Færsluflokkur: Bloggar

Óstuð á heimilinu

Lítill strákur var ekki í neinu heimsóknarstuði í gær. Versta vesenið var að hann var í þrautþjálfuðum höndum ömmu sinnar sem var fljót að greina vandann og lét smásnúðinn fara að lúlla sér bara. Hann var líka mun hressari þegar foreldrarnir komu úr bíóinu. Ég meina það ; sagði hann,, maður verður nú að óþægðast aðeins hjá ömmusín. Hann gólaði á ömmu, hann gólaði á afa, hann gólaði á Lappa og hann gólaði á Kela. Hundarnir fóru alveg í flækju og vildu hvergi vera nema í löppunum á okkur.

Ég náði samt einni ágætri mynd af smásnáða áður en amma varð voðalega leiðinleg. Set hana kannski inn seinna í dag.

---------------------------------------------------------------------------------

Alveg verð ég pirruð þegar ég sé að hjúkrunarfræðingar og ljósmæður þurfa að fara í aðgerðir til að fá mannsæmandi laun ! Hvernig stendur á því að þessar hefðbundnu kvennastéttir fá aldrei launaleiðréttingu nema með því að bretta upp ermar...? Hvernig var loforð þessarar ríkisstjórnar, átti ekki að leiðrétta laun kvennastéttanna ? Var það ekki eitt kosningaloforðið ? Annars finnst mér Samfylkingin blakta eins og drusla í vindi, nákvæmlega ekkert að marka neitt hjá þeim. Þetta er frumraun þeirra í ríkisstjórn og ég get ekki séð að það þurfi að prófa þetta neitt aftur.

_______________________________________________________

Verkefnið Öldubíll verður áfram í dag og á morgun en svo held ég að ég loki þessu. Síðast þegar ég gáði þá voru komnar 39000 krónur Wizard

 


Regluverk

Við notum allskyns reglur til að halda fólki í skefjum. Í aldanna rás hefur kirkjan til dæmis bannfært fólk og brennt á báli fyrir minnstu sakir. Enn í dag er Vatikanið úti á rófu með tíðarandann hvað varðar mörg sjálfsögð réttindi. Kirkjan veifar elstu siðareglum sem til eru, boðorðunum tíu. Þau eru auðvitað ágæt til síns brúks.

Algengt er að fólk fer bara eftir þeim reglum sem henta þeim, fólk ekur of hratt -fólk hefur með sér meira en það má að utan-fólk er með háreysti eftir eðlilegan hvíldartíma-fólk hendir rusli og sprænir um allt. Fólk brýtur þessar reglur án þess að hika. En ef það er hinumegin glæpsins þá er annað hljóð. Hver vill verða fyrir bíl sem ekur of hratt ? Fólk vill hreint ekki borga sekt fyrir ólöglegt magn inn í landið af góssi. Engum finnst varið í að geta ekki sofið vegna hávaða. Ég þekki heldur engan sem hefur gaman að því að tína upp rusl á lóð sinni eða bera út vatn til að skola burt hland.

Ekki gera öðrum það sem þú villt ekki að þér sé gert.

Þetta er eina reglan sem er nothæf að mínu mati og á næstum alltaf við.

Hvað veldur því að mannskepnan telur sig geta valið sjálf hvaða reglur eigi að gilda og hverjar ekki ? Hvað er að gerast í hausnum á aðila sem ekur bifreið blindfullur ? Hann telur sig kannski vera  algert meistaraverk, að hann þjáist hreint ekki af dómgreindarbresti þeim sem einkennir ölvaða ? Sjálfsálit er af hinu góða en stundum er það nú einum of hátt.

Ég hef alveg brotið reglur, að vísu ekki þessa um að koma með eitthvað góss með mér frá útlöndum, hef aldrei farið til útlanda. (næs seif hehe) Hitt hef ég allt gert á einhverjum tímapunkti nema ekki ekið undir áhrifum. Ég þyrfti þá að læra að drekka brennivín fyrst, og mér finnst það ekki til neins héðan af.

Hvað þarf að gera til að fólk hagi sér betur ?

bytta


Gott kvöld

Hef nú ekki frá neinu stórmerkilegu að segja en hef myndir til að montast með. Horfði á Hinrik 8 part 2 í sjónvarpinu í gær og það vakti mestu lukkuna hjá mér að sjá hvað Steinar var hneykslaður á þessum kóngi, Steinari fannst hann koma illa fram við kerlur sínar.

En söfnunin fyrir bílnum hennar Öldu er komin í 31000. Bestu þakkir til þeirra sem hafa lagt okkur lið í þessu, það eru bara nokkrir dagar eftir áður en við hættum.

En hérna koma myndir

patrekur og vignirÞessir tveir eru barnabörnin mín, Patrekur Máni og Vignir Blær. Svo flottir guttar, báðir verða 6 ára í júlí.

Vignir að hjálpa litla bróðurHérna nýtur litli bróðir aðstoðar Vignis stóra bróður síns við akstur á kappakstursbíl. Áhuginn leynir sér ekki hjá þessum litla snáða. Hann ætlar að koma til ömmu sinnar annað kvöld meðan foreldrarnir skreppa í bíó. Amma hlakkar til að knúsa hann.


Bleslind

og margbúin að lesa þessa fyrirsögn vitlaust, las alltaf BANvænir Þingeyingar...shit....botnaði nú ekkert í því, þekki ekkert nema góða Þingeyinga.
mbl.is Barnvænir Þingeyingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fer ekki á tónleikana í Laugardal

en ég er búin að vera að hlusta á þennan í dag, með tilheyrandi gæsahúð og rekju í augum. Ekki veit ég nú hvaðan ég hef smekkinn fyrir svona tónlist en víst er að ekki kom það úr uppeldinu. Mamma aldrei fljótari að spretta úr spori en þegar svona tónlist kom og slökkti á útvarpinu. Á áætlun hjá mér er að fara bæði í Óperuna og líka á balletsýningu og þá sérstaklega Svanavatnið. Það er of hvasst hér til að myrða nokkuð og Steinar kemur ekki með farartækið mitt svo ég sit enn heima.

Njótið !

'

Ég má til með að sýna ykkur þetta, sérlega ykkur sem hafið gaman að Simon Cowell. Það er að vísu nokkuð aftarlega á myndbandinu en þegar söngvarinn syngur þá glitrar tár í augum Simons. Það er sjaldgæft held ég.


Þetta er ég

voruð þið ekki búin að steingleyma mér ? Hehe nei varla.

ég er heima amk hálfan daginn í dag. Ég þyrfti að fara út í garð og finna út hvernig maður fremur árangursríkt morð, á njóla. Hann er vaxinn upp við hlið reynistrés krílis sem þolir líklega ekki þessa samkeppni lengi enda njóladruslan miklu stærri. Reyni að leita ráða hjá vinnufélögunum í gær en uppskar ekkert nema misgáfulegar sögur um þá sjálfa reykjandi njóla á árunum fyrir Krist. Held að þeir séu ekki garðyrkulega vaxnir þarna hjá mér kallarnir. Áhuginn einskorðast við að hægt sé að éta það, brugga úr því eða reykja það hehe.

Ég sit hér og blogga meðan ryksuguvélmennið þrælast um gólfið, ég held að ég hafi bara sjaldan eytt aurunum í jafngáfulega vitleysu. Allar húsmæður eiga sér verk sem þær fella sig illa við eða geta ekki unnið svo vel sé. Minn akkilesarhæll hefur alltaf verið gólfið. Nú er það seif og ég hamingjusöm með það.

Fór og nærði öfundina í gær, fór að kíkja á baðið hjá systu minni. Ég er nefnilega bara með baðkar sem ég þarf að brölta upp í til að fara í sturtu, eins og hún var með. Keli og Lappi fengu að fara með og þvílík hundahamingja að hitta uppáhalds frænkuna sína. Þeir fá sjaldnast að fara með þegar við förum í heimsóknir, það er svolítill gauragangur í þeim þegar þeir verða ofsaglaðir. Við vorum einmitt að ræða það um daginn að systur væru að verða gamlar og þyrftum að bregðast við því. Ég segi nú bara eins og Þráinn Bertelson í blaðinu í dag, leiðin milli vöggu og grafar er styttri en ég átti von á. Hún er allaveganna fljótfarnari.

Ég hef ekkert farið í garðinn til Hilmars. Ég fæ mig bara ekki til að fara þangað. Allaveganna verð ég að hafa einhvern með mér í það. Mér finnst hann ekki vera þar. Mér finnst eins og ég hafi týnt honum einhvernveginn. Mér finnst hann hvergi vera. Og þó hann býr í hjartanu mínu og þar verður hann alltaf. Hann er meira með mér en nokkuð annað. Ef maður gefur sér að til sé himnaríki þá held ég að þar sé orðin þröng á þingi og nokkuð víst að englavængir koma ekki að nokkru gagni nema þá með dyggri aðstoð flugumferðarstjóra. Æsir fóru til Valhallar, og í öllum herklæðum minnir mig. Það er auma vistin að rogast um í eilífðinni með sverð og skjöld og í brynju. Þá er áreiðanlega betra að fara eitthvað annað og helst berrassaður.

Það gengur vel að kroppa saman fyrir Öldu mína, í bílinn hennar. Við erum núna komin í 29.000 og nokkrir hafa haft samband og vilja hafa þetta í huga um mánaðamótin. Ykkur öllum kann ég bestu þakkir fyrir.

Njólamorðráð eru vel þegin í kommentum.

Kveðja

Ragnheiður raðmorðingi

(Steingrímur, brenndi auðvitað ruslpóstinn en ekki reikningana. Story of my life sko)

-------------------------------------------------------------------------------------------------------

Nokkrar fágætar erlendar fuglategundir hafa sést í veðurblíðunni á suð-austurlandi síðust daga. Þannig hafa Þyrnisvarri, Seljusöngvari og Straumsöngari sést í Einarslundi á Höfn í Hornafirði. Bláheiðir hefur sést svífa yfir Skógarsand og þá hafa mandarínendur verið á Borafirði eystri og í Kelduhverfi.

Straumsöngvarinn er einna saldgæfastur þessara fugla. Þetta er í þriðja sinn sem þessi tegund finnst hér á landi. Heimkynni straumsöngvara eru aðallega í mið- og austur Evrópu. Í Rússlandi, Úkraínu, Hvíta-Rússlandi, Eystrasaltslöndunum og Póllandi.

Prófarkalesa Rúv, prófarkalesa. Það er ekkert að því að slá innsláttarvillu en þrjár í svona smákrílisfrétt ?

Að allt öðru, hafið þið séð geitunga ? Ég hef ekki séð einn einasta í sumar, ég veit að þeir eru mest áberandi síðsumars en maður hefur þó alltaf séð til þeirra fyrr.

 


Eldsvoði í eldhúsinu

og við Steinar erum greinilega með stáltaugar. Við vorum að hjálpast við að elda í kvöld og ákváðum svo að taka til pappíra sem lágu í eldhúsinu. Sortéra ruslpóstinn frá reikningum sem eiga rétt á sér. Ég tíni saman nokkra ruslpósta og hendi þeim á helluborðið. Eftir augnablik horfi ég hissa og STEINÞEGJANDI á loga blossa upp á gasvélinni. Hm, segir Steinar, tekur logandi blöðin hinn rólegasti og fleygir þeim í vaskinn og skrúfar fyrir gasið. Ég geng, í sömu rólegheitunum, að vaskinum og skrúfa frá vatninu. Eldurinn dauður og við horfum á hvort annað og flissuðum bara. Hvorugu okkar brá nokkuð, það var eins og við værum alvön að reyna að brenna ofan af okkur kofann.

Við erum náttlega flottust.

Annars er allt í góðu bara, ég er bara í vinnunni og hef það fínt bara.


Helmingi minna um að vera

eða þannig, næstu daga verð ég bara í einni vinnu en ekki tveimur. Það er ágætt vaktafrí þarna á milli. Annars hafði ég hugsað mér að skrifa aðeins um og kynna fyrir ykkur Ölduna mína.

Hún kemur úr stórum barnahópi, fjórða í röðinni af sex systkinum. Elstir voru tvíburar, annar þeirra lést sviplega fyrir nokkrum árum. Hann fór hress að heiman að kvöldi en kom aldrei heim aftur, hann drukknaði af slysförum og fyrir framan báðar systur sínar. Yngstu systkinin tvö eru þroskahömluð, annað þeirra er á sambýli en hitt getur spjarað sig með aðstoð. Fyrir fáum árum hneig faðir Öldu niður heima við eldhúsborðið, hann og konan hans voru heima. Hann hafði þá um nokkurt skeið gengið til lækna vegna hjartveiki. Þennan dag stöðvaðist hjarta hans.

Alda er jákvæðasta manneskjan sem ég þekki. Ég talaði við hana í dag og spurði hvernig hún væri ; ég er ágæt sagði hún bara.Alda hefur alltaf verið tágrönn en nú er hún orðin allt of grönn, eðlilega. Hún er mikið veik. Hún greindist rétt fyrir afmælið sitt í mai með krabbamein í þvagblöðru, við rannsókn fannst krabbi í þremur eitlum sem liggja við hrygginn og í einum í brjósholi. Lungun eru þó hrein. Næsta myndataka verður eftir c.a. 6 skipti í lyfjameðferð. Þá á að skoða og plana næstu árásaraðferðir gegn krabbanum. Við Alda erum eins og mæðgur, við erum bestu vinkonur. Ég man ekki þá tíð að ég þekkti ekki Öldu og hennar fólk.

Um leið og ég minni enn á verkefnið (hætti því í byrjun júlí) þá býð ég góða nótt. Það ætti að vera bannað að verða svona þreyttur en þetta lagast, ég hef nægan tíma til að hvíla mig í gröfinni...ja allaveganna ef systir tekur ekki upp á að grafa mig upp (sjá www.siggahilmars.blog.is)

Knús á línuna.

 


Að taka viljann

fyrir verkið eru einkunnarorð hér hjá mér.

Ég má ekkert vera að því að blogga, þarf að vinna mikið í bili.

Tók burt reikninginn sem ekki tilheyrir þessu verkefni, Öldubíl. Verkefnið Öldubíll lagaðist mikið, ég fékk nefnilega arf upp á 137.000 og ég get notað það í sjóðinn. Síðast þegar ég gáði voru komnar 11.000 krónur ( í gærkvöldi)  og loforð sem eiga að greiðast um mánaðamót. Þetta er fínt.

Hjá henni er lyfjameðferð í dag.

Farin út í góða veðrið að vinna, kem aftur um miðnætti en verð tölvutengd frá 15.30.

Njótið dagsins


Að ganga af trúnni

er bara sáraeinfalt. Í fyrra sat ég í kirkju, horfði einbeitt fram fyrir mig, framhjá hvítri kistu og hélt fast í hendi dóttur minnar. Marga daga þar á eftir sat ég heima og hugsaði, hugsaði og hugsaði. Ég hlustaði á messur á sunnudögum, ég fór í skírnarmessu, ég fór í fleiri jarðarfarir og ég hélt áfram að vera reið. Ég er enn reið og fæst ekki til að samþykkja einhvern Guð.

Fyrir mér er Guð réttlæting, andlegur plástur, möguleg skýring þegar skýring er ekki til..semsagt tóm vitleysa. Ég vil hann ekki, hann er ekki til gagns í mínum huga.

------------------------------------------------------------------------------------

Í dag fór ég í eitt stæðið okkar. Stoppaði þar annar bíll í röðinni og ákvað að hreinsa til aðeins umhverfið. Fór í plasthanska og gekk að fyrri bílnum. Sá bílstjóri opnaði gluggann með mikilli varúð og spurði mig með skelfingu í röddinni : Hvað ertu eiginlega að fara að gera ? Ég ákvað að sleppa því sem fyrst kom upp í hugann vegna þess að um er að ræða gamlan mann. (ætlaði að segja að það væri komið að árlegri endaþarmsskoðun) Í staðinn sagði ég kurteislega : Bara, tína upp stubbana og svoleiðis meðan ég bíð. Hann dæsti allshugar feginn.

______________________________________________________

Söfnun fyrir Öldubílinn er enn í gildi og verður fram til c.a. 4 júlí. Endilega smellið inn einum fimmhundruðkalli eða þúsundkalli, þið sem eruð aflögufær.

---------------------------------------------------------------------------------------

"Fjórir rússneskir unglingspiltar voru í dag dæmdir í níu til átján ára fangelsi fyrir manndráp framið í byrjun árs, í bæ nærri Vladimir. Piltarnir lömdu 25 ára karlmann til meðvitundarleysis og hentu honum því næst á eldsvoða sem brennur til minningar um sovéska hermenn sem féllu í síðari heimsstyrjöldinni. Maðurinn lést af sárum sínum."

Með leyfi að spyrja, hvaða skilning leggur blaðamaður í orðið eldsvoði ?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband