Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012

Mannlegt eðli

er og verður samt við sig. Fólk sem lærir einhverntímann að stjórna öðrum með fýlu og skapsveiflum virðist seint læra að láta af þeim sið. Miklu betri og hreinskiptari samskipti eru að segja fólki einfaldlega hvað er að og reyna að leysa málið. Svo eru þverhausar eins og ég - ég neita að láta stjórna mér svona. Fólk gerir það bara upp við sig sjálft hvort það vill hanga í fýlunni. Verði því þá bara að því.

Það er auðvitað ástæða fyrir þessu rausi í mér en ég fer nú ekkert nánar í saumana á því. Þetta hefur alla tíð verið þekkt í móðurættinni - hryllileg þvermóðska, dramatík og fórnarlambsstælar.

Ég er ekkert fórnarlamb. Ég geri eins vel og ég get við þær aðstæður sem uppi eru. Dugi það hinsvegar ekki þá reyndi ég þó og ég sný mér að næsta verkefni.

Sumir fá endalausa ánægju út úr því að níða aðra niður og reyna að brjóta þá á bak aftur. Það er miklu skemmtilegra að hrósa og lyfta umræðunni á hærra plan.

Enn og aftur sannast hið fornkveðna, lengi má manninn reyna.

Maður velur sér vini en ekki fjölskyldumeðlimi. Suma þeirra væri betra að vera geta strokað út eða teiknað þá aftur inn í annarra manna líf. Kannski að þeir virki þar ?

Ég er auðvitað á facebook eins og allir aðrir. Nú í aðdraganda forsetakosninga þá fel ég sífellt fleiri í fréttaveitunni haha...ég verð laglega þolinmóð þegar kemur að næstu alþingiskosningum haha...ekki þar fyrir, búin að gera upp hug minn á báðum vígstöðvum :)


Hugleiðing

Í næturhúmi sit ég hér og renni yfir bloggvinina mína og sé að það hafa orðið sorgaratburðir í lífi og tilveru eins þeirra. Kona hefur látist, kona sem barist hefur miklu lengur en stætt var við erfiða fíkn - baráttu sem svo margir há en enginn vill í raun sjá.

Góðborgarar jesúsa sig, stjórnvöld sjá ekkert. Öðru hvoru kemur fram einhver sem virðist vilja vel og tekur að sér forystu í þessum málum. Fólk hefst handa uppnumið af eldmóði en gengur sífellt á veggi. Það hefur enginn áhuga á að hjálpa til.

Fíklarnir og drykkjusjúklingarnir eru manneskjur eins og við hin, þau hafa ekki stjórn á sínum aðstæðum nema með aðstoð. Sum þeirra ná að krafla sig aftur upp á bakkann, önnur ekki. Þau enda í kirkjugörðum landsins, fyrir aldur fram.

Við sem höfum staðið í þessum sporum vitum að á meðan það er líf þá er von.

Þess vegna er höggið svo þungt - vonin deyr með miklum hvelli.

Krakkar verða foreldralausir, foreldrar missa börnin sín - ef um aðra orsök væri að ræða þá væru hugsanlega lausnir og leiðir til að hjálpa, þa fíklunum til að byrja með. Fjölskyldunum þá seinna - þegar andlát hefur borið að.

Æ við erum lítil þjóð og við ættum að láta af því að kalla hvert annað fífl í kommentakerfi DV. Stöndum heldur saman, það er betra þegar róið er í eina átt heldur en í allar áttir í einu.

ÉG er þreytt og þetta skilst kannski ekki.

(Opið fyrir komment en þau eru ritskoðuð)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband