Mætt á svæðið
8.12.2007 | 14:11
Hef haft það nokkuð gott bara, steinsofið hjá gamla mínum með spánnýjar gardínur í herberginu. Nei ekki nýjar gardínur, nýjan kappa. Fékk mér breiðan hvítan kappa með gylltri skreytingu og hengdi upp gardínur sem ég átti, myrkvunargardínur. Þetta er voða mikið selt á hótelin og svoleiðis. Maður dregur fyrir og voilla, nóttin er komin þó það sé hádegi á þriðjudegi í júlí. Var með rimlagardínu (fylgdi húsinu) og ég er ekkert hrifin af svoleiðis dótaríi, ef maður er með gluggann opinn þá skröltir þetta og berst um eins og fugl í búri. Nenni ekki svona hávaða þegar ég er að sofa, nóg að eina hund sem hrýtur.
Sæki mér kaffi.....bíðið aðeins.............
.
.
.
Kaffið komið.
Sko að mörgu leyti tel ég að síðan mín eigi sér ekki endilega langt líf fyrir höndum í viðbót. Smátt og smátt finnst mér hún snúast upp í andhverfu sína. Í upphafi var ég aðallega að fíflast eitthvað hér inni, var nafnlaus vegna þess að fæst sem ég skrifaði var til neins merkilegs. Aðallega fréttablogg og tengingar við svoleiðis.
Svo dó Himmi.
Heimurinn fór á hvolf.
Ég reyndi að bera fólkið mitt uppi og faldi mína líðan. Setti hana frekar hérna. Mamman á þessu heimili hefur alltaf verið svo sterk í augum krakkanna. Mamma mátti ekki bregðast. Mamma mátti ekki brotna. Þau vissu samt hvað mömmunni leið. Systurnar settu Bjössann sinn í að passa mömmuna, litla bróðurinn sem býr heima. Það gerði hann, knúsin sem komu frá þessum unga manni oftast upp úr þurru voru hlýjust og best.
Ein hér sagði í kommenti fyrir löngu að sorgin væri ekki val. Hinsvegar væri val hvernig maður tæki á henni. Þessi orð voru merkileg fannst mér. Þetta mátti ég semsagt gera, vera sterkust og taka þetta þannig. Ég þurfti ekki að æpa og hljóða á almannafæri. Ég var svolítið fegin.
Ég mun aldrei verða sátt við að missa Himma minn en hér er ég, ég er upprétt og mun verða það áfram.
Nú ætla ég að skreppa í að vinna svolítið. Kem í kvöld og tek til heima. Áskorunin virkaði ekki sjáið til. Steinar hjálpar mér samt örugglega við þetta, hann er vanur því blessaður.
God aften allesamen.
Athugasemdir
Þú ert svo öflugur og góður penni að þú mátt ekki hætta að blogga.
Jólaknús til þín...
Kveðja Inda
Inda (IP-tala skráð) 8.12.2007 kl. 17:35
Þú ert upprétt og þú mátt vera stolt af sjálfri þér.... hefur kennt svo mörgum svo margt með því að tjá tilfinningar þínar hérna. Ó, það yrði alveg afleitt ef þú hættir að blogga. Íhugaðu að blogga sjaldnar ef þér líður þannig..... og plíííís, ekki hætta alveg.
Njóttu svo helgarinnar mín kæra.
Anna Einarsdóttir, 8.12.2007 kl. 19:20
Það er alltaf gott að lesa bloggin þín og hefur kennt mörgum gildi kærleiks og umburðarlyndis. Þú hefur þetta eins og þér finnst best elskan mín, en ég persónulega væri til í fá blogg áfram frá þér. Ekki hætta alveg.
Ásdís Sigurðardóttir, 8.12.2007 kl. 20:12
Til hamingju með nýu gardínurnar,
Snúllan mín við getum ekki verið án þín, og þú ekki án okkar. Sorry Stína! En við erum bara orðnar vinkonur allar saman og verðum að hittast í bloggheimi eins og við höfum gert. Mér finnst allavegana gott að setjast hér niður á morgnana meðan ég er að komast í gang, lesa blogin ykkar,
vita hvernig ykkur líður, ef ykkur líður vel þá er ég glöð, ef ykkur líður illa þá kveiki ég ljós og sendi ykkur orku, Æ Ragga mín fyrirgefðu tilætlunarsemina, en auðvitað ræður þú þessu sjálf,
en ég segi eins og Ásdís, Please!!! ekki hætta.
Ljós og orkukveðjur Þín Milla.
Guðrún Emilía Guðnadóttir, 8.12.2007 kl. 20:38
Ég segi eins og Jenný Una: Það er ekki í boði (að þú hættir að blogga). Híhí. Bloggheimar yrðu tómlegir án þín. En þú ert duglg Ragga mín og búin að vera það í gegnum allt sem á þér hefur dunið frá því Himmi dó.
Jenný Anna Baldursdóttir, 8.12.2007 kl. 21:27
Elsku Ragga mín Gersamlega sammála Jenný, það er ekki í boði að hætta að blogga . Myndi sakna þin SVOOOOOO mikið á mínu daglega krúsi yfir bloggheima. Svo verðum við líka að fylgjast með uppvaxtarárum Himma litla. Held að ég tali fyrir munn margra þegar ég segi að manni finnst nánast að þú og þitt fólk séuð í fjölskyldunni hjá manni, þó við höfum aldrei sést nema hér á síðunni .
Blómið, 8.12.2007 kl. 22:49
Tek undir sem hver önnur kona hér á undan. Bloggið væri miklu fátærara án þín.
Steingrímur Helgason, 8.12.2007 kl. 22:57
bara að setja inn kvitt, endilega haltu áfram hérna, þú hefur margt að segja okkur,
Skagakveðja
gunna
Guðrún Jóhannesdóttir, 9.12.2007 kl. 17:00
Þetta er það blogg sem ég lesa alltaf allt...nema hvað þetta les ég á eftir því fyrra þar sem ég er búin að vera svo mikið bisí að umræðast...átti satt að segja ekki von á að fá öll þessi komment á síðuna mína. Klús
Greta Björg Úlfsdóttir, 9.12.2007 kl. 21:38
Úpps, sem ég lesa alltaf...ég verð stöðugt lesblindari með aldrinum, sem er gott, samkvæmt Heidi...
Greta Björg Úlfsdóttir, 9.12.2007 kl. 21:41
Hvað sem þú gerir Ragga mín, ekki hverfa alveg. Kannski þætti þér gott að taka þér pásu og það er að sjálfsögðu leyfilegt. En það væri leitt að missa alveg af þér snúllan mín.
Jóna Á. Gísladóttir, 10.12.2007 kl. 01:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.