Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Happy camper

Ég kom heim áðan, af kvöldvakt ....hvuttar voru farnir inn að sofa með "pabba". Ég stóðst ekki mátið að opna til að fá þau hugheilustu knús sem um getur.

Hann Keli minn verður alltaf svo hjartanlega glaður þegar ég kem heim. Hann endasendist horna á milli í húsinu, í taumlausri gleði. Klessir á allt sem fyrir verður og ber skottinu í restina.

Ég hef verið að taka hann í gegn með að flaðra og nú reynir þetta grey af öllum mætti að setjast bráðlega á rassinn, á tjúllaða rófu sem dinglast svo mikið til að lífsins ómögulegt er að sitja á henni.

Hann situr og ég beygi mig niður til hans, eldsnöggt sleikir hann mig í framan og æðir svo af stað í meiri víðavangsgleðihlaup.

Þið getið hæglega séð hann fyrir ykkur. Lokið augunum og hugsið um...........................Plútó !

Þeir eru ansi líkir.

(ég er annars enn að hlæja að Bjarna Harðar framsóknarmanni. Þessi Framsóknarflokkur þarf enga óvini, hann á þá sjálfur)


Er það satt sem þeir segja um landann?

Ég er ekki á leið á mótmælafund. Mín mótmæli munu fara fram í kjörklefanum þegar þar að kemur. Ég vil ekki taka ábyrgð á skuldum útrásargaukanna en ég hef ákveðið að reyna að taka ábyrgð á einhverjum minna verst settu bræðra. Þá sérstaklega með aðstoð til samtaka sem sjá um og hafa séð um okkar fólk í góðæri og hallæri

Það vantar fólk sem brosir, hughreystir og reynir að dempa æsinginn. Æsingurinn mun engu skila en rökfastar athugasemdir gætu mögulega gert það.

 

Aðalástæða þessa bloggs er sú að ég vil tilkynna að ég er orðin meira en leið á þessu. Ég nenni ekki að halda þessari síðu við og ég nenni heldur ekki að lesa skrilljón útgáfur af "sama" blogginu eins og verið hefur undanfarið. Það eru allir að blogga um það sama. Verði manni svo á að lesa álit einhverra spekinga um ástandið þá eru þau misvísandi eins og allt annað.

Ein setning sló mig þó í dag og auðvitað var það Heiða (www.skessa.blog.is) sem náði í gegnum skrápinn. Hún heldur því fram að bráðum verðum við með svöng börn. Það vona ég svo sannarlega ekki, það segi ég satt. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að alþjóðasamfélagið láti okkur -fórnarlömb græðginnar- svelta hér á skerinu. Andskotinn....

En ég ætla samt að halda mig við plan A. Ég ætla að reyna að vera þeim innan handar sem þess þurfa, milli þess sem ég bisast við mína eigin reikninga. Þeim er amk öllum lokið þennan mánuðinn.

Hafið það sem best ljósin mín.


meiri gleðifærsla- BURT MEÐ SPILLINGARLIÐIÐ !!

Ég gerðist almennileg mamma áðan og sótti Björn.

B: Mamma hvar geymirðu sígaretturnar þínar ?

M: í vasanum eins og alltaf

Björn leitaði í öllun vösum..........á sjálfum sér.

en annars er ég góð, mun betri en þegar ég skrifaði síðasta blogg.

Ég er á báðum áttum með al-anon systemið sem ég hef verið í...mér finnst þetta ekki aaaalveg vera að virka fyrir mig. Ég ætlaði að prufa að skipta um stað en þá er það hægara sagt en gert. Ég ætla allaveganna að hugsa þetta aðeins betur.

Hinsvegar er ég alls ekki á báðum áttum með kirkjuna mína og starfið þar. Þar finnst mér gott að vera.

Kannski meira seinna.....


Kannski kominn tími til

og þó, ég veit það ekki alveg....er kominn tími á færslu ?

Ég hef baslað við sorg og heilmikla reiði undanfarna daga. Ýmislegt hefur orðið til þess að rífa upp illa grónu sárin. Ég hef sem betur fer verið lánsöm og hef haft ágætt næði inn á milli til að reyna að greina ástandið og skoða málin.

Málin hans Patta míns eru vonandi komin í góðan farveg. Um það ætla ég þó ekki að fjalla nákvæmlega, það bæði hentar ekki og svo er það bara ekki mál sem neinn vill skella hér á opið alnetið.

Mér hefur sviðið mín frammistaða undanfarið. Það er ljóst að eitthvað hlýtur að vera að manni sem foreldri þegar árangurinn er ekki betri en þetta. 2/5 eiga yfir höfði sér eða hafa átt yfir höfði sér fangelsisvist ....þetta segir manni einfaldlega það að kennslan hefur brugðist, stórlega.

Þó að maður hafi kannski gert eins vel og maður hafði vit til þá er það ekki nokkur afsökun. Árangurinn sýnir verkin svo ekki verður um villst.

Ég nenni ekki að blogga um kreppu- það eru nógir til þess. Ég hef ákveðið að láta stormana lægja áður en ég æði af stað með sleggjudóma og upphrópanir. Það koma sífellt upp fleiri vinklar á málum og ég get ekkert spáð í þetta fyrr en ég er komin með öll spil á hendi eða amk í sjónmál.

Ég ætla heldur ekki að hætta að greiða lánin mín, við höfum bæði okkar starf og ráðum amk enn við að greiða það sem okkur ber.

Ég gerðist hinsvegar vinur færeyinga á facebook...þeir eru bara flottastir.

Ég tók voðalega nærri mér óvægna gagnrýni á presta um daginn, álpaðist inn á síðu vantrúar. Mikið hefur mitt uppeldi verið ófullkomið, sumt réðist maður ekki á með köpuryrðum var manni kennt í gamla daga. Eitt og eitt blogg hné í þessa átt líka og mér leiddist þetta frámunalega.

Ég veit svo sem ekki hvar ég væri ef ........nei hætt við þessa setningu.

Held að ég sé hætt


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband