17 nóvember 1918

Hérna kemur meiri aldaspegill. Dagsetningin er í fyrirsögninni.

Árið sem nú er að líða mun lengi í minnum haft sem ár friðarins. Óskin sem allar þjóðir heimins hafa vorið fyrir brjósti hefir gengið eftir. Sverðin eru slíðruð á vígvelli Evrópu.

Hver hefði spáð því að svo mikil tíðindi gerðust hér á meðan vor að menn minntust naumast á vopnehléið, byltinguna þýsku og landflótta þess þjóðhöfðingja sem mest hefir verið um rætt síðustu árin, þeirra vegna ? Hver hefði spáð því að svo viðburðaríkir dagar biðu vor að vér gleymdum Kötlu, spúandi eldi og eimyrju yfir nálægar sveitir ?

Nú nefnir enginn Reykvíkingur Kötlu fremur en hún hefði aldrei verið til. Og engir fánar svifu að hún á þriðjudaginn var , til þess að fagna friðnum. Í stað þess drúptu fánar á miðri stöng sem sýnilegt tákn drepsóttarinnar sem dauðinn hefir fengið að vopni, í okkar afskekkta landi.

Utan úr heimi hafa borist öðru hvoru síðan í sumar fregnir af inflúensunni sem geisað hefur víðsvegar um Evrópu og nú upp á síðkastin einnig vestan hafs. En það virðist sem svo að menn hefi eigi álitið veikina jafnskæða og raun er á orðin. Inflúensan sem menn hafa átt að venjast síðustu árin hefir talið hana lítið verri en slæmt kvef.

Og það virðist mega ætla að læknar vorir sumir hafi eigi álitið að veruleg hætta gæti stafað af henni því að annars mætti það heita ófyrirgefanlegt skeytingarleysi að hafa eigi betri viðbúnað undir komu hennar hingað en gert var eða gera eigi ráðstafanir til að tefja svo fyrir veikinni að mikill meiri hluti bæjarbúa sýktist ekki samtímis og vandræðin þar af leiðandi yrði óviðráðanleg.

Á miðvikudaginn annan en var má telja að þriðjungur bæjarbúa hafi verið orðinn veikur . En næstu dagana breiddist veikin svo mjög út að um síðustu helgi mun ýkjulaust mega telja að tæpur þriðjungur hafi verið á uppréttum fótum. Því dagana var því líkast sem alt líf væru að fjara út í bænum. Goturnar voru að kalla mátti auðar af fólki og ætíð voru það sömu andlitin sem sáust, flest eldra fólk. Í byrjun þessarar viku fóru að sjást ný andlit, sjúklingar sem gengnir voru úr greipum sóttarinnar. En um sama leyti fór hinn hryggilegi förunautar influensunnar, lungnabólgan, að færast í aukana ogmeð henni fjölgaði mannslátunum  

LOKAÐ

Um það leyti sem Morgunblaðið hætti að koma út, var mjög tekið að brydda á því að sölubúðir væru lokaðar allan daginn, og margar lokaðar öðruhvoru vegna þess að eigi var nema einn maður uppistandandi í hverri búð. Og smám saman lokuðu búðirnar fleiri og fleiri. Stór verslunarhús, eins og t.d. Vöruhúsið, hafa verið lokuð í meira en viku. Bakaríin urðu að loka flestöll því bakararnir lágu veikir og ekkert var til að selja. Þó hafa bakarí Vald.Petersen á LAugavegi 42, frú Kristínar Símonarson og Alþýðubrauðgerðin getað selt brauð daglega, eftir því sem vér vitum best. Og mjólkursölustaðirnir hafa ætíð getað afgreitt mjólka í bæinn enda hefðu þeir síst af öllu mátt missa sig.

Síðastliðinn laugardag var, að því er komist næst, ekki fimta hver sölubúð í bænum opin. Og þar sem opið var ,var alls eigi mikið að gera, jafnvel í matarverslununum.

Afgreiðslutími bankanna var styttur að miklum mun. Þar hefir síðastliðna viku aðeins verið opið  1 til 3 og býsna fáliðað. Í Íslandsbanka hafa t.d. suma dagana aðeins 3 menn verið við afgreiðslu , þar á meðal sá bankastjórinn sem nú er heima en í Landsbankanum hafa alltaf verið nokkru fleiri. Stjórnarráðið hefir verið lokað suma dagana og flestar eða allar opinberar skrifstofur. Afgreiðslutími póststofunnar var styttur að miklum mun og sú stofnun sem mest var um vert að opin héldist, landssíminn, varð einnig að leggja árar í bát. Um miðja fyrri viku varð að hætta afgreiðslu símasamtala út á land, og skömmu síðar var einnig hætt að afgreiða símskeyti. Verst var ástandið á laugardaginn var því að þá muni eigi nema einn maður af öllu starfsfólki landssímastöðvarinnar hafa verið uppi standandi en daginn eftir voru einn eða tveir komnir í viðbót. Miðstöðinni mun altaf hafa verið haldið opinni nema part úr einum degi en þjónustutíminn var styttur vegna þess að sömu stúlkurnar, eða sama stúlkan, urðu að vera á stöðinni allan daginn. Sendisveinaleysi hefir mjög bagað landssímastöðina og eigi verið hægt að senda út um bæinn skeyti þau sem tekið hefir verið á móti. Loftskeytastöðin hefir starfað að mestu og hefir þó forstjórinn verið veikur en þó daglega að kalla má náð merkustu blaðaskeytum.

Venjuleg störf bæjarbúa hafa legið í kaldakoli. Flestir rúmfastir, en þeir sem uppi stóðu, mátu meir- sem betur fer- að sleppa niður atvinnu sinni til þess að vinna það sem mest lá á, að hjúkra og hlynna að heimilinum - bæði ríkum og fátækum- sem ekki áttu neina heilbrigða hönd.

HJÁLPARVANA

Það reyndust fleiri dyr lokaðar en dyr sölubúðanna. Þeir sem á fótum voru fóru, er á leið vikuna, að taka eftir því undarlega fyrirbrigði að dyr íbúðarhúsa hér og hvar um bæinn voru harðlæstar um hábjartan daginn. Og það kom þá í ljós að í einstaka húsum var engin manneskja uppistandandi, allir veikir, og enginn sem gat hjálpað. Sömuleiðis gaf að líta sjúka foreldra og óvita börn svöng í rúminu, en enga manneskju til að hjúkra eða færa björg. Svo mögnuð var sóttin orðin og útbreidd. Og engir kunningjar komu að vitja, því þeir voru líka veikir.

HJÚKRUNARNEFNDIN

Fyrir forgöngu Lárusar H. Bjarnason komst hún á laggirnar 8 þ.mán. og tók þegar að starfa undir stjórn hans. Verkefnið var mikið en mannaflinn sem hún fékk til umráða að sama skapi ónógur. Þó náðist strax til nokkuð margra manna, er þegar voru gerðir út til þess að ganga á milli húsa og veita hjálp þar sem þörfin var brýnust. Það er eigi of mælt að þessi tilstofnun hafi bjargað mörgum mannslífum , margir hafa fengið hjúkrun og bata sem ella hefðu orðið herfang dauðans vegna ónógrar eað engrar aðhlynningar. Og nú var fengin stofnun, er fólk sem einhvern hafði að senda,gat snúið sér til og fengið hjálp. Margir hefðu áreiðanlega farið á mis við læknishjálp og meðul, mat og hjúkrun, ef eigi hefði verið komið skipulagi á að veita fyrst hjálpina þar sem hennar var brýnast þörf án tillits til alls annars.

Á hjúkrunarskrifstofunni var lækni að hitta nætur og daga, peningahjálp veitt fátækum til meðalakaupa og annarra brýnustu nauðsynja. Skrifstofan sá einnig um flutning sjúkra á spítalana og hefir látið útbýta sjúkrafæðu ókeypis á tveim stöðum í bænum. Eins og geta má nærri hafa býsna miklir örðugleikar verið á því að veita alla þá hjálp sem um hefir verið beðið. Kvenfólk vantar tilfinnanlega, eins og ræður að líkindum, þegar hjúkrunarstarfsemin á í hlut.

VESLINGS LÆKNARNIR

Flestir munu víst þykjast átt hafa örðuga daga undanfarið hvort sem sjúkir hafi verið eða heilbrigðir. En þó munu tæplega fáir hafa verið eins hart leiknir og læknarnir sem sóttin beit ekki á.

Þeir Matthías Einarsson og Þórður Thoroddsen munu alta hafa haft ferlivist meðan sóttin var sem skæðust. Sömuleiðis landlæknirinn og Guðmundur Hannesson prófessor. Hinir hafa allir legið fremur stutt-sumir ekki í nema 1-3 daga- að undanteknum þeim Halldóri Hansen, Stefáni Jónssyni og Jóni Kristjánssyni sem allir voru þungt haldnir og Jóni héraðslækni og Kpnráð Konráðssyni.

Það ræður að líkindum hve gífurlegt erfiði læknanna hefir verið þessa dagana. Þó að eigi sé gert ráð fyrir að meira en tuttugasti hver sjúklingur hafi notið læknishjálpar daglega að meðaltali- en það mun vafalaust oflágt reiknað- þá verða samt læknisvitjanirnar samt 500 á dag ef rétt er sem fullyrt er að tveir þriðjuhlutar bæjarbúa hafi legið samtímis. Það gæfi ranga hugmynd um störf læknanna að sefja að þeir hafi unnið frá morgni til kvelds. Nei, þeir hafa hamast frá morgni fram á miðjar nætur. Vér höfum t.d. góðar heimildir fyrir því að Matthías Einarsson hefir venjulega verið á þönum frá kl 7 á morgnanna til kl. 2 á nóttunni og stundum lengur og má það heita þrekvirki. Maggi Magnús hefir verið næturlæknir Hjúkrunarskrifstofunnar en jafnan verið og í sjúkravitjunum mesta hluta sagsins.

Hjúkrunarnefndin hefir oftast getað lagt læknunum til bifreiðarog hefir sú ráðstöfun mjög flýtt fyrir þeim. Yfirleitt hafa bifreiðarnar verið hinar þörfustu og er t.d. sennilegt að margt fólk hefði alls ekki komist á sjúkrahús ef þeirra hefði ekki notið við.

SJÚKRAHÚSIN

Í upphafi sóttarplágunnar tók bæjarstjórnin hálfan franska spítalann á leigu til að leggja þar inn fólk sem sýktist af lungnabólgu. Stóð þá til að verja Landakotsspítalann sýkinni en það mistókst vegna óhlýðni sjúklings eins á spítalanum sem orðinn var rólfær og fór út í bæ og flutti veikina. Var þá rýmt svo til á spítalanum að hægt var að flytja þangað marga sjúklinga. En þessar ráðstafanir urðu þó hvergi nærri fullnægjandi. Víðsvegar um bæinn var enn fjöldi fólks sem nauðsynlega þurfti að komast á sjúkrahús og alltaf bættist við. Tók hjúkrunarnefndin þá suðurálmu barnaskólans fyrir sjúkrahæli og voru flutt þangað rúm og annar útbúnaður. Lengst stóð á því að fá þangað fólk til að hjúkra en það tókst að lokum. Í fyrrakvöld var búið að flytja þangað 53 lungnabólgusjúklinga og eflaust hefir eitthvað bæst við í gær. Flestir sjúklingarnir sem í barnaskólann hafa verið fluttir voru mjög veikir og í mjög mikilli lífshættu. En mjög margir hafa fengið svo mikinn bata að þeir meiga teljast úr allri hættu.

Þórður Sveinsson læknir hefir verið yfirlæknir í barnaskólanum og notað aðallega þá lækningaraðferð að baða sjúklingana úr heitu vatni og láta þá drekka heitt vatn. Síðan hafa þeir verið dúðaðir í ullardúkum og látnir svitna. Engin meðul eða sáralítl hafa verið notuð. Hefir þessi aðferð reynst mjög vel enda sögð mikið notuð vestan  hafs aðallega í byrjun veikinnar til að draga úr henni. Ættu þeir sem enn eiga eftir að leggjast í inflúensunni að hafa þetta ráð og sjá hversu gefst.

Lyfjabúðin

Því er auðsvarað hvar umferðin hafi verið mest, sóttardaganna. Mikið höfðu læknarnir að gera. En meðul þurftu eigi að eins þeir sem lækna var vitjað til heldur einnig allir hinir lítið veiku. Meðalatrúin er svo mögnuð og vaninn sá að brúka meðul svo ríkur að eigi þarf nema lítll lasleika til þess að fólk vilji hafa meðul við honum.

Strax í byrjun fyrri viku var aðsóknin orðin svo mikil að lyfjabúin var troðfull út úr dyrum af meðalagestum. Framan af vikunni var mest beðið um hitalyf og hóstasaft og þraut brátt allt kínin sem lyfjabúðin hafði. En þegar á leið vikuna tóku lyfseðlar fyrir lungnabólgumeðulum að streyma inn og voru engin meðul afgreidd eftir seðli í marga daga, önnur en lungnabólgumeðöl, aðallega kamfórublanda. Margir lyfseðlar urðu eigi afgreiddir vegna þess að efni í lyfin þrutu og nú sem stendur vantar í lyfjabúðina algjörlega mörg nauðsynleg lyfjaefni.

Starfsfólk lyfjabúðarinnar veiktist snemma og lyfsalinn sjálfur veiktist um síðustu helgi. Var óvant fólk fengið til afgreiðslunnar og gekk hún eigi eins greiðlega og ella og einnig spillti það nokkuð fyrir að margt af þessu hjálparfólki var danskt og gekk eigi sem best að skilja suma meðalagesti eða gera sig skiljanlega.

Mest bagaði þó skortur á fólki sem gat blandað lyf eftir seðlum því lyfjafræðingarnir voru nálega allir veikir. Vpru læknanemar af háskólanum fengnir til þess starfa en svo seint gekk afgreiðslan samt að oft þurfti fólk að bíða eftir áríðandi lyfjum í heilan sólarhring.

Auðvitað hefir lyfjabúðin verið opin allar nætur.

°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°°

Afsakið innsláttarvillur- ég er að horfa á borgarafundinn. Hann er bráðgóður.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Mögnuð frásögn. Manni finnst þetta krepputal bara prump miðað við þetta.

Helga Magnúsdóttir, 24.11.2008 kl. 21:49

2 Smámynd: Jórunn Sigurbergsdóttir

Já. þetta voru óskaplega erfiðir tímar og þann 1. des 1918 var fremur fátt fólk úti við að fagna var mér sagt.

Jórunn Sigurbergsdóttir , 24.11.2008 kl. 22:54

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Alveg frábær upprifjun á erfiðum tímum hjá okkur Íslendingum

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 25.11.2008 kl. 02:30

4 Smámynd: Huld S. Ringsted

Athyglisverð lesning

Huld S. Ringsted, 25.11.2008 kl. 08:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband