Þetta er ég
28.6.2008 | 10:41
voruð þið ekki búin að steingleyma mér ? Hehe nei varla.
ég er heima amk hálfan daginn í dag. Ég þyrfti að fara út í garð og finna út hvernig maður fremur árangursríkt morð, á njóla. Hann er vaxinn upp við hlið reynistrés krílis sem þolir líklega ekki þessa samkeppni lengi enda njóladruslan miklu stærri. Reyni að leita ráða hjá vinnufélögunum í gær en uppskar ekkert nema misgáfulegar sögur um þá sjálfa reykjandi njóla á árunum fyrir Krist. Held að þeir séu ekki garðyrkulega vaxnir þarna hjá mér kallarnir. Áhuginn einskorðast við að hægt sé að éta það, brugga úr því eða reykja það hehe.
Ég sit hér og blogga meðan ryksuguvélmennið þrælast um gólfið, ég held að ég hafi bara sjaldan eytt aurunum í jafngáfulega vitleysu. Allar húsmæður eiga sér verk sem þær fella sig illa við eða geta ekki unnið svo vel sé. Minn akkilesarhæll hefur alltaf verið gólfið. Nú er það seif og ég hamingjusöm með það.
Fór og nærði öfundina í gær, fór að kíkja á baðið hjá systu minni. Ég er nefnilega bara með baðkar sem ég þarf að brölta upp í til að fara í sturtu, eins og hún var með. Keli og Lappi fengu að fara með og þvílík hundahamingja að hitta uppáhalds frænkuna sína. Þeir fá sjaldnast að fara með þegar við förum í heimsóknir, það er svolítill gauragangur í þeim þegar þeir verða ofsaglaðir. Við vorum einmitt að ræða það um daginn að systur væru að verða gamlar og þyrftum að bregðast við því. Ég segi nú bara eins og Þráinn Bertelson í blaðinu í dag, leiðin milli vöggu og grafar er styttri en ég átti von á. Hún er allaveganna fljótfarnari.
Ég hef ekkert farið í garðinn til Hilmars. Ég fæ mig bara ekki til að fara þangað. Allaveganna verð ég að hafa einhvern með mér í það. Mér finnst hann ekki vera þar. Mér finnst eins og ég hafi týnt honum einhvernveginn. Mér finnst hann hvergi vera. Og þó hann býr í hjartanu mínu og þar verður hann alltaf. Hann er meira með mér en nokkuð annað. Ef maður gefur sér að til sé himnaríki þá held ég að þar sé orðin þröng á þingi og nokkuð víst að englavængir koma ekki að nokkru gagni nema þá með dyggri aðstoð flugumferðarstjóra. Æsir fóru til Valhallar, og í öllum herklæðum minnir mig. Það er auma vistin að rogast um í eilífðinni með sverð og skjöld og í brynju. Þá er áreiðanlega betra að fara eitthvað annað og helst berrassaður.
Það gengur vel að kroppa saman fyrir Öldu mína, í bílinn hennar. Við erum núna komin í 29.000 og nokkrir hafa haft samband og vilja hafa þetta í huga um mánaðamótin. Ykkur öllum kann ég bestu þakkir fyrir.
Njólamorðráð eru vel þegin í kommentum.
Kveðja
Ragnheiður raðmorðingi
(Steingrímur, brenndi auðvitað ruslpóstinn en ekki reikningana. Story of my life sko)
-------------------------------------------------------------------------------------------------------
Nokkrar fágætar erlendar fuglategundir hafa sést í veðurblíðunni á suð-austurlandi síðust daga. Þannig hafa Þyrnisvarri, Seljusöngvari og Straumsöngari sést í Einarslundi á Höfn í Hornafirði. Bláheiðir hefur sést svífa yfir Skógarsand og þá hafa mandarínendur verið á Borafirði eystri og í Kelduhverfi.
Straumsöngvarinn er einna saldgæfastur þessara fugla. Þetta er í þriðja sinn sem þessi tegund finnst hér á landi. Heimkynni straumsöngvara eru aðallega í mið- og austur Evrópu. Í Rússlandi, Úkraínu, Hvíta-Rússlandi, Eystrasaltslöndunum og Póllandi.
Prófarkalesa Rúv, prófarkalesa. Það er ekkert að því að slá innsláttarvillu en þrjár í svona smákrílisfrétt ?
Að allt öðru, hafið þið séð geitunga ? Ég hef ekki séð einn einasta í sumar, ég veit að þeir eru mest áberandi síðsumars en maður hefur þó alltaf séð til þeirra fyrr.
Athugasemdir
Sæl Ragnheiður, ekki er ég nú fróð um njóladráp en tel að það hljóti að vera til eitthvað eitur sem gæti útrýmt þessum leiðinda gróðri. Ég heyri að þú lætur vel af þessu ryksuguvélmenni, þetta er eitthvað sem ég gæti alveg hugsað mér að eignast, þar sem það er hundur á mínu heimili og stundum fleiri en einn. Það er gott að vita að það gangi vel að safna fyrir bínum hennar Öldu, en betur má ef duga skal og hvet ég alla sem eru aflögufærir að leggja hönd á plóg. Margt smátt gerir eitt stórt Svo vil ég Ragnheiður þakka þér bloggvináttuna, mér þótti vænt um það, þegar óskin um hana kom. Vona að þú eigir góðan dag og góða helgi. Kveðja
Erna, 28.6.2008 kl. 11:10
Kærar þakkir Erna
Ragnheiður , 28.6.2008 kl. 11:16
Hoppaðu á njólunum, vel og lengi, það ætti að duga.
Knús.
Jenný Anna Baldursdóttir, 28.6.2008 kl. 11:26
eina sem mér dettur í hug er að reykja allan njólann... hvort hann hverfi við það er allt annar handleggur... Kannski rífa hann upp með rótum og splæsa í líter af 95 oktana bensini og hella ofan í.. (ég er ekki með græna fingur hihi)
En svo við snúum okkur að honum Roberti (aka Robbi roomba) Hann er jú snillingur og þarfasta viðhald allra! Verst þykir mér hvað hann kostar, bíð eftir að það komi kreppa á hans bæ og stekk á hann... Er alltaf að bjóða mömmu í heimsókn og ía að henni að Robbi sé mun meira en hjartanlega velkomin...
Vonandi finnur þú hann Hilmar þinn aftur, þó svo að við geymum okkar ástkæru í hjartanu þá er svo gott að vita af þeim á stað sem maður getur mætt á.
Ég drap lítin geitunga unga sem vildi leika við ungana mína, en fleiri hef ég ekki séð...
jæja búin að babla nóg hér, eigðu góða helgi:)
E.R Gunnlaugs, 28.6.2008 kl. 11:32
Það er ekkert annað bara orðin raðmorðingi, sko taktu bara vélsögina og settu á njóla fjandann, þegar það er búið grefur þú upp ræturnar,
en hef heyrt að erfitt sé að eiga við hann og þú mátt alls ekki setja eitur í jarðveginn finnst þú ert með önnur tré líka,
bullar ein sem ekki hefur mikið vit á þessu,
en veit þetta með eitrið.
gaman að sjá þig hérna Erna mín, Ragga ef þú verður á ferðinni þá er gott að koma í kaffi til Ernu og svo á Húsavíkina til mín.
Ég skal nú bara segja þér mín kæra, þegar ég missti eina og besta vininn minn í lífinu, hann pabba minn. Þá fór ég í garðinn þegar kerið var sett niður, jólin þar á eftir og síðan ekki söguna meir.
hann dó 1995. Ég fer aldrei í kirkjugarða nema ég nauðsynlega þurfi þess, það er nú víst nóg að hafa þessa framliðnu heima við þó maður sé ekki að fara líka í garðinn og hitta engan, það er engin þar
Knús knús í daginn
Milla.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 28.6.2008 kl. 11:35
Ekki veit ég hvernig á að drepa njóla en líst ágætlega á tillögu Jennýar
Huld S. Ringsted, 28.6.2008 kl. 11:55
Málið er að ná upp rótinni, sem liggur oft mjög djúpt. Stundum er hægt að toga hann upp, ef maður togar beint upp (betra núna í þurrkinum). Annars bara að klippa hann niður og þykjast ekki sjá rótina - hann er held ég tvíær (drepst á næsta ári) en verst er að hann sáir sér.
Sigrún Óskars, 28.6.2008 kl. 12:12
Veistu það, kæra Ragnheiður, að ég hef alls ekki farið oft í kirkjugarðinn. Ég segi eins og þú, mér finnst hann ekki vera þarna. Hann mun náttúrulega alltaf eiga sinn stað í hjartanu mínu og svo er hérna heima staður þar sem er mynd af honum, kertastjaki með kross og fullt af englum. Við viljum eiginlega frekar trúa því að hann sé bara engill í himnaríki, en ef hann sé eitthvað á sveimi þá sé hann nú frekar í kringum okkur heldur en við einhverja gröf í Gufuneskirkjugarði.
Eigðu góða helgi, kær kveðja
Ásdís Emilía Björgvinsdóttir (IP-tala skráð) 28.6.2008 kl. 13:04
Elsku stelpan mín! Á meðan Himmi þinn er í hjarta þínu hefurðu ekki týnt honum Reyndu svolítið að hlúa að honum þar.
Og þá njólaskrattinn!! Ef þú grasklippur eða trjáklippur þá duga þær til að kötta hann niður. Passaðu þig bara að nota ekki rafmagnsklippur því þá er hætt við að þú klippir krílið ;) Svo er ágætt að reyna að moka rótunum upp ég mundi svo strá salti í sárið.
En ég er líka kvekendi
Hrönn Sigurðardóttir, 28.6.2008 kl. 13:56
Ég náttúrufræðingurinn er búin að gefast upp á því að vera umhverfisvæn þegar kemur að óæskilegum plöntum á óæskilegum stöðum í alltof stórum görðum. Það er til eitur á tvíkímblöðunga (þ.e. blómplöntur) maður bara spreyjar á blöðin á plöntunni og málið dautt, plantan líka. Grasið í kring lifir og verður ekkert meint af. Þú færð þetta eitur í Blómavali og líklega líka Garðheimum. Dugar einnig vel á fífla, myndi ekki prófa það á fífl
Ég fór á tímabili hamförum með skóflu og salt á njóla í kringum húsin í sveitinni en það hafði ekkert að segja.
Kristjana Bjarnadóttir, 28.6.2008 kl. 14:49
Pabbi gaf mér ráð á brenninetlurnar, sem hann notar á fíbbla. Hella sjóðandi vatni á þær, og það dugar, en alla vega. Nýbúin að prófa svo það er kannski ekki komin mikil reynsla á það.
Ég bý úti svo ég kemst aldrei upp í garð til afa og ömmu, en spjalla við þau daglega hérna heima (pínu klikkuð) en mér líður vel með það.
Hvar kaupi ég svona ryksugu sjálfstæðing???
Óska þér og þínum góðrar helgar.
Hulla Dan, 28.6.2008 kl. 15:13
Ég veit ekki hvar hún fæst í Danaveldi en þessi fékkst hér í Max raftækjum. Þú getur prufað að gúggla hana...IROBOT og sjá hvar hún fæst. Líklega mun ódýrari hjá þér en hérna á Íslandi.
Kristjana, hvaða eitur er þetta ? Drep ég ekki Reynir kríli í leiðinni ?
Ragnheiður , 28.6.2008 kl. 15:16
Eitrið drepur bara tvíkímblöðunga, njóla, fífla, sóleyjar og svoleiðis plöntur það skaðar ekki trén né grasið. Mér er bara illa við allt eitur út af dýrunum mínum, ég læt ekki einusinni úða trén mín. Maðkarnir eru í smá tíma svo fara þeir sjálfir, þeir sem fuglarnir éta ekki.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 28.6.2008 kl. 15:48
Já ég skil þig Jóna, mínir eru reyndar í keðju nú orðið þannig að þeir komast ekki þangað sem þetta óféti vex. Þarna eru líka fleiri ættingjar njólans...örugglega mamma hans og systkini, það stendur til að myrða þetta allt saman...muhahahahhahaha...
Ragnheiður , 28.6.2008 kl. 15:51
Ég veit ekki hvernig á að drepa njóla.Mér skilst að hann sé lúmskur og fast setin.Auðvitað eru strákarnir okkar í hjarta okkar.Mér fynnst gott að koma að reitnum hans Hauksa míns.Stundum til að gráta,vera reið,beisk eða bara glöð.Sit og spjalla ..Góða helgi
Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 28.6.2008 kl. 16:13
Ha ? ómædog..nú þarftu sko að hendast á msn og skýra málið !
Engar áhyggjur af þeim í neðra, Hilmar allsherjargoði (nágranni) getur áreiðanlega sært hann burt, allaveganna yfir í næsta hús (Bessastaði)
Ragnheiður , 28.6.2008 kl. 17:59
ég man ekkert hvað þetta eitur heitir. Spurðu bara eftir því í Blómaval. Eitur fyrir tvíkímblöðunga. Þú notar svo bara spraybrúsa eða garðeiturúðagræju ef þú ætlar að vera stórtæk. Það er ekkert mál að spreyja bara blöðin á þeim plöntum sem þú vilt drepa. ég myndi forðast að spreyja reyniplöntur því ég held örugglega að þær flokkist sem blóm þó þær séu trénaðar, það koma nefnilega bæði blóm og ber á reyninn.
Kristjana Bjarnadóttir, 28.6.2008 kl. 23:24
Já ég passa mig á að úða ekki á krílið mitt...fer alveg hinumegin hehe..Takk fyrir þetta
Ragnheiður , 28.6.2008 kl. 23:28
Blessuð Ragnheiður
Roundup er eitur sem oft er notað á óæskilegar plöntur. Ef þú ætlar að eitra fáar plöntur er möguleikia að pensla eitrinu á blöðin, til að koma í veg fyrir að eitra þær æskilegu.
kveðja
Edda
Edda (IP-tala skráð) 28.6.2008 kl. 23:51
Já takk fyrir þetta Edda. Þetta er aðallega einn sem er fyrir núna
Ragnheiður , 29.6.2008 kl. 08:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.