Færsluflokkur: Bloggar
Varðstu reið ?
14.1.2025 | 10:43
Ertu reið við hann var ég stundum spurð eftir að Himmi minn lést þarna um árið á Litla Hrauni.
Ég hugleiddi þetta oft en komst ávalt að sömu niðurstöðu.
Nei ég var ekki reið við hann. Þegar þyngslin í sálinni eru orðin svona þung þá er ekki margt eftir til bjargar.
Ég reyndi að rækta með mér trú á Guð eða eitthvað eftir andlát hans í þeirri von að þá myndi ég þó geta "hitt" hann aftur en svo fjaraði það út og ég gat ekki lifað við þá blekkingu. Núna sé eg fyrir mér að hitta hann aftur þegar ég verð jörðuð við hlið hans í Gufunesi.
Þetta verða átján ár á þessu ári, ættir þú ekki að vera komin yfir þetta kona ? en nei, ég held að þó maður lifi með missinum alla daga þá kemst maður aldrei yfir hann. Hann er sífellt þarna og minnir á sig. Ákveðin lykt eða lög og sviðinn í brjóstinu hefst af alefli.
Kær frændi minn lést 4rða þessa mánaðar.
Mikið rosalega reif það í - hann fór af eigin hvötum. Ég vil nú alltaf trúa því að manni sé markaður timi. Ekki verði feigum forðað né ófeigum í hel komið - eins og þar stendur.
En mikið vildi maður oft geta breytt og lagað og gert bara eitthvað til hjálpar !!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Innrætið kemur í ljós
28.10.2024 | 20:35
Ég hef ótrúlega gaman af stjórnmálum og kosningum og öllu þessu brasi.
Eitt er þó það sem truflar mig fyrir hverjar kosningar en það er þegar glittir í ömurlegt innræti meðborgaranna. Það eru semsagt þeir sem ausa drullunni og gífuryrðunum á allar mögulegar áttir en fjalla ekkert um málefnin sem slík.
Svoleiðis lið er þreytandi en verður langoftast sér til skammar frekar en að hafa einhver raunveruleg áhrif á samfélagið.
Ég hef núna 3 valkosti sem ég þarf að velta betur fyrir mér.
Þetta verður áskorun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Löng þögn
25.10.2024 | 19:39
Nú virðist vera að koma í hausinn á íslensku samfélagi allur sparnaðurinn og hugmynda-úrræðaleysið í geðheilbrigðismálum. Oft höfum við heyrt sögur af því að geðdeildir loka á nefið á þeim sem standa niðurbrotnir á stéttinni, með sjálfsvígshugsanir og bara mjög illa staddir.
Svona getur þetta ekki gengið hefur verið sagt við öll möguleg tækifæri og fyrir allar kostningar en hvað hefur gerst ? Lítið annað en að mjög hæft og gott starfsfólk hefur brunnið út og horfið til annarra starfa, starfa sem skilja þau ekki eftir með óbragð í munni og tilfinninguna um að geta ekki nóg þrátt fyrir góðan vilja.
Nú þurfum við að finna út leiðir í rétta átt
Sparnaður er ekki lykillinn
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvert stefnum við ?
28.1.2021 | 19:06
Þegar við erum komin á þann stað að skotið er á höfuðstöðvar stjórnmálaflokka og núna á bifreið borgarstjóra. Það er algerlega mannlegt að vera ósammála stjórnmálamönnum, ég geri það iðulega og er í raun oftar ósammála heldur en hitt. En svona aðfarir eru ofar mínum skilningi. Hvert er þá næsta skref ? Skjóta fólk ? Mér blöskrar oft orðræðan sem ég les og hef til dæmis gætt mín á að lesa aldrei eða sem allra sjaldnast komment undir fréttum. Það vellur út oft mesti viðbjóður og engum til skammar öðrum en þeim sem þar skrifa.
Síðast skrifaði ég hér 2018. Ég bendi áhugasömum á hliðarblogg hér sem heitir Bók Hilmars. Þar eru allar upprunalegar færslur. Þetta blogg var öflugast eftir andlát sonar míns, Hilmars Más.
Nú eru liðin rösk 13 ár síðan. Ansi mörg hafa fallið fyrir eigin hendi síðan. Blessuð sé minning þeirra allra. Allra sárt saknað.
Hingað og ekki lengra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
lífið heldur áfram
6.10.2018 | 21:04
Óneitanlega heldur nöturleg fyrirsögn og undarleg en það hefði mér þó ekki dottið í hug fyrir þessum rúmu ellefu árum sem liðin eru. Hér var þéttur hópur bloggvina á þeim tíma, margir þeirra eru mér kærir vinir á öðrum vettvangi. Mörg hafa þó látist og það er afskaplega mikill missir, auðvitað mest fyrir aðstandendur þeirra en við hin - á kantinum - söknum þeirra líka.
Nú hefur verið tekið í gangið Pieta hús. Það styður við bakið á aðstandendum sem missa í sjálfsvígum og það sem betra er. Þau styðja vel við fólk sem íhugar sjálfsvíg. Hver einn sem bjargast er mikil gjöf.
Við misstum að mestu af hruninu. Vorum með hugann allt annarsstaðar. Sluppum við að missa ofan af okkur en margir stóðu í þeim sporum, það er erfitt. Slíku má þó vinna sig upp úr en mikið hlýtur að vera erfitt að reyna að treysta fjármálastofnunum og ríkisvaldinu á eftir.
Það er svosem líka hægt að vinna sig í gegnum barnsmissi en lífið verður aldrei neitt líkt því sem áður var. Það er bara fastur við mann skuggi sem eltir mann út um allt. Sá er hvorki lítill né skrýtinn. Bara þreytandi og kjánalegur.
Ég hef þetta ekkert meira í bili. Alveg dottin úr æfingu :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í nótt sem leið
18.9.2016 | 17:05
var einhver fjölskylda vakin upp við þær hörmungar að hafa misst fjölskyldumeðlim í bílslysi. Önnur fjölskylda, erlend, stendur í sömu sporum eftir annað bílslys hér á landi.
Það verður aldrei neitt eins - ekki neitt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Leitar á hugann
17.9.2016 | 14:11
Það er auðvitað margt sem leitar á hugann og stundum þarf ekki mikið til að ýta við manni. Um daginn birti kunningjakona mín mynd af syni sínum litlum, sá sonur er líka látinn eins og sonur minn. Þá rifjaðist upp fyrir mér þegar ég hef verið að skoða myndirnar af Himma litlum, ég hef horft hissa og ögn ráðþrota á þær. Mér hefur stundum verið óskiljanlegt að hann sé ekki lengur lífs. Ég horfi á lítið barn sem á að hafa framtíðina fyrir sér. Það var eins gott að ég vissi ekki þá að lífið hans næði ekki 22 árum og yrði svona erfitt á margan hátt, samt svo gefandi fyrir okkur hin og skemmtilegt oft að umgangast hann. Hann var mjög skemmtilegur og orðheppinn oft.
Ég hef horft á jafnaaldra hans eignast börn, gifta sig og halda áfram þessa hefðbundnu leið í lífinu. Stundum er það erfitt - þetta eru lífsviðburðir sem hann mun ekki taka þátt í, hann tekur ekki þátt í neinu framar.
Hugsunin um hann lifir með mér alla tíð. Þannig finnst mér hann vera með mér alla daga.
Umræðan um sjálfsvíg hefur tekið við sér og nú eru ýmsar leiðir í boði til stuðnings eftirlifendum. Hugarafl og Pieta Ísland eru þar fremst í flokki. Ennfremur hafa verið í Breiðholtskirkju ágætir stuðningsfundir og líka í Fella og Hólakirkju. Enn finnst mér þó vanta áfallahjálp fyrir aðstandendur. Þetta er gríðarlegt áfall fyrir fjölskyldurnar og vinina. Það þekkja bara þeir sem upplifa.
Rómeó kisustrákur var felldur í vor sem leið. Hans er saknað. Hann var orðinn mjög gigtveikur og örugglega eitthvað meira að. Hann var farinn að pissa undir þegar hann svaf og leið bara orðið verulega illa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Burtséð frá öllu
6.9.2015 | 13:24
og öllum mögulegum afsökunum fyrir ástandinu þá er það fyrst og fremst mitt að laga. Ég var svo heppin að komast strax eða ég kalla það - að á Reykjalundi. Er innrituð þar á lungnadeildina og vissi svosem ekki vitund hvað ég var að fara út í. En eins og þeir vita sem þekkja þá er ég allt of þung. Ég má í raun missa 40 kíló án þess að teljast samt vera grönn beinlínis. Ég nenni svosem ekki að væla yfir þessu. Mikið af þessu (ekki allt) hefur læðst á mig eftir að Himmi minn dó. Það var ekki nokkuð leið fyrir mig að sjá sjálfa mig í nokkru ljósi. Ég bara fór í vinnuna og heim - ég gat ekkert meira. Andlega hliðin alveg í molum og allt í tómri þvælu innra með mér. Borðaði ekki neitt nema þá kvöldmat og allskonar snarl á kvöldin. Brennslan nánast dó en hún verður mæld á þriðjudaginn næsta. Það verður spennandi að sjá. Núna er ég í neysluhæfingu sem aðallega snýr að því að MUNA að borða. Það á ekki að vera mikið og minna eftir því sem líður á daginn :) Og sem allra minnst eftir kvöldmat sem á að vera snemma :)
Ég var að hugsa með að skella þessu svona fram, frammi fyrir alþjóð þá kannski veiti það mér aðhald og hver veit. Kannski er einhver þarna úti sem vill fylgjast með og nýtur góðs af. Nú meina ég ekki að ég kunni eitthvað fyrir mér - kann sko enn ekkert en ég set mig þá vonandi ekki á háan hest hahaha.
Og nú á morgun hefst vika 2 :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þetta lá í loftinu
15.7.2015 | 18:54
en það sem ég er mest hugsi yfir eru viðbrögð fjármálaráðherra.
Þessi hér hann virðist hreinlega vera í hálfgerðri krossferð gegn hjúkrunarfræðingum.
Er þetta þvermóðska ?
Hjúkrunarfræðingar felldu samninginn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)