Í dag eru 11 mánuðir
19.7.2008 | 21:34
síðan hann fór. Ég sakna hans hvern einasta dag og tala við hann og um hann hvern dag við mitt fólk. Í fyrradag herti ég mig upp, druslaði mér í kirkjugarðinn og fór með blóm til mömmu í tilefni af sjötugsafmæli hennar. Ég fór líka með blóm til Himma og klappaði krossinum hans. Svo bað ég hann að leiðbeina mér til Hauks hennar Birnu Dísar. Síðast þegar ég fór þá fann ég hann alls ekki og það var í fyrsta sinn sem það gerðist. Núna labbaði ég nánast beint til hans og sá fallega steininn sem kominn er hjá honum. Áður en Himmi dó þá las ég síðuna hjá Birnu Dís og skoðaði myndir af hennar syni, hann minnti mig um margt á Himma minn. Ekki vissi ég þá að svo stuttu seinna stæði ég í sporunum hennar, líka búin að missa son. Það er vond spor að vera í. En maður hefur svosem ekkert val. Þetta gerðist og einhvernveginn verður maður að finna leið til að lifa með þessum skelfilega raunveruleika. Maður verður aldrei samur eftir....það kemur óbætanlegt skarð. Samt var ég orðin nokkuð sjóuð í að hafa ekki Himma um mislangan tíma. Hann sat inni í 4rða sinn og ég var að æfast í því að vera án hans. En ég var samt ekki og verð aldrei klár í að hitta hann aldrei meira. Það er svo óendanlega erfitt.
Ljósasíðan hans hefur lifað í ellefu mánuði. Fyrir það þakka ég ykkur, þið hafið verið yndisleg að halda henni gangandi með því að hafa alltaf á henni ljós.
--------------------------------------------------------------------------------------------------------
Hér er verið að smíða og reyna að klára glugga. Einn var lélegur og fékk nýja pósta. Það er að klárast og þá þarf bara að setja gler í 2 aðra. Þetta verður frábært að sleppa við lekann....handklæðasprettir um allt hús þegar rignir. Við þurfum svo að setja nýtt járn á þakið. Það er víst eitthvað plastklætt dótarí eða eitthvað svoleiðis. Það gerist vonandi á næsta ári.
--------------------------------------------------------------------------------------------------------
Sumarfríið fer ágætlega af stað. Ég er náttlega á spretti í hinni vinnunni á meðan en stefnan er að komast samt eitthvað í sumar. Steinar er fastur í sinni vinnu og ekki nennir frúin ein eitthvað út á land.
Athugasemdir
Sigrún Jónsdóttir, 19.7.2008 kl. 21:36
Kærleik til þín Ragga mín
Milla.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 19.7.2008 kl. 21:39
Svo langt síðan en samt svo stutt. Þú hefur gert ótrúlega mikið á þessum tíma við að minnka fordóma og breyta hugarfari fólks til þeirra sem sitja í fangelsi, leyfðir okkur að kynnast Himma og sjá hann sem þá yndislegu manneskju sem hann var. Fyrir það áttu mikinn heiður skilið. Ég kveikti einmitt á kerti á kertasíðunni hans Himma fyrr í kvöld og geri það reglulega.
Sendi risastórt knús frá Skaganum og þú ert að sjálfsögðu alltaf velkomin hingað!
Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 19.7.2008 kl. 21:41
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, 19.7.2008 kl. 21:57
Kærleikskveðja til þín og þinna!
Guðbjörg Erlingsdóttir (IP-tala skráð) 19.7.2008 kl. 21:58
Megi allir englar alheimsins vaka yfir þér,og þínum.
Kærleikskveðja
Guðrún.
Guðrún (IP-tala skráð) 19.7.2008 kl. 22:08
Ljúfar hugsanir hafa liðið til þín allan daginn yfir heiðina. Ætli þú eigir ekki stóran þátt í því, með þínu bloggi, að fá almenning til að horfa á fanga sem fólk með tilfinningar og líf þó svo að eitthvað hafi bjátað á og gengið illa. Ótrúlegar framfarir hafa átt sér stað og ég held að meira muni gerast fljótlega. Kærleikskveðja
Ásdís Sigurðardóttir, 19.7.2008 kl. 22:33
Svala Breiðfjörð Hauksdóttir (IP-tala skráð) 19.7.2008 kl. 22:41
Þú ert í ástríki þínu að lyfta bautasteini frá augum fáfróðra með þínu bloggi, hvunndagshetja. Langt síðan ég kveikti á kerti fyrir Himma, gjöri slíkt nú.
Steingrímur Helgason, 19.7.2008 kl. 23:23
Kæra Ragnheiður!
Blessuð sé minning drengsins þíns
Kærleikskveðja,
Ásdís Emilía Björgvinsdóttir (IP-tala skráð) 19.7.2008 kl. 23:52
Anna Einarsdóttir, 20.7.2008 kl. 00:09
Kærleikskveðjur
Guðrún Jóna Gunnarsdóttir, 20.7.2008 kl. 00:13
Tíminn þýtur áfram. Himmi dó tveimur dögum eftir að Maysa mín átti afmæli. Stundum átta ég mig ekki á hvað verður um dagana.
Þú ert dugleg Ragga og flott í þokkabót.
Jenný Anna Baldursdóttir, 20.7.2008 kl. 00:24
Hrafnhildur Ýr Vilbertsdóttir, 20.7.2008 kl. 03:11
Dánardægur Himma er afmælisdagur Jónu dóttur minnar hún verður 21 árs gömul þann 19 ágúst. Mér finnst þú vera hetja, hvernig þú hefur tekið á þessum hræðilega missi.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 20.7.2008 kl. 03:35
Helga skjol, 20.7.2008 kl. 07:28
Blessuð sé minning Himma og meigi guð vaka yfir ykkur
Kristín Gunnarsdóttir, 20.7.2008 kl. 07:43
Æi já þau eru erfið sporin okkar Ragga mín.Það líður ekki sá dagur að ég hugsi ekki um Haukinn minn.Ég ken við "hjá"Himmanum þínum oftast þegar ég er í garðinum.Ég er oft þar enda passlegur hjólatúr þangað.Tíminn líður svo hratt en samt svo hægt.Dagarnir verða smátt og smátt bjartari.
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 20.7.2008 kl. 11:46
Hrönn Sigurðardóttir, 20.7.2008 kl. 14:28
Mér þykir ósköp vænt um þig, Ragga mín.
Hugarfluga, 20.7.2008 kl. 14:55
Þú ert þvílík hetja Ragga mín. Svo ótrúlega sterk. Það er á móti gangi náttúrunnar að foreldrar jarði barnið sitt. Það alskelfilegasta sem nokkur getir orðið fyrir.
Helga Magnúsdóttir, 20.7.2008 kl. 15:30
Nei það er líklega rétt hjá þér Hallgerður, ég fékk ekkert val amk ekki með hann Himma minn. Ég hef oft áður haft val um ýmislegt annað en ekki hann.
Ragnheiður , 20.7.2008 kl. 19:28
Kíki hér inn við heimkomuna, varð hugsað til þín í gær.......
., 20.7.2008 kl. 19:49
Guð blessi þig elsku Bloggvina mín - mín kæra Ragnheiður.
Tiger, 22.7.2008 kl. 02:46
Marta smarta, 22.7.2008 kl. 14:44
Já Marta mín, þessir dagar eru slæmir, þeir kvelja sálina. Sendu mér póst
Ragnheiður , 23.7.2008 kl. 10:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.