Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Hugarorka óskast

Solla mín er komin á tíma í dag en draumurinn hefur verið að fá litla barnið á morgun, á afmælisdegi elsku Hilmars okkar. Svo er að sjá hvernig það gengur.

Ég var að skoða það áðan en amma mín dó í fyrra, 18 nóvember. Við vorum ekki nánar hin seinni ár,hittumst bara ekki neitt. Mamma dó 30 nóvember fyrir tæpum 5 árum. Þessi mánuður er frekar spes. Haukurinn minn (www.siggahilmars.blog.is) á afmæli 23 nóvember. Þann dag átti líka Hjördís föðursystir líka afmæli en hún lést 1983. Ég man ekki eftir meira veseni í þessum mánuði...en Solla er að reyna að laga til þennan mánuð.

Nú megið þið reyna að senda henni hugskeyti, ja eða barninu, svo það fari nú að drífa sig að hitta ömmu sín. Amma er ómöguleg í að bíða.

Karl minn var svo góður í gær að hann ryksugaði fyrir mig. Ég veit ekki hvort það hafði eitthvað að segja að ryksugan var á miðju gólfi eftir að ég varð að bjarga glerbrotum rétt áður en ég fór í vinnuna í gær. Kelmundur knúsibolla man aldrei eftir því að hann er með skott sem slær allt niður þegar mikil gleði er í boðinu. Á ekki mynd af skottinu en hérna er mynd af honum sjálfum.

Keli 023

hann er hálfbjánalegur þarna greyið enda kominn í meiri fatnað en hann er vanur. Svo sjást fatalepparnir af honum þarna til hliðar. Myndasmiðurinn (Björn) hefur ekki alveg haft rænu á að taka til áður en hvutti var myndaður. Hehe ég má þakka fyrir ef kellurnar í allt í drasli mæta ekki bara !

Hugur minn hefur verið hjá æskuvini mínum. Hans spor og konunnar hans eru hörmuleg um þessar mundir. Þau eiga lítinn gutta sem er fárveikur, blessað barnið. Ég skil kannski ekki sporin sem þau eru í akkúrat núna enda Himma svipt frá mér eins og hendi væri veifað, enginn undirbúningur eða neitt....bara hviss....og Himmi dáinn ! En það er sama, ég finn sársauka þeirra og bænir mínar eru hjá þeim.

Eins og þið sjáið við fyrri færslu þá á ég bestu krakka í heimi, það er engin spurning. Þau umbera mig, þau taka ekki einusinni nærri sér þegar mamman er að röfla yfir því að vilja ekki vera hérna. Þau skilja mig og vita að mamma kemur svo til baka fyrir rest. Sem betur fer get ég tjáð mig án þess að þurfa að hafa áhyggjur af mögulegum misskilningi, þau eru best í heimi og þau hafa líka misst gríðarmikið. Himmi var samnefnarinn, gleðigjafinn og prakkarinn og það var hægt að tala við hann um allt. Á morgun verður skarðið mikla, þau geta ekki hringt í hann. Mamma væri búin að hringja í hann núna til að spá í hvað ætti að gera á afmælinu. Nú er mamma ráðalaus...

smáviðbótarfærsla:

Þeir í Reykjavík síðdegis eru alltaf með mola um hvað gerðist á þessum degi fyrir svo og svo mörgum árum. Í dag var það þennan dag 1985 var vitlaust veður og ég brosti...Það var svo brjálað veður þegar ég var að reyna að komast á fæðingardeildina til að eiga Himma að við Gísli urðum að fara í steypubíl á fæðingardeildina. Hann kom hér aðeins í kvöld og ég minnti hann á þetta, hann skellihló að minningunni. Mér er hinsvegar minnisstætt hversu hastur steypubíllinn var...en það er sama. Himmi kom í heiminn og náði að lifa sinn fyrsta sólarhring þrátt fyrir slæm mistök ljósmóðurinnar sem urðu til þess að það þurfti að vaka yfir honum fyrstu sólarhringinn. Hún gaf mér eitthvað verkjalyf sem ekki á að gefa nema það sé ákveðið langt eftir en hún gleymdi að tala við mig áður. Ég var alltaf skotfljót að eignast krakkana og Hilmar var nr 3 í röðinni þannig að ég vissi það að hann yrði ekki lengi að mæta á staðinn. En allt fór þó vel að lokum,fram til þessa voðadags 19 ágúst sl.

Í tilefni afmælis hans þá myndi ég þiggja að fólk yrði duglegt að kvitta og líka kveikja ljós á síðunni hans sem er hér til hliðar. Hérna eru líka fleiri nátengdir Himma eins og Solla systir hans, Heiður hin mamman hans og Sigga móðursystir hans. Á okkur öll hafði Hilmar merkileg áhrif og hefur enn og mun hafa um ókomin ár.


Mér ofbýður

Inn á www.visir.is er frétt með fyrirsögninni ; Hæstiréttur staðfestir gæsluvarðhaldsúrskurð. Þarna er verið að fjalla um þessa hrottalegu naugðun sem átti sér stað í miðborginni um helgina. Það er viðvörun í fréttinni enda lýsingarnar alveg skelfilegar.

Mennirnir tveir eru samkvæmt þessari frétt Litháar. Skemmst er að minnast annarrar naugðunar sem átti sér stað á Selfossi, þar var um Pólverja að ræða.

Það er þetta með skemmdu eplin....hvað á til bragðs að taka ?

Við konur á virðulegum aldri vitum vel að ekki eru allar nauðganir kærðar. Hversu langt eigum við að leyfa þessu að þróast ?

Þið vitrari en ég, er beðið um sakaskrá þegar fólk kemur hér til langdvalar, vinnu eða slíks ?

Hvað dettur ykkur í hug að hægt sé að gera ? Ég frábið mér bull um stutt pils eða að konur eigi ekki að drekka vín

 

PS

smá viðbót, ég veit að íslenskir karlar nauðga líka. Þessi færsla er skrifuð með nokkru hraði, er að svíkjast um í vinnunni.

Kvöldsaga

Hún gengur rólega inn heima, það er rökkur í húsinu. Hundarnir fagna komu hennar, eiginmaðurinn bíður rólegur eftir að mesti æsingurinn sé úr hundunum og heilsar sinni brosandi. Hann er alltaf glaður. Allan þeirra tíma saman man hún ekki að hann hafi verið annað en glaður. Þau eru búin að ganga saman veginn í nærri áratug, þau eiga ekki börn saman en áttu bæði börn af fyrri samböndum. Börnin voru 7 en nú eru þau einu færra.

Hún finnur að hún saknar þess að eyða kvöldinu með honum þegar hún er á kvöldvaktinni, það er notalegt að eyða þeim með honum. Hún situr í stærri sófanum og við hlið hennar er stóri hundurinn. Hundurinn liggur á ullar ponsjói sem hann gaf henni í jólagjöf fyrir nokkrum árum. Hvutti hefur löngu eignað sér þetta enda nokkuð kulvís greyið. Hinn hundurinn hefur lagt undir sig minni sófann en sem betur fer eignuðust þau húsbóndastól í vor sem karlinn getur fengið frið með. Ja amk ennþá.

Þau tala stundum ekki mikið saman, hann er upptekinn af sjónvarpinu en samveran er notaleg og áreynslulaus. Þau hafa ekki verið margar nætur í sitthvoru lagi og finnst það báðum ónotalegt. Hún horfir yfir í húsbóndastólinn, hann situr þar og dottar ofan í bringuna á sér. Hún brosir hljóðlega.

Henni verður hugsað til barnsins síns sem er ekki hér, hugur hennar rifjar upp minningar frá þeirra síðustu samverustundum, síðasta veislan,síðasta brosið. Hún rifjar upp hvert augnablik þegar presturinn kom að segja henni að hún væri búin að missa elsta son sinn. Brosmilda barnið sem umfram allt elskaði sitt fólk og það skein alltaf í gegnum allt hjá honum. Móðurinni var þetta óskiljanlegt. Hún berst við sorgina í þögninni, hún vill ekki raska ró hans. Hann kann engin ráð, hann verður bara órólegur ef henni líður illa. Hann veit ekki hvernig hann á að bregðast við, vanmátturinn er svo erfiður.

Hún leggur tölvuna hljóðlega frá sér og fer inn að hátta. Hún horfir alvörugefin á andlit sonar síns sem horfir á hana til baka af náttborðinu. Hún andvarpar og breiðir ofan á sig. Hún veit hvaða ferli er næst, hún ræðir við sinn Guð í huganum en kemst ekki að neinni niðurstöðu. Enda ef hann hlustaði á hana þá hefði hann tekið hana líka þegar hún margbað um það í upphafi sorgarinnar. Hún byltir sér, örþreytt , fram og til baka. Klukkan skín í myrkrinu og eins og alltaf líða klukkustundir áður en óminnið tekur hana. Hún sefur draumlausum svefni til morguns.

Góða nótt


samtal við barn að morgni dags

Björn : mamma það var svo glatað léleg gáta í DV í dag !

Mamma : Nú var það ?

Björn : Já ógeðslega létt ! Það ætti að vera bannað að vera með svona léttar gátur í dagblöðum !!

Björn vinnur sem næturvörður og les gat á öll blöð allar nætur.

Björn : ég skal teikna hana upp fyrir þig

Svo teiknar Björn og skýrir hvað allt er á blaðinu og réttir móður sem situr andspænis.

Mamman horfir á blaðið með vaxandi skelfingarsvip.

Löng þögn.

 

Mamman gat ss ekki þessa auðveldu gátu. Björn sprakk úr hlátri og sagði hughreystandi við móður sína ; Og ég búinn að segja að þetta væri ógeðslega auðvelt !

Móður lítil huggun í því.


Gaman í vinnunni

gesturábsrÞessi kom um daginn og sótti um starf. Eftir greindarmælingu (sló út núverandi starfsmenn) þá var hún ráðin í afleysingar.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

furðulegt í vinnunni

 

 

 

 

Svo var þessi staddur í vinnunni í dag. Enn hefur enginn sótt hann. Ég held að hann sé svangur !


Minni á

Vigdís Ellertsdóttir er einstæð móðir þriggja barna 9 , 11 og 13 ára.
Fjölskyldan býr í Njarðvík.

Fyrir nokkrum dögum greindist elsti drengurinn, Sigfinnur, með mjög slæmt
krabbamein í lifur og einnig fundust meinvörp í báðum lungum þannig að
ástandið er ekki gott.

Til að létta undir með Vigdísi og börnum hennar á þessum erfiðu tímum
hefur verið opnaður reikningur í Landsbankanum og leitum við til ykkar
sem sjáið ykkur fært að láta eitthvað af hendi rakna.

Munum bara að margt smátt gerir eitt STÓRT. Það er engin upphæð lítil.

Reikningur : 0142-05-072955 kkt: 140860-3289

Með kærri kveðju og fyriframm þökk.

VINKONUR.

Dettur í hug einn gamall vinnufélagi

sem var ótrúlega fanatískur. Menn sem stóðu í gættinni að reykja máttu eiga von á því að fá drag í afturendann þannig að þeir hentust lengst út á plan ef hann greip þá.

Meðan enn mátti reykja inni þá hurfu öskubakkarnir sífellt, þessi lá undir grun. Menn töldu að bílskúrinn hjá honum væri fullur af öskubökkum.

Hvað á að gera ? Ríkið selur draslið og bannar það í leiðinni.....


mbl.is Sleginn í rot fyrir að reykja í dyragætt á krá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umburðarlyndi

er í miklu uppáhaldi hjá mér. Fólk sem sér út fyrir sitt eigið sjálf og óttast ekki að umgangast það sem er því ókunnugt.

Ég les oft spjallið á Barnalandi. Undanfarið hef ég séð meira fjallað um eineltismál þar, börn verða fyrir einelti í skólum. Það minnir mig á vesalings Hjalla minn í gamla daga....það sem farið var illa með hann...úff.

Oft eru krakkar lögð í einelti af litlu sem engu tilefni  en stundum sér maður fordæmingu foreldranna ? skína í gegn. Fólk má alveg vara sig á að vera með yfirlýsingar í návist barna...ss um holdafar, gleraugu, fatnað, húsnæði,atvinnu foreldra og svo framvegis.  Börn grípa á lofti það sem sagt er og það getur þróast út í einelti gegn öðrum, fordæmingu. Barnið skilur kannski ekki sjálft hvað er að hjá viðkomandi. Heyrir bara að mamman eða pabbinn tala um viðkomandi fjölskyldu með niðrandi tón. Við eigum ekki að sitja á dómstólum og dæma aðra. Börnum okkar farnast öllum mikið betur ef þeim er kennd manngæska og umburðarlyndi, hjálpsemi og góðvild. Hitt er svo efni í annan pistil að við eigum að huga að okkar minnstu bræðrum og tilkynna slæma meðferð á börnum til þar til gerðra yfirvalda. Við eigum hinsvegar ekki að smjatta á slíkum atburðum í saumaklúbbum.

Mér er alltaf minnisstæð ein vinkona mín, dugleg hannyrðakona. Hún var í saumaklúbb sem var afar vel mætt í, það vantaði aldrei nokkra konu. Einn daginn komst ein konan ekki með nokkru móti. Vinkona mín mætti. Kvöldið fór í að baktala þessa sem ekki kom. Vinkona mín hætti í þessum saumaklúbb, henni ofbauð, og hún saumaði bara ein heima hjá sjálfri sér þaðan í frá.

Orð geta sært herfilega og illt umtal er ekki fallegt.

Í þessum hremmingum öllum þá hef ég sloppið við slíkt hvað varðar Himma...ég hef þó heyrt utan að mér nokkurn kjaftagang en ekkert annað en "eðlilegt" getur talist. Ég hef líka sloppið að mestu við leiðindi hérna, utan þennan eina aðila sem ég lokaði á. Ég reyndar veit hver sá aðili er, eða hvernig sá aðili tengist Hilmari og ég skil biturðina sem hvílir þar á. Að sumu leyti byggðist það á misskilningi en að sumu leyti á broti Hilmars. Hilmar getur engu breytt í dag og ég, mamma hans, ekki heldur. Ég reyni að halda áfram veginn og verð að gera það héðan í frá án hans. Það er vond tilhugsun. Vond framtíð án hans.

Bráðum kemur litla barnabarnið, það er áætlað í kringum 15 nóvember. Ég er farin að standa mig að því að horfa á símann minn, vakna á nóttunni og kíki eftir smsi frá Jóni tengdasyni...Mig hlakkar til.

Loksins er fasteignasalan að hypja sig til að fara að klára sölurnar á íbúðunum sem við seldum í vor ! Það var sko löngu kominn tími til. Þetta átti að klárast í júlí. Mitt dagatal segir nóvember. Við klárum amk aðra söluna á morgun. Íbúðina á Hringbraut. Þar var Hilmar skráður með lögheimili, það stóð á kistunni hans. Hann bjó samt aldrei þar blessaður. Sú íbúð var í útleigu og svo seld. Enginn úr fjölskyldunni búið þar í 2 1/2 ár. Þá lokast bók, mamma og pabbi bjuggu þarna uppi og Sigga systir í kjallaranum sem við keyptum svo og seldum í vor.

Okkar lögfræðingur er að vinna í hinni sölunni. Fasteignasalinn gat ómögulega komið út úr sér hvað við þyrftum að skila af pappírum. Það stendur bílskúr á lóðinni sem er í eigu annars. Þar vantaði eignaskiptasamning. Á því strandar það mál en er í vinnslu. Við áttuðum okkur ekkert á því enda var slíkur samningur ekki með í dæminu þegar við keyptum húsið. Við fundum til þá pappíra og fórum yfir allt og enginn svoleiðis samningur til síðan bara um heimsstyrjöldina síðustu. Ég verð fegin þegar við verðum endanlega laus við allt fasteignasöludæmi, við erum ánægð hérna og ætlum að vera hér.

Nú er ég búin að skrifa allt of mikið Errm


Merkilegum áfanga náð

heimsóknir komnar yfir 500.000. Það var Þórunn sem náði að smellast hérna inn nr 500.000.

Um daginn þegar var verið að fjalla um nýju biblíuna þá var lesin upp texti úr henni. Textinn fjallaði um það hverra væri Guðsríki. Þarna hafði orðalagi verið breytt ögn. En þegar þulið var upp hvað maður mátti ekki hafa gert þá runnu sjáanlega 2 grímur á mig og Björn. Miðað við upplesturinn þá var bara enginn eftir sem mátti erfa Guðsríki. Maður mátti ekki hafa stolið neinu né sagt eitthvað, ekki horft á þetta né hlustað á hitt. ,,Hana nú" segi ég við Björn.,, Þar hentu þeir út Himma" ,,Himma!! þeir hentu út allri fjölskyldunni og öllum sem ég þekki !!" sagði Björn stórhneykslaður.

Þannig fór nú það og nú þorum við Björn ekki að lesa Biblíuna af ótta við að fá það staðfest að okkur verði grýtt út í ystu myrkur þegar þar að kemur.

Nú bíð ég spennt eftir bloggi úr Grindavík til að sjá hvernig þau skemmtu sér á Ladda. (www.snar.blog.is)

Stundum finnst manni nóg komið. Við erum 3 sem vinnum á afgreiðslunni, allar búnar að vera lengi. Ég missti Himma í ágúst en ein sem vinnur með mér missti manninn sinn í október. Hverjar ætli líkurnar séu á 2 slíkum stóráföllum í svona litlum hópi. Það vinna líka 3 kallar þarna í afgreiðslunni. Þetta er ss 6 manna vinnustaður.

 


Mikið búin að hugsa um trúmál í dag

eftir að ég leit við á síðunni hennar Heiðu bloggvinkonu minnar.

Hún er þar að fjalla um bænagönguna sem farin var á laugardaginn. Mér fannst bænagönguhugmyndin þrælgóð þar til umræðan kom upp um að henni væri (amk af einum forsvarsmanni) beint gegn samkynhneigðum. Ég hef kannski voðalega vitlausan skilning á Guði en minn Guð sortérar ekki fólk. Hann tekur ekki einn hóp framyfir annan. Það eru nokkrir trúarbloggarar hérna á Moggablogginu. Sumir þeirra eru miklir bókstafstrúarmenn og ég get ekki lesið síðurnar þeirra, ég verð sorgmædd. Samkvæmt skilningi ofsatrúarmanna þá lenda þeir sem fyrirfara sér beint til Helvítis. Það er hugsun sem mér hugnast ekki, ég vil hugsa mér Himma minn í ljósinu. Að ráðast að fólki með orðum eða gerðum vegna þess að viðkomandi er ekki eins og maður sjálfur er alveg fjarri mér. Mér finnst kynhneigð fólks vera þeirra mál og bara ekkert koma neinum hlutum við. Það erum við sjálf sem sköpum sérstöðu þeirra með að útiloka sjálfsögð mannréttindi. Það finnst mér glatað. Ég átti samt ekki sérlega gott með að horfa á auglýsinguna um gönguna, þeir þurftu endilega að birta snöru ! Það hefði frekar mátt birta mynd af kistu.

Nú er ég búin að rausa um allt mögulegt í kvöld, það mætti halda að ég væri geðvond en það er alls ekki málið.

Er maður plebbi ef manni finnst gaman að horfa á Alþingi ? Ég geri það oft, mér finnst ég þurfa að gera það til að fylgjast með hvað er verið að fjalla um þar.

Nú ætla ég að bjóða góða nótt aftur og haska mér í bælið svo ég rjúki ekki upp með blogg óforvandis.

Munið að fylgjast með hver verður nr 500.000.

PS. Ég náði merkilegum áfanga áðan yfir Eddunni, náði að lesa hjá öllum bloggvinunum. Það hefur ekki gerst í ár og dag Whistling


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband