Amk 2 afbrot í gær
20.5.2008 | 12:04
eins gott að Foringinn les ekki síðuna mína. Ég fór og fékk mér ryksuguróbot, kostaði auðvitað stórfé en virðist vera nokkuð klár að ryksuga. Græjan er í þessum skrifuðu orðum að bjástra um inni á baði, búin með herbergið mitt og þar kemst hún undir rúmið, mun betur en ég sjálf.
Það var nokkuð annasamur dagurinn í gær. Fór að kíkja á Dindind og hitti bæði manninn hennar og sætu stelpurnar þrjár. Það er alltaf svo gaman að hitta þær.
Bjössi og Solla komu með mér.
Svo lá leiðin í að kaupa þessa ryksugu og svo var það næst heim. Þá kom upp að það þurfti að sækja bíl suður í Leifsstöð fyrir vinnuna hans Steinars. Solla skutlaði okkur og við ákváðum að koma við í Grindavík, skila fati og sníkja kaffi. Sátum þar góða stund og skildum eftir þar Björn.
Svo var konan að slugsa hér í tölvunni fram á nótt enda bíllinn ekki við til að vinna á. Þá kom Björn á msn og var eiginlega alveg ómögulegur og vildi komast heim. Ekki að neitt væri að aðbúnaði hans heldur bara almennt eitthvað lítill í sér og langaði heim.
Mamma ók af stað og sótti strák, það var afbrot nr 2 . Foringinn segir að maður eigi ekki að keyra um allt að óþörfu.
Nú man ég ekki meira að segja í bili.........
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 11:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18 maí 2008
18.5.2008 | 18:03
Ég vann lengi frameftir í nótt og svaf þar af leiðandi lengi. Skrapp svo og sótti bílinn og heimsótti Dinddind mitt í leiðinni. Dindind svoldið þreytt en samt ágæt, notalegt að sitja hjá henni í rólegheitunum.
Var svo þreytt að ég nennti ekki að fara að keyra og fór heim. Kallarnir mínir, Steinar og Siggi , eru að telja flöskur fyrir starfsmannafélagið.
Ég fór hins vegar að þrífa. Þreif vandlega þvottavél og þurrkarann, eins og ný núna. Eldhúsgluggann og svo setti dúka hingað og þangað. Það er lag af ryki á sjónvarpinu en mér er eiginlega alveg sama um það...nenni ekki að glápa á það.
Náði sniðugri mynd af Kelmundi yfirsauð, hann vildi endilega sjá kallana á pallinum og fór upp í eldhúsgluggann til að sjá þá. Stóð þar á skjálfandi brauðfótum, ég set myndina inn á eftir.
Nú er best að halda áfram að hvíla mig (með því að þrífa meira).
Hjartans þakkir fyrir öll ljósin fyrir Dinddind mína, hún fer í nánari skoðun á morgun til að staðsetja ódáminn betur. Hann er samt allaveganna að þvælast um í blöðrunni. Ég vona að hann sé bara alveg kyrr þar og hvergi annarsstaðar....
Ég á eftir að skrifa reiðilestur um læknana og ferlið í kringum þetta hjá Öldu minni (Dinddind) það er til háborinnar skammar og varla prenthæft, þessvegna kemur það ekki fyrr en móðurinn er runninn af mér.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 11:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Þegar ég var ung
17.5.2008 | 15:53
þá fór ég í vist út á land. Ég fór austur á Höfn til barnmargra hjóna, Guðrúnar og Varða. Þau áttu þá fjögur börn en seinna bættust tvö í hópinn. Þarna dvaldi ég lengi og oft og leit á þau sem mína eigin fjölskyldu og þau tóku við mér eins og bara barni í viðbót.
Sú yngsta þegar ég kom fyrst var þriggja ára rófa, ákveðin lítil og sæt skotta sem neitaði alveg að láta ráðskast með sig þó tæknilega væri hún minnst. Þessi telpa átti í mér hvert bein eftir smátíma og á enn. Þegar hún stækkaði og ég var sjálf komin með börn þá kom hún til mín og passaði mína krakka, alveg eins og góð stóra systir.
Nú er hún, þessi yndislega fósturdóttir mín, komin með krabbamein. Hún er 33 ja ára.
Ég kíkti á hana áðan og hún var nokkuð hress miðað við allt. Ég fékk góðfúslegt leyfi til að segja frá þessu hérna og geri það hér með.
Ljósin fallegu eru núna fyrir hana Öldu mína og hennar nánasta fólk. Manninn hennar , Lárus og sætustu telpurnar þrjár. Mömmu hennar , Guðrúnu sem gekk erfiðu sporin fyrir nokkrum árum og jarðaði elsta son sinn. Systkini hennar sem hafa alla tíð elskað litla skottið sem ekki gengdi. Og alla aðra sem að henni koma.
Bænin er um styrk í baráttunni, styrk til að sigra og stuðning fyrir okkur hin sem stöndum nærri.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 12:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (36)
Skelfilegar fréttir
16.5.2008 | 21:52
bárust mér áðan. Mig og mitt fólk vantar allan þann styrk sem þið eigið aflögu. Ljósin hans Himma mega notast í það.
Ég get ekki upplýst þetta nánar að svo komnu máli en það er hræðilega erfitt.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 11:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (45)
Komin heim
15.5.2008 | 23:56
og við mér blasti undarleg sýn. Maðurinn minn er að horfa á rússneska mynd, ekki mynd sem er neydd upp á hann í gegnum skylduáskrift Rúv og hann að horfa af einskærri skyldurækni, heldur tók hann þessa á leigu í sjónvarpi símans.
Mér finnst stórlega að mér vegið hérna, ég hef yfirleitt haft þá stöðu að vera undarlegi aðilinn í þessu sambandi en nú er því ógnað.
ég hef samt ákveðið að sofa óhrædd hjá honum samt, hann hefur kannski bara smitast smá ?
Horfði áðan á Kastljósið með viðtalinu við Magnús Þór og Gísla. Magnús aflaði sér ekki skilnings hjá mér. Það er óumdeilt að fólk þarf aðstoð með ýmislegt frá bæjarfélaginu en það þarf ekki að stilla þessu endilega upp sem andstæðum, að öðrum hópnum sé hjálpað á kostnað hins.
Hins vegar vorkenni ég þessum tilvonandi íslendingum að flytja hingað í þennan skítkalda rokrass, er ekki miklu hlýrra loftslag hjá þeim ?
Brrr..mér verður kalt við tilhugsunina um vetur og held að ég fari bara undir sæng með hjásvæfunum mínum þremur.
Góða nótt
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 11:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Kastljós
15.5.2008 | 20:01
Er að horfa á það og það er verið að fjalla um myndina um Kjötborg á Ásvallagötu 19. Þessa mynd VERÐ ég að sjá, það er hér með ákveðið.
Annars er ég góð ...
Leiter
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Hefur verið mér hugleikið í kvöld. Ég tala til dæmis ekki mikið um vinnustaðinn minn hérna, undantekning er næsta færsla á undan. Það kemur hreinlega ekki málinu við hvar ég vinn eða við hvað. Ég er einfaldlega Ragnheiður. Ef ég væri hér með vinnustaðinn minn hér auglýstan eða í hausmynd þá yrði ég talsvert meira að gæta orða minna eða leggja aðeins aðrar áherslur á málin.
En í kvöld hef ég lesið (reyndar ekki bara í kvöld, önnur kvöld líka) allskonar blogg, frá fólki sem er merkt hinu og þessu. Í fyrsta sinn skil ég annað sem hafði valdið heilabrotum hér áður hjá mér -afhverju fólk hefur verið rekið úr vinnu fyrir að blogga. Mér finnst það heldur dramatískar aðgerðir en málið er einfaldlega að það er alls ekki öllum gefið að geta bloggað, helmerktir einhverju í bak og fyrir, þannig að ekki hljótist beinn skaði af fyrir viðkomandi fyrirtæki eða samtök.
Umvöndun lokið. Sneiðin passar hinsvegar bara í sum kok.
----------------------------------------------------------
Steinar er að skoða húsbíla á netinu.
Allt í einu spyr hann ; hvernig er klósett með rafmagnsdælu ?
Frúin svarar umhugsunarlaust ; það skítur lummunum lengst út í móa !?
Þá væri víst best að fara í ferðalag með hjálm á hausnum ef slíkur útbúnaður væri í hverjum húsbíl !
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
Leiðinleg færsla/ekki lesa
14.5.2008 | 21:20
9 maí 2008 keypti ég dísilolíu á leigubílinn minn. Lítrinn kostaði 167.90. Tankurinn hjá mér tekur 70 lítra. Fullur tankur á þessu verði kostaði 11.753
Í dag keypti ég olíu. Lítrinn í dag kostaði 175.20. Tankurinn í dag kostar mig 12.264 krónur.
Á meðan er sama gjald í bílnum hjá mér, ekkert hækkað.
Þann 7 janúar sl kostaði hver lítri 136.40. Þá kostaði tankurinn 9.548
Á meðan er gjaldið í bílnum hjá mér eins. Hver er að taka á sig þessa hækkun ? Ég sjálf og enginn annar.
Þetta fer að verða dýrasta tómstundagaman í sögunni !
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 11:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Fyrir nóttina bendi ég á
13.5.2008 | 23:14
Nokkur bænaefni.
Svo eru kertasíðurnar - þær eru í fullu gildi.
Góða nótt
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 11:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Vestfirska orkan sett í farveg
13.5.2008 | 15:42
og annaðhvort er ég léleg húsmóðir eða hundarassarnir kalkaðir. Þeir horfa á mig með stórum spurnaraugum þar sem ég skríð kringum klóið og þríf. Klóið var ekki verst, verstur var ofninn sem er við HLIÐINA Á !! Andskotans uppátæki að setja ofn við hliðina á klóinu !! Stelpur, ég ætla ekki að lýsa lyktinni sem gaus upp þegar heita sápuvatnið baðaði þennan ofn en herrarnir á heimilinu (fyrir utan þessa tvo kölkuðu,ferfættu) eiga eftir að fá manndrápsaugnaráð næst þegar ég sé þá.
Hér kom stórglæsilegur ungur maður rétt áðan, að sækja vagn sem kom með okkur suður. Hann hefur vísast sofið í honum sjálfur í den og nú ætlar hann að setja hann Jóa litla sinn í vagninn. Frænka fékk engar skammir fyrir að stela mynd af snáðanum...Þetta er myndarsnáði hjá Árna Grétari, svo er að sjá hvort hann fær þessi fallegu augu hans pabba síns, hann Jói litli.
Litla skvís sem vildi endilega koma núna en ekki eftir 6 vikur þegar settur dagur væri kominn, braggast vel og er dugleg. Hún er kjarnorkukona og fær nafn merkilegrar konu, hennar ömmu sinnar sem var alveg mögnuð. Minningarorð um Kristínu Ólafsdóttur eru hérna.
Hún var svo falleg og mikill heimsborgari, samt einn mesti vestfirðingur sem ég veit um. Stundum þegar ég loka augunum þá finnst mér ég heyra bjarta hláturinn hennar, blikið í augunum og fallega hrokkna hárið.
Ég hef saknað hennar mikið síðan ég frétti af barnabörnunum hennar, litlu ljósunum eftir svo langan og erfiðan tíma í sorg.
Sé það hægt þá fylgist hún með þeim og Jói hennar líka.
Ég ætlaði að sýna ykkur hann Jóa líka en það er engin mynd af honum í minningargreinasafni mbl. Greinarnar einar standa eftir en engin mynd. Það er slæmt.
Ég ætla að reyna að halda áfram að hreinsa húsið mitt og hugsa fallega til fólksins míns, fyrir vestan og hérna sunnan megin. Jákvæð orka, það er málið.
Bloggar | Breytt 21.9.2009 kl. 11:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)