidda litla sem ekið var á í Keflavík. Við mæður sem misst höfum börn getum kannski haft smástuðning hver af annarri, það þekki ég allaveganna með samskiptum mínum við hana Birnu mína. ( www.skralli.blog.is)

Ég leit við hjá nýju bloggvinkonu minni áðan og það hvellfauk í mig. Hérna er færslan hennar. Þessi umræða sem hún vitnar í er á www.er.is og er eins hálfvitaleg og hægt er. Þar er talað afar niðrandi um Kompás þáttinn um hann Kidda litla og þá sem á hann horfðu. Upphafsmaður virðist telja það mannkost að vilja ekki/geta ekki sett sig í spor þeirra sem glíma við erfiða lífreynslu. Það segir líklega meira um þann einstakling en flest annað. Verst er að sjá að viðkomandi hefur um sig nokkra já-hirð álíkra samúðarlausra kvenna. Auðvitað varð mamma hans Kidda litla sár, hver hefði ekki orðið það?

Svo er verið að hefja Byrgismál í dómsölum í dag. Flestir eru sannfærðir um sekt G.J. enda voru ýmsir hlutir sem eindregið bentu til sektar hans, myndbrot og annað. Þá rakst ég á þessa færslu og ofbauð, ný birtingarmynd kvenhaturs viðkomandi aðila .

Þegar bláköld mannvonskan birtist svona eins og þessar tvær færslur bera með sér þá verður maður lítill innan í sér. Að fólk skuli geta hagað sér með þessum hætti.

Ég ætla að fara og gera annað en að lesa á netinu...mér sýnist mér ekki veita af því.


Notalegt kvöld

með yndislegum strák, hann er farinn heim núna. Hér kom Hjalli minn og eyddi kvöldinu með mömmu sinni og gamla. Honum líður vel og hann er í góðu jafnvægi. Hann nær að hugsa til stóra bróður með hlýju og við gátum rifjað upp nokkar notalegar Himmaminningar sem eru ekki bara Himma heldur Hjalla líka. Hjalli hefur notalega nærveru og það er gott að hafa hann.

Hann kom með kisu með sér sem ég hef ekki fyrr séð. Hún er víst vön hundum þannig að hann ákvað að bjóða henni með. Henni leist ágætlega á hvuttana og hætti ekki fyrr en hún gat kysst Kela á nebbann. Keli var logandi hræddur við hana en kyngdi bara og ákvað að standa kyrr á meðan. Þetta er ofsalega falleg og góð kisa, svona kisu myndi ég vilja eiga en ég þori ekki að fá mér kisu, fékk svo slæmt ofnæmi fyrir kisum um árið og varð að farga kisunum sem ég átti þá. Ég sakna þeirra ennþá enda voru þau magnaðir karakterar.

Ég ætla að setja myndir hérna inn.

100_1085

Amma knúsar ástarengilinn sinn

 

100_1089

Vesen ? nei nei ekki svo

100_1088

100_1092

Hér er felumynd, hvað er á þessari mynd ? Bara koma með fyrsta stafinn


Labbfærsla

Við skálmuðum stærri hringinn með hundana í sólinni og ROKINU, norðan 30 metrar á sekúndu eða eitthvað álíka. Löbbuðum til baka meðfram sjónum og þar er sjóvarnargarður, ég hafði skjól af honum meðan Steinar var með hausinn í skrilljón gömlum vindstigum. Það er gott að vera lítil kellíng.

Sá einn fugl á leiðinni og Keli líka, Keli vildi elta fuglinn en komst að því að það var eiginlega handleggur með mömmu fasta við sig. Fuglinn slapp og ég gat sagt Steinari frá því, milli andkafanna af rokinu, að þetta væri minn mesti upp áhaldsfugl. Hann var agnarlítið hissa á því. Þetta er afar algengur fugl. Þetta var stokkandarsteggur. Þegar ég var lítil í Krossamýri þá var andapar þar við húsið. Mamma ákvað einn daginn að ná mynd af þessum vinum okkar og viti menn, þau hófu sig til flugs og komu aldrei aftur. Í vinnunni hjá mér í Skógarhlíð kom líka ár eftir ár andapar í brauð á nóttunni. Fuglar vakna upp úr 3 á nóttunni, þetta lærði ég þegar ég var á næturvöktunum. Þau komu hverja nótt en svo hætti kollan að koma meðan hún lá á en kom svo aftur að því loknu. Eitt árið hvarf hún en kom of fljótt til baka. Þá hafði hreiðrið hennar áreiðanlega eyðilagst í framkvæmdunum við nýju Hringbrautina. Hún verpti nefnilega þarna nærri kapellu Valsaranna. Endirinn á því framkvæmdamáli varð sá að andavinirnir okkar hurfu fyrir rest.

Keli er hrifinn af fuglum og vill elta þá. Lappi er hinsvegar hrifnari af hestum og sannaði það áðan með því að kútvelta sér í þurrum hrossaskít við afar litlar vinsældir okkar.

Nú lít ég út eins og vonda nornin í norðrinu og ætla að skutlast í sturtu, það er líklega best að hafa hundaLappa með í sturtuna.

Heyri í ykkur.

Munið eftir forvitninni í næstu færslu og endilega líka, hver er ykkar uppáhaldsfugl ?


Fyrir löngu

vöknuð. Fór til Jennýar og sá Waterloo, það glaðnaði bara enn meira yfir mér við það. Og ég sem var í fínu skapi áður en ég hlustaði. Hérna er vorfílingur, gyðingurinn gangandi er alveg að tapa sér úr útlimakæti og sprettur í allar áttir.

Síðast þegar ég gáði þá var dómurinn ekki kominn inn vegna árásarinnar á lögreglumennina, hann kemur kannski ekki vegna þess að þar er um að ræða sýknudóm ? Það kemur í ljós.

Ég hef labbað samviskusamlega hvert kvöld með voffana, þeir náttlega elska það. Afleiðingin varð sú að ég snarhresstist og hef sofið eins og steinn allar nætur og vakna eldsnemma hin sprækasta. Planið er að labba í sig smá hreyfanleika fyrst og fara svo í að breyta mataræðinu á okkur gamla manninum hérna. Hann veit ekkert um það ennþá en hann les það þá hérna hehehe. Okkur veitir ekkert af því að ná aðeins af okkur og hressa okkur aðeins við. Hann er kominn með ákveðin heilsufarsvandamál vegna þyngdarinnar og ég er á mörkum háþrýstings og sykursýki, THERE I SAID IT. Hef nebblega ekki sagt nokkrum manni frá þessu og get líka játað að á tímabili var mér slétt sama þó ég hrykki upp af og þá helst fyrr en seinna. Nú er ég búin að sjá að það er ekki valkostur, hvorki fyrir mig né fólkið mitt. Við systur erum dálítið einar eftir, mamma farin, Gréta farin og amma farin. Þeir einu sem eru eftir af gömlu kynslóðinni eru pabbi og tveir móðurbræður, við þá hefur ekki verið mikið samband.

ég hugsa auðvitað sífellt um Himma og reyni að lifa svolítið í hans anda, hann var alltaf kátur og glaður. Hann myndi ekki vilja að ég elti hann miklu fyrr en minn tími ætti að segja til um. Auðvitað veit maður ekki hvenær tíminn á að koma en það er allaveganna óþarfi að flýta fyrir því með því að haga sér á óábyrgan hátt, gagnvart sjálfum sér og sínu fólki.

Í gær ræddi ég um sárindi á bloggvefnum, þau snerust ekki að mér beint en um var að ræða konu sem mér er afar hlýtt til. Ég veit vel sjálf að maður á ekki að taka allt of alvarlega það sem skrifað er á annarra bloggum en stundum svíður manni þó. Einn aðili hefur til dæmis verið að hjóla í systur mína, nafngreint hana og sakað um allskonar þvælu. Það var ekkert gott að lesa það enda lýsti maðurinn ekki henni heldur einhverri ímyndaðri mynd af henni með slatta af rangfærslum og kjaftæði inn á milli. Þeir sem þekkja systur mina vita að meinlausara gæðablóð er bara alls ekki til. Kannski eru einhverjir hissa á að ég hafi ekki svarað manninum á hans bloggi. Mér dettur bara ekki í hug að næra eldinn með slíku. Ég geri alltaf það sama þegar ég rekst inn á blogg sem mér finnst óviðeigandi, ég hypja mig þaðan um leið. Ég kommenta alls ekki á eitthvað rugl, það er heldur ekki mitt hlutverk að "leiðrétta" aðra. Mitt hlutverk er að standa með sjálfri mér og gæta þess að ég fái ekki andlega slagsíðu á meðan ég er að reyna að heilast hið innra.

Annars er ég ótrúlega hress. Það kemur meira að segja mér sjálfri á óvart. Gamla ég, þessi sem neitar að liggja þó henni sé skellt á jörðina hefur skilað sér. Erfiðleikar eru til að sigrast á þeim, af þeim lærir maður.

Já svo datt mér í hug að spyrja ykkur um áhugamál ykkar ? Hvað vekur áhuga ykkar ?

1) ég púsla mikið

2) ég hef gaman að lögfræði

3) Sálfræði heillar líka

4) Rannsóknir glæpamála, bæði sem ég les á netinu og sé í sjónvarpinu, ekki að meina CSI þættina samt.

5) Dýr eru mér mikið áhugaefni

Endilega reynið að muna eftir fimm hlutum sem þið hafið áhuga á

Eigið góðan dag og svo getið þið séð jarðskálftana á www.vedur.is Það hefur skolfið mikið í rúmlega sólarhring.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband