Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Svolítill skruddugangur á manni

en ég ætla að skrifa hérna smá pistil um það sem ég er glöð yfir. Ég er ekki nærri alltaf alveg niðurbrotin en það koma svona hviður af því líka. Úthaldið heldur ómerkilegt í mótlæti en samt er ég frægur harðjaxl Tounge.

Ég er ótrúlega glöð með ;

Hjördísi mína, hún er í skóla og gengur rosalega vel. Hún er líka flott og klár stelpa. Guttinn hennar, Patrekur Máni, er alger snillingur og ferlegt krútt. Hann minnir mig á Himma.

Sólrún mín, henni gengur orðið svo vel í lífinu. Hún er líka í skóla og gengur flott hjá henni. Hún á lítinn ömmumola, Vigni Blæ. Hann er yndislegur og ég hef afar gaman að honum, hann minnir mig stundum svo á móðurina þegar hún var sjálf á þessum aldri. Solla og Jón voru að kaupa íbúð og eiga von á barni í nóvember.

Hjalta minn og Anítu, þau verða ekki nefnd nema sem par. Þau eru búin að vera saman í mörg ár þó þau séu bara tvítug núna. Þau eru að standa sig svo ótrúlega vel og ég er svo stolt af þeim. Ég tel mig geta skilið að það sé ekki auðvelt að hrista af sér áralanga óreglu. Þau feta sig rólega áfram eftir mjóum vegi dyggðarinnar og við hvert fótmál ætlar mamma að standa og hvetja þau áfram.

Björninn minn, heimsljósið. Hann hefur verið stuðningur móður sinnar um árabil. Hann gleymdi sjálfur að taka út gelgjuna þess vegna og er svo frábær ungur maður. Það er nánast ekkert sem ég get ekki talað um við hann. Hann er sonur minn og hann er líka trúnaðarvinur minn. Hann var að spá í að fara til Danmerkur um áramót en fyrir bænastað mömmu þá ákvað hann að gera það ekki. Hann má fara seinna, mamma getur bara ekki misst hann burt langt eins og er.

Næst má svo sannarlega telja Steinar minn. Þegar við fórum að búa saman 1999 þá tók hann mér og þessum börnum sem sínum eigin. Hann hefur staðið með mér í gegnum allar raunir. Hann er kletturinn minn. Okkur hefur tekist í gegnum allt þetta bras að halda ástinni logandi og megum vart hvort af öðru sjá. Ekki skemmir vináttan sem við áttum í mörg ár áður fyrir. Líf án hans væri heldur vesældarlegt.

Með honum fylgdu krakkarnir hans, yndislegt fólk. Steinunn sem er blíðust og best og Siggi sem er hérna eins og ég eigi hann líka. Þau eru bæði afar vel gerðar manneskjur og mér þykir svo innilega vænt um þau.

Nú er náttlega sæti sjúklingurinn að trufla mig aðeins...hann er svo glaður með að vera kominn heim og fékk sér kjöt í karrý í hádegismat. Hann vissi að ég eldaði það í gær og svo lá hann eins og skata á spítalanum og fékk ekki neitt að borða. Honum fannst lítið varið í það.

Hann var settur í þrekpróf..svona eins og slökkviliðsmenn og hann stóðst það alveg. Það fannst ekkert athugavert við hann og helst er haldið nú að þetta hafi verið einhverskonar álagseinkenni. Það kæmi mér ekki á óvart. Álagið hér hefur verið ómannlegt síðan við misstum okkar dreng.

Eitt enn er ég afar þakklát fyrir. Ég er þakklát fyrir að hafa átt hann Himma. Hann var sannur gleðigjafi í okkar lífi þrátt fyrir allt og allt. Góðu stundirnar voru svo miklu fleiri en hinar og við eigum öll hafsjó af góðum minningum um hann.

Mamma og Himmi þvo hendurnar

Mamma, eridda bleina ? Nei nei sagði ég, bara volgt. Baja vott sagði hann og brosti. Hann gat vel sagt heitt en notaði þetta orð lengi framan af. Þegar honum fannst þetta allt of heitt þá sagði hann það vera bleinandi heitt.

Pabbi hans var með skegg. Hilmar sat í fangi hans og var að skoða framan í hann. Hann kroppaði í skeggið og spurði; pabbi errridda grrras ? Þá var svo mikil sina í garðinum. Himma fannst svipuð áferð á skegginu.

Löngu seinna. Mamma að vekja og strýkur vangann og talar hljóðlega til hans. Himmi minn,það passar að vakna núna. Umlll segir Himmi, það er svo gott þegar þú vekur mann. Maður brosir allaveganna fram að hádegi og svo breiddist út fallega brosið.

Muna svo fallegu ljósin hans Himma, þau gleðja okkur öll


margt bilað

í samfélaginu. Maggi er með fantagóða færslu í dag og óskar eftir skoðunum okkar hinna á henni. Færslan hans er hérna . Magnús er í hópi þeirra sem fylla hóp þeirra fötluðu, þeirra sem við hin teljum okkur eiga að sortéra frá vegna þess að þau eru kannski ekki alveg eins og skilgreining okkar um venjulega manneskju. Margt sem Maggi skrifar er bráðgott og hann hefur mörg skemmtileg áhugamál. Magnús minn Korntop, haltu áfram að skrifa og vera þú sjálfur. Ég er hreykin af að vera bloggvinur þinn.

Ég hef oft fjallað um það að lestur á bloggi fólks getur verið afskaplega fræðandi. Ég hef ekki velt neitt sérlega fyrir mér aðstæðum fólks með langveik börn. Einhverfa er til dæmis eitthvað sem ég hef ekki skilið né almennilega fattað hvað er. Þær stöllur www.jonaa.blog.is og www.hallarut.blog.is hafa opnað augu mín svo um munar. Sérstaklega sló pistill Höllu mig í gær, hún fjallar um "ráðagóðu" ættingjana sem sífellt benda foreldrinu á að gera svona eða hinsegin...þá sá ég samsvörunina í mitt líf. Það komu einmitt svona endalausar þreytandi ábendingar í kringum Himmann og ofvirknina hans. Það var jafnvel frá fólki sem þekkti hann ekki af neinu viti en það taldi sig samt vita betur en við, bæði foreldrapörin hans, sem vorum að reyna að aðstoða hann við sitt líf.

Ég vil líka minnast á bloggið hennar Jennýar, www.jenfo.blog.is . Hún er afar skemmtileg og góður penni. Íslenskan leikur á fingrum hennar svo unun er á að horfa.

Munið Himmaljósin fallegu


AHA!

Þessu megum við auðvitað ekki missa af hér í blogginu. Það er nokkuð ljóst. Nú slæ ég Jens Guð við í skúbbinu.

Skúbbið er hérna.

 

En þið verðið auðvitað að kunna að lesa útlensku til að skilja þessa erlendu stórfrétt.


Lappi og Keli

eru með pottþétta fjarvistarsönnun. Það var köttur í heimsókn hjá þeim. Köttur hefur enga hagsmuni af því að sanna sakleysi hunda þannig að vitnisburður kisa hlýtur að vega þungt.

Lausir hundar eru hinsvegar ekki alveg spennandi kostur, ég á 2 bjána hérna með eyru á öðrum endanum og rófu á hinum. Þeir líta ekki út fyrir að vera friðsamir. Ég þoli þá samt vel, þekki þá en ég er hrædd við annarra manna hunda og sér í lagi lausa.

Kommon pípol...passa hvuttana og taka upp lummurnar.


mbl.is Hundur hefur ráðist á fólk á Akranesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mér líst að þetta

en skildi ekkert í þessu fyrst þegar ég sá bleika toppmerkið. Ég hef einmitt oft hugsað með mér að leigubílar á ferð um allt eru ágæt auglýsing en með ákveðnum annmörkum. Þeir keyra ekkert endilega allir eins og þeir eiga að gera og sumir bílanna eru ekki nógu vel þrifnir. Ég sjálf reyni að aka þannig að ég verði ekki mínum vinnustað til skammar en lendi stundum í að fólk lætur bitna á mér pirring sem hefur skapast af öðrum leigubílstjórum. Ég nota helst aldrei flautuna í bílnum mínum, man oftast ekkert hvar hún er. Ég sendi fólki heldur ekkert puttann þó það keyri í veg fyrir mig. Ég hugsa hinsvegar viðkomandi þegjandi þörfina enda á ég mínar hugsanir skuldlaust. Hehehe.

Minn karl er í skoðun eins og er. Það er samt ekkert alvarlegt að hrjá hann,ég sat hjá honum áðan og það var kominn á hann mikill prakkarasvipur sem sagði mér einfaldlega það að hann væri í góðu lagi bara. Honum leiðist hinsvegar að hanga þarna og var kominn á fremsta hlunn með að aftengja allt sem við hann hékk og stinga af með mér heim. Hann veit að ég er að elda kjöt í karrý hérna heima. Hann langar í það.


mbl.is Leigubílar skipta út gula litnum fyrir bleikan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndir af ökutækinu mínu

Keli 027Keli 028

Keli 029

Keli 031

Jæja hérna eru þær komnar myndirnar af Bonzó mínum. Hann hangir inni hjá þeim í krók og verður tekinn inn á verkstæði á miðvikudag,fimmtudag. Þá byrja þeir á að rífa hann til að sjá hversu víðtækar skemmdirnar eru. Það er allaveganna farinn vatnskassinn sem er þarna fyrir innan og kannski eitthvað meira. Þegar honum var ekið upp á pallinn á króksbílnum þá kvartaði hann og sýndi öll möguleg aðvörunarljós. Honum var sem sagt illt í hinu og þessu sagði hann.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband