Færsluflokkur: Bloggar

Meira að segja ég

fór að velta þessu fyrir mér um daginn, hvort það væri ekki bara betra að fara eitthvað annað ? Nefndi þetta lauslega við húsbóndann en fékk nú litlar undirtektir.

Annars er svo mikið að gera í að fylgjast með fréttum að það er ekki nokkur leið að finna sér frétt til að blogga um. Ég hef þó a.m.k. ákveðið að segja ekki upp Mogganum, sama hvort D.O. kemur sem ritstjóri eða ekki. Samúð mín er þó hjá þeim blaðamönnum og starfsmönnum sem sagt hefur verið upp í dag. Þetta var viðbúið enda rekstur í Hádegismóum greinilega þungur. Ég varð pirruð við Moggann þegar hann hækkaði um 3-400 kall í einni hækkun en ákvað að druslast áfram sem áskrifandi. Sjáum til.

Ég ætlaði að smella eggjum á pönnuna í gær - frekar erfitt að borða meðan munnurinn á mér er að lagast eftir tannlækninn á þriðjudaginn. Pannan á eldinn, sótti egg í ísskápinn og svo barði ég ákveðið á skurnina til að brjóta hana. Jú skurnin brotnaði en eggið harðneitaði að koma út. Fyrst hélt ég að eggið væri svona rosalega ónýtt að það væri orðið að köggli. Nei þá hafði húsbóndinn, þessi elska, soðið nokkur harðsoðin egg í eggjabakkana í ísskápnum. Hann var ekki vinsælasti maðurinn á heimilinu í heilar fimm mínútur!

Ég ætla samt að elda kvöldmat í kvöld - ég bara brytja smátt og kyngi ef ekki vill betur, ég bara nenni ekki að vera banhungruð einn daginn enn !

En ekki hafa áhyggjur, þetta er að lagast sko

Fréttir eru í útvarpinu núna og tilkynnt að ekkert kalt vatn sé á Álftanesi, ég sem átti eftir að fara sturtu eftir hundalabbið og æfingarnar. Ég fékk mér myndband frá Hreyfingu og er að liðka mig til hér heima. Ég er enn að reyna að ná af mér aukakílóum sem ég nenni ekki að bera lengur. Það gengur svona og svona...við fórum svo til næringarráðgjafa, systurnar, og fengum mikið af góðum ráðum þar. Ég vigta mig alltaf vikulega og í morgun var ég aftur komin í þá tölu sem hefur verið lægst hjá mér en það er kannski ekki alveg að marka -takmarkað át.

Talandi um fréttir, í hádegisfréttum var verið að rifja upp ár til baka og þar komu veikindi ISG í umræðuna. Samkvæmt samtali við hana þá eru leifar af þessu meini enn til staðar og ekki útséð með að hún þurfi í geisla. Ber sig samt vel. Það er hennar stíll. Ég óska henni alls hins besta og góðs bata.

Ég hitti Kvennalistakonu um daginn og sagði við hana, mikið vildi ég að þið væruð til taks í dag. Maður veit ekki hverju maður á að trúa ! Já sagði hún og brosti ; þetta hafa fleiri sagt við mig !!

Talandi um að trúa, mér líst ekkert á þennan kristilega flokk- aðallega vegna þess að mér líst ekki á tvo forsprakkana. Ég er samt trúuð og fer talsvert í kirkju, bið og bögglast um með minn Guð í farteskinu. En þessir menn..nei takk !

Svo um hinn trúnaðinn..ég hlustaði á Má seðlabankastjóra áðan og ég hlustaði á Vilhjálm (fórnarlamb?) og ég trúi Má frekar. Nágranni minn hér á norðurnesi talaði við Bloomberg í gær. Mér fannst kallinn bara segja hlutina eins og þeir eru. Bankarnir störfuðu eftir regluverki ESB og fóru í gegnum glufur á þessum reglum. Það var áreiðanlega siðlaust og af því súpum við seyðið. En það er rétt hjá ÓRG að af þessu þarf að læra og bæta í götin svo fari ekki fleiri þjóðir á hausinn út af svona málum.

Vá !! hvað þetta varð langt eitthvað.

Afsakið

Farin .................


mbl.is Margir flytjast úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlega

flott mál.

Verði þér að góðu og vonandi til góðs !


mbl.is Einstæð móðir fékk lottóvinninginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ég hef

meira og minna steinþagað undanfarið. Ég hef hreinlega ekki nennt að blogga, fartölvan er enn í óstarfhæfu ástandi og ég er eitthvað svo löt að sitja við þessa stóru. Steinar er líka oftast í henni á kvöldin eins og sést á leiknum sem hann spilar hehehe.

Hér venjast saman kettlingur, köttur og hundur og þetta gengur ágætlega. Rómeó er ekki sérlega hrifinn af honum en ætlaði samt að leggjast hjá bjánanum um daginn.Sá litli hélt að Rómi vildi slást og þetta fór allt út um þúfur. Tumi Tígur er farinn að fá að skreppa aðeins út á pall og finnst það voða sport.

Ég hef verið meira og minna hjá tannlækninum síðan ég var í afmæli pabba í byrjun ágúst. Í morgun var skoðun og ég er laus. Nú þarf mér bara að verða hætt að vera illt eftir síðustu framkvæmdir og þá er ég góð.

Samkvæmt bestu upplýsingum þá eru allir hressir og hafa það gott.

Fyrir lesendur að lokum ;

Hvernig sérðu veturinn fyrir þér ?


trúi engu fyrr en tek ég á

og þá er ég að meina Davíð í Morgunblaðinu. Ekki þar fyrir, eitthvað verður maðurinn að hafa að gera ...

Ég hef verið að sortéra og færa. Ég hef ekki lúslesið nákvæmlega hverja færslu en svona fengið tilfinningu um efni þeirra jafnóðum. Uppúr standa auðvitað færslurnar um Himma. Þær eru aðgengilegar hér á sér bloggi, Bók Hilmars. Verst að ég var búin að afrita eitthvað og klúðra því þannig að ég er ekki með kommentin með sumum færslunum en svo fann ég leið til að færa færslurnar og þá með öllu- en ég kann þetta amk nú.

Svo er þetta hálffyndin lesning svona eftir á ..ég brosi að umræðum um Steinar og sé endurspeglast svo mikla ást til hans enda er hann alveg snillingur- gamli minn. Ég sagði honum þetta í gær og hann sagði glottandi ; eyddu þessu strax !

En verði Davíð ráðinn sem ritstjóri þá yrði ég ekki hissa ef þessum bloggvettvangi yrði lokað hahahaha...

Nú ætla ég að þramma hringinn með Kelann, kem eftir smástund


bilað að gera hjá mér

í að raða og sortéra færslurnar á þessu endalausa bloggi mínu. Rosalega hef ég eitthvað þurft að tjá mig !!

Þetta voru 1100 færslur og ég er kannski búin að pæla í gegnum 250.

Þetta verður heilmikil vinna í viðbót.

Planið er þetta, færslurnar sem fjalla um Himma minn fara á sér blogg sem heitir Bók Hilmars...annað birtist aftur hérna megin.

Góða nótt


Á morgun rennur hann upp

dagurinn sem hefur valdið vanlíðan lengi. Sumarið er ekki lengur minn tími. Sumarið er hjá mér tími söknuðar og sorgar. Það lagast kannski einhverntímann, ég skal ekki segja. Ég reyni að hafa sem minnstar væntingar, það er of sárt þegar væntingar manns rætast ekki.

Fyrir tæpum tveimur árum rann upp minn versti dagur, dagur sem engin móðir afber en lifir þó af. Dæmin sanna það. Það breytir engu þó að viðkomandi móðir hafi í raun aldrei valdið fyllilega verkefninu, höggið var gríðarþungt og sárt.

Í dag er ég komin óravegu frá þessum alverstu dögum.

Samt er ég ekki eins og áður. Gleðin er seinni á vettvang.

Í morgun stóð ég lengi við Himmaskáp, ég tala stundum við hann. Strákangann minn sem ekki réði við sínar aðstæður.

Ég býst við að hverfa af þessum bloggvettvangi fljótlega. Ég á aðra síðu sem ég mun þá nota komi andinn yfir mig skyndilega.

Kæru vinir, með ykkar aðstoð hef ég komist í gegnum mína myrkustu daga.  Þegar allt var bikað og hvergi týra þá kom agnarsmár geisli einhvers bloggvins og lýsti mér næsta skrefið.

Fyrir það verð ég ævinlega þakklát.

Hér til hliðar eru linkar á bæði minningarsíðu um hann Himma minn og svo á kertasíðuna hans sem góðir vinir hafa endalaust hjálpað við að halda gangandi, ekki hefur móðirin verið svo dugleg við það !

 


......uhh.....(mér dettur engin fyrirsögn í hug )

en ætlaði að vera löngu búin að segja ykkur skemmtisögu af Kela kalda og Rómeó músaveiðara. Ég heppin að hann er ekki hausaveiðari.

En ..það hefur ekki rignt mikið í sumar en aðeins um helgina og í liðinni viku. Köttur vill fara út að pissa og gerir það þó það rigni á hann. Svo þarf hann að skoða músaslóðir, undir pallinum og við þetta verður kisi blautur ef það er rigning.

Kisi minn hefur það fyrir sið að kalla mikið þegar hann kemur inn og er ekki sáttur fyrr en honum er svarað. Þá breytist hljóðið í kelið mjá og "gúrrrrr" (Kattaeigendur þekkja þetta hljóð) og hann hlykkjast hér um gólfið. Hann stangar Kelann í bringuna og strýkur sér svo eftir honum öllum, segir aftur Gúrrrrrr og stangar Kela og sömu leið til baka. Þetta gerir hann bara þegar hann er blautur.

Kattarprakkarinn notar hundkjánann einfaldlega sem handklæði.

Þegar hann er þurr þá reka þeir bara trýnin saman.


Fyrir allan peninginn í heiminum

fengirðu mig samt ekki til að gerast þingmann á Íslandi, ég er til í að skoða önnur lönd en Ísland. Ég hef hugsað mér nánast til óbóta um þetta Icesave og er loksins komin að niðurstöðu.

Við erum að tala um banka í einkaeign sem nýtir sér greinilega einhverjar glufur í reglugerðum evrópu. ( Pétur Blöndal er með betri skilgreiningu á þessu en ég og hann er áreiðanlega í símaskránni) Til hvers var bankinn seldur  ef ríkið bar eftir sem áður ábyrgð á honum ?

núnú áfram með þetta. Seðlabankinn vill meina að við ráðum við baggann. Hverjar eru hans forsendur ..jú, áætlun um verðmæti eigna fallins banka, ég endurtek áætlun. Við höfum séð núna undanfarið þá þróun að eignir sem einhver eru virði eru seldar á spottprís en mest af áætluðum eignum er líklega verðlaust. Hlutabréf í fyrirtækjum sem eru eða við það að falla.

Mér finnst þetta hreint ekki traustur grunnur.

Við erum bara í svo ferlega vondum málum.

Ég segi nei við Icesave. Við erum betur sett án klafans. Geri Bretar og Hollendingar athugasemd þá mega þeir hirða útrásaraulana sem komu okkur í þetta vesen. Hirða þá og reyna að finna peningana sem þeir struku með


Að festast ekki í sporunum

það krefst þess að ég sé að hugsa um það alltaf öðru hvoru (afsakið að ég er ekki að skrifa um Icesave og Borgarahreyfinguna og það allt )

Ég kannast við sorg annarra. Ég hef séð þegar fólk festist í sorginni, ég skil það alveg. Mín leið hefur verið mörkuð þessu hænuskrefum og stundum nokkur afturábak.

Ég reyni að komast hjá því að særa nokkurn en það hefur ekki tekist alveg fullkomlega. Mér finnst að fólk eigi rétt á að hafa allt aðra skoðun og lífsýn en ég. Í mínu lífi hef ég vanist því að þegar beðist er afsökunar á broti að þá taki viðkomandi það til greina. Í bloggi hér meðan allt var lokað vorum við að ræða meðal annars fyrirgefninguna. Það komu ýmsir vinklar á það. Nú er ég einmitt að reyna það á eigin skinni hvernig það virkar að biðjast afsökunar og því er ekki tekið. Ég er ss enn í sápumeðferðinni (þegar ég var krakki þá var oft talað um að troða sápu í túlann ef maður var mjög dónalegur í orðum)

Þetta hef ég verið að spá í í morgun en svo laust niður í hugann....bíddu, bíddu...þér kemur þessi manneskja ekki við ? Afhverju ertu að spá í þetta ?

Það er þó alveg satt. Væri þetta einhver sem skipti mig máli þá væri ég farin á staðinn og búin að gera gott úr öllu.

Hitt er alveg skýrt, ég braut af mér þarna og amk í eitt annað skipti hér á moggabloggi sem ég veit um.

Maður á ekki að blogga reiður, það er ljóst.

Ég er hinsvegar skárri í dag en í gær. Samt er vondi dagurinn nær nú. Mér finnst þetta samt vera auðveldara en í fyrra. Hver dagur er þó skref í átt að sólinni. Ég þokast út úr skugganum. Við fórum og borðuðum saman í tilefni afmælis hans pabba, fjölskyldan mín er frábærasta lið í heimi.

Þegar krakkarnir voru litlir þá gat ég varla beðið eftir að þau yrðu stór og flyttu að heiman, núna gæfi ég mikið til þess að geta smalað þeim undir vængina aftur og haft þau í skjóli.

Já meira var það ekki núna ..


Facebook

Við höfum séð það hér á Moggabloggi að bloggurum er hent út en oftast fá þeir nú tíma til að taka saman síðuna sína.

Ég er reyndar á því að það eigi ekki að henda fólki út og sakna að lesa síður og skoða myndir hjá bloggurum sem ekki eru hér lengur.

En hvernig er með facebook ? Mega þeir bara henda fólki út skýringalaust og án nokkurs fyrirvara ? Fólk fær ekki einusinni tækifæri til að afrita síðuna eða neitt.

Vitið þið hvernig þetta virkar ?

Eins og sést í kommenti við næstu færslu þá var vinkonu minni skutlað út af facebook. Hún fær engar skýringar en allt í einu finnst síðan hennar ekki.

Hjálpið okkur að skilja þetta


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband