Alltaf lærir maður eitthvað nýtt
18.7.2008 | 19:52
Ég er komin í sumarfrí og hóf daginn á merkilegri uppgötvun. Ég vaknaði með vont tak í bakinu og hef borðað verkjatöflur í dag, í svo miklu magni að ég þurfti engan kvöldmat. Um síðdegið rann upp fyrir mér ljós, aha ! hugsaði ég. Nú veit ég hvernig framsóknarmönnum líður !! Með heilu hnífasettin í bakinu.
Þá veit ég það
En hið undarlega var að Steinar var svipað skakkur. Ég hef grun um að hér fari fram, í skjóli myrkurs, skelfilegt heimilisofbeldi. Annað hvort okkar er að lumbra á hinu og þekkjandi mínar svefnvenjur þá verður að viðurkennast að ég er mun líklegri aðilinn í næturofbeldi en Steinar. Hann á að vísu til að klípa mig aðeins þegar hann sefur ...ég hef kannski brugðist aaaaðeins of hart við ?
Njótið dagsins
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Myndir
17.7.2008 | 22:49
Fagmannlegir "smiðir"
Bestu vinirnir þreyttir
Löbbuðum fram á "bjöllusauð"
Ég hef þessa viljandi stærri. Þetta kom í ljós í gönguför í Hólavallagarði. Þarna hefur einhver strokið. Sigga systir og Bjössi spáðu heilmikið í hvort viðkomandi stingi ekki í stúf í miðbænum eftir 100 ára vist í kirkjugarðinum. Við komum þó ekki auga á flóttamanninn neinsstaðar.
Við þrömmuðum við í ömmuhúsi bernskunnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
17 júlí 1938
17.7.2008 | 10:30
fæddist stúlka. Hún var björt yfirlitum og falleg hnáta. Hvert ár þar á eftir fæddist systkini. Í dag lifa einungis tveir bræður eftir af þessum fimm barna hópi. Þau lifðu af fátækt og erfiðleika eftirstríðsáranna og urðu góðir þjóðfélagsþegnar.
Þessi stúlka var móðir mín, Stella.
Þann 30 nóvember nk verða 6 ár síðan hún lést á líknardeildinni í Kópavogi eftir mikil veikindi.
Hún hvílir stutt frá dóttursyninum í Grafarvogskirkjugarði.
Blessuð sé minning hennar mömmu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt
16.7.2008 | 19:31
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Nokkur umræða er um það í dag að ungur maður hafi svipt sig lífi í lok síðasta mánaðar. Hann var fórnarlamb eineltis í skóla og það setti mark sitt á hann.
Til stuðnings þeim sem eiga um sárt að binda af þessum sökum, hafa misst einhvern sér nákominn ætla ég að kveikja ljós.
Hérna átti að vera viðbót en eitthvað hefur mér mistekist með það.
Í kvöld skulum við hugsa málið, hvernig komum við fram við aðra, hvernig tölum við um annað fólk, hvaða fordæmi erum við að setja ?
Í kvöld vil ég hvetja ykkur sem viljið láta þessi mál ykkur varða að kveikja svipað ljós á ykkar síðum.
Góða nótt
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Þessi fallegi dagur missti
16.7.2008 | 07:43
ljómann, sólina og gleðina.
Sjá tengil hér til hliðar á Bjarna Pál.
Uppástungur óskast að fallegu lagi frá youtube sem hentar þessu tilefni
The greatest love & the greatest sorrow
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Montfærsla
15.7.2008 | 22:39
Ég hrökk í þrjóskugírinn í dag, lenti í Leifsstöð með farþega og fór hinumegin og ákvað að bíða. Ég beið í 1-2-3-4 -5 tíma, löngu kominn kvöldmatur og frúin mætti ekki til heimilisstarfa. Loksins klukkan 21 í kvöld gekk rófan og ég slapp aftur til Reykjavíkur með farþega. Þá var húsbóndinn á heimilinu búinn að elda, hann var líka búinn að þrífa eldhúsið glimrandi vel og örbylgjuofninn. Eldhúsið leit út eins og í sápuauglýsingu, ekki hægt að horfa ofan í vaskinn vegna ofbirtu.
Einhver kall hefði orðið fúll við sína en ekki minn kall. Heimsmeistarasnillingur.
Rosalega er ég ánægð með hann !
Ég og einn félagi minn létum eins og asnar við flugstöðina í dag, það hringdi samt enginn á lögguna á okkur. Ég átti bara eftir að draga hann á hárinu um svæðið !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Hvað er í gangi eiginlega ?
13.7.2008 | 15:50
Búin að lesa netmiðlana fram og til baka og sama fréttin pirrar mig allan daginn, alla vikuna og örugglega lengur.
BNA er búið að gefa Ísrael leyfi til að hefja undirbúning árásar á Íran ! Hvur andskotinn er það ? Ég er löngu farin að telja niður dagana þar til Bush fer frá í þeirri veiku von að eitthvað skárra taki við. Hvernig í veröldinni getur staðið á því að einn kall, fjósvitlaus að auki, getur haft allan heiminn í hendi sér eins og þessi stríðsóði maður ?
Það vita allir að Mið Austurlönd eru púðurtunna, það má ekki mikið gerast til að ekki verði allt vitlaust þar með tilheyrandi afleiðingum.
Rosalega líst mér illa á þetta ástand !
Rússar og kínverjar beittu neitundarvaldi í öryggisráðinu og Mugabe slapp fyrir horn. Við fáum sérmatreiddar fréttir og á yfirborðinu virðist allt vera í lagi. Það þarf samt ekki mikla rannsóknarblaðamennsku til að komast að mannréttindabrotum sem eiga sér stað um allan heim.
Alþjóðastjórnmál eru eitthvað sem þarf að fylgjast með...þau koma okkur líka við vegna þess að áhrifin ná auðveldlega hingað.
Heimsendaspáin mín er að rætast, menn þora ekki að anda út úr sér raunverulegu ástandi mála af ótta við að það verði enn verra. VIð eigum eftir að sjá mörg fyrirtæki fara á hausinn. Nú þegar er nokkur örvænting í auglýsingum þeirra sem selja munaðarvörur sem auðvitað seljast hörmulega illa um þessar mundir. Skoðið bara fréttablaðið -í mestu rólegheitum og sjáið auglýsingarnar, afsláttinn, útsölurnar og tilboðin. Leggið saman dæmið og sjáið hvað þið fáið út úr því.
Farin að búa til vúdú Bush og ætla að skvetta á hann laxerolíu...já eða bara dýfa honum í hana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
Afmæli
13.7.2008 | 13:05
Brangelina-tvíburarnir fæddi
Kvikmyndaleikkonan Angelina Jolie fæddi tvíbura í gærkvöldi. Börnin, sem eru drengur og stúlka, voru tekin með keisaraskurði. Eru Jolie og sambýlismaður hennar Brad Pitt sögð hafa nefnt börnin Knox Leon og Vivienne Marcheline. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Dr Michel Sussmann, læknir á franska sjúkrahúsinu þar sem börnin fæddust, segir að fæðingu tvíburanna hafi verið flýtt af læknisfræðilegum ástæðum en að móður og börnum líða stórkostlega.
Börnin eiga saman dótturina Shiloh Nouvel Jolie-Pitt, sem fædd er í Namibíu árið 2006. Þá eiga þau þrjú ættleidd börn Maddox, Pax og Zahara.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Ef ég lít undarlega út um helgina
12.7.2008 | 01:10
Ég mæli bara alls ekki með heimsóknum til mín þessa helgi Allir gestir munu litnir tortryggnisaugum.....
Ég er annars ekkert vön að bjóða fólki í heimsókn, það getur bara droppað við þegar því sýnist nú eða ekki.
Vog: Óboðnir gestir mæta á svæðið. Heiðraðu þá með athygli þinni. Þú mátt treysta því að meira búi að baki en tilviljun. Fólk hittast af einhverri ástæðu.
Fyrir Ásdísi, ég þori ekki ekki að telja niður að þessum degi. Það kemur að því samt og mig kvíður voðalega fyrir !
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Hugmyndalaus
11.7.2008 | 11:39
en það er sama...búin að setja nokkur orð og gái hvort þau verða bara ekki fleiri hehe.
Manni dettur auðvitað ekkert í hug af viti þegar maður kemur heim úr vinnunni og fer bara beint að sofa dag eftir dag. En ég á eftir að vinna þessa viku á símavöktum og næstu og þá er ég komin í sumarfrí þar -jibbý-. Ég er búin að ráðstafa væntanlegu orlofi á bílinn minn þannig að hann bíður bara eftir að viðkomandi geti hafið störf. Það verður ágætt að setja hann í hendurnar á þeim aðila, engar áhyggjur af því að illa verði farið með græna eðalvagninn og allt í góðum höndum. Einhverjir aular réðust á bílstjóra í nótt og höfðu með sér heilan þúsundkall og símann hans. Miðað við hvaðan bíllinn leggur upp þá held ég að líklegt sé að um sé að ræða bíl frá Hreyfli-Bæjarleiðum. Þetta er alltaf hættan, sérstaklega þegar maður keyrir virkar nætur. Ég gerði það í áraraðir sjálf. Fólk sem er á ferðinni miðjar nætur í miðri viku er fólk sem á í erfiðleikum. Oft var versta vesenið að aka á jólum og svoleiðis nóttum, þá var fólk í tómu tjóni sem átti engan að. Búið að brenna allar brýr að baki sér og fann sárast til einsemdar sinnar. Það eru svona um það bil 4-5 ár síðan ég hætti næturbröltinu og fór að keyra að degi til. Upplifunin var eins og ég hefði skipt um vinnu, það var nokkuð merkilegt. Allt öðruvísi fólk og allt annað umhverfi, allar götur fullar af bílum. Ég hef samt verið heppin, búin að aka leigubíl síðan 1984 og hef bara í 2-3 skipti þurft aðstoð lögreglunnar og síðast á gamlárskvöld 2000. Hitt get ég hinsvegar ekki talið hversu oft ég hef hringt í lögregluna vegna ölvaðra ökumanna sem orðið hafa á vegi mínum í gegnum tíðina, okkur ber að hringja og láta vita og flestir gera það.
Þetta sumar er samt undarlegt. Túristinn hefur eiginlega alveg brugðist. Fólk kemur í niðurnjörfuðum pakkaferðum og fer nákvæmlega ekki spönn frá rassi nema í rútum. Skipin hafa eitthvað gefið hjá þeim sem nenna að hanga þar upp á von og óvon. Ég nenni því hinsvegar ekki. Ég ætti samt að gera það, ágæt málamanneskja og svoleiðis.
Hvað á ég að tuða um meira ?
Hm, já ég er sammála því sem kemur við næstu færslu að ríkið eigi að koma að málum. Ríkið gerir það bara ekki og þá er ágætt hjá þessari stúlku að leita liðsinnis almennings. Allir peningar sem eiga að fara í fólk er fastir í blóðugum krumlum hins opinbera, það er eins og að kreista vatn úr steini.
Nú er Paul Ramsem á valdi BB. Hvað haldið þið að komi út úr því ? BB er vorkunn, honum tekst að fela svo vandlega sína mannlegu eiginleika að jákvæðustu kellingar, eins og ég , sjá ekkert í honum nema möppudýrið. Möppudýr sem rígheldur sér í lagabókstafi og reglugerðir og sjá ekkert upp úr því. Það er skaði.
Ég held að þessi ríkisstjórn lifi ekki sitt kjörtímabíl. Það endar með því að ráðherrar hennar geta ekki flúið lengur undan spurulum fréttamönnum og sprungur eru þegar byrjaðar að myndast
Rafmagnslaus...farin.....bæ
ps ég hitti geitung í gær. Hann lenti nánast á nefinu á mér og ég ákvað að hreyfa mig alls ekki, ég er ekki frá því að hjartað hafi stoppað til öryggis á meðan. Ég sat í stæði í rólegheitum með opna hurð og var að ná mér í smá sól þegar hann truflaði mig. Ég var samt svo huguð að ég hélt áfram að sitja með opna hurðina eftir að hann fór.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)