Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2012
Að fimm árum liðnum
19.8.2012 | 09:49
er staðan svona.
Þessi dagur er óhugnanlega erfiður, samt var kvíðinn fyrir honum minni en áður. Samt er hann litaður af trega, sorg og söknuði. Mig einhvernveginn langar ekki að hafa þennan dag með í dagatalinu en þá er eins víst að afmælisbörn dagsins yrðu fúl.
Dagurinn sem hann lést, það var líka sunnudagur. Það var óskaplega fallegur og bjartur dagur sem breyttist svo alveg í svartnætti.
Ég svaf ekki vel í nótt, það hefur eitthvað að gera með meiðsli sem ég varð fyrir í júlí og lagast svona seint. Það má ekki klína öllu á sorgina ...samt er hún sek um svo ótalmargt annað sem truflar heilsuna.
En núna hef ég þó lagt af stað í vegferð til betri heilsu, semsagt það sem ég get gert til að laga hana. Vonandi gengur það vel.
Í dag munum við hittast, fjölskyldan, og fá okkur kaffi saman. Það er okkar leið til að eiga við þennan dag. Við höfum hittst öll árin utan eitt en það fannst okkur verra. Samt eru þessar samkomur ekki sorgarsamkomur, við komum saman og gleðjumst yfir að hafa átt Himma og hlægjum saman að uppátækjum hans sem voru ótal mörg enda hugmyndaflugið í lagi alla hans tíð.
Kertasíðan hans Himma okkar. Okkur þykir alltaf vænt um að fá ljós þar inn.
(http://www.gratefulness.org/candles/candles.cfm?l=eng&gi=Himmi)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)