Bloggfærslur mánaðarins, september 2011

sjáiði bara sæta minn

skirnarmynd_af_himma.jpgHérna er Himmi minn lítill, þetta er tekið 2 mars 1986 á skírnardaginn hans. Það er hræðilega sorglegt að horfa á þessa mynd og vita að þessi fallegi drengur er nú látinn.

Mikið vildi ég að þetta væri ekki þannig ..


Áríðandi tilkynning

Í kvöld verður opið hús í Fella og Hólakirkju fyrir aðstandendur sem misst hafa í sjálfsvígi. Samveran hefst klukkan 20. Ég mæli með þessu, ótrúlegt að hitta aðra í sömu sporum. Vinsamlega dreifið þessu fyrir mig um allt

Þetta er ótrúleg heilun og mikil hjálp og stuðningur fyrir aðstandendur að hitta aðra í sömu sporum. Þetta þekkir enginn nema hafa reynt það á eigin skinni.

Endilega komið í kvöld.

Það verða fleiri opin hús í vetur og fleira uppbyggilegt sem verður í gangi. Sjá (www.sorg.is  )


Samveran og dagskrá vetrarins

Samveran í Dómkirkjunni var notaleg eins og alltaf áður. Tónlistaratriði og reynsla Benna, reynsla Gunnars Kvaran sem sagði okkur frá hinni hliðinni. Örvæntingunni og hinu myrka þunglyndi. Það var áhugavert innlegg og svo hinir dásamlegu selló tónar. Hvílíkt hljóðfæri ..

Það er þráður skilnings milli fólks sem hefur átt ástvin sem tekur sitt eigið líf. Við skiljum sorgina, brotlendinguna og sársaukann, vanmáttarkenndina og örvæntinguna yfir að hafa ekki getað komið ástvininum til hjálpar.

Lengi glímdi ég við að vilja ekki taka þátt í þessu lífi meir sem svo hraklega fór með mig - ég gat bara ekki vaknað að morgni. Til hvers að vakna hugsaði ég, ég á engan Himma lengur. Fallega brosið að eilífu stirðnað og gráu augun orðin gleri líkust, blikið horfið og týnt. Hendurnar loksins kyrrar og hjartað stöðvað. Hvernig á móðir að geta sætt sig við þetta ? Hvernig ?

Í vetur verður meira starf en áður en ég ætla að skrifa hér inn dagskrána en set líka tengla þar sem fólk getur skoðað sig um sjálft .

Opin hús í Fella og Hólakirkju mánaðarlega eins og hér segir ;

15 sept

20 okt

24 nóv

22 des

Fyrirlestur um sjálfsvíg 6 október 20.30 í safnaðarheimili Háteigskirkju. Fyrirlesari sr. Svavar Stefánsson.

Stuðningshópur vikulega á mánudögum í Fella og Hólakirkju. Umsjón sr. Svavar.

Þeir byrja 10 október.

Ég mæli með þessum stuðningshóp, ég fór síðasta vetur og sé ekki ögn eftir því. Eftir fundina þá höfum við nokkur hist áfram og það er algerlega frábær samvera.

www.sorg.is

www.sjalfsvig.is

 

 


Árlega er

alþjóðadagur sjálfsvígsforvarna hér á Íslandi sem og annarsstaðar.

Hann verður sífellt myndarlegri í sniðum. Núna, deginum áður, á að opna nýja vefsíðu fyrir þá sem eru langt niðri og líður illa, eru jafnvel að hugsa um sjálfsvíg og síðan er líka fyrir okkur hin, sem eftir stöndum. Við sem stöndum særð fyrir lífsstíð og þurfum að kljást við allskonar erfiðar tilfinningar.

Síðasta vetur fór ég í sorgarhóp sem sr. Svavar í Fella og Hólakirkju hélt utan um. Það gerði óskaplega gott, að hitta aðra í sömu stöðu. Eftir að starfinu lauk í kirkjunni þá höfum við hist áfram - í heimahúsi bara.

Núna á laugardagskvöldið verður samvera í Dómkirkjunni í Reykjavík og eftir hana verður gengið að Reykjavíkurtjörn og kertum fleytt til minningar um aðstandendur okkar sem látnir eru. Samveran hefst klukkan 20. 

Upplýsingar eru hérna á þessum tengli

Nýja síðan um sjálfsvíg er hérna (http://sjalfsvig.is/)   Sorg eftirlifenda er svo sterk og þung, mikil og sár byrði. Það er miklu betra að standa fleiri saman undir þyngdinni.  
mbl.is 33–37 sjálfsvíg á ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband