Hann ætlaði sér það ekki.

Sumir kalla það sjálfselsku að taka líf sitt. Það finnst mér ekki vera rétt. Viðkomandi einstaklingur er svo illa haldinn andlega á þeirri stundu að hann sér í raun og veru enga aðra leið út - hefur heldur ekki snefil af rökhugsun akkúrat þá.
Hilmar minn ætlaði sér ekki að fyrirgera heilsu móður sinnar. Hann ætlaði ekki að brjóta hana svo andlega að hver dagur er áreynsla og barátta. Hann ætlaði sér ekki að meiða svo systkinin sín að þau verða aldrei söm. Ekkert af þessu ætlaði hann að gera.

Hann ætlaði hins vegar að hlífa okkur, við ákveðnum hlutum og mest fyrir honum sjálfum.

Hann áttaði sig ekki á því á þeirri stundu að við elskuðum hann ÞRÁTT fyrir þá hluti sem hann tók sér fyrir hendur þegar við vorum ekki viðstödd.

Á aðventu langar mann að eiga heila fjölskyldu. Það mun ég ekki eiga.

Þetta ætlaði Himmi minn sér ekki að gera.

Deilum www.sjalfsvig.is og njótum aðventunnar, þau sem það geta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég get auðvitað ekki talað fyrir neinn annann en sjálfan mig en ég fór fyrir nokkrum misserum ansi nálægt því að svipta mig lífi í kjölfar ægilegs þunglyndis og svartnættis þar sem allt var hrunið yfir mig.

Á þeirri stundu var hugsun mín sú að ég væri fyrst og fremst að gera heiminum greiða með því að losa hann við mig og um leið væri það skylda mín að losa fólkið mitt undan þeirri áþján að þurfa að burðast með mig og mín vandamál utan á mér.

Það hvarflaði ekki að mér að með þessu væri ég að gera öðrum eitthvað annað en gott þótt ég vissi svo sem að þau myndu ekki viðurkenna að þetta væri langbesta lausnin. En ég vissi betur.

Svona var mín hugsun á þessari stundu. Ég veit svo sem ekki hvort það hjálpi eitthvað að segja þér þetta, en ég vildi engan særa á þessari stundu. Ég var bara að reyna að hjálpa og kunni engin önnur ráð.

Nafnlaus (IP-tala skráð) 7.12.2011 kl. 15:04

2 Smámynd: Ragnheiður

Nafnlaus ; akkurat það sem ég var að meina. Takk fyrir þitt innlegg og ég vona að þér líði betur.

Ragnheiður , 7.12.2011 kl. 15:29

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ásdís Sigurðardóttir, 7.12.2011 kl. 15:58

4 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Nei hann hefur svo sannarlega ábyggilega ekki ætlað sér það blessaður kallinn ♥

Hrönn Sigurðardóttir, 7.12.2011 kl. 18:15

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Veistu ég hef oft hugsað um þetta, nú veit ég ekki hvort minn drengur viljandi eða óviljandi tók líf sitt.  En um þetta hef ég hugsað alltaf síðan, ég veit að hvort sem var, hefði hann aldrei ætlað sér að særa mömmu sína og fjölskyldu á þennan hátt.  Þannig að.... þetta er eitthvað sem við þurfum að lifa með, og líka ástvinirnir sem eru farnir. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.12.2011 kl. 19:08

6 Smámynd: Kidda

Það er á tæru að Himmi hefur ekki ætlað að fara illa með fjölskylduna sína, en það er sennilega rétt hjá þér að hann taldi að þetta væri besta leiðin fyrir alla.

Það er mikið til í þessu sem Nafnlaus segir, við sem höfum ekki komist í þessi spor vitum ekki alveg hvað fer fram í hugsunum hjá þeim sem velja þessa leið. En örugglega mjög fáir gera þetta til að hefna sín á aðstandendum. En flestir sjá sennilega enga aðra leið og gera sér ekki grein fyrir því að þessu fylgir þvílíkur sársauki fyrir þá sem eftir eru en viðkomandi telur sig vera að losa sitt fólk við áhyggjur af viðkomandi.  

Knús og klús mín kæra

Kidda, 7.12.2011 kl. 19:51

7 Smámynd: Guðrún Emilía Guðnadóttir

Auðvitað hefur hann ekki ætlað að særa mömmu sína, en hvorki hann eða aðrir þeir sem taka sitt líf hafa rökhugsun til að sjá hið rétta og það er satt og rétt við vitum ekkert um hugsanir og líðan þessa yndislega fólks

Knús til þín ljúfust mín

Guðrún Emilía Guðnadóttir, 7.12.2011 kl. 20:16

8 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Ég þarf stundum að taka þessa rökræðu í vinnunni minni og ég held að allir þar séu sammála um að það sé ekki eigingirni sem ræður því þegar einhver tekur þessa ákvörðun. Það kemur mér alltaf á óvart hve margir virðast halda það. Mín skynjun er alltaf sú að viðkomandi telji sig vera að gera sínum nánustu greiða með því að láta sig hverfa. Það er ekki eigingirni, það er ákvörðun tekin í gríðarlega mikilli kvöl þegar öll sund virðast lokuð.

Margrét Birna Auðunsdóttir, 7.12.2011 kl. 20:49

9 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Þú segir allt sem segja þarf Ragnheiður.  Eins og talað frá mínu hjarta.

Anna Einarsdóttir, 10.12.2011 kl. 21:30

10 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ég las nýlega bók eftir ástralska konu, Barböru Biggs, sem skýrir hreint og beint frá æviferli hennar og þar með talið hvernig hún og hvers vegna hún reyndi nokkrum sinnum að fyrirfara sér. Hún kom reyndar úr afar sérkennilegri og skrautlegri fjölskyldu sem ég efast um að margar finnist slíkar, en í þessum vangaveltum hennar kemur fram að málið snýst fyrst og fremst um hennar eigin líðan og hugsanir á þessum tíma. Henni finnst að hún sé að leysa sín eigin mál með þessu og gera fólkinu sínu greiða um leið. En um leið kemur fram í bók Barböru fögnuður yfir því að henni skyldi ekki takast það sem hún var að reyna að gera, þó henni þætti það slæmt fyrst í stað. Guðsblessunarlega þekki ég ekki þau spor sem þú stendur í Ragnheiður, en ég þykist nokkuð viss um að meining Hilmars var ekki að gera þér miska, hugsunin náði á þeim tíma bara ekki til þeirrar hliðar. Og ég er líka viss um að honum er best hjálpað í framlífinu með því að virða þessa ákvörðun hans og elska hann fyrir það sem hann var og minnast áranna með honum með fögnuði fremur en festast við endalokin.

Þetta er kannski skrýtin pæling en ég á þá ósk heitasta til þín og annarra sem standa í svipuðum sporum að ljós jólanna megi ná til ykkar -- að þið megið þrátt fyrir allt eiga gleðileg jól með góðum minningum.

Sigurður Hreiðar, 16.12.2011 kl. 11:25

11 Smámynd: Ragnheiður

Kærar þakkir fyrir þessi notalegu orð Sigurður Hreiðar :) Gleðileg jól til þín

Ragnheiður , 17.12.2011 kl. 04:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband