Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Gullfiskur í kúlu

Það er eiginlega bara ég.

Undanfarið hef ég velt ýmsu fyrir mér og þar á meðal þessari síðu hérna. Hérna hrúgast inn skrilljón gestir dag hvern og líðanin er stundum eins og ég sé gullfiskur í kúlu og í Kringlunni.

Mér leiðist þetta oft.

Svo er hitt, ég tel mig vera búna að koma því frá mér sem til stóð. Ég er búin að kynna ykkur hann Himma minn og ég sé alveg að þið ykkar sem kvittið hér og hafið skoðun eruð búin að sjá strákangann minn eins og hann var. Sonur móður sinnar og föður, stjúpsonur hennar Heiðar og Steinars, hjartkær bróðir svo margra systkina.

Hafið ævarandi þökk fyrir það. Það er kominn tími á hvíld


Ekki oft

sem ég blogga um fréttir en ég er að horfa á beina útsendingu frá þessum fundi og ég er svo sátt við þessa mótmælendur. Það er ekki oft sem fólk lætur í sér heyra. Ég hefði mætt væri ég borgarbúi. Þetta er til hreinnar skammar.

Nýr borgarstjóri virðist eiga ansi erfitt við þessar aðstæður enda ekki nema von. Það skal vera ferlegt að gerð séu slík hróp að manni við þessar aðstæður. Hann er bara leiksoppur. Strengjabrúða.

Dagur stóð sig vel í að tala við fjöldann, greinilega og skýrt bað hann um fundarfrið til að pólitíkin lokaðist ekki inni í lokuðu herbergi.

Nú held ég áfram að horfa á fundinn

Jæja ég hef verið að skoða gestina á pöllunum betur og mér sýnast þetta vera stúdentarnir okkar. Þeirra framganga er vaskleg eins og oft áður í gegnum tíðina. Þeirra er óneitanlega framtíðin. Hvenær hafa fundir verið truflaðir með þessum hætti ?

Í dag er merkisdagur, hundrað ár síðan konur voru fyrst kjörnar í borgarstjórn.

Fólk talar um að þetta sé lýðræðislega réttur gjörningur í ráðhúsinu ss. skiptin. Er ekki lýðræðislegur réttur að mótmæla ?

Skrílslæti ? Njah ég held ekki. Við þessi gömlu tuðum á bloggsíðum og sum okkar í blöðunum....en að gera eitthvað ? Nei við erum löngu orðin að of miklum aumingjum til að gera neitt sjálf nema í hvarfi.

Ég hef lengi verið sjálfstæðiskona (já nú er það komið úr pokanum) Sem betur fer hef ég rétt til að skipta um skoðun.

Ég vonaði í lengstu lög að einhver sjálfstæðismaðurinn hefði dug í sér til að snúa baki við þessu rugli í kosningunum en sú von brást.

Bingi reyndi að stela senunni með að hætta en það hefur alveg fallið í skuggann....

Dæs....erfiður dagur þetta, allt of margt að gerast.

 


mbl.is Hávær mótmæli í Ráðhúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andlegur skyldleiki

er nokkuð magnaður. Þegar maður heldur að maður sé einstakur en allt í einu rekst maður á aðra manneskju sem maður skilur alveg, hvert orð og hverja hugsun.

Eftir að Himmi dó þá hef ég kynnst mörgu nýju fólki. Fólk hefur verið gott við mig hérna, nánast undantekningalaust. Sumir hafa gert betur en að peppa mig upp hérna, fólk hefur komið til mín. Það hafa verið yndislegar heimsóknir. Það var verið skrifuð mörg innlegg til mín þegar dagarnir hafa verið daprir, þau hafa hjálpað ótrúlega.

Ég hef lesið þau öll en stundum undrast innlegg einnar bloggvinkonu minnar, hún hittir alltaf akkurat á verkinn sem ég hef verið að kljást við. Hún kemur líka alltaf með lausnina sem hentar mér, hittir semsagt alltaf í mark og ég næ í örvæntingunni og sorginni að skilja betur.

Þetta er hún Anna.

Anna er vinkona mín og það finnst mér vera heiður.

Í dag skrifar Anna merkilega færslu á síðuna sína og loksins núna skil ég afhverju hún skilur mig.

Anna mín, í dag ertu formlega ráðin sem lærimeistari minn. Saman göngum við þennan veg.

Heart


Umræðan er um tölvupóst

ég bendi á færslu Guðrúnar B bloggvinkonu minnar.

Hérna er ég með emailið mitt uppi við og stundum fæ ég send svona email.

Oftast eyði ég þeim en stundum sendi ég þau áfram og biðst hér með afsökunar á því og lofa að steinhætta því.

En málið er að það er fátt leiðinlegra en svona tölvupóstraðskeyti, þessi þar sem maður á að detta niður dauður eftir korter ef maður áframsendir ekki á 17 saklausa vini sína. Svo er dótið skreytt með fallegum kisum eða svöngum smábörnum. Svo situr maður í taugaveiklun í umrætt kortér og fær næstum slag af hræðslu og endar fyrir bragðið á geðdeild, taugabilaður !

Ég segi nei takk...ekki svona skeyti til mín.

Góða nótt


23 janúar 2008

Og ég er að horfa á Kastljósið, umfjöllun um gosið í Eyjum. Í huganum bærast ýmsar tilfinningar, ég man þessa atburði vel. Ég missti nú sjaldnast af stórfréttum, hún mamma heitin sá til þess. Ef eitthvað stórbrotið var í blöðunum þá kom hún þjótandi inn til mín með blaðið til að sýna mér. Ég á áreiðanlega met í að vakna með andfælum Tounge

Ég man að ég fann óskaplega til með flóttafólki úr eyjum. Nú þegar ég horfi á þetta þá dáist ég að æðruleysi vestmanneyinganna. Fólk bara pakkaði saman og fór um borð í skip, engin læti eða neitt. Afar margt varð til þess að ekki varð stórfellt manntjón, röð heppilegra tilvika. Veður var skaplegt, sprungan sneri frá byggð og allur flotinn var inni.

Enn í dag eru vestmanneyingar alvöru fólk, það þóttist ég sjá á því að grunnskólabörnin syngja drykkuvísur í skólanum ToungeInLove.

Ég man ekki til þess að neinn hafi birst í skólanum hjá mér, ég er þó ekki alveg viss. En mikið hefur verið nöturlegt að snúa heim, allt svart af gjalli og allar aðstæður hinar erfiðustu. Vestmanneyingar stóðust prófið og eru hugaðir og heilir einstaklingar.

Þessi færsla er til heiður þeim sem í þessum eyjum búa. Heart

Jahá...bæjarstjórinn í eyjum heldur enginn sé til sem ekki hefur komið til eyja, hvar ætti ég að fela mig ?

 


Lítil telpa á afmæli í dag

síða mömmu hennar er hérna. www.snar.blog.is

Verið þið nú dugleg að senda litlu systur hans Himma míns afmæliskveðjur, hún er alveg yndislegt barn. Hún brosir og þá er eins og kveikt hafi verið á sólinni.

Ég er ögn skárri í dag. Skrapp aðeins í bæinn áðan og rakst á pabba á Laugaveginum, við fórum í kaffi til hans. Það sem hann er duglegur að þurrka af og hafa fínt hjá sér. Ég stríddi honum aðeins áðan og þóttist ætla að láta hann koma heim til mín og þurrka af hjá mér hehe.

 


Alveg svakalega pirruð

og það er hreinlega allt að.

Ég sjálf ekki í nokkru stuði, húki inni og nenni ekki að tala við neinn. Líðanin alveg hörmulega leiðinleg og þung. Fer ekki úr náttfötunum eða geri nokkurn hlut. Elda með semingi og er bara glataðasta húsmóðir daganna. Djöfull...sem það fer í mig að vera svona !

Það er allt í voða....

Bloggheimar hafa misst sína mestu perlu og ég er svo ósátt við að horfa á eftir henni. Ég færði síðuna hennar og Gillíar síðu hérna upp undir englar á himnum. Þar er líka minningarsíðan hans Himma.

Mér býður við öllu þessu liði í borgarstjórn, það er sama hver er þarna. Það er allt gert til að komast yfir völd og svo þeir fáu sem ekki vilja vera með í óþverranum eru dregnir sundur og saman í fjölmiðlum og á bloggsíðum. Hugnist Margréti Sverrisdóttur ekki að starfa í þessum meirihluta núna þá á hún að standa keik og standa við sína skoðun. Það virðist hún ætla að gera og ég vil meina að hún sé þar með heilust af þessu fólki. Á henni er greinilega ekki verðmiði. Sjallarnir seldu sig ódýrt, afar ódýrt. Hvað varðar veikindi Ólafs þá er hann ekki fyrsti stjórnmálamaðurinn sem veikist alvarlega - aðrir hafa þó gert grein fyrir sínum veikindum en hann ekki, það skapar svigrúm fyrir þéttar kjaftasögur. Það verður bara að vera hans mál að fást við þær. Mér fannst hann hrökkva í vörn þegar hann var spurður um þetta á Kjarvalsstaðafundinum. Það fannst mér ekki góðs viti. Restina af 6menningunum stóðu þarna með efasemdasvip og sum þeirra með hálfgerðum skelfingarsvip. Villi virtist skyndilega finna áhugavert umslag innan í jakkanum sínum og skoðaði það með athygli. Mér datt í hug blaðið sem hann hafði aldrei séð þarna í kringum REI málið ? Kannski kom það óvart upp þarna ? Ég hef ekki nokkra trú á að þessi borgarstjórn haldi -ekki nokkra. Næst væri betra fyrir borgarstjórn að hafa styrkari meirihluta svo ekki þurfi að byggja á einum fulltrúa sem greinilega er hægt að kaupa að vild. Mér finnst þessi hegðun fyrir neðan allar hellur.

Ég bý ekki í Reykjavík þannig að ég á ekkert að vera að ergja mig á þessu máli.

Ég les mikið í kringum handboltann. Nýlega las ég að ástæða þess að einhverjir okkar manna eru svona slappir líkamlega sé vegna þess að þeir eru farnir að verma bekkina hjá liðum sínum erlendis. Þá er kannski ekki nema von að formið sé ekki gott. Franska liðið er nánast allt samspilað og er hreinlega alvöru lið. Alfreð þarf að tína saman okkar stráka allsstaðar að og reyna að klambra saman liði úr þessu. Núna hafa þeir verið óhemju þungir og þreyttir en í dag sá ég aðeins glitta í þá sjálfa og mikið var nú gaman að sjá það. Það er mikill handboltadagur á morgun og ég ætla að reyna að horfa...athyglin er að vísu um víðan völl.

Jæja..verð að finna mér eitthvað að gera eða hugsa, ég bara get ekki verið svona pirruð !!!


Með sorg í hjarta.

Cross Country USA 2004 Beulaville to Flagstaff

Hérna er óskaplega falleg mynd af henni sem mbl.is birtir nú.

450014A

Þórdís Tinna.


Ég er hérna og ennþá....

Engar fréttir af mér persónulega, það er svosem bara ágætt.

Ég hef glott talsvert í kampinn í dag yfir þessu borgarstjórnarbrölti, mönnum virtist ekki líka rétt vel að fá smakk af eigin meðali. Æj æj LoL Mér fannst samt verra að Jenný Anna er utanlands, missir af þessu öllu saman bara.

Framsóknarflokkurinn er orðinn best klæddi flokkurinn, þvílíkir stælgæjar ! Annars eru karlaföt ef þau eiga að vera almennileg alls ekki ódýr, við komumst að því við Steinar þegar við skruppum í sérverslun fyrir alvöru karla sl sumar. Það þýðir ekkert að ætla að kaupa á minn mann í Hagkaupum.

Ég sá þessa frétt fyrst hjá StebbaFr þarna fyrir norðan, ég var svo sem ekkert að pæla í þessu. Er að hvíla mig svolítið á tölvuhangsinu og hugsa um ýmis mál. Hann er ansi seigur að koma með skúbb og fréttaskýringar, honum tekst samt að fara í taugarnar á sumum en ekki mér..ég hef gaman af bæði fjölbreytni hans og fróðleik um ýmsa hluti.

Munið ljósin fyrir okkar fólk og okkar yndislegu Þórdísi Tinnu, ljós og bænir fyrir hana og litla skottið Kolbrúnu Ragnheiði.


Ekki beint minn dagur

nú við töpuðum

Mér er kalt (kallar í vinnunni skilja alltaf eftir opið út )

Hundar nenna ekki að tala við mig ( Steinar vinsælli, labbaði með þá áðan)

Ég sá músaspor úti í gær (ekki nagdýravinur, ein undantekning er nagdýrafamilía systur minnar)

Annars sló í gegn í vinnunni, ja eða svoleiðis........

Bílstjóri : Hvenær opnar Kringlan ?

Ég : ?

Bílstjóri : Er þjóðminjasafnið opið ?

Ég : ?

Bílstjóri : Hvenær lokar Smáralind ?

Ég : ?

Bílstjóri : Hvar get ég keypt öryggi fyrir hús ?

Ég : ? en sagði svo eftir augnablik...í Byko eða Húsasmiðjunni !

Ég fer helst ekki í Smáralind og Kringlu, hef ekki farið á þjóðminjasafnið síðan ég var krakki og kaupi aldrei öryggi...

Allt á ég að vita og í dag vissi ég ekki neitt Crying


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband