Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Í dag er afmæli

ein sterkasta og merkilegasta kona sem ég þekki á afmæli í dag. Í fyrra 07.07.07 þegar fólk var að missa sig í giftingum til að ná þeirri töluröð sátum við á Fjörukránni og borðuðum góðan mat. Það var stórafmæli.

Mamma heitin hefði orðið sjötug aðeins síðar í þessum mánuði og ég er að bræða með mér að við systur gerum eitthvað skemmtilegt og þá kannski með pabba þann dag.

Systir mín er best í heimi, stuðningur og styrkur en ég ætla að hætta núna, hún er ekkert hrifin af því að ég sé að mæra hana hehe.

Afmæliskveðjur geta skilast inn á hennar síðu www.siggahilmars.blog.is

 


Hjá mér er frábærri helgi að ljúka

án nokkurs víns, lögregluafskipta né annarra leiðinda. Alda og Lalli komu hingað í gærdag með dæturnar þrjár. Lalli ætlaði að vinna hjá okkur í gluggunum og gerði það með miklum sóma. Nú er ég með frágengna glugga í stofunni, og 2 nýjar rúður þar. Sama má segja um tölvuherbergið, þar er ný rúða og alveg frágengin. Lárus er einstaklega vandvirkur og mikill fagmaður í sínum smíðum. Planið er að þau komi aftur næstu helgi og þá á að reyna að ljúka við rúðuskiptin, það gæti þó aðeins tafið fyrir að skipta þarf um pósta í hinum stofuglugganum. Fúi hefur komist í gluggann og hann er orðinn lélegur.

Ég eldaði góðan mat í liðið mitt og við nutum lífsins saman, allir hamingjusamir og sáttir. Svörtu bræðurnir voru þó aðskildir í dag (hvuttar) Lappi gamli fór með mér í vinnuna, hann hefur ekki þolinmæði í börn og ég er farin að setja hann inn í herbergi þegar börn koma. Hann er auðvitað ekki það vanur börnum heldur og svo er hann allt öðruvísi skapi farinn en Keli sem elskar börn.

Nú byrjar ný vika og ég ætla að taka henni fagnandi, næstsíðasta vika áður en ég fer í sumarleyfið ...

Þakka ykkur yndisleg komment við síðustu færslu, þið eruð best í heimi


Erfið reynsla mótar mann

en maður verður kannski ekki var við það alveg um leið. Maður vaknar ekkert bara einn daginn og hugsar allt öðruvísi. Ég hef aðeins verið að spá í þetta. Ég átti ýmislegt óþægilegt að baki áður en ég missti Himma. Þá fortíð var ég búin að gera upp og pakka snyrtilega í kassa. Það truflaði mig semsagt ekkert lengur, það fannst mér fínt. Maður getur heldur ekkert dregið sífellt fortíðina á eftir sér, það verður bara of þung. Fortíðin mótaði mig og gerði mig að því sem ég var -fyrir 19 ágúst í fyrra. Þá persónu var ég ágætlega sátt við, það er gott að vera sæmilega sáttur í sínu eigin skinni enda er það eina skinnið sem maður hefur þegar upp er staðið.

Erfið reynsla slípar sálina. Þegar ég loka augunum og reyni að sjá fyrir mér sálina þá sé ég stein, fallegan slípaðan fjörustein. Hann er alveg orðinn eggsléttur og æðarnar í honum sjást vel. Ég reyni að halda utan um hann og passa hann. Hann virðist vera brothættur en af fenginni reynslu veit ég að hann er eitthvað það sterkasta sem til er. Það flísast upp úr honum en hann hefur aldrei brotnað í mask.

Hilmar minn fæ ég ekki aftur, hann kemur aldrei aftur, með prakkarabrosið og fallega blikið í augunum sem ég vissi að þýddi bara það hversu vænt honum þótti um hana mömmu sína. Hlýja knúsið hans er bara minning ein. En þá minningu á ég og hana getur enginn tekið frá mér. Ég loka augunum og ég sé hann fyrir mér, ég finn lyktina hans og ég heyri fallegu, letilegu röddina með gleðihljómnum í . Í minningunni er hann alltaf glaður, endalaust glaður.

En ég á þau hin krakkana, þau eru hér og eiga skilið að fá óskipta athygli móður sinnar. Þau hafa samt alveg umborið mig þetta síðastliðna tæpa ár. Höggið var svo þungt á alla.

Það er nokkuð síðan ég ákvað að láta þetta ekki brjóta mig, ég stóð upp heima, talaði við myndina af Himma og sagði : Nú ætla ég að halda áfram með lífið, ekki halda að ég elski þig ekki og sakni þín ekki, þannig er það ekki og þú veist það best sjálfur. Komdu með mér hvert sem ég fer, alltaf í huganum og hjartanu en nú lifum við hin .

Svo beið ég eftir að ég myndi detta á sléttu gólfinu, ef hann myndi mótmæla og bregða fyrir mig fæti. Það gerði hann auðvitað ekki. Hann kom bara með mömmu sinni.

Huld mín, gangi þér ofsalega vel í dag með búðina.

Kær kveðja á ykkur hin


Ekki beittasti hnífurinn í skúffunni

fyrst mundi ég ekki fyrir hverja heimilið á Sæbraut var ætlað og nú er komið að næsta versi í veseni frú Ragnheiðar. Ef einhver er með fingur sem eru smátt og smátt að kreppast við hverskonar lækni talar sá ? Ég nenni ekki fyrst til heimilislæknis og svo áfram. Það er eins og sinarnar sé að styttast í fingrum Bjarnarins. Góðlátleg hugmynd afans um að sitja á lúkunum féll ekki í sérlega góðan jarðveg enda ekki hægt að vera í tölvunni sitjandi á puttunum eins og sauður.

Gengin upp að öxlum

en með þó ágætan frið í sálinni. Ég fékk með mér systu og bangsann og við þrömmuðum vestan úr bæ og í átt að dómsmálaráðuneytinu. Slæptumst aðeins í Hólavallagarði og urðum heldur seinar á vettvang en við komum þó. Ráðuneytið hafði reynt að koma með krók á móti bragði, nýmalbikuð gatan og ef maður stóð lengi kyrr þá varð maður eins og nátttröll. Fastur í sporunum. Við náðum að labba tjörudrulluna af skónum í leiðinni heim til Siggu aftur. Þar stóð pabbi undrandi og spurði á hvaða bíl við hefðum farið. Sá auðvitað báða bílana okkar fyrir utan. Við vorum sem sagt í tveggja tíma mótmælalabbi og þetta er í fyrsta sinn sem ég tek þátt í mótmælum. Við hittum Jennýu og "húsbandið" og sáum margt merkilegra manna sem vilja leggja þessu máli lið, að fá Paul Ramsem aftur til Íslands, viðurkenna mistökin og útvega litlu fjölskyldunni land til að búa í, óhult fyrir stríði og annarri óáran.

Það er hægt að laga þetta, það þarf hinsvegar viljann.

ps ítrekun á einu atriði í fyrri pistli. Ég myndi ágætlega sætta mig við áfangaheimili í mínum bakgarði, ég myndi hinsvegar mögulega skrifa mig á lista til mótmæla ef það yrði stórvandræði af heimilinu en varla fyrr. Mér er minnisstæð barátta íbúanna við Sæbraut á Seltjarnarnesi þegar heimili fyrir (þroskahefta/geðtruflaða?) var sett upp þar. Heimilið var sett á þennan stað og ég hef aldrei heyrt af vandamálum í kringum það. Þá gekk einmitt undirskriftalisti. Ef einhver man betur hvernig heimili/sambýli það var þá þigg ég þær upplýsingar í kommentum, það er bara stolið úr mér í augnablikinu


4 júlí 2008

Mér tekst ekki að finna fyrirsögn á þetta. Kannski er skiljanlegt að íbúar vilji ekki fá slíka starfsemi í sitt hverfi, ég veit það ekki. En hitt er alveg ljóst að einhversstaðar verða þeir að vera. Mér er stórlega til efs að þeir muni ógna börnum á nokkurn hátt. Falli fíkillinn þá er næsta víst að hann fer annað um leið, hann fer í dópgreni, hann fer í miðbæinn,hann fer að hitta aðra virka fíkla. Hann mun áreiðanlega ekki sitja á tröppunum í Hólavaði útúrskakkur. Svo áður en einhver bendir mér á að ég ætti bara að samþykkja svona í næsta húsi við mig þá er best að ég segi það hátt og skýrt, það myndi ég gera. Mér leiðast mun meira "venjulegir" djammarar sem arka um allt gólandi, sprænandi á öll horn en fólk sem er í bata, fólk sem er að reyna að komast lifandi frá afar erfiðri fíkn. Þessir krakkar eru okkar krakkar, það getur hver sem er lent í þeim sporum að barn viðkomandi endi í neyslu. Það þarf oft ekki nema eina skakka ákvörðun hjá viðkomandi barni og þau eru föst í netinu.

Annað sem ég vildi impra á hér er hversu gríðarlega skaðlegt einelti er. Það er alltaf að renna upp fyrir mér meir og meir að verstu sárin á Hjalta sálinni komu vegna eineltis í skóla. Hann var í skóla í Kópavogi á sínum tíma. Hann var alltaf nánast minnstur af öllum en skapið ekki alveg í samræmi við líkamsstærðina. Hann var lagður í einelti. Það var svo auðvelt að gera hann reiðan. Ég fór dag eftir dag í skólann og kvartaði, hann kom oft heim og það lak úr honum blóðið. Skólinn gerði EKKI NEITT. Þegar veturinn var að verða rúmlega hálfnaður kom frostakafli. Við leigðum gamalt hús sem hélt illa hita. Þar vorum við með lögheimili áfram en ákváðum að taka á leigu annað húsnæði í Rvk. Þrátt fyrir að lögheimilið væri kyrrt í Kópavogi þá ákváðu skólayfirvöld að reka þá bræður úr skólanum, auðvitað á þeirri forsendu að drengir byggju í öðru skólahverfi. Þeir fengu ekki að klára veturinn þarna. Auðvitað var raunverulega ástæðan getuleysi skólayfirvalda gagnvart þessu einelti í skólanum. Skólastjórinn gamall kall sem líklega taldi að þetta myndi herða Hjalta að vera barinn smávegis hvern dag. Jú jú það herti hann vissulega, og hann fann sér seinna hóp sem hann passaði inn í. Hóp utangarðsbarnanna, fíklanna, rúðubrjótanna í Breiðholtinu. Þar fannst honum hann passa inn í. Flestir vinir hans þaðan hafa nú þegar farið í meðferðir, fallið, setið inni og margir þeirra eru enn í tómu tjóni. Hjalti hinsvegar er í lagi í bili, hann horfði á eftir stóra bróður í gröfina í fyrra. Góðu eiginleikarnir hans skína nú aftur í gegn eins og áður. Hann var yndislegt barn þar til dópið náði í hann. Þá þekkti ég ekki strákinn á meðan. Hann hefur alltaf verið hlý kelirófa, blíður mömmustrákur sem vildi oft bara hanga með mömmunni sinni í eldhúsinu. Þessi Hjalti er kominn aftur. Fyrir það er ég ofsalega þakklát.

Ég kvartaði við yfirvöld yfir brottvikningunni úr skólanum á sínum tíma og komst að því að það er ekki til neins. Kerfið verndar sína. Alveg eins og þegar ég kvartaði við Landlækni um árið, kerfið sér um sína og það borgar sig ekki að reyna að hrólfa við því. Í besta falli er einhverju logið upp á mann sjálfan.


mbl.is Öryggi barna ógnað af fíklum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í dag er 35 ára afmæli gosloka í Eyjum

en í dag er einn svartasti dagur á Íslandi sem ég man eftir. Við, já einmitt hamingjusama þjóðin, rákum mann úr landi í dag. Mann sem mögulega verður sendur í opinn dauðann. Mann sem á hér 6 vikna barn og konu. Við slitum sundur fjölskyldu og við fórum létt með það. Rosalega megum við vera stolt af okkur sem þjóð.

Flottust í heimi !

Afsakið meðan ég æli, fjandinn eigi þá sem stjórna hérna og geta framkvæmt svona hluti. Þetta gæti ég aldrei gert.

 


Elsku Vignir ömmusinnarstrákurinn

Innilega til hamingju með 6 ára afmælið, mikið ertu orðinn stór elskan mín.

Vignir að hjálpa litla bróðurHérna er hann að hjálpa litla bróður sínum með bílinn, bara flottastur í heimi og geimi.

Hilmar og VignirHérna kúra fallegu bræðurnir saman, þessir elsku snáðar.


Byrjaði daginn á að hitta

kæra vinkonu. Það var notalegt.

Brunaði svo um á þeim græna -hann tilkynnti skyndilega um bilun. Blikkaði á mig þremur bilunarljósun en allt virkaði eðlilega. Þá var næst að skjótast og heimsækja strákana í Öskju. Þeir klöppuðu græna og fóru með hann út í horn til yfirheyrslu. Þar kom í ljós að hann er plötuskjóða, það var ekkert að honum. Hann var skammaður hæfilega og við send út að halda áfram að vinna, án þess að borga neitt fyrir lygamælinguna. Hann hefur bara ekki nennt í vinnuna skömmin.

Alda kom suður í dag. Hún hitti lækninn og fékk svakalega fínar fréttir. Allt er á réttri leið og nú er planið að setja hana í sneiðmynd í ágúst og reyna að skera burt æxlið í beinu framhaldi. Ég held að það hafi birt yfir þar sem ég var þegar Alda hringdi, ég brosti allan hringinn.

Þetta lagar stöðuna svo mikið hjá henni skinninu.

Man ekki meira í bili


Óstuð á heimilinu

Lítill strákur var ekki í neinu heimsóknarstuði í gær. Versta vesenið var að hann var í þrautþjálfuðum höndum ömmu sinnar sem var fljót að greina vandann og lét smásnúðinn fara að lúlla sér bara. Hann var líka mun hressari þegar foreldrarnir komu úr bíóinu. Ég meina það ; sagði hann,, maður verður nú að óþægðast aðeins hjá ömmusín. Hann gólaði á ömmu, hann gólaði á afa, hann gólaði á Lappa og hann gólaði á Kela. Hundarnir fóru alveg í flækju og vildu hvergi vera nema í löppunum á okkur.

Ég náði samt einni ágætri mynd af smásnáða áður en amma varð voðalega leiðinleg. Set hana kannski inn seinna í dag.

---------------------------------------------------------------------------------

Alveg verð ég pirruð þegar ég sé að hjúkrunarfræðingar og ljósmæður þurfa að fara í aðgerðir til að fá mannsæmandi laun ! Hvernig stendur á því að þessar hefðbundnu kvennastéttir fá aldrei launaleiðréttingu nema með því að bretta upp ermar...? Hvernig var loforð þessarar ríkisstjórnar, átti ekki að leiðrétta laun kvennastéttanna ? Var það ekki eitt kosningaloforðið ? Annars finnst mér Samfylkingin blakta eins og drusla í vindi, nákvæmlega ekkert að marka neitt hjá þeim. Þetta er frumraun þeirra í ríkisstjórn og ég get ekki séð að það þurfi að prófa þetta neitt aftur.

_______________________________________________________

Verkefnið Öldubíll verður áfram í dag og á morgun en svo held ég að ég loki þessu. Síðast þegar ég gáði þá voru komnar 39000 krónur Wizard

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband