Meiri myndasýning

Þau eru bara flottust þessi tvö. Hver trúir að snáðinn sé bara fæddur 27 nóvember ?

P1010042

Þá er ég búin að horfa á Skaupið og mér fannst það bara fínt.


Jóla hvað ?

Sko..eins og það er gaman á jólunum þá er hið versta mál að koma þessu dótaríi aftur í kassana ! Hér hefur konan ekki verið mjög guðræknisleg í orðavali. Þó sýnu verst þegar hún tíndi saman jólatréð sjálft. Loksins þegar tókst að "girða niðrum" tréasnann og koma því sjálfu frá þá hrökk upp úr frúnni um leið og hún rétti húsbóndanum með jafnaðargeðið tréð ; hirtu etta helvíti !!  Hann náfölnaði og örugglega viss um að allir jólaandar munu ofsækja heimilið ; ekki segja þetta !. Mannræflinum varð svo um að hann tók ekki við trénu. Ég varð að leggja það kurteislega frá mér. Var búin að gera tilraun til að senda kallinn út í skúr eftir bensíni en hann með einhvern grun um að ég ætlaði að kveikja í trénu fór hvergi.

Við ákváðum að setja jóladótið á háaloftið. Stiginn þangað er hálfgert himpigimpi og síðast þegar kall fór upp á loft þá rann stiginn. Mér barst eymdarlegt neyðaróp og ég bjargaði stiganum undir kallinn aftur sem hékk þarna eins og drusla.Ég hló alls ekki neitt.  Minnugur þess þá leist honum ekki á háaloftið núna. Ég hjálpsöm eins og oftast bauðst til að grípa hann, þá hló hann svo mikið að hann var næstum farinn að skæla.

Annars set í hið hugaða Bjarndýr í að rétta kalli kassana á eftir.

Nú bíður mín fargins hrúga þar sem tréð stóð...æj þið vitið...draslið sem maður vefur um skrambans tréð...borðar og sería og gjörsamlega í flækju.

Ansi hef ég verið aftarlega þegar þolinmæðinni var úthlutað !!


Í dag

ætla ég að horfa á skaupið sem verður endursýnt, ég missti af því á gamlárskvöld. Ég var að aka í vinnuna þegar það var og ók alein frá Álftanesi til Reykjavíkur. Það var eins og það væri útgöngubann. Það var svolítið merkilegt. Palli einn í heiminum tilfinning.

Í dag ætla ég líka að byrja að pakka niður jólunum, þau eiga heima í kössum sem geymdir eru í geymslunni.

Lappi er að lagast í fætinum. Hann fékk með sér heim lyfjaskammt og Steinar réttir honum bara pillurnar og hann étur þær eins og ekkert sé. Það er engin matvendi til þar. Keli fær nammi á móti. Í fjarska heyrum við aðeins í flugeldum en Keli kippir sér ekki upp við það. Það er of langt í burtu til að hann nenni að pæla í því. Það er ágætt. Það er ekki gott að sitja mikið undir 30 kílóa hundhlunki.

Mér finnst sniðugt í stjórnboxinu núna að þar birtast nýjar færslur jafnóðum, þannig nær maður auðveldlega að lesa hjá öllum sínum bloggvinum. Ég þarf hinsvegar að taka mig aðeins á í að kvitta fyrir lesturinn.

Hann Himmi er fluttur, þessi hugsun er búin að væflast í hausnum á mér í marga marga daga. Það er mynd af honum hérna á skenk í stofunni. Við erum að horfast í augu öðruhvoru. Mér fannst hann segja við mig að hann væri núna mun nær mér en oft áður. Ég sat og horfði á myndina og reyndi að skilja. Það tók smástund en svo fattaði ég það. Hann er fluttur inn í hjartað mitt. Hann er bara þar. Mér hefur oft veist erfitt að sjá fyrir mér himnaríki og sé bara fyrir mér kalda gröfina hans og þá á mamma bágt. Þetta skánaði hinsvegar til mikilla muna þegar hann einhvernveginn kom þessu að. Ég held að hann viti meira um hvernig mér líður en ég sjálf.

Sko ef ég set margar færslur inn í dag þá er ég áreiðanlega að svíkjast um í jóladótinu. Vinsamlega sparkið þá í mig.


Einn að flýta sér

P1010052Að verða stór strax, Hilmar er farinn að brosa og er svo mannalegur.. Hann er eins og stóri frændi og nafni sem flýtti sér helling að verða stór. Yndislegt barn..

 


Ár hinna miklu afmæla

er byrjað.

Fyrstur reið á vaðið Jón Berg, hann varð 25 ára

Næst er það frökenin sjálf Sólrún sem verður líka 25 ára (shit!)

Svo er það Bangsi hússins en hann verður tvítugur í mars (miklu meira shit!!)

Elskuleg hjásvæfa verður svo fimmtug í apríl

Svo ætlar pabbi að verða áttræður í ágúst.

Það verður komið gat á hugmyndaflugið í september.

Setti 2 bloggvini út, annar er í þannig málum að ég ræð ekki við það en hinn er með læsta síðu og þá nenni ég ekki. Ég vil hafa gagnvirk samskipti. 


Undnar tuskur og annar borðbúnaður

Þannig er þetta eiginlega þessa dagana. Það er alveg sama hvað ég sannfæri sjálfa mig um að ég sé nú svoddan kraftakelling þá á þetta til að læðast aftan að mér og berja mig fast í hausinn...frekar fast og nú rann það upp fyrir mér.

Ég hef komist að því að ég ber ekki nema sjálfa mig eins og er. Aðrir verða að kljást við sitt sjálfir. Úthaldið er minna en ekki neitt. Þetta mun þó örugglega lagast - það er ég viss um. Bara gefa mér smá frið og frí frá brasi og þrasi....

Kæru vinir, bestu þakkir fyrir hlýjar kveðjur bæði hérna í kommentum og í gestabókinni (sem ég gleymi oftast að kíkja í )

Nú hvíli ég mig.

Mér leiðist janúar!


Keli aftur lappalaus

og umræddur Lappi hálfskakkur hérna núna.

Fórum með einn loðrass til læknis og í ljós kom að það grefur í þessum blessaða fæti. Hann fékk klóasnyrtingu og við þurfum að fylgjast með klónni sem er biluð og klippa hana jafnt og hún vex fram. Hann fékk verkjalyf og pensíllín í sprautum, það truflaði hann ekki. Hann var mun óþægari að láta skoða bilaða fótinn og hrundi úr hárum af stressi. Það mátti ekki á milli sjá fyrir rest hvor var loðnari, hann eða Steinar. Svo fékk hann pillur í poka og á að taka í rúma viku ......hann er ískyggilega rólegur hérna núna...held að það hafi aðeins svifið á hann.

Keli hinsvegar beið heima, Lappalaus og afar hneykslaður. Hann skældi við hurðina og skældi við Bjössa "bróður" sinn enda knúsaði hann mömmu svo fast þegar hún kom aftur að minnstu munaði að kellan lenti á gólfið.

Keli..kveðjan komst til skila, takk fyrir það


sparnaðarstilling,þynnka og framlöpp

Burtséð frá orðum nágrannans þá hafði ég ætlað að vera sparsöm þetta árið og reyna að leggja fyrir aura milli þess sem planið er að borga niður skuldir. Göfugt markmið en svo er að sjá hvernig gengur með það W00t Ég komst áþreifanlega að því árið 2007 að óvænt útgjöld geta verið þungur biti þegar maður hefur ekki alveg gert ráð fyrir þeim. Oft eru andlát þannig að maður er alls ekki viðbúinn að missa ástvin sinn og er gjörsamlega ekki að spá í að svo kosti nú morðfé að kveðja sinn. Þannig að nú er planið að eiga fyrir hlutunum í varasjóð ef konan skyldi taka upp á að snarhrökkva upp af án nokkurs fyrirvara.

Ég vann alla nýársnótt og er komin í vinnuna aftur. Allan gærdaginn hékk ég eins og drusla í sófanum og kvartaði yfir slappleika og höfuðverk. Ég varð að sofa svo stutt svo ég næði að snúa sólarhringum rétt í snatri. Sko! sagði ég við Steinar ; ef þetta er svipað og að vera þunn eftir brennivínsþamb þá er ég sátt við að hafa aldrei lagt í að drekka ! Steinar glotti bara að aumingjanum í sófanum og fór í vinnuna. Svo mætti ég í morgun (ekki alveg galvösk)og þá sátu feðgar hér, annar er símavörður á nóttunni og sonurinn ekur hér, flissandi og spurðu hvort ég væri þunn ? Þá hafði Steinar verið að segja sögur af téðum sófaaumingja W00t Það er nú gott að hægt er að skemmta sér hehe.

Steinar ætlar með hundalappirnar til læknis í dag. Ég hef nú ekki skoðað fótinn á HundaLappa en Steinar segir að það sé rifið meðfram kló. Það er best að láta kíkja á hann gamlingjann....


Varlega

læðist ég hér inn á hvíta blaðið sem táknar árið 2008. Það er varla að ég tími að skemma. Við erum ein heima gamla settið og bæði eiginlega hálfóhrjáleg. Hann ók leigubifreið í nótt í svörtu myrkri og slagveðri. Ég sat og talaði stanslaust í alla nótt. Ég talaði reyndar eiginlega bara við bílstjórana mína en Nína sá um fólkið á línunni. Nú er ég eins og ég hafi verið draugfull.......fyrir nokkuð löngu vöknuð enda á ég morgunvakt á morgun og þarf að snúa sólarhringnum rétt.

Merkisdagur í dag. Elskulegur tengdasonur fagnar 25 ára afmæli...til hamingju Jón minn Wizard

Lappi byrjar árið á skakkaföllum. Honum hefur tekist að meiða sig á loppu og hann haltrar. Þess vegna fór Keli einn út áðan en kom heim í fylgd nágrannans. Þá hafði girðingin fokið hér alveg upp við húsið og við sáum það ekki. Keli kom bara hinn ánægðasti heim.

Hérna eru hinir bestu nágrannar. Ekki flugeldaóðir. Ekki partýóðir. Ekki á neinn hátt óðir. Hér er gott að búa.

Nú ætla ég að senda hausverkinn eitthvað annað......hver vill hann ?

Gleðilegt ár og takk fyrir kveðjurnar.


Áramótakveðja

en ég lofa ekki að ég skrifi ekki meira fyrir áramótin. Ákvað að stela myndinni hennar systur minnar til að skreyta með. Hún lemur mig þá bara yfir súpudiskinum á eftir, það er þá ekki eins og það hafi ekki gerst fyrr. W00t Við vorum verulega ódannaðar í gamla daga en það er allt til skemmtunar í dag og flest gleymt.

Hérna er stelimyndin

341866875_a0e8c69f1e

Annars er ég smá aum yfir áramótunum. Ég sé nýja árið sem hvítt blað, autt. Það sem æpir á mig núna eru sporin sem ekki munu birtast á blaðinu mínu. Sporin hans elsku Himma míns.

En þar sem ég er ekki í bloggstuði þá nenni ég ekki að skrifa meira.

Megið þið eiga gleðileg áramót og gott nýtt ár.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband