Litið yfir árið 2009

Þetta ár hefur liðið hratt. Það hefur samt verið frekar skrýtið með sínum mishæðum.

Árið hófst á því að Alda mín fór að koma þéttar í bæinn. Fljótlega varð mér ljóst að við þennan krabba yrði ekki ráðið. Marga daga sátum við saman í Landsspítalanum við Hringbraut, á krabbameinsdeildinni. Ég prjónaði mér ullarkápu og tími ekki að selja nokkrum manni hana.

Alda var ekki ein þarna á deildinni, vinur okkar Steinars var þarna líka. Hann virtist betur staddur en Alda en þó ekki í góðum málum.

Alda lést 13 apríl 2009, á afmælisdegi hans Steinars míns. Hún lét eftir sig 3 yndislegar smátelpur.

Vinur okkar lést í september.

En á milli þeirra féll óvænt frá annar vinur okkar, hné niður við að þvo bílinn sinn og var óðar farinn inn í annan heim og varð ekki sóttur aftur þrátt fyrir tilraunir til þess. Það var snöggt ...

Lífið hefur tekið á sig rólegri myndir, sveifluminni myndir. Sorgin er þarna ..það  er grunnt á hana. Svo grunnt að stundum er ég undrandi. Um daginn sat ég og beið eftir Hjalta, þá kom lag í útvarpinu sem ég hef ekki heyrt áður, einhverskonar sálmur, og tárin láku og mér fannst ég svo Himmalaus. Á eftir var ég undrandi, það eru liðin meira en 2 ár og manni finnst að það ætti að vera komin þykkari hella yfir.

Prjónahobbýið mitt hefur kætt mig á árinu og fá þeir sem eiga peysur frá mér hlýjar jólakveðjur í orðsins fyllstu merkingu. Undanfarið hef ég verið í að prjóna á mig pils og það hefur verið skemmtilegt.

Við Steinar náðum þessum tíu ára áfanga á þessu ári og erum sæl í sinni með það..still going strong enda gæti ég ekki hugsað mér lífið án hans.

Krakkar sem okkur tilheyra og eru hérna megin hafa haft það gott á árinu, þær sem eru í skóla eru afar snjallar. Allir aðrir eru flottir líka en þetta árið fær Hjalli sérlegt hrós fyrir að vera búinn að yfirstíga allskyns erfiðleika með hreinum sóma. Ég hlakka til að sjá næsta ár hjá honum.

Barnabörnin fimm eru algerlega frábær, ekki englar en flottir krakkar. Ég held að það sé aðeins eitt af þessum fimm sem ekki hefur einhverja greiningu á bakvið sig. En þau eiga öll frábæra foreldra sem styðja við þau þannig að framtíðin verði samt björt og flott.

Lappi kvaddi á árinu, farinn að heilsu og orðinn blindur. Keli er hér eftir, hann skoðaði ólina hans Lappa þegar hún kom heim án eigandans en gerði ekki neina leit að honum eða neitt. Hann hefur hinsvegar breyst mikið í hegðun og er alveg frábærlega þægur hundur.

Við eignuðumst tvo kisustráka á þessu ári 2009. Rómeó kom til okkar, hann er nýlega orðinn 4ra ára. Það kom upp ofnæmi á heimili hans og við ættleiddum hann. Bolla kisan hans Hjalta eignaðist 7 kettlinga og við ákváðum að gleðja Hjalta með að taka til okkar einn, hann gæti þá alltaf fylgst með honum. Það er Tumi Tígur.

Af þessu má sjá að árið hefur ekki verið alslæmt þó byljótt hafi verið. Ég er kannski að verða svo vön mótvindinum að ég er farin á líta á það sem sjálfsagðan hlut ?

PS
Ég flýtti mér aðeins of núna en ég gleymdi að skrifa það sem gladdi mig hvað mest á þessu ári. Síðan ég var 12 ára þá vissi ég að pabbi hafði átt börn áður. Ég tók stundum aríur í að reyna að grafast fyrir um þessi börn hans pabba en með engum árangri. Á þessu ári skrái ég mig svo á Facebook eins og þúsundir annarra, pabbi minn gerir það líka og viti menn. Í ljós kemur Stjáni bróðir minn og svo Erla systir í kjölfarið. Þannig að nú eignaðist ég 2 systkini , komin á þennan aldur. Virkilega gleðilegt og ég er alsæl með þetta ....Nú á ég 2 systur og bróður..

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Það gerist heldur betur mikið í kringum þig Ragnheiður.

Mín upplifun við þennan lestur er samt á þá leið, að þú setur þessar línur á blað með ótrúlega miklum innri friði miðað við áföllin sem á þér dynja.  Ég vona að svo sé. 

Anna Einarsdóttir, 17.12.2009 kl. 19:54

2 Smámynd: Ragnheiður

Jú Anna þú lest rétt, ég legg árið frá mér í sátt. Sumt var erfitt en annað bærilegra, sumt skemmtilegt

Ragnheiður , 17.12.2009 kl. 23:09

3 identicon

Þú ert svo yndisleg.Það þarf ekki meira en lag svo ég skæli eftir mínum strák.Lenti í því síðast í þessari viku.Svona er sorgin.Það þarf sterka mömmu til að bera svona missi.Þú stendur þig frábærlega vel.Takk fyrir allan stuðninginn sem þú hefur sýnt mér þrátt fyrir þinn mikla missi.Rétt hjá Önnu friðurinn yfir þér og sáttin er öðrum til fyrirmyndar

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 17.12.2009 kl. 23:35

4 Smámynd: Sigrún Óskars

Sigrún Óskars, 18.12.2009 kl. 00:06

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Elsku stelpan mín þú ert frábær

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 18.12.2009 kl. 03:20

6 identicon

Ásdís Emilía Björgvinsdóttir (IP-tala skráð) 18.12.2009 kl. 08:25

7 identicon

Vonandi er tíminn liðinn í bili þar sem missir ástvina og vina er allsráðandi. Þú ert heppin að hafa eignast systkini í stað þeirra sem þú misstir þó svo að það verði aldrei það sama. 

Þú hefur innri frið og það er besta gjöfin sem hægt er að hugsa sér handa þér mín kæra. 

Knús og klús

Kidda (IP-tala skráð) 18.12.2009 kl. 11:20

8 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Æ elskan mín. Stórt faðmlag til þín

Kristín Katla Árnadóttir, 18.12.2009 kl. 20:01

9 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Kærleik til þín elsku Ragga mín, þú ert bara yndisleg, allt gengur þetta upp að lokum og aftur til hamingju með 10 árin, þið eruð klettur fyrir hvort annað.
Þín Milla

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 19.12.2009 kl. 08:17

10 Smámynd: Rannveig Guðmundsdóttir

Þú ert frábær kona, Ragga mín, og kannt að taka hlutunum af æðruleysi og raunsæi. Til hamingju með ykkur Steinar og til hamingju með að geta horft framan í heiminn og smælað öðru hverju. 

Rannveig Guðmundsdóttir, 19.12.2009 kl. 14:10

11 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Ragga mín takk fyrir þetta og allar þínar góðu færslur á árinu sem nú er að líða.  Ég ætla ekki að skrifa annál í ár, ég held ég meiki það ekki.  En síðan getur allt breyst eins og hendi væri veifað það veistu  vel. 

Ía Jóhannsdóttir, 19.12.2009 kl. 15:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband