Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

opinberun

ég er hrekkjalómur og er búin að ala upp nokkra aðra hrekkjalóma. Fjölskyldan mín hefur alltaf verið stríðin. Það er alveg sama hvert litið er í því. Mamma var alvörugefnari en átti alveg sín prik í þessu eins og öðru. Það er til heima hjá pabba heil myndasería af okkur mömmu að fíflast eitthvað, við vorum að klára filmuna í myndavélinni Errm 

Ég hef stundum nokkuð gaman af því að stríða mínu fólki, ég passa náttlega að fara ekki of langt með það. Björn er mikill skotspónn stundum, hann hefur gaman að því. Hann borgar líka móður sinni til baka óskipt ef því er að skipta. Það tekur enginn sig mjög alvarlega hérna.

Eftir að Himmi okkar fór, sem var ekki minnst stríðinn, þá höfum við verið nokkuð þyngri en venjulega. Hrekkataktarnir eru þó aðeins að skilja sér til baka. Við erum sem sagt að verða sjálfum okkur lík hérna. Það er samt grunnt á sársaukann og það lærum við bara á, dag í senn.

Ég hef oft haft gaman að húmor annarra bloggara og ekki minna af alvörugefni annarra bloggara. Ég fer ekki oft inn á síður (ofsa)trúarbloggara en hef þó lesið. Stundum hef ég velt fyrir mér hvað þeir myndu gera ef maður færi inn og setti ; skrattinn sjálfur! í athugasemdirnar þeirra. Er það stikkorðið svo þeir fljúgi af skaftinu ? Ég meina það....

Erill var með vesen í gær, ekki þar fyrir að það kæmi á óvart. Það var mikið að gera á kvöldvaktinni hjá mér í gær. Svo fannst gömul miltisbrandskusa í Garðabæ. Hún fer í Keflavík í urðun. Það mætti nú bjóða Erli með.

Ég er að hlussast inn í mikla vinnuhelgi en sem betur fer hundanna vegna verður Björn heima.

Munið eftir fyrirbænum og kertaljósum fyrir Gillí.

Candlelight-497144


Bænir

Candlelight-497144

Mínar og hugur eru hjá Gillí og hennar fólki. Kertasíðan hennar


Skýrslan um fangelsismál

ég er búin að lesa hana alla og vista afrit á tölvunni minni. Margt sem þar kemur fram er góðra gjalda vert, áherslan nokkur á málefni kvenfanga. Margrét Frímannsdóttir var formaður þessarar nefndar, hún hefur löngum sýnt það að hún er með hjartað á réttum stað. Hennar hef ég saknað úr stjórnmálum. En að skýrslunni, orð eru til alls fyrst. Nú er að sjá hvernig þessum málum vindur fram í framtíðinni. Nokkuð er fjallað um fyrirhugað fangelsi á Hólmsheiði sem mér hefur heyrst undanfarið að sé jafnvel að detta út, í staðinn á að byggja upp fyrir austan. Ok gott og vel. Það þarf að setja miklu meiri kraft í að endurhæfa fangana, það er hagur okkar allra að þeir komi betri til baka. Það eru ekki bara mæður þeirra sem græða á því, samfélagið allt. Þetta fólk er okkar fólk og við getum ekki snúið við því baki. Því miður hefur það oft verið þannig að nefndir eru skipaðar og skýrslum þeirra svo stungið undir stól og ekkert gert meira í málinu. Þessu mun ég fylgjast með þó að minn "fangi" sé látinn. Ég mun koma með minn "óskalista" í þessum málefnum fljótlega.

Að öðru...er einhver lesandi hér sem man eftir bröggunum í Reykjavík ? Á síðu systur minnar(www.siggahilmars.blog.is) er mynd af einum bragganna í Kamp Knox sem var á Kaplaskjólsvegi. Mamma bjó þar. Ég á bækur síðan hún var stelpa og þær eru merktar nafni hennar og heimilisfangi. Hún ólst upp í mikilli fátækt og basli og það hélt áfram fyrstu ár æfi minnar. Hún var samt ótrúlega mögnuð. Hún var þvílík húsmóðir að það sá aldrei blett eða hrukku á neinu. Samt hafði hún verulega fyrir þessu. Það var ekki eins og letiaulinn ég sem þarf bara að fara í herbergi inn af eldhúsinu til að þvo og nenni því stundum ekki fyrr en óhreinatauskarfan er full (toggintau sagði Himmi,enginn veit afhverju) . Í lok þessa mánaðar verða 5 ár síðan krabbinn tók hana mömmu. Greta móðursystir sagði við mig þegar mamma var skilin við, ég skal vera mamma þín. Greta lést í mars, líka úr krabba. Það var vont. Þær voru ótrúlega samrýndar systur. Ég reyndi að skýra samband þeirra þegar ég skrifaði minningargrein um mömmu. Mögnuð kona. Nú lifa bara 2 bræður eftir af börnum Gústu og Árna. Nokkuð af barnabörnum Gústu hafa líka fallið frá. Elsti bróðir mömmu hefur misst 3 börn. Gréta missti dóttur. Börn yngsta bróður mömmu vitum við ekkert um, hann var Breiðavíkurstrákur og er látinn fyrir nokkuð mörgum árum. Það er einungis eitt barna Gústu sem hefur verið farsælt í sínu einkalífi og ekki orðið fyrir stóráföllum. Við hin höfum alltaf horft til hans með nokkru stolti. Þó maður sé alinn upp við vondar aðstæður þá þurfa þær ekkert endilega að fylgja manni. Maður er sjálfur arkitekt að eigin lífi upp að vissu marki. Það er hellingur sem maður getur lagað og breytt.

Nú læt ég þessum fortíðarpælingum lokið, fæ mér kaffi og klúsa Björn. Hann er kominn í frí. Merkilegt annars hvað hann nennir að fá knús, hann verður tvítugur í mars !

Ég var að hugsa í gær. Ég hugsa oftast á miðvikudögum. Ég myndi ekki vilja breyta neinu. Krakkarnir mínir eru nákvæmlega eins og ég vil hafa þau. Það eina sem ég sé í mínu lífi þess virði að breyta því er þetta með Hilmar minn. Ég hefði viljað hafa hann áfram.

Þið krakkar, mamma elskar ykkur eins og þið eruð en það þýðir ekki að ykkur megi ekki farnast betur í lífinu ykkar. Þið eruð best.

Ljósasíðurnar eru í hlekkjum hérna til hægri.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband